Minjasafn Austurlands
now browsing by tag
vefrallý
Um námsefnið
Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum. Að þessu sinni er efnið hugsað fyrir 6. bekk þar sem nemendur fara í vefrallý um heimasíðu safnsins, minjasafn.is, og leysa margvísleg verkefni. Efnið má einnig vinna með eldri eða yngri nemendum.
Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem farið er yfir sögu safnsins, sýningar og ýmsir munir skoðaðir. Námsefnispakkinn samanstendur af 14 verkefnablöðum og krossaprófi í lokin.
Ljósmyndir í heftinu eru frá Minjasafni Austurlands.
Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Elín Sigríður Arnórsdóttir.
Kennsluleiðbeiningar
Vefrallýið er skemmtileg aðferð til að kynna sögu og starfsemi Minjasafns Austurlands fyrir nemendum. Til leysa verkefnin þurfa nemendur að hafa ritföng, og aðgang að tölvu eða snjalltækjum. Víðsvegar í heftinu eru aukverkefni hugsuð fyrir stílabók svo einnig er gott að hafa eina slíka við höndina.
Forsíða
Minjasafn Austurlands er á Egilsstöðum. Það var stofnað árið 1943 að frumkvæði Gunnars Gunnarssonar sem lagði jafnframt til húsnæði undir safnmunina fyrstu árin. Nemendur lesa inngangsorð á forsíðu heftisins áður en lengra er haldið.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Staðsetning, frumkvæði, landshluti, safnafræðsla, menningararfur, ræktarsemi, menningarminjar, safnastarf og upprunaslóðir.
Verkefni 1 – Veftré safnsins, skráning í töflu
Veftré sýnir uppbyggingu vefs og hvernig hann skiptist í einstaka síður og undirflokka. Í þessu verkefni er tilgangurinn að nemendur kynnist vefsíðu Minjasafns Austurlands og átti sig á uppbyggingu hennar. Með því að smella á flettistikuna efst á síðunni minjasafn.is koma fellilistar með svörin í verkefninu.
Dæmi: Smellt er á hnappinn Sýningar og þá birtist fellilisti með 3 undirsíðum: Grunnsýningar, Yfirstandandi sérsýningar og Fyrri sýningar. Þessi atriði eru skráð í fyrsta dálkinn á verkefnablaðinu.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Vefsíða, lén, veftré, fellilisti, leitargluggi, veraldarvefur, vefhýsing, tölvupóstur, leitarvél og vörumerki.
__________
Verkefni 2 – Saga safnsins, tímalína og lesskilningur
Á vef Minjasafns Austurlands er að finna upplýsingar um áfanga í sögu og rekstri safnsins. Verkefnið er sett upp sem tímalína og nemendur lesa textann vel og tengja svo saman ártal og texta. Áður en tengt er á milli þarf að skrá rétt tímatal í stafrænu reiti tímalínunnar.
Lausn
Ártölin sem eiga að koma í tímalínuna eru í réttri röð: 1942, 1943, 1945, 1948, 1966, 1981, 1982, 1995, 1996 og 1996 – . Athygli er vakin á því að þrír liðir tengjast við ártalið 1995 á tímalínunni.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Ártal, tímalína, áfangi, rekstur, stofnsamingur, fastasýning, sérsýning, aðfangabók og varðveisla.
__________
Verkefni 3 – Söfnunarstefna, ritun og lesskilningur
Á síðunni Um safnið er að finna undirsíðu um söfnunarstefnu þess. Nemendur lesa upplýsingarnar sem þar koma fram og enda setningarnar. Nemendur geta stytt setningarnar ef þarf.
Lausn
… hlutverki safnsins sem almenns byggðasafns.
… af Austurlandi, og miðla þeim arfi til gesta safnsins með sýningarhaldi og miðlun af ýmsu tagi.
… Austurlandi úr fortíðinni en einnig er safnað munum frá síðustu árum og áratugum eins og tök eru á og tilefni er til.
… heilbrigðis- mennta- og menningarmálum, samfélagsþróun, daglegu lífi og starfi fólks, nytjahlutum, smíðisgripum, verkfærum, innanstokksmunum, skrautmunum og fatnaði o.s.frv.
… í fyrirrúmi í öllu safnastarfi sem og fyrir fyrri eigendum þeirra.
… fylgja sérstök skilyrði nema í algerum undantekningartilvikum.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Safnmunur, söfnunarstefna, meðhöndlun, innanstokksmunur, safnsvæði, sýningarstefna, hagleiksmaður, forvarsla og fjöldaframleiðsla.
Verkefni 4 – Söfnunarflokkar, eyðufylling
Á síðunni Um safnið er að finna undirsíðu um söfnunarstefnu þess. Þar má finna upplýsingar um helstu söfnunarflokka Minjasafns Austurlands. Nemendur finna hvaða stafi vantar í 10 söfnunarflokka og skrá á eyðurnar. Nemendur lesa um hvern söfnunarflokk og skrá dæmi um mun í töfluna neðst á verkefnablaðinu.
Lausn
Heimilishald – skólahald – atvinnuhættir – félagsleg uppbygging – dægradvöl – hús og híbýlahættir – kirkjumunir – fornmunir – ljósmyndir – bækur og skjöl.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Heimilishald, skólahald, atvinnuhættir, uppbygging, dægradvöl, híbýlahættir, kirkjumunir, fornmunir, sendibréf og skjalasafn.
__________
Verkefni 5 – Þjóðsagnaritun, hlustun, upplýsingaleit og skráning
Fjallað er um Sigfúsar Sigfússon þjóðsagnaritara á síðunni Fróðleikur. Þar má einnig hlusta á nokkrar af þeim sögum sem hann skrásetti, og sjá staðsetningu sögusviða á korti af Austurlandi. Nemendur smella á hljóðskrárnar og skrá lengd þeirra í töfluna. Á síðunni er jafnframt að finna upplýsingar um þann sem les og nokkra mola um Sigfús sjálfan.
Lausn
Skrímsli elta Vopnfirðinga 1:24
Kappróður 2:05
Klettaganga Oddnýjar 2:54
Ég heiti Víðförull 1:30
Skessa undir Fardagafossi 1:06
Vígdeildarhamar 1:45
Skessurnar í Norðfirði 1:22
Sæluhúsfylgjan í Tungudal 2:16
Mannshöndin 2:36
Upphaf Freyfaxa 0:55
Skrúðsbóndinn 1:15
Völvuleiði í Breiðdal 1:01
Upplestur: Rúnar Snær Reynisson
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Þjóðsagnaritun, skrásetning, sögusvið, hljóðskrá, upplestur, hljóðupptaka, afspilun, heimildaöflun, kortalestur og heimildamaður.
Ítarefni
Námsefni um þjóðsögur og Sigfús Sigfússon má nálgast hér.
__________
Verkefni 6 – Eldgos í Öskju, hlustun, ritun og orðasúpa
Árið 1875 varð mikið eldgos í Öskju í Kverkfjöllum sem hafði mikil áhrif á íbúa Austurlands og víðar. Á síðunni Fróðleikur má hluta á frásagnir fólks af þessum náttúruhamförum. Nemendur hlusta á frásagnir, skrá hvaðan fólkið er og finna staðina í orðasúpunni.
Lausn
Hólsfjöll, Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Borgarfjörður, Fell, Loðmundarfjörður, Skriðdalur, Seyðisfjörður og Suðurfirðir.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Náttúruhamfarir, atburðarás, frásögn, öskufall, gosmökkur, eldvirkni, jarðvarmi, jarðskjálfti, eldstöð og hraunkvika.
__________
Verkefni 7 – Fyrri sýningar Minjasafnsins, tengja saman
Minjasafn Austurlands er reglulega með sýningar í gangi en einnig má finna upplýsingar á vefnum um allar fyrri sýningar safnins. Í verkefninu skoða nemendur fimm af þeim, kynna sér innihald þeirra og tengja saman.
Lausn
Minningar um torfhús:
– Sandra Coullenot doktor í fornleifafræði.
– Minningar og hugrenningar um vistarverur í gamla daga.
Fjöllistamaður í fjallasal:
– Jón A. Stefánsson, bóndi frá Möðrudal.
– Altaristafla, útskornir listmunir, söngur og tónlist.
Festum þráðinn:
– Ingrid Larssen rannsakandi og listakona frá Noregi.
– Samanburður á íslenskri og norskri handavinnu.
Ging gang gúllí á Ásnum:
– Skátafélagið Ásbúar stofnað árið 1962.
– Margvíslegir munir tengdir sögu og starfi félagsins.
Leikið á Ásnum:
– Ungviðið í hópi frumbyggja Egilsstaða.
– Brúður, bílar, spil og fleiri leikföng fyrri tíma.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Fjöllistamaður, tækifæri, altaristafla, hugrenningar, vistarverur, skátamót, félagslíf, útsaumur, rannsókn og fornleifar.
__________
Verkefni 8 – Grunnsýningar, útdrættir
Á Minjasafni Austurlands eru grunnsýningarnar Hreindýrin á Austurlandi og Sjálfbær eining í gangi allt árið um kring. Nemendur finna upplýsingar um þær og greina stuttlega frá þeim með eigin orðum. Nemendur skoða vefinn og skrá fleiri sýningar sem eru í gangi.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Grunnsýning, sérstaða, lífsbarátta, heimildamynd, sjálfbærni, lífshættir, lífsnauðsyn, vitnisburður, bústofn og baðstofa.
Tengt efni
Námsefni um hreindýrin.
__________
Verkefni 9 – Öðruvísi ABC, leit og skráning
Hér er um öðruvísi stafrófsverkefni að ræða þar sem nemendur vafra um vef Minjasafns Austurlands í leit að orðum til að fylla upp í óútfyllta stafrófstöflu. Í stað hefðbundins stafrófsverkefnis, þar sem upphafsstafur orðs gildir, þurfa nemendur nú að skoða annan bókstaf orðsins (nr. 2 ) þegar taflan er fyllt. Þannig fer orðið SARPUR í fyrsta reitinn (reit a) þar sem a er annar bókstafur orðsins. Nemendur skrá hvað klukkan er í upphafi og lok leitar.
Umræðupunktar
– Hvað tók verkefnið langan tíma?
– Hvernig gekk að leita að orðum stafrófsins eftir þessari óhefðbundnu aðferð?
– Hvaða fleiri leiðir má fara til að a) kynna sér innihald vefs? b) rifja upp stafrófið?
– Hvers vegna er gott að kunna stafrófið?
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Stafróf, málfræði, setning, málsgrein, upphafsstafur, greinaskil, eyðufylling, lesskilningur og hugtakaskilningur.
__________
Verkefni 10 – Þorpið á Ásnum, tengja saman, kortaleit
Þorpið á Ásnum er ein af fyrri sýningum Minjasafns Austurlands og fjallar um þéttbýlismyndun við Gálgaás í Egilsstaðahreppi. Búið er að hanna gagnvirkt kort með húsunum og með því að smella á þau (bláu reitina) birtast ýmist ljósmyndir af fyrstu íbúunum eða húsnæðinu sjálfu. Einnig birtast upplýsingar um byggingarár, götuheiti og númer, og heiti húsanna sjálfra en nemendur nota þau gögn til að leysa verkefnið.
ATH
Ef myndin á skjánum er of stór getur það gerst að neðstu húsin á kortinu sjáist ekki (Hamrahlíð 2 og 4). Þá þarf að þysja skjágluggann aðeins inn og minnka myndina (ýta á CTRL og mínus).
Lausn
Hamrahlíð 2, Hjarðarholt, byggt 1949
Hamrahlíð 4, Hlíðarfell, byggt 1951
Tjarnarbraut 1, Lyngás, byggt 1947
Tjarnarbraut 3, Hvassafell, byggt 1950
Tjarnarbraut 5, Lágafell, byggt 1946
Tjarnarbraut 7, Háafell, byggt 1953
Tjarnarbraut 9, Heiðmörk, byggt 1953
Laufás 1, Laufás, byggt 1947
Laufás 2, Bjarki, byggt 1953
Laufás 3, Birkihlíð, byggt 1947
Laufás 4, Ásbrún, byggt 1950
Laufás 7, Vindás, byggt 1946
Laufás 9, Sunnuhvoll, byggt 1956
Laufás 10, Ás, byggt 1953
Selás 1, Oddi, byggt 1956
Selás 4, Bjarmahlíð, byggt 1946
Selás 6, Varmahlíð, byggt 1947
Selás 10, Reynihlíð, byggt 1950
Selás 12, Hlíð, byggt 1948
Selás 14, Fell, byggt 1948
Lagarás 20, Dýralæknabústaður byggt 1946
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Hreppur, þorp, tímamót, uppbygging, dreifbýli, þéttbýli, frumbyggi, frumkvöðull. ás og kynslóð.
__________
Verkefni 11 – Vefrýni, sjálfstæð þekkingarleit á leitarvélum
Þegar efni er sett fram hvort heldur sem er á vef eða í útprentuðum ritum þarf að hafa ýmsar reglur um stafsetningu og greinarmerki í huga. Nemendur þurfa að kunna skil á mörgum hugtökum hvað lesmál snertir og markmið verkefnisins felst í því að skerpa á nokkrum þeirra. Um leið og nemendur finna dæmi um notkun hugtakanna á vef Minjasafns Austurlands gera þeir hring um þau á listanum. Ef nemandi er ekki viss hvað ákveðið hugtak þýðir gefst hér kjörið tækifæri til sjálfstæðar þekkingarleitar á leitarvélum netsins, Google sem dæmi.
Aukaverkefni 1 í stílabók – raðað í stafrófsröð
Nemendur skrifa hugtökin á verkefnablaðinu í stílabók og raða eftir stafrófsröð.
Aukaverkefni 2 í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Myndrit, upplýsingaöflun, hugtak, skipurit, yfirlitsmynd, graf, höfundaréttur, tilvitnunog heimildaskrá.
__________
Verkefni 12 – Spurt & svarað
Verkefni Minjasafns Austurlands eru fjölbreytt og skráningarvinna safnkosts er stór hluti vinnunnar. Nemendur leita svara við spurningunum á verkefnablaðinu og skrá á línurnar.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Safnkostur, safnvörður, gagnasafn, varðveislugildi, áfangaskýrsla, kreppa, viðtal, efnahagshrun, niðurstaða og farandssýning.
__________
Verkefni 13 – Sarpur.is, upplýsingaleit og skráning
Sarpur.is er menningarsögulegt gagnasafn sem varðveitir upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni. Þar er hægt að leita að gömlum munum eftir söfnum. Á verkefnablaðinu eru þrír munir sem nemendur fletta upp og leita nánari upplýsingar um. Svörin skrá þeir á verkefnablaðið. Munirnir eru skráðir undir Minjasafni Austurlands.
Lausn
Íleppur
Askur
Sveifarstokkur
Aukaverkefni í stílabók – hvernig vefir eru þetta?
sarpur.is
bin.arnastofnun.is
já.is
minjasafn.is
rimordabok.is
visindavefur.is
eldgos.is
geimurinn.is
almanak.is
krakkaruv.is
Umræðupunktar
Ef þú værir að setja upp heimasíðu, um hvað myndi hún fjalla?
__________
Verkefni 14 – Safnhluturinn, safnaferð
Á Minjasafni Austurlands kennir ýmissa grasa. Nemendur velja hlut að eigin vali og gera nánari grein fyrir honum. Fyrir þá sem ekki komast á Minjasafn Austurlands má nota vefinn Sarp.is til að leita að áhugaverðum munum til að fjalla um.
__________
Verkefni 15 – Safnaprófið, fjölvalsspurningar
Að vefrallýi loknu spreyta nemendur sig við krossapróf um Minjasafn Austurlands.
Aukaverkefni í stílabók – hvernig söfn eru þetta og hvar á landinu eru þau?
steinapetra.is
galdrasyning.is
melrakki.is
warandpeace.is
thjodminjasafn.is
thorbergur.is
hnjotur.is
lavacentre.is
selasetur.is
fuglasafn.is
whalesoficeland.is
saeheimar.is
Umræðupunktar
Hvaða fleiri söfn þekkja nemendur?
Hvaða söfn hafa nemendur farið á?
Er nauðsynlegt að hafa söfn á Íslandi? Rökstyðjið.
Listsköpun
Um námsefnið
Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum.
Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem listsköpun er skoðuð út frá lífi fólks í gamla daga. Námsefnispakkinn samanstendur af 14 verkefnablöðum og krossaprófi í lokin.
Ljósmyndir í heftinu eru frá Minjasafni Austurlands. Útsaumsmyndin sem prýðir forsíðu námsefnispakkans er veggteppi með refilsaumi eftir Aðalbjörgu Stefánsdóttur frá Lönguhlíð í Vallarheppi, nú Fljótsdalshéraði. Teikning af upphlut er eftir Freydísi Kristjánsdóttur.
Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Elín Sigríður Arnórsdóttir.
Kennsluleiðbeiningar
Verkefni 1: Refilsagan mín, ritun og teikning
Refill er veggteppi sem hengt var upp til hátíðarbrigða. Um skrautofinn dúk er að ræða með útsaumuðum myndasögum af fólki. Notaður var sérstakur refilsaumur í útsauminn en þá eru útlínur gerðar fyrst og svo fyllt upp í auða fleti með löngum sporum. Garn var litað með jurtum. Bayeux-refillinn er einn frægasti refill sögunnar, 70 metra langur og um 50 sm breiður. Hann er nokkurs konar pólitísk myndasaga um atburðina í aðdraganda orrustunnar við Hastings árið 1066. Refillinn er á heimsminjaskrá Unesco og varðveittur í Normandí, Frakklandi.
Á Íslandi er unnið að tveimur reflum: 1) Vatnsdælasögu frá 9. – 11. öld sem er ættarsaga Hofverja í Vatnsdal og einkennist af ástum, átökum og erjum. Verkefnið er hugarfóstur Jóhönnu E. Pálmadóttur handavinnukennara og unnið í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Ístex, Textílsetur Íslands á Blönduósi og félagið Landnám Ingimundar gamla. Lesa má meira um hann hér. 2) Brennu-Njálssögu sem saumuð er á 90 m langan hördúk. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari, listamaður og bókmenntafræðingur er hönnuður Njálurefilsins en tilgangurinn er fyrst og fremst sá að skapa verk sem hefur þýðingu fyrir ferðaþjónustuna og í samfélag heimamanna á Suðurlandi. Lesa má meira um hann hér.
Verkefnavinna
Nemendur skrifa sjálfsævisögu sína sem þeir setja svo upp á myndaformi. Þeir líma 4 hvít ljósritunarblöð langsum saman og mynda þannig pappírsrefil sem þeir vinna á. Til að tákna refilsauminn draga þeir útlínur fyrst upp með blýanti, skerpa þær með tússlit og fylla fletina svo af mismunandi lituðum strikum með trélitum.
Tengt efni
Um Bayeux-refilinn á Wikipedia
Um miðaldarmyndlist á RÚV
__________
Verkefni 2: Öskudagspokar, orðasúpa
Það er gömul séríslensk hefð að sauma út í litla poka, fylla þá af ösku eða steinum og hengja á hvert annað á öskudag. Í gamla daga sóttu menn í að taka ösku með sér úr kirkjum og var hún notuð til að blessa heimilið. Askan þótti búa yfir krafti, sér í lagi ef hún var blönduð með heilögu vatni. Karlmenn settu steinvölur í pokana sem þeir hengdu á konur en konur settu ösku í pokana sem þær hengdu á karla. Aðalatriðið var þó að hengja pokana á fólk án þess að það tæki eftir því.
Tilvalið er að láta öskupoka eða myndir af útsaumuðum öskupokum ganga á milli nemenda áður en verkefnavinnan hefst og leyfa þeim að velta því fyrir sér hvað þetta er, og hvaða hlutverk pokarnir hafa haft hér áður fyrr. Hugmyndum þeirra mætti safna saman og skrifa upp á töflu að gamni. Nemendur lesa svo textann sem fylgir verkefnablaðinu og finna undirstrikuðu orðin í orðasúpunni.
Heimild
Af hverju er öskudagurinn haldinn hátíðlegur?
__________
Verkefni 3: Krosssaumsmynstur, hönnun og stækkun
Mismunandi aðferðir voru notaðar við útsaum í gamla daga og auk refilsaums má nefna balderingu, glitsaum, flatsaum og aftursting. Nemendur kynnast því hvað krosssaumur er og hanna mynstur til að telja út í öskudagspoka. Þeir vinna verkefnið annars vegar beint á verkefnablaðið en gera jafnframt veggmynd með mynstrinu þar sem þeir hafa stækkað hvern reit upp. Tilvalið er að nýta pappírsafganga í verkefnið og efna niður í pappírsskera og hér gefst einnig tækifæri að fara í samstarf með kennurum í textílmennt.
__________
Verkefni 4: Jurtalitun, upplýsingaleit og teikning
Jurtalitun hefur verið stunduð hér á landi frá upphafi byggðar en þó mismikið eftir tímabilum. Litunarferlið hefur lítið breyst í gegnum aldirnar en jurtalitun gengur út á að sjóða garn eða band í legi sem unninn hefur verið úr nýjum eða þurrkuðum jurtum. Til að fá skæra liti er notast við nýtíndar jurtir en þurrkaðar jurtir gefa daufari tóna. Misjafnt er eftir jurtum hvaða liti þær gefa og á verkefnablaðinu má sjá 9 mismunandi dæmi. Verkefni nemenda er að leita að jurtunum á netinu og teikna sýnishorn af þeim í reitina. Einnig má prenta myndir af jurtunum út og líma í reitina.
Tengt efni
Um jurtalitun á Wikipedia
Plöntulykill
Flóra Íslands
Heimildir
Jurtalitun
Umhverfisvæn jurtalitun
__________
Verkefni 5: Öræfarósin, litaþraut
Öræfarósin er gamalt þekkt mynstur sem fólk setti m.a. á íleppa en það voru innlegg sem sett voru í skó úr roði og skinni. Um er að ræða þríbrotna áttablaða rós sem kennd er við Öræfin. Nemendur velja 5 jurtaliti til að nota við lausn þrautarinnar. Litina skrá þeir á línurnar fyrir framan leitarlyklana (oddatölur, sléttar tölur, samhljóðar, sérhljóðar og greinarmerki) og lita jafnframt sýnishorn í kassana. Þeir nota þessa liti til að finna lausnina. Vangaveltur: Hvað er hægt að finna margar spegilása í þessari mynd?
Þrautin var unnin upp úr ljósmynd af Öræfrós af heimasíðu hannyrðaverslunarinnar Alvörubúðin.
Heimildir
Ljósmynd
__________
Verkefni 6: Litahjólið, fróðleikur og litun
Áður fyrr takmarkaðist litasamsetning handverks við liti sem fólk gat unnið úr gjöfum náttúrunnar. Í dag er hinsvegar hægt að að vinna með geysimikið úrval af litum sem búið er að setja upp í kerfi sem samanstendur af frumlitunum (gulur, rauður og blár), annars stigs litablöndum sem eru blanda af frumlitunum (appelsínugult, fjólublátt og grænt) og þriðja stigs litablöndum þar sem litablöndurnar blandast saman við frumlitina ásamt því sem svart og hvítt koma til sögunnar. Litahjólið var sett saman af Isaac Newton og einnig kallað litahringurinn.
Verkefni nemenda felst í því að fylla litina á rétta staði í litahjólinu. 1) Hver fleygur er litaður með einum af 12 litum hjólsins í þessari röð: rauður, vínrauður, fjólublár, ljósfjólublár, blár, dökkgrænn, grænn, ljósgrænn, gulur, ljósappelsínugulur, appelsínugulur, dökkappelsínugulur. 2) Eftir því sem ytra kemur í litahjólið hefur svörtum lit verið blandað saman við frumliti og litablöndur. Hver fleygur er þrískiptur og nú taka nemendur svartan trélit og lita laust yfir ystu reiti hringsins til að dekkja litina. 3) Eftir því sem innar kemur í litahjólið hefur hvítum lit verið blandað saman við frumliti og litablöndur. Nemendur taka nú hvítan trélit og lita yfir innstu reitina í fleygunum.
Litir eru flokkaðir í kalda og heita liti. Nemendur taka annars vegar köldu litina saman (blár, græn, …) og hins vegar heitu litina (gulur, appelsínugulur, rauður, …) saman og skrá á línurnar.
Heimildir
Litahjólið
Litahringurinn
__________
Verkefni 7: Tóvinna, orðaforði og ritun
Listsköpun krafðist þess að fólk kynni meðal annars að kemba ull og spinna. Nemendur skoða bæði orðalista og sagnorð sem tengjast tóvinnu, og nota þau til að leita sér heimilda og lýsa ullarvinnu í gamla daga. Verkefnið krefst þess að nemendur hafi aðgengi að netinu og/eða uppflettigögnum. Á heimasíðu Sauðfjársetursins á Ströndum má finna margvíslegar upplýsingar um sauðkindina og myndir af tvinnslutækjunum má finna á menningarsögulega gagnasafninu Sarpur.is.
Aukaverkefni
Raða orðunum í stafrófsröð í stílabók.
Orðskýringar, skrá til hvers áhöldin voru notuð í tóvinnunni.
Heimildir
Fróðleikskista Sauðfjársetursins
__________
Verkefni 8: Upphlutur, orðaforði, tengja saman
Íslenskir þjóðbúningar eru afskaplega fallegir og mikið handverk. Á vefnum buningurinn.is má finna orðskýringar, myndir og fróðleik um faldbúning, upphlut, peysuföt, kyrtla og skautbúninga. Í verkefninu eiga nemendur annars vegar að tengja orð inn á myndir af 20. aldar upphlut en orðin og orðskýringarnar má finna á ofangreindri vefsíðu, og hins vegar að hanna nýjan upphlut í takt við tíðaranda 21. aldarinnar. Vangaveltur: Hvaða efniðviður gæti best táknað 21. öldina? Plast? Gler? Málmur? Gerviefni? Gallabuxnaefni?
Teikningin er eftir Freydísi Kristjánsdóttur, sjá lausn:
Aukaverkefni, könnun:
Hversu margir hafa prófað að fara í íslenska þjóðbúning?
Hversu margir hafa dansað íslensku þjóðdansana?
__________
Verkefni 9: Mynstur í safnmunum, ritun og teikning
Auk þess að sauma í efni skáru hagleiksmenn og konur mynstur út í við, horn og bein. Nemendur ganga um safnið í leit að slíkum gripum og velja 3 listmuni til að vinna meira með. Þeir teikna mynstrin, eða hluta þeirra, í þartilgerða reiti á verkefnablaðinu ásamt því að greina frá hlutunum sjálfum og notkun þeirra.
Aukaverkefni í stílabók
Nemendur velja einn af hlutunum í verkefnablaðinu og lýsa honum nánar. Þeir greina frá efninu sem notað var í hlutinn (timbur, bein, horn, …) og leita eftir línum og formum í mynstrinu. Er þessi hlutur enn í notkun eða hefur annar hlutur úr öðru efni eða kannski raftæki leyst hann af? Hversu stór er hluturinn? Hvernig er hann viðkomu og hvaða lýsingarorð lýsa honum best (harður, hrúfur, hvass, kaldur, grófur, …)? Nemendur setja sig í jafnframt í rannsóknargír og reyna að átta sig eiganda hlutarins. Hver var hann? Hvar bjó hann? Hvernig aðstæður bjó hann við? Hvernig eignaðist viðkomandi hlutinn? Bjó hann til hlutinn sjálfur eða var þetta gjöf? Hvernig endaði þessi hlutur á Minjasafni Austurlands?
__________
Verkefni 10: Mynsturskortið, hönnun og teikning
Nemendur setja sig í spor landnámsmanns sem áskotnast rekaviður og hyggst nota hann til að útbúa kistil með fallegu mynstri. Áður en listsköpun hefst þarf að hanna, hugsa, spekúlera og spá hvernig kistillinn á vera og hvernig mynstur er fallegast að skreyta hann með. Nemendur skoða mynstur í gömlum listmunum og á netinu. Þeir hanna sitt eigið mynsturskort út frá fyrirmælum hvers reitar.
Aukaverkefni
Nemendur hanna kistilinn á hvítan pappír og nota mynstrin af mynsturskortinu til að skreyta hann. Verkefnið mætti taka lengra og gera kistil í fullri stærð úr bylgjupappa eða jafnvel vinna kistil úr tré í samstarfi við kennara í hönnun og smíði.
__________
VERKEFNI 11: Gömul áhöld og verkfæri, orðaforði og ritun
Margskonar áhöld og verkfæri voru notuð við listsköpun, smíðar og vinnu í gamla daga. Sum þessara áhalda eru enn notuð og önnur hafa verið leyst af hólmi með raftækjum. Nemendur skoða áhöldin sem til eru á Minjasafni Austurlands og leysa svo myndaþrautina þar sem þeir þurfa að átta sig á því hvaða verkfæri um ræðir þótt aðeins sjái hluti þess. Hér fyrir neðan má sjá myndir af margvíslegum verkfærum sem finna má á vefnum Sarpur.is.
Hefill
Bakkasög
Hamar
Kjulla
Útskurðarjárn 1
Útskurðarjárn 2
Útskurðarjárn 3
Rennijárn
Hefilbekkur
Rennibekkur
Stingsög
Bogasög
Þjöl 1
Þjöl 2
Þjöl 3
Tommustokkur
Bor
Borsveif
Bor
Snarbor
Þvinga 1
Skíðapressa (þvinga)
Nagli
Bátanaglar
Skaröxi
Öxi
Torfljár
Hnífur
Tálguhnífur
Loks skrifa nemendur orðasafnið upp í stafrófsröð í stílabók, bæta greini við orðin, fallbeygja í eintölu og fleirtölu, flokka eftir kyni og skrifa setningu sem lýsir notkun hvers og eins áhalds og verkfæri.
__________
VERKEFNI 12: Laufabrauðshönnun, hönnun og vinna með hnit og hnitakerfi
Laufabrauðið er þjóðlegur matur og fjölskyldur koma gjarnan saman í jólaundirbúningnum til að skera út margvísleg listaverk í þessar þunnu, kringlóttu, stökku hveitikökur. Laufabrauð er einnig vinsælt á þorranum. Bæði er skorið í laufabrauð með oddhvössum hnífum en einnig eru til sérstök laufabrauðsjárn fyrir útskurðinn en hvort heldur sem er má oft sjá hin fallegustu listamynstur. Nemendur nota grunnform, línur og 90° snúning til að hanna laufabrauðsmynstur inn í hnitakerfi. Að hönnun loknu teikna þeir laufabrauðsmynstrið aftur upp í reikningsbók, setja tölurnar inn í hnitakerfið og skrá hnit mynstursins.
Tengt efni
Jólahald í gamla daga, námsefni
Þorramatur, Gefa-Taka námsspil
Þorrinn, námsefni
__________
VERKEFNI 13: Málshættir tengdir listsköpun
Tungumál eru full af orðatiltækjum og málsháttum sem rekja má til handverks, listsköpunar og vinnu í gamla daga. Nemendur skoða sex málshætti, túlka þýðingu þeirra með eigin orðum og skrá hvort þeir tengjast tóvinnu, smíðavinnu eða járnsmíði. Tilvalið er að safna fleiri málsháttum og orðatiltækjum saman í stílabók eða upp á töflu.
Tengt efni
Tilvitnun.is
Málshættir í stafrófsröð
__________
VERKEFNI 14: Handverksfólkið í sveitinni, rökþraut
Sjálfsþurftarbúskapur einkenndi líf fólks í gamla daga en það þýðir að fólk hafi þurft að verða sér úti um flestar nauðsynjar sjálft. Hver og einn þurfti að draga björg í bú, og efniviður og aðföng í listmunum gátu verið margskonar s.s. leður hrossahár, bein, horn, roð, rekaviður, steinn, ull og jurtir. Neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið og hagleiksmenn og -konur fyrri alda hafa þurft að nýta allt sem til féll við listsköpun sína. En skyldu fólkið hafa haldið markað og skipst á hlutum? Handverksfólkið í verkefninu gerði það alla vega en hlutverk nemenda er að fylgja vísbendingum og beita rökhugsun til að finna út hver gerði hvað, hvar fólkið bjó og úr hvaða efnivið það vann sín listaverk.
Lausn
Guðrún er frá Saurbæ og notar jurtir til að lita öskudagspoka sem hún saumar.
Jón er frá Ásgarði og gerir smjörhnífa úr rekavið.
Sigríður er frá Bjarnastöðum og prjónar íleppa úr ull.
Sveinn kemur frá Kirkjubóli og býr til lýsislampa úr steinum.
Þorlákur er frá Miðhúsum tálgar spóna úr hreindýrahornum.
__________
VERKEFNI 15: Handverksprófið, námsmat
Nemendur rifja upp innihald heftisins og svara fjölvalsspurningum um handverk og listsköpun í gamla daga.
Minjasafn Austurlands vefrallý
Um námsefnið
Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum.
Að þessu sinni er viðfangsefnið Minjasafnið sjálft, stofnun þess, saga og uppbygging. Nemendur spreyta sig á vefrallýi sem er skemmtileg aðferð til að kynna námsefni fyrir nemendum. Til leysa verkefnin þurfa þeir að hafa aðgang að tölvu eða snjalltækjum.
Verkefnapakkinn samanstendur af forsíðu, 14 verkefnum og krossaprófi. Með hverju verkefnablaði eru tillögur að aukaverkefnum til að vinna í stílabók, og í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum og byrjar yfirferðina á völdum verkefnum.
Ljósmynd á forsíðu og innsíðu eru í eigu Minjasafns Austurlands. Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Elín Sigríður Arnórsdóttir.
Kennsluleiðbeiningar
Forsíða – Inngangur
Á forsíðu eru nokkrir molar um Minjasafn Austurlands sem ítarlegar verður fjallað um síðar í pakkanum.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Staðsetning, frumkvæði, landshluti, safnafræðsla, menningararfur, ræktarsemi, hlutverk, safnastarf og upprunaslóðir.
Verkefni 1 – Vetfré Minjasafns Austurlands
Veftré sýnir uppbyggingu vefs og hvernig hann skiptist í einstaka síður og undirflokka. Í þessu verkefni er tilgangurinn að nemendur kynnist vefsíðu Minjasafns Austurlands og átti sig á uppbyggingu hennar. Með því að smella á flettistikuna efst á síðunni minjasafn.is koma fellilistar með svörin í verkefninu. Dæmi: Smellt er á hnappinn Sýningar og þá birtist fellilisti með 3 undirsíðum: Grunnsýningar, Yfirstandandi sérsýningar og Fyrri sýningar. Þessi atriði eru skráð í fyrsta dálkinn á verkefnablaðinu undir yfirskriftinni Sýningar.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Vefsíða, lén, veftré, fellilisti, leitargluggi, veraldarvefur, vefhýsing, tölvupóstur, leitarvél og vörumerki/logo.
Verkefni 2 – Saga safnsins
Á vef Minjasafns Austurlands er að finna upplýsingar um áfanga í sögu og rekstri safnsins. Verkefnið er sett upp sem tímalína og nemendur tengja saman ártal og texta. Áður en tengt er á milli þarf að skrá rétt tímatal í stafrænu reiti tímalínunnar.
Lausn
Lausnina er að finna neðst á síðunni. Ártölin sem eiga að koma í tímalínuna eru 1942, 1943, 1945, 1948, 1966, 1981, 1982, 1995, 1996 og 1996 -. Athygli er vakin á því að þrír liðir tengjast við ártalið 1995 á tímalínunni.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Ártal, tímalína, áfangi, rekstur, stofnsamingur, stofnanasamningur, fastasýning, sérsýning, aðfangabók og varðveisla.
Verkefni 3 – Söfnunarstefna
Á síðunni Um safnið er að finna undirsíðu um söfnunarstefnu þess. Nemendur lesa upplýsingarnar sem þarf koma fram og enda setningarnar. Nemendum er heimilt að stytta setningar ef ástæða er til.
Lausn
… hlutverki safnsins sem almenns byggðasafns.
… af Austurlandi, og miðla þeim arfi til gesta safnsins með sýningarhaldi og miðlun af ýmsu tagi.
… Austurlandi úr fortíðinni en einnig er safnað munum frá síðustu árum og áratugum eins og tök eru á og tilefni er til.
… heilbrigðis- mennta- og menningarmálum, samfélagsþróun, daglegu lífi og starfi fólks, nytjahlutum, smíðisgripum, verkfærum, innanstokksmunum, skrautmunum og fatnaði o.s.frv.
… í fyrirrúmi í öllu safnastarfi sem og fyrir fyrri eigendum þeirra.
… fylgja sérstök skilyrði nema í algerum undantekningartilvikum.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Safnmunur, menningarminjar, söfnunarstefna, meðhöndlun, innanstokksmunur, safnsvæði, sýningarstefna, hagleiksmaður, forvarsla og fjöldaframleiðsla.
Verkefni 4 – Söfnunarflokkar
Á síðunni Um safnið er að finna undirsíðu um söfnunarstefnu þess. Þar má finna upplýsingar um helstu söfnunarflokka Minjasafns Austurlands. Nemendur finna hvaða stafi vantar í þessa 10 söfnunarflokka og skrá á eyðurnar. Nemendur lesa um hvern söfnunarflokk og skrá dæmi um mun úr hverjum flokki í töfluna neðst á verkefnablaðinu.
Lausn
Heimilishald – skólahald – atvinnuhættir – félagsleg uppbygging – dægradvöl – hús og híbýlahættir – kirkjumunir – fornmunir – ljósmyndir – bækur og skjöl.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Heimilishald, skólahald, atvinnuhættir, uppbygging, dægradvöl, híbýlahættir, kirkjumunir, fornmunir, sendibréf og skjalasafn.
Verkefni 5 – Þjóðsagnaritun
Fjallað er um Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritara á síðunni Fróðleikur. Þar má einnig hlusta á nokkrar af þeim sögum sem hann skrásetti, og sjá staðsetningu sögusviða á korti af Austurlandi. Nemendur smella á hljóðskrárnar og skrá lengd þeirra í töfluna. Á síðunni er jafnframt að finna upplýsingar um þann sem les og nokkra mola um Sigfús sjálfan.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Þjóðsagnaritun, skrásetning, sögusvið, hljóðskrá, upplestur, hljóðupptaka, afspilun, heimildaöflun, kortalestur og heimildamaður.
Ítarefni
Námsefni um Sigfús Sigfússon má nálgast hér.
Verkefni 6 – Eldgos í Öskju
Árið 1875 varð eldgos í Öskju í Kverkfjöllum sem hafði mikil áhrif á íbúa Austurlands og víðar. Á síðunni Fróðleikur má hluta á frásagnir fólks af þessum náttúruhamförum. Nemendur hlusta á frásagnir, skrá hvaðan fólkið er og finna staðina í orðasúpunni.
Lausn
Hólsfjöll, Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Borgarfjörður, Fell, Loðmundarfjörður, Skriðdalur, Seyðisfjörður og Suðurfirðir.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Náttúruhamfarir, atburðarás, frásögn, öskufall, gosmökkur, eldvirkni, jarðvarmi, jarðskjálfti, eldstöð og hraunkvika.
Verkefni 7 – Fyrri sýningar Minjasafnsins
Minjasafn Austurlands er reglulega með sýningar í gangi en einnig má finna upplýsingar á vefnum um allar fyrri sýningar safnins. Í verkefninu skoða nemendur fimm af þessum sýningum, kynna sér innihald þeirra og tengja saman rétta kassa.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Fjöllistamaður, tækifæri, altaristafla, hugrenningar, vistarverur, skátamót, félagslíf, útsaumur, rannsókn og fornleifar.
Verkefni 8 – Grunnsýningar
Á Minjasafni Austurlands eru grunnsýningarnar Hreindýrin á Austurlandi og Sjálfbær eining í gangi allt árið um kring. Nemendur finna upplýsingar um þær og greina stuttlega frá þeim með eigin orðum. Nemendur skoða vefinn og skrá fleiri sýningar sem eru í gangi.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Grunnsýning, sérstaða, lífsbarátta, heimildamynd, sjálfbærni, lífshættir, lífsnauðsyn, vitnisburður, bústofn og baðstofa.
Tengt efni
Námsefni Minjasafnsins um hreindýr á Austurlandi má nálgast hér.
Verkefni 9 – Öðruvísi ABC
Hér er um öðruvísi stafrófsverkefni að ræða þar sem nemendur vafra um vef Minjasafns Austurlands í leit að orðum til að fylla upp í óútfyllta stafrófstöflu. Í stað hefðbundins stafrófsverkefnis, þar sem upphafsstafur orðs gildir, þurfa nemendur nú að skoða annan bókstaf orðsins (nr. 2 ) þegar taflan er fyllt. Þannig fer orðið SARPUR í fyrsta reitinn (reit a) þar sem a er annar bókstafur orðsins. Nemendur skrá hvað klukkan er í upphafi og lok leitar.
Umræðupunktar
Hvað tók verkefnið langan tíma?
Hvernig gekk að leita að orðum stafrófsins eftir þessari óhefðbundnu aðferð?
Hvaða fleiri leiðir má fara til að a) kynna sér innihald vefs? b) rifja upp stafrófið?
Hvers vegna er gott að kunna stafrófið?
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Stafróf, stafsetning, málfræði, setning, málsgrein, upphafsstafur, greinaskil, eyðufylling, lesskilningur og hugtakaskilningur.
Verkefni 10 – Þorpið á Ásnum
Þorpið á Ásnum er ein af fyrri sýningum Minjasafns Austurlands og fjallar um þéttbýlismyndun við Gálgaás í Egilsstaðahreppi. Búið er að hanna gagnvirkt kort með húsunum, og með því að smella á þau (bláu reitina) birtast ýmist ljósmyndir af fyrstu íbúunum eða húsnæðinu sjálfu. Einnig birtast upplýsingar um byggingarár, götuheiti, húsnúmer og heiti húsanna sjálfra sem nemendur nota til að leysa verkefnið.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Hreppur, þorp, tímamót, uppbygging, dreifbýli, þéttbýli, frumbyggi, frumkvöðull, ás og kynslóð.
Verkefni 11 – Vefrýni
Þegar efni er sett fram hvort heldur sem er á vef eða í útprentuðum ritum þarf að hafa ýmsar reglur um stafsetningu og greinarmerki í huga. Nemendur þurfa að kunna skil á mörgum hugtökum hvað lesmál snertir og markmið verkefnisins felst í því að skerpa á nokkrum þeirra. Um leið og nemendur finna dæmi um notkun hugtakanna á vef Minjasafns Austurlands gera þeir hring um þau á listanum. Ef nemandi er ekki viss hvað ákveðið hugtak þýðir gefst hér kjörið tækifæri til sjálfstæðar þekkingarleitar á leitarvélum netsins, Google sem dæmi.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Myndrit, upplýsingaöflun, hugtakasafn, skipurit, yfirlitsmynd, graf, höfundaréttur, tilvitnun og heimildaskrá.
Verkefni 12 – Spurt & svarað
Verkefni Minjasafns Austurlands eru fjölbreytt og skráningarvinna safnkosts er stór hluti vinnunnar. Nemendur leita svara við spurningunum á verkefnablaðinu og skrá á línurnar.
Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Safnkostur, safnvörður, gagnasafn, varðveislugildi, áfangaskýrsla, kreppa, viðtal, efnahagshrun, niðurstaða og farandssýning.
Verkefni 13 – Sarpur.is
Sarpur.is er vefur sem varðveitir upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni. Þar er hægt að leita að gömlum munum eftir söfnum. Á verkefnablaðinu eru þrír munir sem nemendur fletta upp og leita nánari upplýsingar um. Svörin skrá þeir á verkefnablaðið. Munirnir eru skráðir undir Minjasafni Austurlands á Sarpi.is.
Lausn
Íleppur
Askur
Sveifarstokkur
Aukaverkefni í stílabók – hvernig vefir eru þetta?
Sarpur.is, bin.arnastofnun.is, já.is, minjasafn.is, rimordabok.is, visindavefur.is, eldgos.is, geimurinn.is, almanak.is og krakkaruv.is.
Umræðupunktar
Ef þú værir að setja upp heimasíðu, um hvað myndi hún fjalla?
Verkefni 14 – Safnhluturinn
Á Minjasafni Austurlands gætir ýmissa grasa. Nemendur velja hlut að eigin vali og gera nánari grein fyrir honum. Fyrir þá sem ekki komast á Minjasafn Austurlands má nota vefinn Sarp.is til að leita að áhugaverðum mun til að fjalla um.
Aukaverkefni í stílabók – hvaða hlutir eru þetta og til hvers voru þeir notaðir?
….
…
…
…
…
…
…
…
…
…
Verkefni 15 – Safnaprófið
Að vefrallýi loknu spreyta nemendur sig við krossapróf um Minjasafn Austurlands.
Aukaverkefni í stílabók – hvernig söfn eru þetta og hvar á landinu eru þau?
steinapetra.is, galdrasyning.is, melrakki.is, warandpeace.is, thjodminjasafn.is, thorbergur.is, hnjotur.is, lavacentre.is, selasetur.is, fuglasafn.is, whalesoficeland.is og saeheimar.is.
Umræðupunktar
Hvaða fleiri söfn þekkja nemendur?
Hvaða söfn hafa nemendur farið á?
Er nauðsynlegt að hafa söfn á Íslandi? Rökstyðjið.
Þorrinn
Um námsefnið
Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum.
Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem þorrinn er skoðaður út frá lífi fólks í gamla daga. Einnig má benda á námsefnið Þorramatur en þar má finna fleiri verkefni, ritunaræfingar og veggspjöld með þorramat. Námsefnið er að stórum hluta unnið upp úr heimildum í bókum Árna Björnssonar, Saga daganna, bls. 433-481og Þorrablót.
Ljósmynd á forsíðu: Jón Arnarsson Önfjörð. Aðrar ljósmyndir: Unnur María Sólmundsdóttir. Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Elín Sigríður Arnórsdóttir. Mynd af eyrnamörkum er unnin upp úr skjölum frá Bændasamtökum Íslands og birt með þeirra leyfi. Höfundur teikningar er Þórhildur Jónsdóttir.
Kennsluleiðbeiningar
Orðið þorrablót gefur til kynna að athöfnin sé ævaforn en þótt heimildir bendi til þess að hlé hafi orðið á þorrablótum í nokkrar aldir er ljóst að til var mannfagnaður eða samkomuhald með þessi nafni fyrir daga kristinsdóms á Íslandi. Bækur Árna Björnsson eru mjög fróðlegur og góður undirbúningur fyrir kennsluna. Í þeim kemur meðal annars fram að þorrablót eins og við þekkjum þau í dag hafi verið endurvakin á 17. öld þótt ýmsir nýir siðir hafi litið dagsins ljós á undanförnum áratugum.
Námsefnið er sett fram með hætti að nemendur fá miða til að klippa út og líma á hverja verkefnasíðu ásamt því að leysa fjölbreytt verkefni. Á klippimiðunum eru oftar en ekki upplýsingar sem varpa skýrara ljósi á viðfangsefnið hverju sinni, en gert er ráð fyrir að nemendur glími aðeins við verkefnin (mismikið þó) áður en þeir fá miðana afhenta. Með hverju viðfangsefni fylgja umræðupunktar og ábendingar um áhugavert eða tengt efni á vef.
__________
VERKEFNI 1: Þorrakoma
Nemendur nota hnitakerfið til að leysa dulmálið.
Lausn
Þorri var fjórði mánuður vetrar að forníslensku tímatali. Við upphaf hans taldist vetur hálfnaður. Mánuðurinn hófst á föstudegi og í dag fögnum við þorrakomu á föstudegi vikuna 19.-25. janúar. Þann dag köllum við bóndadag.
Klippimiði 1
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á honum er fróðleiksmolar um nafngiftir Orkneyinga og tengsl þeirra við fornu mánaðaheitin þorri og góa.
Aukaverkefni
Litaðu sérhljóðana í hnitakerfinu rauða og samhljóðana græna. Gerðu hring utan um broddstafi.
Aukaverkefni
Til eru mörg kvæði tengd þorranum og flest voru samin á Austurlandi á 17., 18. og 19. öld. Þorri hefur verið mönnum hugleikinn á þessum tíma og margar lýsingar til á honum. Þorra er sem dæmi lýst sem:
1) stórskornum öldungi með hrímgrátt skegg
2) manni konunglegum ásýndum
3) ábúðarmiklum fornkappa
4) förumanni og klakadröngli
5) glæsilega búnum víkingi
6) verndara bænda gegn ríkismönnum
7) eftirlitsmanni sem hafa vill gætur á heyjaforða bænda og leiðbeina þeim um búskapinn.
Túlkaðu þína útgáfu af þorranum með teikningu. Hver var hann og hvernig leit hann út að þínu mati?
Umræðupunktar
Hvað er líkt með nöfnum forfeðra Þorra í Orkneyingasögu? – Kári, Frosti og Snær eru allt nöfn sem hafa tilvísun í veðurfar. Skyldi það vera tilviljun?
Heldur þú að þorrinn og þorrablótin séu komin frá Þorra Snæssyni?
Hvað hétu vikudagarnir áður fyrr? – Sunnudagur, mánadagur, týsdagur, óðinsdagur, þórsdagur, frjádagur og þvottdagur/laugardagur.
Tengt efni
Orðasúpur og -veggir með vind- og snjóorðum.
Heimildir
Saga daganna, bls. 433-434.
Þorrablót, bls. 8-12.
Þorrablót, Árnastofnun
Þorri á Wikipedia
__________
VERKEFNI 2: Þorraþræll
Flestir kannast við lagið Þorraþræll og margir grunnskólanemendur hafa lært ljóðið utan að. Tilvalið er að syngja það saman til upprifjunar en verkefnið gengur þó út á að hlusta á rokkaðri útgáfu hljómsveitarinnar Alsælu af disknum Rock from the Cold Seas frá árinu 1999. Um nútímalega útfærslu að ræða sem skírskotar til tíðarandans sem ljóðið fjallar um. Vindgnauð í bland við drungalega tóna rafmagnsgítars, ásamt barlómi bóndans í nýju viðlagi, fangar stemninguna og gefur þeim sem alist hafa upp við þægindi nútímans innlit í aðstæður fólks fyrr á öldum. Í lokin má heyra skemmtilegar andstæður þegar hljómsveitin endar flutninginn á stefi úr laginu Í sól og sumaryl eftir Gylfa Ægisson. Það mætti túlka sem loforð um betri tíð fyrir þá sem þreyja þorrann og halda harðindin út. Fyrir áhugasama má svo hlusta á öllu hefðbundnari flutning á Þorraþræl með Þjóðlagasveitinni Þulu.
Klippimiði 2
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar má finna afturlit til fortíðar með hliðsjón af innihaldi ljóðsins Þorraþræll eftir Kristján Jónsson, fjallaskáld. Vangaveltum er varpað fram hvort hinn eiginlegi þorraþræll hafi kannski verið Íslendingurinn sem þrælaði alla ævi til að eiga í sig og á.
Umræðupunktar
Hvað þýðir orðatiltækið að þreyja þorrann? – Janúar er oft kaldur og erfiður, og í gamla daga var farið að minnka í matarbúri landsmanna á þessum tíma. Menn gerðu allt sem þeir gátu til að þrauka vetrarmánuðina. Að þreyja þorrann þýðir að halda erfiðleikana út.
Hvernig væri hægt að nota þetta orðatiltæki í þægindum nútímans? – Hvaða tímabil finnst nemendum erfitt? Prófatíminn? Sumarfríið án vinanna? Æfingabúðir? Síðustu dagar hvers mánaðar þegar pyngjan er farin að léttast?
Hvað er átt við með orðinu þorraþræll? – Í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson er minnst á orðið þorraþræl og heimildir þess efnis að svo hafi síðasti dagur þorra verið nefndur. Sá dagur var einnig nefndur feginsdagur enda harðasti mánuður vetrar loks að baki og margir bændur eflaust fegnir. Á Austurlandi var þorraþræll tileinkaður piparsveinum, fráskildum mönnum, mönnum í óvígðri sambúð og þeim sem eignast höfðu börn utan hjónabands. Hvernig ætli standi á því?
Var lífið þrældómur í gamla daga? En í dag? – Hvaða skilning leggja grunnskólanemendur á 21. öldinni í orðið þrældómur? Hvernig er lífið í dag samanborið við líf fólks fyrir 300 árum?
Tengt efni
Hvað merkir það að þreyja þorra og hvaðan er það komið?
Heimildir
Saga daganna, bls. 477
Þorrablót, bls. 31-32
__________
VERKEFNI 3: Þorrasagnir
Nemendur skoða (sum sjaldséð) sagnorð sem meðal annars koma fyrir í ljóðinu Þorraþræll. Gefinn er upp nafnháttur sagnorðanna og nemendur finna bæði nútíðar- og þátíðarmyndir þeirra. Á vefnum Beygingarmynd íslensk nútímamáls (BÍN) má slá inn sagnorðunum og skoða þau í nútíð og þátíð, nafnhætti, framsöguhætti, viðtengingarhætti og boðhætti.
Klippimiði 3
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar má sjá vangaveltur um mikilvægi þess að efla orðaforða sinn þegar til fortíðar og framtíðar er litið.
Stílabókarvinna
Hvað þýða sagnorðin? Nemendur láta reyna á skilning sinn, búa til setningar og setja sagnorðin í samhengi við eigin reynsluheim.
Aukaverkefni
Hvaða sagnorð gætu flokkast sem fótboltasagnorð? Hvaða sagnorð tengjast eldhússtörfum?
__________
VERKEFNI 4: Þorravísur
Nemendur klippa út renninga í fylgigögnum (Klippigögn – ljóð) og raða þeim í reitina eftir því sem þeir telja að kvæði Sveins Jónssonar hafi litið út. Reitirnir með tölustöfunum eru fyrir verkefni 9, Þorrasiðir 2. Athygli er vakin á því að orðið ég er ýmist skrifað með é eða e í bókum Árna Björnssonar. Í báðum heimildum er þess getið að svona hafi kvæðið verið ritað í nótnahandriti Sveins sjálfs. Til að rugla ekki nemendur er sú leið hins vegar farin hér að nota eingöngu orðið ég. Þegar nemendur telja sig vera komna með lausnina er tilvalið að biðja nokkra sjálfboðaliða að lesa kvæðið upp fyrir hópinn áður en renningar eru límdir niður. Að lokum sýnir kennari rétta uppröðun og nemendur lagfæra og líma strimlana í þeirri röð á verkefnablaðið.
Lausn
Nú er ég kominn náungana að finna,
nú er best þeir vari sig,
mín því élin mögnuð sjaldnast linna,
margir bændur þekkja mig.
Ég er Þorri, þrekið tröll,
og þekki jarðarfylgsni öll.
Ég hef víða um foldu farið,
flestra dyrum hart á barið,
þó með þéttum gust.
Ég er tími, ég við glími
aldirnar og ár
og samt ei verð ég sár
og samt ei verð ég sár.
Ég er vindur, ég er grimmd
og ólguþrungin hrönn
og hrími hrötuð fönn
og hrími hrötuð fönn.
Já fönn.
Orðskýringar
Hvað þýða feitletruðu orðin? Bekkurinn leysir verkefnið í sameiningu og nemendur skrá svörin á línurnar.
Klippimiði 4
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar segir frá því hvernig maður var manns gaman á samkomum áður fyrr – og er enn í dag. Þorri var oft persónugerður og honum lýst sem trölli, förukarli, vetrarguði, vetrarvætti, fornkappa, tilsjónarmanni og jafnvel verndara bænda. Hvernig stendur á því að þorrinn hefur fengið svona mörg hlutverk í hugum fólks?
Aukaverkefni
Hvað eru margar ljóðlínur í kvæði Sveins?
Eru dæmi um endurtekningar í kvæðinu? Rökstuddu.
Finndu rímorðin í kvæðinu. Er þetta kvenrím, karlrím eða veggjað rím?
Er bragfræðireglum um höfuðstafi og stuðla fylgt? Rökstuddu.
Tengt efni
Bragi, orðfræðivefur Árnastofnunar
Um bragfræði á Wikipedia
Heimildir
Saga daganna, bls. 469.
Þorrablót, bls. 12-13, 62
Þorrablót á Wikipedia
__________
VERKEFNI 5: Þorraglíman
Nemendur glíma við ljóðagerð með hliðsjón af fræðslunni sem þeir hafa aflað sér um þorrablót. Hver ljóðlína byrjar á ákveðnum upphafsstaf sem gefinn er og saman mynda upphafsstafirnir ÞORRABLÓT þegar lesið er lóðrétt. Tilgangurinn er að skoða hvað þorrinn þýðir fyrir yngri kynslóðina. Hvað er gert í skólanum á þessum árstíma? Er þorramaturinn í skólamötuneytinu tilefni til þess að fagna gamla tímanum eða vekur hann upp aðrar tilfinningar hjá aldurshópnum? Eru einhverjar fjölskylduhefðir í gangi sem nemendur tengja við þorrann? Hvað finnst börnum almennt um þessa gömlu hefð?
Mögulega færi betur á því að leggja ljóðaverkefnið fyrir í lok yfirferðar námsefnispakkans þar sem áhugaverðar upplýsingar um þorratungl, þorraguð, þorramat og þorrasiði eru handan við hornið.
Klippimiði 5
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar eru spurningar sem vakið gætu skáldagyðjuna sem dvelur innra með þeim. Komið er inn á muninn á hefðbundnu og óhefðbundnu ljóði og nemendur hvattir til að fara eigin leiðir í sinni þorraglímu.
Tengt efni
Rímorðabók
Ljóð.is
Heimildir
Hvað er ljóð?
__________
VERKEFNI 6: Þorramánuður
Nemendur finna gömlu og nýju mánaðaheitin í orðasúpunni. Þau eru ýmist falin upp, niður, áfram, afturábak eða á ská.
Klippimiði 6
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um breytingar sem urðu á mánaðaheitum þegar latneska tímatalið var tekið upp.
Stílabókarvinna
Nemendur skipta blaðsíðu í 3 dálka. Í fyrsta dálkinn skrá þeir nöfn allra bekkjarsystkina sinna. Í miðjudálkinn skrá þeir fæðingardag þeirra samkvæmt tímatalinu sem við notum í dag. Í síðasta dálkinn skrá nemendur mánuðina sem bekkjarsystkinin fæddust í miðað við gömlu heitin. Nauðsynlegar upplýsingar má finna í greininni Hvaða mánaðanöfn voru notuð samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og yfir hvaða tímabil náðu þau? Hægt er að prenta greinina út af Vísindavefnum og fjölfalda fyrir bekkinn.
Tengt efni
Hvað þýðir mánaðarheitið þorri og hversu gamall siður eru þorrablótin?
Gömlu íslensku mánaðaheitin og gregoríanska tímatalið
Heimildir
Saga daganna, bls. 17-18, 433
Hvaðan koma nöfnin á mánuðunum?
Hvers vegna notum við ekki lengur gömlu íslensku nöfnin á mánuðunum og hvenær var því hætt?
Hvaða mánaðanöfn voru notuð samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og yfir hvaða tímabil náðu þau?
Hvað merkir mánaðarheitið mörsugur?
__________
VERKEFNI 7: Þorratungl
Nemendur gefa hugmyndarfluginu lausan tauminn og skrá allt það sem þeim dettur í hug að tengist orðinu þorratungl.
Stílabókarvinna
Nemendur skipta blaðsíðu í tvo dálka og skrá orð sem byrja á tungl- í annan (tunglfar, tunglskuggi, …), og orð sem enda á -tungl í hinn (himintungl, gervitungl, …). Hér mætti setja stærri orðaskjóðu upp á töflu og vinna meira með safnið t.d. raða í stafrófsröð, vinna með orðskýringar, draga miða með orðinu og fjalla um það í púlti og fleira.
Tunglið
Hjátrú sem tengist fullu tungli:
– Menn breytast í varúlfa.
– Frjósemi eykst með dönsum undir fullu tungli.
Vikudagur sem tengist tungli:
– Mánudagur var áður kallaur mánadagur.
Dæmi um tunglgyðjur:
– Lúna, gyðja Rómverja.
– Luna á Wikipedia.
– Selena, mánagyðja Grikkja.
– Mama Killa, gyðja Inka.
– Chandra, gyðja Hindúa.
– Heng O, gyðja Kínverja.
Nokkur lög sem tengjast tunglinu:
– Tunglið, tunglið taktu mig.
– Tunglið skín á himni háa.
– Þula um tunglið.
– Álfareiðin.
Annað sem tengist tunglinu:
– Sagan um karlinn í tunglinu.
– Tunglið og brennimerkti sauðaþjófurinn.
Klippimiði 7
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvenær Íslendingar hættu að nota gömlu mánaðaheitin og skiptu yfir í þau latnesku sem við notum í dag.
Umræðupunktar
Hvaða hjátrú tengist sól? – Tröll verða að steini þegar sól skín á þau.
Tengt efni
Um tunglið á Geimurinn.is.
Hvers vegna góla úlfar upp í tunglið?
Af hverju verður ofurmáni?
Heimildir
Oft er talað um jólatungl og í gamalli vísu er talað um þorratungl. Hvernig veit maður hvaða tungl er jólatungl?
Af hverju eru tungl alltaf kölluð luna og er orðið lunatic eitthvað skylt því?
Tunglið, tunglið taktu mig, greinasafn Mbl.is
Saga daganna, bls. 442
Þorrablót, bls. 22-23
__________
VERKEFNI 8: Þorrasiðir 1
Hvernig ætli torfbæir hafi litið út ofan frá séð?
a) Nemendur skoða hús og teikningar af gömlum bæjum og hanna grunnmynd af torfbæ. Hver reitur táknar 1 fm2 (hver hlið 100 sm).
Sjá upplýsingar um gamla byggingahætti og grunnmyndir: Gamlir byggingahættir,
Litla-Þúfa og Glaumbær og Stöng í Þjórsárdal.
b) Nemendur skrá flatarmál og ummál torfbæjarins inn á teikninguna.
Klippimiði 8
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum eru upplýsingar um herbergisskipan í torfbæjum sem nemendur geta haft til hliðsjónar við hönnun sína. Einnig er greint frá hermigaldri sem felst í því að varpa af sér fatnaði í von um að veturkonungur varpi af sér vetrarskrúðanum á móti. Hvað finnst nemendum um þá galdratrú? Þekkja nemendur fleiri galdra?
Stílabókarvinna
Verkefnið má einnig vinna á teikniblöð. Nemendur teikna torfbæinn í heild sinni og staðsetja hann í fallegu sveitarumhverfi. Skoða má hugtök eins og burst, burstabær, bæjarþil, bæjarhlað, baðstofa, baðstofugluggi, steinhleðsla, grjótgarður, hestasteinn, þvottasnúrur, fjós, …
Aukaverkefni
Hvað hleypur bóndinn langa vegalengd í frostinu ef hann fer hringinn í kringum torfbæinn og heldur sig metra frá húsveggnum?
Torfbæirnir voru hlaðnir úr torfi og grjóti svo þykkt veggja var mikil. Ef gert er ráð fyrir að veggir hafi verið ½ m að þykkt (50 sm), hversu stór er grunnflötur bæjarins þá í fermetrum?
Heimildir
Saga daganna, 444, 445
Þorrablót, bls. 26-29
Hvað þýðir mánaðarheitið þorri og hversu gamall siður eru þorrablótin?
Eldamennska í íslenskum torfbæjunum.
__________
VERKEFNI 9: Þorrasiðir 2
Nemendur klippa út reiti með tölustöfum í fylgigögnum (Klippigögn – ljóð) og raða þeim í reitina eftir tímaröð miðað við upplýsingar á verkefnablaðinu. Rómversku tölurnar eru fyrir fortíðarbóndann og arabísku tölustafirnir fyrir nútímamanninn.
Klippimiði 9
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið áður en verkefnið er unnið. Á miðanum eru hugtök tengd sólarhringnum sem eru mismikið (lítið) notuð í dag. Heilabrot: Bóndi fortíðarinnar talar um dagmál í einræðu við sjálfan sig en ekkert er rætt um dagmál á klippimiðanum. Ef hver eykt er 3 klst. að lengd þá vantar einhvers staðar upplýsingar. Eru glöggir nemendur að átta sig á þessu? Klukkan hvað ætti dagmál að vera? – Lausn: Klukkan 9:00.
Lausn og skýringar
I) Óttumál. Nei, er ekki heillin… (Hefð var fyrir því að húsfreyja geymdi besta kjötbitann fyrir bónda sinn og gaf honum í upphafi þorra. Hér hefur karl komist á snoðir um góðgætið um miðja nótt. En hvaða ráp er þetta eiginlega á bónda?)
II) Eyktarskipti. Þá er að gyrða sig í brók… (Sjá fyrri upplýsingar þess efnis að einhvers staðar hafi tíðkast að bóndi hlypi hálfnakinn hring í kringum bæ sinn og það jafnvel með aðra buxnaskálmina á eftir sér. Þetta hafði hann reyndar vit á að gera áður en aðrir vöknuðu sem skýrir kannski skort á heimildum.)
III) Rismál. Sei, sei, er komið rismál… (Nú er kominn tími til að vakna en ekkert heyrist í hananum, ætli hann hafi orðið þorranum að bráð?)
IV) Dagmál. Brrr, en sá belgingur, … (Það er kalt og vindasamt úti. Bóndinn hefur engu að síður ákveðið að baða sig í næsta snjóskafli svona í tilefni dagsins og mannamótsins seinni partinn en ekkert bólar enn á öðru heimilisfólki.)
V) Árdegi. Uss, uss, langt liðið af… (Bóndi er nú hinn hressasti eftir kjötát og snjóskaflabað. Hann hefur jafnframt tekið til við að yrkja fyrir skemmtun kvöldsins.)
VI) Miðaftann. Miðaftann á fyrsta degi… (Bóndi er bjartsýnn og hress, hann ætlar sér að halda harðindin út og sér vorið í hyllingum. Þorrinn skal ekki svelta hann og hans fólk út á gaddinn úr því sem komið er.)
1) Miðnætti. Tölvuleikurinn uppfærður… (Nútímabóndinn er ekki bara kominn með mjaltavélar fyrir beljurnar og blandara fyrir berjabústið. Hann er einnig nettengdur og spilar Fortnite milli annarra verka. Hann leyfir sér sjálfsögðu að taka einn leik (eðta tvo) aðfaranótt bóndadags. Ef ekki þá, þá hvenær?)
2) Úff, hvað er málið… (Tja, málið er bara að þeir sem gleyma sér við tölvuspil um miðja nætur gleyma stundum að stilla vekjarann í símanum sínum. Síminn er ekkert endilega ónýtur, gæti líka verið rafmagnslaus…).
3) Atjsjúúú! Ég er sáttur… (En leiðinlegt, kappinn er með ofnæmi fyrir blómum. Eins gott að hann er ekki blómabóndi! En þótt hann sé að fara út að borða um kvöldið voru blómin á morgunverðarbakkanum þar sem hann situr hnerrandi og mögulega ennþá í náttfötunum.)
4) Úllala! Kjötveisla, kók og… (Hvaða skrifstofu er hann að tala um? Hjá Bændasamtökum Íslands? Eða Samtökum ungra bænda? Hjá Landssamtökum sauðfjárbænda kannski? Getur verið að nútímabóndi sé ekki í bara í sveitarstörfunum heldur vinni á skrifstofu líka? Hvað þýðir eiginlega orðið bóndi? Hefur merking orðsins eitthvað breyst frá því að byggð tók að þéttast og þorp að myndast? Og já, hvað er kjötveisla? Kannski trog með lundaböggum, sviðakjömmum og slátri?)
5) Jæja, heitavatnslaust fram á… (Heitavatnslaust þýðir þá væntanlega að bóndinn hafi jafnan aðgang að heitu rennandi vatni og sé hættur að baða sig í köldum snjósköflum, hættur að bera allt nytjavatn úr bæjarlæknum og hættur að safna öllu rigningarvatni? Það þýðir þá líka að bóndi hafi nú hellings tíma aflögu til að stunda sjálfsrækt og hreyfingu eftir vinnu. Heppinn!)
6) Ég er þakklátur… (bóndadegi lýkur að þessu sinni á þorrahlaðborði þar sem nútímamaðurinn okkar fékk hrútspunga í forrétt. Þeir falla ekki alveg í kramið hjá honum en sem betur fer hefur hann úr margskonar öðru góðgæti að velja eins og súrum hval, kæstum hákarli, sviðnum kindahausum og selshreifum! Sjá veggspjöld með þorramat.)
Umræðupunktar
Getur verið að einhvers staðar í heiminum búi fólk við svipaðar aðstæður og voru á Íslandi áður fyrr?
Tengt efni
Hvernig er sólarhringnum skipt, hádegi og svo framvegis, og hvernig var honum skipt til forna? Af hverju voru nöfnin dregin?
Hvenær komu klukkur til Íslands og hvernig vissu menn hvað tímanum leið áður en þær komu til sögunnar?
Heimildir
Saga daganna, bls. 441-442, 444-445
Þorrablót, bls. 21, 26-29
Almanaksskýringar
__________
VERKEFNI 10: Þorrablóm
Nemendur leysa orðaruglið í blómunum og skrá á línurnar. Af því búnu nota þau stafina í blómunum til að mynda eins mörg ný orð og þau geta.
Klippimiði 10
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvenær sá siður hófst að færa maka sínum blóm á bóndadegi og konudegi.
Heimildir
Saga daganna, bls. 480.
Þorrablót bls. 83
__________
VERKEFNI 11: Þorramatur 1
Nemendur skoða þorramatinn og skrá hvað réttirnir heita. Tilvalið er að nota veggspjöld með sömu myndum sem fylgja námsefninu Þorramatur.
Klippimiði 11
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvernig matur var verkaður og geymdur í gamla daga.
Aukaverkefni
Raða þorramatnum í stafrófsröð.
Fallbeygja orðin í stílabók.
Leita að upplýsingum um hvernig maturinn er verkaður/framleiddur/bakaður.
Tengt efni
Voru haldnar stórar veislur með þorramat á þorranum hér áður fyrr?
Um þorramat á Wikipedia
Heimildir
Saga daganna bls. 477-479
Þorrablót bls. 79-81
__________
VERKEFNI 12: Þorramatur 2
Fyrri hluti: Nemendur gera könnun á því hvaða þorramat samnemendur hafa smakkað og skrá með talnastrikum. Tilvalið er að leysa þetta verkefni saman með handauppréttingu. Niðurstaða hverrar talningar er skráð í reitina undir jafntog merkinu.
Seinni hluti: Eftir að könnun lýkur er upplagt að draga fram smakkbakka og kynna þorramat fyrir þeim sem aldrei hafa séð hann eða ekki þorað að smakka. Stjörnugjöfin í síðasta reitnum er einstaklingsverkefni þar sem nemendur skrá hvernig þeim líkaði maturinn. Þá má hugsa sér að matur sem fellur alls ekki í kramið fái enga stjörnu, 1 stjarna þýði sæmilegt, 2 þýði allt í lagi og 3 mjög gott.
Klippimiði 12
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvers vegna hluti þorramatsins er súr eða kæstur.
Stílabókarvinna
Nemendur vinna áfram með niðurstöðu matarkönnunarinnar og setja gagnasafnið upp í súlurit. Hvaða þorramat hafa flestir smakkað?
Hvaða mat hafa fæstir smakkað?
Umræðupunktar
Hvað er annað heiti yfir súran hval? – Rengi
Hvað er annað heiti yfir flatkökur? – Flatbrauð
Tengt efni
Um verkun hákarla á Vísindaefnum
Hákarlasafnið á Bjarnarhöfn
Heimildir
Saga daganna bls. 477-479
Þorrablót bls. 79-81
__________
VERKEFNI 13: Þorraguð
Nemendur leysa dulmálið sem samanstendur af eyrnamörkum.
Lausn
Vér elskum menntun, afl og fjör
en ánauð hverja hötum.
Vor allur starfi æ sé gjör
af inum bestu hvötum;
og sýnum jafnan dáð og dug
og drengskap manni hverjum;
en Þórs með hamri, Þórs með hug
á þrældóm öllum berjum.
Klippimiði 13
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um blót sem heiðnir stunduðu á víkingaöld og breytingarnar sem urðu við kristnitökuna. Einnig er fjallað um vinsældir þrumuguðsins Þórs þegar þorrablót voru endurvakin.
Stílabókarvinna
Fjörbaugsgarður er refsing sem fólst í því að sekir þurftu að yfirgefa Ísland innan þriggja sumra frá dómi, og dveljast erlendis í þrjú ár áður en þeir mættu snúa aftur. Refsingunni var beitt á þjóðveldisöld, hún var séríslensk og tekin upp skömmu fyrir kristintöku. Þeir sem fengu þennan dóm voru kallaðir fjörbaugsmenn. Hvað finnst þér um þessa refsingu?
Fjármörk flokkast í eyrnamörk, brennimörk, hornamörk og skúðdregin mörk. Eyrnamörk voru (og eru enn) skorin í eyru nýfæddra lamba. Einnig er skylt að nota merkiplötur í dag. Brennimörk eru brennd í horn á kindum og rétthærri en eyrnamörk ef fleiri en einn gerir tilkall til sömu kindar. Áður fyrr var stundum tálgað í horn kindar og kallaðist það hornamark. Þegar talað er um skrúðdregin mörk er átt við þrílitað fléttað ullarband sem þrætt var í gegnum eyra kindar. Þessi aðferð er ekki lengur notuð.
Á sama hátt og búfé var hverjum bónda mikilvægt voru önnur hlunnindi á jörð hans það einnig. Til voru sérstök viðarmörk til að merkja rekavið sem bar á fjörur. Ef bóndinn gat ekki sótt viðinn strax var hann merktur til að sanna eignarhaldið. Þannig voru hvalskutlar einnig merktir með viðarmörkum því hvali gat borið langan veg með skutul í sér. Þá var mikilvægt að vita hver átti aflann og veiðarfærið.
Umræðupunktar
Hvaða merki eru þetta? – Táknin kallast eyrnamörk og eru notuð til að merkja eyru nýfæddra lamba. Hvert merki táknar eyra og sýnir hvernig skorið var í það með hníf. Í dag er aðferðin enn notuð en í stað hnífa er sérstökum markatöngum beitt auk þess sem skylda er að merkja eyrun líka með merkjum úr plasti eða málmi.
Á hvert merki eitthvað ákveðið nafn? – Já, eyrnamerkin nefndust ýmsum nöfnum eftir útliti þeirra, dæmi: alheilt, andfjaðrað ,biti, blaðrifað, blaðstýft, bragð, fjöður gagnbitað og gagnfjaðrað.
Hvers vegna eru kindur merktar með þessum hætti? – Sauðfé, ásamt öðrum búfénaði, er dýrmæt eign sem nauðsynlegt er að merkja. Kindur ganga lausar yfir sumartímann og blandast öðru fé svo og þá er enn mikilvægara að átta sig á því hvaða kindur bændur eiga.
Hvað er þjófamark? – Þjófamark, öðru nafni afeyrt mark, kallast það þegar eyrað er alveg skorið af. Sauðaþjófar notuðu þetta mark því auðveldasta leiðin til að fjarlægja merki rétts eiganda er að skera eyrað í burtu.
Hvað eru örmerki? – Gæludýraeigendur geta merkt dýrin sín með örmerkjum. Þá er lítilli örflögu á stærð við hrísgrjón komið fyrir undir húð og ef týnt gæludýr finnst er hægt að skanna merkið og fá upplýsingar um skráða eigendur.
Tengt efni
Þjóðtrú um fjármörk
Eyrnarmörk og heiti
Heimildir
Saga daganna bls. 457
Þorrablót, bls. 45
Fjörbaugsgarður
Fjármörk
Hvaðan eru eyrnamörk á búfénaði?
Mynd af eyrnamörkum er unnin upp úr skjölum frá Bændasamtökum Íslands og birt með þeirra leyfi. Höfundur myndar: Þórhildur Jónsdóttir.
__________
VERKEFNI 14: Þorrablót annó 900
Nemendur setja sig í spor unglings frá landnámsöld og skrifa um dag í lífi hans.
Klippimiði 14
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er kveikja að ritunarverkefninu.
Umræðupunktar
Hvað þýðir annó? – Ártal
Hvenær er miðað við að víkingaöld hafi verið – Upphaf víkingaaldar miðast við innrás víkinga í klaustrið Lindisfarni á Englandi árið 793. Þar með hófst eitt frægasta og blóðugasta tímabil í sögu norrænna þjóða. Endalokin víkingaaldar miðast við fall Haralds harðráða Noregskonungs árið 1066.
Hvaða tímabil er landnámsöld? – Í bók sinni Íslandssaga skipti Jón J. Aðils Íslandssögunni niður í tíu tímaskeið og þar er sagt að landnámsöld hafi ríkt á árunum 870-930. Landnámsmenn komu frá Noregi og miðað er við árin 870 og 874 þegar talað er um landnám Íslands. Landnámi Íslands lauk með stofnun Alþingis árið 930.
Aukaverkefni
Hvernig lítur tímavél út sem borið getur manneskjur hundruði ára aftur í tímann? Nemendur hanna slíka græju í stílabók eða teikniblað.
Tengt efni
Anno Domini = Á því herrans ári
Íslendingasögur.is
Heimildir
Hvernig og af hverju skiptis Íslandssagan í tímabil?
Víkingaöldin á vefnum Íslendingasögur.is
Um landnámsöld á Wikipedia.org
__________
VERKEFNI 15: Þorrakönnun
Nemendur rifja upp efnið námsefnispakkans og spreyta sig á þorrakönnuninni.
Ljósmyndir
Forsíðumynd: Jón Arnar Önfjörð
Myndir af þorramat. Unnur María Sólmundsdóttir
Teikningar
Fótspor frá Freepik fyrir www.flaticon.com
Hrafnar frá Vecteezy.com
Tré frá Freepik fyrir www.flaticon.com
Kind frá Get Drawings
Hnífapör frá Freepik fyrir www.flaticon.com
Sigfús – kennsluleiðbeiningar
Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja útprentanlegt eintak, PDF, af kennsluleiðbeiningum við námsefnið um Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritara.
Sigfús – Samantekt
Til að leysa verkefnin um Sigfús Sigfússon þarf að lesa samantekt sem Héraðsskjalasafn Austfirðinga, vann í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Minjasafn Austurlands.
Efnið er birt með góðfúslegu leyfi aðstandenda og heimilt er að útbúa bekkjarsett, og nýta skjalið sem samlestur í bekk og/eða varpa því upp á töflu.
Smelltu á bláa PDF linkinn efst á síðunni til að sækja skjalið.
Sigfús – þjóðsögurenningar
Orðasafn við 12 af þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar, fylgiefni við verkefnasafn Minjasafns Austurlands. Skriftarrenningana er tilvalið að prenta í lit, plasta og nota sem fjölnota gögn. Þá má nýta á margvislegan hátt í kennslu, sjá kennsluhugmyndir hér.
Sigfús Sigfússon
Prentgögn:
- Námsefni/ritunarverkefni/veggspjöld (blár linkur hér fyrir ofan)
- Samantekt um Sigfús Sigfússon
- Skriftarrenningar
- Bréfsefni
- Útprentanlegar kennsluleiðbeiningar
Heftið samanstendur af kynningu á Sigfúsi Sigfússyni þjóðsagnaritara og 12 af þeim fjölmörgu þjóðsögum sem hann safnaði. Verkefnin eru 14, auk krossaprófs, og tilvalið að skipta þeim niður á jafnmargar kennslustundir. Í efninu er lögð sérstök áhersla á málfræði og hugtök tengd bókmenntum. Í pakkanum fylgja einnig ritunarverkefni og veggspjöld.
Námsefnið er hugsað fyrir nemendur í 4. bekk en sjaldséð orð, hugtök og orðatiltæki geta vafist fyrir aldurshópnum. Hér gefst því gott tækifæri til að skoða og efla orðaforða sérstaklega. Útbúnir hafa verið skriftarrenningar við hverja þjóðsögu sem nýta má á margvíslegan hátt í kennslu, sjá kennsluhugmyndir hér. Bréfsefni fyrir skriftarrenninga og önnur ritunar- og stílabókaverkefni má nálgast hér. Kennsluleiðbeiningar eru allar hér á síðunni en einnig má sækja þær á PDF skjali hér.
Til að leysa verkefnin um Sigfús Sigfússon þarf að lesa samantekt sem Héraðsskjalasafn Austfirðinga vann í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Minjasafn Austurlands. Heimilt er að útbúa bekkjarsett og nýta skjalið sem samlestur í bekk og/eða varpa því upp á töflu. Samantektin er birt með góðfúslegu leyfi aðstandenda og má sækja hér.
Til að leysa önnur verkefni þarf að hlusta á upplestur á þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar sem vistaðar eru á heimasíðu Minjasafns Austurlands, sjá hér.
Efnisyfirlit:
Forsíða: Um Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritara
Bls. 2-3: Sigfús Sigfússon
Bls. 4: Skrímsli elta Vopnfirðinga (Vopnafjörður)
Bls. 5: Kappróður (Mjóifjörður)
Bls. 6: Klettaganga Oddnýjar (Hróarstunga)
Bls. 7: Ég heiti Víðförull (Seyðisfjörður)
Bls. 8: Skessa undir Fardagafossi (Fardagafoss)
Bls. 9: Vígdeildarhamar (Mjóifjörður)
Bls. 10: Skessurnar í Norðfirði (Norðfjörður)
Bls. 11: Sæluhúsfylgjan í Tungudal (Tungudalur)
Bls. 12: Mannshöndin (Vellir)
Bls. 13: Upphaf Freyfaxa (Hrafnkelsdalur)
Bls. 14: Skrúðsbóndinn (Skrúður)
Bls. 15: Völvuleiði í Breiðdal (Breiðdalur)
Bls. 16: Sigfúsarprófið – krossapróf.
Sigfús Sigfússon, bls. 2
Á fyrra verkefnablaðinu eru 15 lesskilningsspurningar. Hægt er að skipta þeim niður á nemendahópinn, eða svara með nemendum á töflu. Lögð er áhersla á að nemendur noti stóran staf í upphafi málsgreina og endi þær á punkti.
Sigfúsarlundur, könnun: Nemendur spyrja hvern annan, eða gera handauppréttingu í hópnum, telja, og skrá niðurstöðuna með talnastrikum. Í síðasta reitinn er niðurstaðan skráð með tölustöfum.
Vangaveltur:
Hver er munurinn á setningu og málsgrein?
– Setning er orðasamband sem inniheldur eina sögn. Setningar geta tengst saman með samtengingum eða kommum, og ein eða fleiri setningar mynda málsgrein. Einkenni málsgreinar er að byrja alltaf á stórum staf og enda á punkti.
Hvað eru samtengingar?
– Samtengingar eru óbeygjanleg smáorð sem tengja saman orð, orðasambönd og setningar. Samtengingar flokkast í aðaltengingar og aukatengingar. Dæmi um þær eru: og, eða, en, hvorki né, …
Sigfús Sigfússon, bls. 3.
Hvenær notum við þrípunkt og gæsalappir? Nemendur skoða málsgreinar sem teknar eru upp úr lesefni og ljúka við þær. Þrípunktur gefur til kynna að orð hafi verið felld úr upprunalegum texta, og gæsalappir þýða að texti er tekinn orðréttur upp úr efni. Nemendur skoða málsgreinar úr lesefni og ljúka við þær.
Vangaveltur:
Eru allar gæsalappir eins?
– Nei, þær eru ýmist einfaldar (eitt strik) eða tvöfaldar (tvö strik) en samanstanda þó alltaf af opnunargreinarmerki og lokunargreinarmerki. Það fer meðal annars eftir tungumálum hvort þessi merki séu eins. Í íslensku er venjan að hafa opnunargreinarmerkið niðri og lokunargreinarmerkið uppi.
Skrímsli elta Vopnfirðinga (Vopnafjörður), bls. 4
Hér er unnið með bókmenntahugtakið sögusvið. Hvað er það sem gefur okkur til kynna hvert sögusviðið er? Hvað í umhverfinu s.s. fatnaður, munir, landslag, húsnæði, árstíð og tímabil varpa ljósi á það?
Nemendur finna samheiti nokkurra nafnorða í sögunni (tillaga að lausn: skepna/skrípi, útlit/ásjóna, gæðingur/hestur, maður/karl, spjör/flík, tún/engi, strompur/skorsteinn, ráð/lausn, yfirhöfn/jakki, öðru sinni/annað skipti), og skoða orðatiltæki sem koma fyrir í upplestrinum.
Kappróður (Borgarfjörður), bls. 5
Sögupersónur skiptast í aðalpersónur og aukapersónur, en hver er munurinn? Nemendur skrá svörin í stílabók eða meðfylgjandi bréfsefni.
– Aðalpersóna er sú sögupersóna sem viðburðir eða söguþráður snúast mest um. Aukapersónur gegna minna hlutverki en aðalpersónan, en eru oft notaðar til að varpa skýrara ljósi á hana og aðstæður hennar. Aukapersónur eru þó ekki síður mikilvægar fyrir söguna í heild sinni.
Sagnorð greina frá því sem sögupersónur gera, og finnast meðal annars í nútíð, þátíð og nafnhætti. Nemendur hlusta vel á upplesturinn og haka í reiti hjá sagnorðum sem þeir heyra. Neðst á verkefnablaðinu skoða nemendur sömu orð og skrá þau í nafnhætti.
Klettaganga Oddnýjar (Hróarstunga), bls. 6
Nemendur skoða samsett orð sem koma fyrir í þjóðsögunni, skrá hvaða orðflokki þau tilheyra og hvaða orð mynda þau. Neðst á verkefnablaðinu er aukaverkefni þar sem nemendur búa annars vegar til málsgreinar sem innihalda samsettu orðin, og hins vegar finna þeir 10 samsett orð til viðbótar.
Vangaveltur:
Algengt er að kvenmannsnöfn sem enda á –ý séu rangt fallbeygð. Hvað þekkja nemendur mörg nöfn sem enda á bókstafnum? Hvernig á að fallbeygja slík nöfn?
Ég heiti Víðförull (Seyðisfjörður), bls. 7
Útdráttur kallast það þegar frásögn eða saga er tekin saman í styttri útgáfu. Nemendur æfa sig á því að stytta texta, og skilja aðalatriði frá aukaatriðum. Aftast í námsefnispakkanum er að finna verkefnablað fyrir hverja þjóðsögu, og veggspjald við, sem nýta má í þessari vinnu.
Vangaveltur:
Hver er munurinn á orðunum útdráttur og úrdráttur?
– Sjá svar Vísindavefs Háskóla Íslands
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki:
– Að mæta kunnum og ókunnum
– Að vera tröll að vexti
– Að standa stuggur af einhverjum
– Að snarast framhjá
– Að brjóta upp á samtali
– Að gera eitthvað að fyrra bragði
– Að vera víðförull
– Að bera nafn með rentu
– Að gefa í skyn
– Að koma við hjá einhverjum
Skessa undir Fardagafossi (Fardagafoss), bls. 8
Nemendur hlusta á þjóðsöguna og svara hvort fullyrðingar séu sannar eða ósannar. Líklegt er að hlusta þurfi nokkrum sinnum á efnið. Bókmenntahugtakið endurtekning er skoðað og nemendur gera því skil í stílabók.
Vangaveltur:
Hvað þýðir bókmenntahugtakið endurtekning?
– Þegar skáld eða höfundur vill leggja sérstaka áherslu á hugsun eða athöfn, eða auka áhrifamátt, eru orð eða setningar í texta endurteknar. Þetta er mjög algengt stílbragð og endurtekningar geta verið margvíslegar. Tilvalið er að fletta bókinni Skólaljóð, eða öðrum ljóðabókum, og finna dæmi um endurtekningar.
Vígdeildarhamar (Mjóifjörður), bls. 9
Þjóðsagan fjallar um þræla sem struku frá húsbónda sínum og mannskæðan eltingaleik sem upphófst í kjölfarið. Til að afla sér lífsviðurværis stálu þeir frá bændum í sveitinni sem urðu fyrir búfjártjóni. Við fáum lítið að vita hvernig þrælunum leið og hlutverk nemenda er að setja sig í þeirra spor, og endurskrifa atburðinn frá sjónarhorni þrælanna. Nemendur tengja einnig saman orð og orðskýringar. Nokkur orð eru undirstrikuð en þeim raða nemendur í stafrófsröð neðst á verkefnablaðinu.
Vangaveltur:
– Af hverju verður fólk grimmt eða illa innrætt?
– Getur verið að illa hafi verið farið með þrælana?
– Telur þú það vera glæp að veiða sér til matar þegar fólk sveltur?
– Fengu þrælarnir sanngjarna meðferð?
– Hvað urðu til mörg örnefni í tengslum við þjóðsöguna? (Svar: Kiðahjalli, Þræladalur, Þrælatindur, Þinghóll, Teitatindur og Vígdeildarhamar.)
Skessurnar í Norðfirði (Norðfjörður), bls. 10
Í sögunni segir frá því hvernig landslagi er gefið nafn í tengslum við prestahvarf. Nöfn á náttúrufyrirbærum og stöðum kallast örnefni. Þau eru sérnöfn og því skrifuð með stórum upphafsstaf. Nemendur hlusta á þjóðsöguna og skoða örnefni sem þau þekkja í eigin byggð.
Norðfjarðarskessurnar er langt orð og hægt að búa til mörg ný orð úr bókstöfunum sem koma fyrir í því. Orð í orði felst í því að finna orð í orðinu án þess að færa til stafi eða víxla þeim (orð, fjarða, jarða, skessur, Norðfjarðar, …). Orð úr orði felst í því að nota bókstafina sem fyrir koma og endurraða þeim til að finna ný og jafnvel óskyld orð (roð, rass, fer, norður, …).
Vangaveltur:
Er munur á örnefni og kennileiti?
– Já, munurinn felst í því að kennileiti geta verið hlutir í umhverfinu sem við notum til að vísa til vegar, eða lýsa aðstæðum, en þó ekki merkilegri en svo að ástæða sé til að þeir fái sitt eigið nafn. Þetta gæti verið stórt tré, slóði, rústir, bílhræ eða annað drasl.
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að seyða einhvern til sín
– Að setjast niður réttum beinum
– Að vera ekki til setunnar boðið
– Að reka á land
– Að heita á einhvern/eitthvað
Áhugaverðir tenglar:
– Örnefnasjá Landmælinga Íslands
– Örnefnasjá Alta
– Örnefnasögur á mjólkurfernum
Sæluhúsfylgjan í Tungudal (Tungudalur), bls. 11
Nemendur læra hvað felst í orðinu tilvitnun og skoða hvernig gæsalappir eru notaðar í texta, sjá ennfremur verkefni 3 um Sigfús Sigfússon.
Nemendur finna nafnorð í sögunni og setja inn í töflu þar sem þeir skrá kyn og tölu þess, og bæta við það greini. Sem aukaverkefni geta nemendur unnið meira með orðasafnið og fallbeygt orðin í eintölu og fleirtölu, með og án greinis, í stílabók.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að verða dagþrota
– Að búast um
– Að eitthvað sæki að manni
– Að hrökklast upp
– Að snarast að einhverjum
– Að taka á móti (í slagsmálum)
– Að hafa einhvern undir
– Að smjúga úr greipum einhvers
– Að hníga í öngvit
– Að vera ófælinn
Mannshöndin (Vellir), bls. 12
Ytri tími tengist almanaksárinu, nemendur kynnast bókmenntahugtakinu og skoða atriði í þjóðsögunni sem gefið geta vísbendingar um ytra tíma.
Verkefnavinnan felst í því að hlusta eftir lýsingarorðum í þjóðsögunni og skrá 10 þeirra í reitaða dálkinn inni í orðasúpunni (dæmi: duglegur, efnileg, fríð, ungur, vænn, æf, viljug, heitustu, sárasta, undarlegur, máttlaus, heilt, langir, góð, …).
Því næst hanna nemendur orðasúpuna og staðsetja lýsingarorðin ýmist áfram, afturábak, upp, niður eða á ská, einn bókstaf í hvern reit. Að lokum eru auðir reitir einnig fylltir með bókstöfum.
Hugmyndir að aukaverkefnum:
– Stigbreyta lýsingarorðin, flokka eftir kyni og fallbeygja.
– Skrifa setningar þar sem lýsingarorðin koma við sögu.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að vera vel fjáreigandi
– Að vera gjafvaxta
– Að vera vel gefinn
– Að bindast heitorðum
– Að verða einhvers var
– Að koma einhverjum fyrir (einhvers staðar)
– Að fara eitthvað nauðug viljug
– Að verða hverft við
– Að hljóða upp yfir sig
– Að vera ekki mönnum sinnandi
– Að verða úti um nótt
Upphaf Freyfaxa (Hrafnkelsdalur), bls. 13
Sögusvið þjóðsögunnar um upphaf Freyfaxa er skoðað (Hrafnkelsdalur). Hvaða örnefni tengjast þjóðsögunni og verða til í kjölfar hennar? Til eru margir flokkar af ritverkum og þjóðsögur eru einn þeirra, hvernig myndi ritverk byggt á lífi nemenda flokkast?
Sigfús Sigúfsson flokkaði sögurnar sínar í marga undirflokka og finna má svörin við verkefninu í samantekt Héraðsskjalasafns Austfirðinga, Bókasafns Héraðsbúa og Minjasafns Austurlands.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að ganga sjálfala
– Að vera í látum
– Að fylgja einhverjum fast eftir
– Að vera með fyli
– Að spinnast út frá einhverju
Skrúðsbóndinn (Skrúður), bls. 14
Innri tími greinir frá því hversu langur tími líður innan sögu, frá því að hún byrjar og þar til henni lýkur. Nemendur hlusta á þjóðsöguna um Skrúðsbóndann og haka í rétt svar. Verkefnið reynir jafnframt á hlustun og ritun, þar sem nemendur skrá niður 20 orð að eigin vali meðan hlýtt er á upplesturinn. Að lokum skoða þeir stafsetningu orðanna og leiðrétta eftir atvikum.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að vera tröll að vexti
– Að þekkjast hvorki fyrr né síðar (hér á landi)
Hvað er spraka? (Svar: lúða)
Hvaða fleiri orð eru til yfir lúðu? (Svar: flyðra, heilagfiski og stórlúða)
Hvar er Skrúður? Er búið í Skrúð?
Völvuleiði í Breiðdal (Breiðdalur), bls. 15
Á tímum Sigfúsar notaði fólk fjaðurpenna og blekbyttur við skriftir, og sortulyng var notað til blekgerðar. Á Vísindavef Háskóla Íslands má sjá hvernig blek úr sortulyngi er útbúið.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að segja fyrir um eitthvað
– Að leggja eitthvað á (álögur)
– Að ráðast í eitthvað
– Að áræða eitthvað
– Að þurfa frá að hverfa
Sigfúsarprófið (Krossapróf), bls. 16
Nemendur rifja upp innihald námsefnispakkans og reyna sig við krossaprófið.
Námsefnisgerð og grafísk uppsetning:
Unnur María Sólmundsdóttir, grunnskólakennari og námsefnishöfundur.
Yfirlestur:
Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands.
Elín Sigríður Arnórsdóttir, grunnskólakennari.
Vésteinn Valgarðsson, sagnfræðingur.
Myndaskrá:
Teikningar: Sóldís Perla Ólafsdóttir, 5. bekk Breiðholtsskóla, vor 2018.
Ljósmynd af Sigfúsi Sigfússyni við skriftir: Vigfús Sigurðsson frá Egilsstöðum í Fljótsdal, mynd í eigu Ljósmyndasafns Austurlands.
Fjaðurpenni 1: moziru.com
Fjaðurpenni 2: clipartpanda.com
Þorramatur
Um námsefnið
Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum. Námsefnið Þorramatur er hugsað fyrir yngstu nemendurnar þar sem unnið er með ritun og orðaforða í gegnum þrautir og leiki. Námsefnið skiptist í GEFA – TAKA spil, skriftarrenninga, orðasúpu, tengiverkefni og A4 veggspjöld.
Ljósmyndir: Unnur María Sólmundsdóttir, Jón Önfjörð Arnarsson, Stefanía Ragnarsdóttir og Elín Elísabet Ragnarsdóttir. Sérstakar þakkir fær Fjarðarkaup fyrir að heimila myndatöku í kjötvinnslu verslunarinnar.
GEFA – TAKA
Fyrri hluti námsefnisins er borðspilið GEFA – TAKA, það má nálgast HÉR.
Orðasúpa, tengiverkefni, skriftarrenningar og A4 veggspjöld
Seinni hluti námsefnisins er ritunarverkefni þar sem nemendur finna þorramat í orðasúpu, tengja samsett orð sem slitin hafa verið í sundur, æfa sig að skrifa orð á þar til gerða skriftarrenninga og safna fleiri orðum tengdum þorranum.
Orðasúpan, tengiverkefnið og skjalið Orðasafnið mitt – þorrinn er hugsað til fjölföldunar en tilvalið er að prenta skriftarrenningana út í lit, plasta og vinna með glærupenna. Nokkuð mismunandi er eftir landshlutum hvað telst til þorramatar svo nokkrir skriftarrenningar eru auðir fyrir þá sem vilja líma þar inn myndir. Ekkert er því til fyrirstöðu að prenta heftið út í heild sinni og leggja fyrir nemendur.
Aftast í heftinu eru veggspjöld sem nýta má í margskonar vinnu s.s. innlögn á tilteknum þorramat, sem sóknarskrift, til að merkja borð, í ratleik o.fl. Smelltu á bláa linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af verkefnaheftinu, skriftarrenningunum og veggspjöldunum.