Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Listsköpun

[featured_image]
5. bekkur, listsköpun - PDF
Download is available until [expire_date]
  • Version
  • Download 67
  • File Size 14.60 MB
  • File Count 1
  • Create Date 9. september, 2019
  • Last Updated 19. mars, 2020

Listsköpun

Um námsefnið

Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum.

Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem listsköpun er skoðuð út frá lífi fólks í gamla daga. Námsefnispakkinn samanstendur af 14 verkefnablöðum og krossaprófi í lokin.

Ljósmyndir í heftinu eru frá Minjasafni Austurlands. Útsaumsmyndin sem prýðir forsíðu námsefnispakkans er veggteppi með refilsaumi eftir Aðalbjörgu Stefánsdóttur frá Lönguhlíð í Vallarheppi, nú Fljótsdalshéraði. Teikning af upphlut er eftir Freydísi Kristjánsdóttur.

Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Elín Sigríður Arnórsdóttir.

Kennsluleiðbeiningar

Verkefni 1: Refilsagan mín, ritun og teikning
Refill er veggteppi sem hengt var upp til hátíðarbrigða. Um skrautofinn dúk er að ræða með útsaumuðum myndasögum af fólki. Notaður var sérstakur refilsaumur í útsauminn en þá eru útlínur gerðar fyrst og svo fyllt upp í auða fleti með löngum sporum. Garn var litað með jurtum. Bayeux-refillinn er einn frægasti refill sögunnar, 70 metra langur og um 50 sm breiður. Hann er nokkurs konar pólitísk myndasaga um atburðina í aðdraganda orrustunnar við Hastings árið 1066. Refillinn er á heimsminjaskrá Unesco og varðveittur í Normandí, Frakklandi.

Á Íslandi er unnið að tveimur reflum: 1) Vatnsdælasögu frá 9. - 11. öld sem er ættarsaga Hofverja í Vatnsdal og einkennist af ástum, átökum og erjum. Verkefnið er hugarfóstur Jóhönnu E. Pálmadóttur handavinnukennara og unnið í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Ístex, Textílsetur Íslands á Blönduósi og félagið Landnám Ingimundar gamla. Lesa má meira um hann hér. 2) Brennu-Njálssögu sem saumuð er á 90 m langan hördúk. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari, listamaður og bókmenntafræðingur er hönnuður Njálurefilsins en tilgangurinn er fyrst og fremst sá að skapa verk sem hefur þýðingu fyrir ferðaþjónustuna og í samfélag heimamanna á Suðurlandi. Lesa má meira um hann hér.

Verkefnavinna
Nemendur skrifa sjálfsævisögu sína sem þeir setja svo upp á myndaformi. Þeir líma 4 hvít ljósritunarblöð langsum saman og mynda þannig pappírsrefil sem þeir vinna á. Til að tákna refilsauminn draga þeir útlínur fyrst upp með blýanti, skerpa þær með tússlit og fylla fletina svo af mismunandi lituðum strikum með trélitum.

Tengt efni
Um Bayeux-refilinn á Wikipedia
Um miðaldarmyndlist á RÚV

__________

Verkefni 2: Öskudagspokar, orðasúpa
Það er gömul séríslensk hefð að sauma út í litla poka, fylla þá af ösku eða steinum og hengja á hvert annað á öskudag. Í gamla daga sóttu menn í að taka ösku með sér úr kirkjum og var hún notuð til að blessa heimilið. Askan þótti búa yfir krafti, sér í lagi ef hún var blönduð með heilögu vatni. Karlmenn settu steinvölur í pokana sem þeir hengdu á konur en konur settu ösku í pokana sem þær hengdu á karla. Aðalatriðið var þó að hengja pokana á fólk án þess að það tæki eftir því.

Tilvalið er að láta öskupoka eða myndir af útsaumuðum öskupokum ganga á milli nemenda áður en verkefnavinnan hefst og leyfa þeim að velta því fyrir sér hvað þetta er, og hvaða hlutverk pokarnir hafa haft hér áður fyrr. Hugmyndum þeirra mætti safna saman og skrifa upp á töflu að gamni. Nemendur lesa svo textann sem fylgir verkefnablaðinu og finna undirstrikuðu orðin í orðasúpunni.

Heimild
Af hverju er öskudagurinn haldinn hátíðlegur?

__________

Verkefni 3: Krosssaumsmynstur, hönnun og stækkun
Mismunandi aðferðir voru notaðar við útsaum í gamla daga og auk refilsaums má nefna balderingu, glitsaum, flatsaum og aftursting. Nemendur kynnast því hvað krosssaumur er og hanna mynstur til að telja út í öskudagspoka. Þeir vinna verkefnið annars vegar beint á verkefnablaðið en gera jafnframt veggmynd með mynstrinu þar sem þeir hafa stækkað hvern reit upp. Tilvalið er að nýta pappírsafganga í verkefnið og efna niður í pappírsskera og hér gefst einnig tækifæri að fara í samstarf með kennurum í textílmennt.

__________

Verkefni 4: Jurtalitun, upplýsingaleit og teikning
Jurtalitun hefur verið stunduð hér á landi frá upphafi byggðar en þó mismikið eftir tímabilum. Litunarferlið hefur lítið breyst í gegnum aldirnar en jurtalitun gengur út á að sjóða garn eða band í legi sem unninn hefur verið úr nýjum eða þurrkuðum jurtum. Til að fá skæra liti er notast við nýtíndar jurtir en þurrkaðar jurtir gefa daufari tóna. Misjafnt er eftir jurtum hvaða liti þær gefa og á verkefnablaðinu má sjá 9 mismunandi dæmi. Verkefni nemenda er að leita að jurtunum á netinu og teikna sýnishorn af þeim í reitina. Einnig má prenta myndir af jurtunum út og líma í reitina.

Tengt efni
Um jurtalitun á Wikipedia
Plöntulykill
Flóra Íslands

Heimildir
Jurtalitun
Umhverfisvæn jurtalitun

__________

Verkefni 5: Öræfarósin, litaþraut
Öræfarósin er gamalt þekkt mynstur sem fólk setti m.a. á íleppa en það voru innlegg sem sett voru í skó úr roði og skinni. Um er að ræða þríbrotna áttablaða rós sem kennd er við Öræfin. Nemendur velja 5 jurtaliti til að nota við lausn þrautarinnar. Litina skrá þeir á línurnar fyrir framan leitarlyklana (oddatölur, sléttar tölur, samhljóðar, sérhljóðar og greinarmerki) og lita jafnframt sýnishorn í kassana. Þeir nota þessa liti til að finna lausnina. Vangaveltur: Hvað er hægt að finna margar spegilása í þessari mynd?

Þrautin var unnin upp úr ljósmynd af Öræfrós af heimasíðu hannyrðaverslunarinnar Alvörubúðin.

Heimildir
Ljósmynd

__________

Verkefni 6: Litahjólið, fróðleikur og litun
Áður fyrr takmarkaðist litasamsetning handverks við liti sem fólk gat unnið úr gjöfum náttúrunnar. Í dag er hinsvegar hægt að að vinna með geysimikið úrval af litum sem búið er að setja upp í kerfi sem samanstendur af frumlitunum (gulur, rauður og blár), annars stigs litablöndum sem eru blanda af frumlitunum (appelsínugult, fjólublátt og grænt) og þriðja stigs litablöndum þar sem litablöndurnar blandast saman við frumlitina ásamt því sem svart og hvítt koma til sögunnar. Litahjólið var sett saman af Isaac Newton og einnig kallað litahringurinn.

Verkefni nemenda felst í því að fylla litina á rétta staði í litahjólinu. 1) Hver fleygur er litaður með einum af 12 litum hjólsins í þessari röð: rauður, vínrauður, fjólublár, ljósfjólublár, blár, dökkgrænn, grænn, ljósgrænn, gulur, ljósappelsínugulur, appelsínugulur, dökkappelsínugulur.  2) Eftir því sem ytra kemur í litahjólið hefur svörtum lit verið blandað saman við frumliti og litablöndur. Hver fleygur er þrískiptur og nú taka nemendur svartan trélit og lita laust yfir ystu reiti hringsins til að dekkja litina. 3) Eftir því sem innar kemur í litahjólið hefur hvítum lit verið blandað saman við frumliti og litablöndur. Nemendur taka nú hvítan trélit og lita yfir innstu reitina í fleygunum.

Litir eru flokkaðir í kalda og heita liti. Nemendur taka annars vegar köldu litina saman (blár, græn, ...) og hins vegar heitu litina (gulur, appelsínugulur, rauður, ...) saman og skrá á línurnar.

Heimildir
Litahjólið
Litahringurinn

__________

Verkefni 7: Tóvinna, orðaforði og ritun
Listsköpun krafðist þess að fólk kynni meðal annars að kemba ull og spinna. Nemendur skoða bæði orðalista og sagnorð sem tengjast tóvinnu, og nota þau til að leita sér heimilda og lýsa ullarvinnu í gamla daga. Verkefnið krefst þess að nemendur hafi aðgengi að netinu og/eða uppflettigögnum. Á heimasíðu Sauðfjársetursins á Ströndum má finna margvíslegar upplýsingar um sauðkindina og myndir af tvinnslutækjunum má finna á menningarsögulega gagnasafninu Sarpur.is.

Aukaverkefni
Raða orðunum í stafrófsröð í stílabók.
Orðskýringar, skrá til hvers áhöldin voru notuð í tóvinnunni.

Heimildir
Fróðleikskista Sauðfjársetursins

__________

Verkefni 8: Upphlutur, orðaforði, tengja saman
Íslenskir þjóðbúningar eru afskaplega fallegir og mikið handverk. Á vefnum buningurinn.is má finna orðskýringar, myndir og fróðleik um faldbúning, upphlut, peysuföt, kyrtla og skautbúninga. Í verkefninu eiga nemendur annars vegar að tengja orð inn á myndir af 20. aldar upphlut en orðin og orðskýringarnar má finna á ofangreindri vefsíðu, og hins vegar að hanna nýjan upphlut í takt við tíðaranda 21. aldarinnar. Vangaveltur: Hvaða efniðviður gæti best táknað 21. öldina? Plast? Gler? Málmur? Gerviefni? Gallabuxnaefni?

Teikningin er eftir Freydísi Kristjánsdóttur, sjá lausn:

Aukaverkefni, könnun:
Hversu margir hafa prófað að fara í íslenska þjóðbúning?
Hversu margir hafa dansað íslensku þjóðdansana?

__________

Verkefni 9: Mynstur í safnmunum, ritun og teikning
Auk þess að sauma í efni skáru hagleiksmenn og konur mynstur út í við, horn og bein. Nemendur ganga um safnið í leit að slíkum gripum og velja 3 listmuni til að vinna meira með. Þeir teikna mynstrin, eða hluta þeirra, í þartilgerða reiti á verkefnablaðinu ásamt því að greina frá hlutunum sjálfum og notkun þeirra.

Aukaverkefni í stílabók
Nemendur velja einn af hlutunum í verkefnablaðinu og lýsa honum nánar. Þeir greina frá efninu sem notað var í hlutinn (timbur, bein, horn, ...) og leita eftir línum og formum í mynstrinu. Er þessi hlutur enn í notkun eða hefur annar hlutur úr öðru efni eða kannski raftæki leyst hann af? Hversu stór er hluturinn? Hvernig er hann viðkomu og hvaða lýsingarorð lýsa honum best (harður, hrúfur, hvass, kaldur, grófur, ...)? Nemendur setja sig í jafnframt í rannsóknargír og reyna að átta sig eiganda hlutarins. Hver var hann? Hvar bjó hann? Hvernig aðstæður bjó hann við? Hvernig eignaðist viðkomandi hlutinn? Bjó hann til hlutinn sjálfur eða var þetta gjöf? Hvernig endaði þessi hlutur á Minjasafni Austurlands?

__________

Verkefni 10: Mynsturskortið, hönnun og teikning
Nemendur setja sig í spor landnámsmanns sem áskotnast rekaviður og hyggst nota hann til að útbúa kistil með fallegu mynstri. Áður en listsköpun hefst þarf að hanna, hugsa, spekúlera og spá hvernig kistillinn á vera og hvernig mynstur er fallegast að skreyta hann með. Nemendur skoða mynstur í gömlum listmunum og á netinu. Þeir hanna sitt eigið mynsturskort út frá fyrirmælum hvers reitar.

Aukaverkefni
Nemendur hanna kistilinn á hvítan pappír og nota mynstrin af mynsturskortinu til að skreyta hann. Verkefnið mætti taka lengra og gera kistil í fullri stærð úr bylgjupappa eða jafnvel vinna kistil úr tré í samstarfi við kennara í hönnun og smíði.

__________

VERKEFNI 11: Gömul áhöld og verkfæri, orðaforði og ritun
Margskonar áhöld og verkfæri voru notuð við listsköpun, smíðar og vinnu í gamla daga. Sum þessara áhalda eru enn notuð og önnur hafa verið leyst af hólmi með raftækjum. Nemendur skoða áhöldin sem til eru á Minjasafni Austurlands og leysa svo myndaþrautina þar sem þeir þurfa að átta sig á því hvaða verkfæri um ræðir þótt aðeins sjái hluti þess. Hér fyrir neðan má sjá myndir af margvíslegum verkfærum sem finna má á vefnum Sarpur.is.

Hefill 
Bakkasög
Hamar
Kjulla
Útskurðarjárn 1
Útskurðarjárn 2
Útskurðarjárn 3
Rennijárn
Hefilbekkur
Rennibekkur
Stingsög
Bogasög
Þjöl 1
Þjöl 2
Þjöl 3
Tommustokkur
Bor
Borsveif
Bor
Snarbor
Þvinga 1
Skíðapressa (þvinga)
Nagli
Bátanaglar
Skaröxi
Öxi
Torfljár
Hnífur
Tálguhnífur

Loks skrifa nemendur orðasafnið upp í stafrófsröð í stílabók, bæta greini við orðin, fallbeygja í eintölu og fleirtölu, flokka eftir kyni og skrifa setningu sem lýsir  notkun hvers og eins áhalds og verkfæri.

__________

VERKEFNI 12: Laufabrauðshönnun, hönnun og vinna með hnit og hnitakerfi
Laufabrauðið er þjóðlegur matur og fjölskyldur koma gjarnan saman í jólaundirbúningnum til að skera út margvísleg listaverk í þessar þunnu, kringlóttu, stökku hveitikökur. Laufabrauð er einnig vinsælt á þorranum. Bæði er skorið í laufabrauð með oddhvössum hnífum en einnig eru til sérstök laufabrauðsjárn fyrir útskurðinn en hvort heldur sem er má oft sjá hin fallegustu listamynstur. Nemendur nota grunnform, línur og 90° snúning til að hanna laufabrauðsmynstur inn í hnitakerfi. Að hönnun loknu teikna þeir laufabrauðsmynstrið aftur upp í reikningsbók, setja tölurnar inn í hnitakerfið og skrá hnit mynstursins.

Tengt efni
Jólahald í gamla daga, námsefni
Þorramatur, Gefa-Taka námsspil
Þorrinn, námsefni

__________

VERKEFNI 13: Málshættir tengdir listsköpun
Tungumál eru full af orðatiltækjum og málsháttum sem rekja má til handverks, listsköpunar og vinnu í gamla daga. Nemendur skoða sex málshætti, túlka þýðingu þeirra með eigin orðum og skrá hvort þeir tengjast tóvinnu, smíðavinnu eða járnsmíði. Tilvalið er að safna fleiri málsháttum og orðatiltækjum saman í stílabók eða upp á töflu.

Tengt efni
Tilvitnun.is
Málshættir í stafrófsröð

__________

VERKEFNI 14: Handverksfólkið í sveitinni, rökþraut
Sjálfsþurftarbúskapur einkenndi líf fólks í gamla daga en það þýðir að fólk hafi þurft að verða sér úti um flestar nauðsynjar sjálft. Hver og einn þurfti að draga björg í bú, og efniviður og aðföng í listmunum gátu verið margskonar s.s. leður hrossahár, bein, horn, roð, rekaviður, steinn, ull og jurtir. Neyðin kennir naktri konu að spinna segir máltækið og hagleiksmenn og -konur fyrri alda hafa þurft að nýta allt sem til féll við listsköpun sína. En skyldu fólkið hafa haldið markað og skipst á hlutum? Handverksfólkið í verkefninu gerði það alla vega en hlutverk nemenda er að fylgja vísbendingum og beita rökhugsun til að finna út hver gerði hvað, hvar fólkið bjó og úr hvaða efnivið það vann sín listaverk.

Lausn
Guðrún er frá Saurbæ og notar jurtir til að lita öskudagspoka sem hún saumar.
Jón er frá Ásgarði og gerir smjörhnífa úr rekavið.
Sigríður er frá Bjarnastöðum og prjónar íleppa úr ull.
Sveinn kemur frá Kirkjubóli og býr til lýsislampa úr steinum.
Þorlákur er frá Miðhúsum tálgar spóna úr hreindýrahornum.

__________

VERKEFNI 15: Handverksprófið, námsmat
Nemendur rifja upp innihald heftisins og svara fjölvalsspurningum um handverk og listsköpun í gamla daga.

Comments are Closed