Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Vinnubókastrimlar

now browsing by tag

 
 

Stafaröðin

Verkefnið er á allan hátt sambærilegt við stafrófsverkefnið Frá A-Ö, sjá kennsluleiðbeiningar, en hér reynir á nemendur að raða stafrófinu rétt áður en frekari vinna hefst.

Nemendur geta annars vegar þjálfað skrift og skrifað bókstafina í reitina áður en unnið er með verkefnablöðin, og hins vegar þjálfað fínhreyfingar með meðfylgjandi klippiverkefni, klippt stafina út, raðað miðunum á rétta staði og límt á verkefnablaðið. Tilvalið er að líma verkefnablöðin í heila opnu í stílabók.

Klippiverkefnablöðin má einnig ljósrita í stærri eintökum (A3) og nota í frekari stafrófsvinnu s.s. minnisleik, veiðimann, flokka í sérhljóða og samhljóða, …

Stafrófið frá A-Ö

Hægt er að vinna með stafrófsblöðin á marga mismunandi vegu en gaman er að skoða stafrófið einnig út frá sérhljóðum og samhljóðum. Þá er gott að byrja á því að lita sérhljóðana rauða og samhljóðana græna áður en klippt er. Þá má leika sér að því að skoða sérhljóða og samhljóða enn betur, og lita granna sérhljóða ljósrauða og breiða sérhljóða dökkrauða, einfalda samhljóða ljósgræna (c, ð, h, j, q, v, w, x, z, þ) og þá samhljóða sem geta staðið tveir eins saman (tvöfaldir) dökkgræna (bb, dd, ff, gg, kk, ll, mm, nn, pp, rr, ss, tt).

Í fyrirsögn fyrra verkefnablaðsins stendur að einn bókstafur (ð) geti aldrei staðið fremst í íslensku orði og nemendur lita þann reit gulan til helminga. Á seinna verkefnablaðinu stendur að sama skapi að Íslendingar hafi hætt að nota bókstaf (z) árið 1973 og að þann reit skuli lita bláan til helminga. Þetta er gert svo hægt sé að lita hinn helminginn grænan líkt og aðra samhljóða. Að öðru leyti má vinna með verkefnablaðið á eftirfarandi hátt sem dæmi:

Nemendur klippa verkefnablaðið út frá fyrirmælum, líma í opnu í stílabók og…

 • skrifa orð/setningar/málshætti/orðatiltæki að eigin vali sem byrja á bókstöfum stafrófsins, sjá einnig verkefnaheftið Málshættir í stafrófsröð.
 • finna orð í tímaritum sem byrja á stöfum stafrófsins, klippa þau út og líma undir flipana.
 • skoða stafrófið út frá orðflokkunum og finna sérnöfn, nafnorð, lýsingarorð eða sagnorð í texta sem jafnvel er unnið með í öðrum námsgreinum. Dæmi:
  • sögupersónur í bókum
  • fjöll á landakorti
  • nafnorð/sagnorð/lýsingarorð í yndislestrarbók
 • finna orð á öðrum tungumálum (ensku, dönsku eða móðurmálinu fyrir tvítyngd börn) og skrá undir flipana.

Stafrófsverkefnablaðið má nota í hvaða verkefnum sem er þegar unnið er með texta, orðflokka eða viðfangsefni. Einnig má búa til sérstakt safn í stílabók með orðum sem byrja á og/eða innihalda bókstafinn Z/z, bæði í dag (nöfn) og áður en breytingarnar urðu gerðar árið 1973. Sjá einnig verkefnaheftið Stafrófsbókin.

Rímorð – karlrím

Rímorð flokkast meðal annars eftir atkvæðunum sem þau innihalda og eins atkvæðis rímorð nefnist karlrím. Nemendur lyfta flipunum upp og skrifa rímorðin í stílabókina. Verkefnið er tvíþætt, annars vegar að finna rímorðið og skrá það, og hins vegar að skrá orðflokkinn (skammstöfun) í svigann aftan við orðið. Einnig má skrá orðflokk orðsins sem fundið er og setja hann innan sviga fyrir aftan orðið í stílabókinni.

Umræðupunktar:

 • Geta orð í ólíkum orðflokkum rímað saman?
 • Hvaða fleiri tegundir af rími er til?
 • Hvernig eru sagnorð, nafnorð og lýsingarorð skammstöfuð?

Rímorð – kvenrím

Rímorð flokkast meðal annars eftir atkvæðunum sem þau innihalda og tveggja atkvæða rímorð nefnist kvenrím. Nemendur lyfta flipunum upp og skrifa rímorðin í stílabókina. Verkefnið er tvíþætt, annars vegar að finna rímorðið og skrá það, og hins vegar að skrá orðflokkinn (skammstöfun) í svigann aftan við orðið. Einnig má skrá orðflokk orðsins sem fundið er og setja hann innan sviga fyrir aftan orðið í stílabókinni.

Umræðupunktar:

 • Geta orð í ólíkum orðflokkum rímað saman?
 • Hvaða fleiri tegundir af rími er til?
 • Hvernig eru sagnorð, nafnorð og lýsingarorð skammstöfuð?

Andheiti – blönduð orð 2

Nemendur lyfta flipunum upp og skrifa andheiti orðanna í stílabókina.

Andheiti – Blönduð orð 1

Nemendur lyfta flipunum upp og skrifa andheiti orðanna í stílabókina.

Lýsingarorð – Litir í náttúrunni

Nemendur fletta flipunum upp og skrifa niður þann lit sem þeim finnst passa við náttúrufyrirbærin. Tilvalið er að fletta landabréfabókum eða vafra um á netinu og skoða hvaða liti við sjáum almennt í náttúrunni. Hér gefst gott tækifæri til að rifja upp nafnorðin og samspil nafnorða og lýsingarorða. Lýsingarorð standa með nafnorðum og geta jafnframt fallbeygst eins og þau.

Aukaverkefni: Hægt er að nota verkefnablaðið í margvísleg aukaverkefni. Nemendur geta stigbreytt lýsingarorðunum, fallbeygt þau og raðað í stafrófsröð. Einnig má nota nafnorðin sem standa á strimlunum í sama tilliti og strika undir greininn. Einnig mætti lita flipana í sömu litum og valdir hafa verið (skrifa gul undir flipann með sólinni og sömuleiðis að lita flipann gulan).

 

Sagnorð – dýrahljóðin

Nemendur lyfta flipunum og skrifa sagnorð sem lýsa hljóðum dýranna. Hægt er að skrifa eingöngu sagnorðin sjálf eða nota tækifærið fyrir þá sem eru lengra komnir og skrifa heilar setningar. Smelltu á bláa linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af verkefninu.

Lausn: svínið hrín, kýrin baular, haninn galar, björninn rymur, mávurinn gargar, krumminn krunkar, hundurinn geltir, þrösturinn syngur, kisan mjálmar, músin tístir, kindin jarmar, fíllinn öskrar, býflugan suðar, froskurinn kvakar, dúfan kurrar, asninn hrín, selurinn gólar, úlfurinn spangólar, álftin kvakar og ljónið öskrar.

Aukaverkefni 1: Strika undir greininn í nafnorðunum með svörtum trélit.

Aukaverkefni 2: Lita reiti með karlkynsnafnorðum græna, reiti með kvenkynsnafnorðum appelsínugula og reiti með hvorugkynsnafnorðum gula.

Aukaverkefni 3: Gefa dýrunum nafn og skrá sérnöfnin á innanverða flipana.

Nafnorð – skólastofan

Nemendur lyfta flipunum og skrifa niður fleirtölumynd nafnorðanna í stílabókina. Hægt er að skrifa eingöngu orðin sjálf, eða nota tækifærið fyrir þá sem eru lengra komnir og skrifa setningar sem innihalda fleirtölumyndirnar. Eru þetta sérnöfn eða samnöfn? Hvernig þekkjum við sérnöfn og samnöfn í sundur? Smelltu á bláa linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af verkefninu.

Nafnorð – kyn

Nemendur lyfta flipunum og skrifa niður nafnorð í því kyni sem stendur á þeim. Hér er gott tækifæri til að leggja inn muninn á sérnöfnum og samnöfnum. Eru til sérnöfn í hvorugkyni? Smelltu á bláa linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af verkefninu.