Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Þorrinn

now browsing by tag

 
 

Þorrinn

Um námsefnið

Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum.

Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem þorrinn er skoðaður út frá lífi fólks í gamla daga. Einnig má benda á námsefnið Þorramatur en þar má finna fleiri verkefni, ritunaræfingar og veggspjöld með þorramat. Námsefnið er að stórum hluta unnið upp úr heimildum í bókum Árna Björnssonar, Saga daganna, bls. 433-481og Þorrablót.

Ljósmynd á forsíðu: Jón Arnarsson Önfjörð. Aðrar ljósmyndir: Unnur María Sólmundsdóttir. Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Elín Sigríður Arnórsdóttir. Mynd af eyrnamörkum er unnin upp úr skjölum frá Bændasamtökum Íslands og birt með þeirra leyfi. Höfundur teikningar er Þórhildur Jónsdóttir.

Kennsluleiðbeiningar

Orðið þorrablót gefur til kynna að athöfnin sé ævaforn en þótt heimildir bendi til þess að hlé hafi orðið á þorrablótum í nokkrar aldir er ljóst að til var mannfagnaður eða samkomuhald með þessi nafni fyrir daga kristinsdóms á Íslandi. Bækur Árna Björnsson eru mjög fróðlegur og góður undirbúningur fyrir kennsluna. Í þeim kemur meðal annars fram að þorrablót eins og við þekkjum þau í dag hafi verið endurvakin á 17. öld þótt ýmsir nýir siðir hafi litið dagsins ljós á undanförnum áratugum.

Námsefnið er sett fram með hætti að nemendur fá miða til að klippa út og líma á hverja verkefnasíðu ásamt því að leysa fjölbreytt verkefni. Á klippimiðunum eru oftar en ekki upplýsingar sem varpa skýrara ljósi á viðfangsefnið hverju sinni, en gert er ráð fyrir að nemendur glími aðeins við verkefnin (mismikið þó) áður en þeir fá miðana afhenta. Með hverju viðfangsefni fylgja umræðupunktar og ábendingar um áhugavert eða tengt efni á vef.

__________

VERKEFNI 1: Þorrakoma
Nemendur nota hnitakerfið til að leysa dulmálið.

Lausn
Þorri var fjórði mánuður vetrar að forníslensku tímatali. Við upphaf hans taldist vetur hálfnaður. Mánuðurinn hófst á föstudegi og í dag fögnum við þorrakomu á föstudegi vikuna 19.-25. janúar. Þann dag köllum við bóndadag.

Klippimiði 1
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á honum er fróðleiksmolar um nafngiftir Orkneyinga og tengsl þeirra við fornu mánaðaheitin þorri og góa.

Aukaverkefni
Litaðu sérhljóðana í hnitakerfinu rauða og samhljóðana græna. Gerðu hring utan um broddstafi.

Aukaverkefni
Til eru mörg kvæði tengd þorranum og flest voru samin á Austurlandi á 17., 18. og 19. öld. Þorri hefur verið mönnum hugleikinn á þessum tíma og margar lýsingar til á honum. Þorra er sem dæmi lýst sem:
1) stórskornum öldungi með hrímgrátt skegg
2) manni konunglegum ásýndum
3) ábúðarmiklum fornkappa
4) förumanni og klakadröngli
5) glæsilega búnum víkingi
6) verndara bænda gegn ríkismönnum
7) eftirlitsmanni sem hafa vill gætur á heyjaforða bænda og leiðbeina þeim um búskapinn.
Túlkaðu þína útgáfu af þorranum með teikningu. Hver var hann og hvernig leit hann út að þínu mati?

Umræðupunktar
Hvað er líkt með nöfnum forfeðra Þorra í Orkneyingasögu? – Kári, Frosti og Snær eru allt nöfn sem hafa tilvísun í veðurfar. Skyldi það vera tilviljun?
Heldur þú að þorrinn og þorrablótin séu komin frá Þorra Snæssyni?
Hvað hétu vikudagarnir áður fyrr? – Sunnudagur, mánadagur, týsdagur, óðinsdagur, þórsdagur, frjádagur og þvottdagur/laugardagur.

Tengt efni
Orðasúpur og -veggir með vind- og snjóorðum.

Heimildir
Saga daganna, bls. 433-434.
Þorrablót, bls. 8-12.
Þorrablót, Árnastofnun
Þorri á Wikipedia

__________

VERKEFNI 2: Þorraþræll
Flestir kannast við lagið Þorraþræll og margir grunnskólanemendur hafa lært ljóðið utan að. Tilvalið er að syngja það saman til upprifjunar en verkefnið gengur þó út á að hlusta á rokkaðri útgáfu hljómsveitarinnar Alsælu af disknum Rock from the Cold Seas frá árinu 1999. Um nútímalega útfærslu að ræða sem skírskotar til tíðarandans sem ljóðið fjallar um. Vindgnauð í bland við drungalega tóna rafmagnsgítars, ásamt barlómi bóndans í nýju viðlagi, fangar stemninguna og gefur þeim sem alist hafa upp við þægindi nútímans innlit í aðstæður fólks fyrr á öldum. Í lokin má heyra skemmtilegar andstæður þegar hljómsveitin endar flutninginn á stefi úr laginu Í sól og sumaryl eftir Gylfa Ægisson. Það mætti túlka sem loforð um betri tíð fyrir þá sem þreyja þorrann og halda harðindin út. Fyrir áhugasama má svo hlusta á öllu hefðbundnari flutning á Þorraþræl með Þjóðlagasveitinni Þulu.

Klippimiði 2
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar má finna afturlit til fortíðar með hliðsjón af innihaldi ljóðsins Þorraþræll eftir Kristján Jónsson, fjallaskáld. Vangaveltum er varpað fram hvort hinn eiginlegi þorraþræll hafi kannski verið Íslendingurinn sem þrælaði alla ævi til að eiga í sig og á.

Umræðupunktar
Hvað þýðir orðatiltækið að þreyja þorrann? – Janúar er oft kaldur og erfiður, og í gamla daga var farið að minnka í matarbúri landsmanna á þessum tíma. Menn gerðu allt sem þeir gátu til að þrauka vetrarmánuðina. Að þreyja þorrann þýðir að halda erfiðleikana út.
Hvernig væri hægt að nota þetta orðatiltæki í þægindum nútímans? – Hvaða tímabil finnst nemendum erfitt? Prófatíminn? Sumarfríið án vinanna? Æfingabúðir? Síðustu dagar hvers mánaðar þegar pyngjan er farin að léttast?
Hvað er átt við með orðinu þorraþræll? – Í bókinni Saga daganna eftir Árna Björnsson er minnst á orðið þorraþræl og heimildir þess efnis að svo hafi síðasti dagur þorra verið nefndur. Sá dagur var einnig nefndur feginsdagur enda harðasti mánuður vetrar loks að baki og margir bændur eflaust fegnir. Á Austurlandi var þorraþræll tileinkaður piparsveinum, fráskildum mönnum, mönnum í óvígðri sambúð og þeim sem eignast höfðu börn utan hjónabands. Hvernig ætli standi á því?
Var lífið þrældómur í gamla daga? En í dag? – Hvaða skilning leggja grunnskólanemendur á 21. öldinni í orðið þrældómur? Hvernig er lífið í dag samanborið við líf fólks fyrir 300 árum?

Tengt efni
Hvað merkir það að þreyja þorra og hvaðan er það komið?

Heimildir
Saga daganna, bls. 477
Þorrablót, bls. 31-32

__________

VERKEFNI 3: Þorrasagnir
Nemendur skoða (sum sjaldséð) sagnorð sem meðal annars koma fyrir í ljóðinu Þorraþræll. Gefinn er upp nafnháttur sagnorðanna og nemendur finna bæði nútíðar- og þátíðarmyndir þeirra. Á vefnum Beygingarmynd íslensk nútímamáls (BÍN) má slá inn sagnorðunum og skoða þau í nútíð og þátíð, nafnhætti, framsöguhætti, viðtengingarhætti og boðhætti.

Klippimiði 3
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar má sjá vangaveltur um mikilvægi þess að efla orðaforða sinn þegar til fortíðar og framtíðar er litið.

Stílabókarvinna
Hvað þýða sagnorðin? Nemendur láta reyna á skilning sinn, búa til setningar og setja sagnorðin í samhengi við eigin reynsluheim.

Aukaverkefni
Hvaða sagnorð gætu flokkast sem fótboltasagnorð? Hvaða sagnorð tengjast eldhússtörfum?

__________

VERKEFNI 4: Þorravísur
Nemendur klippa út renninga í fylgigögnum (Klippigögn – ljóð) og raða þeim í reitina eftir því sem þeir telja að kvæði Sveins Jónssonar hafi litið út. Reitirnir með tölustöfunum eru fyrir verkefni 9, Þorrasiðir 2. Athygli er vakin á því að orðið ég er ýmist skrifað með é eða e í bókum Árna Björnssonar. Í báðum heimildum er þess getið að svona hafi kvæðið verið ritað í nótnahandriti Sveins sjálfs. Til að rugla ekki nemendur er sú leið hins vegar farin hér að nota eingöngu orðið ég. Þegar nemendur telja sig vera komna með lausnina er tilvalið að biðja nokkra sjálfboðaliða að lesa kvæðið upp fyrir hópinn áður en renningar eru límdir niður. Að lokum sýnir kennari rétta uppröðun og nemendur lagfæra og líma strimlana í þeirri röð á verkefnablaðið.

Lausn
Nú er ég kominn náungana að finna,
nú er best þeir vari sig,
mín því élin mögnuð sjaldnast linna,
margir bændur þekkja mig.
Ég er Þorri, þrekið tröll,
og þekki jarðarfylgsni öll.
Ég hef víða um foldu farið,
flestra dyrum hart á barið,
þó með þéttum gust.
Ég er tími, ég við glími
aldirnar og ár
og samt ei verð ég sár
og samt ei verð ég sár.
Ég er vindur, ég er grimmd
og ólguþrungin hrönn
og hrími hrötuð fönn
og hrími hrötuð fönn.
Já fönn.

Orðskýringar
Hvað þýða feitletruðu orðin? Bekkurinn leysir verkefnið í sameiningu og nemendur skrá svörin á línurnar.

Klippimiði 4
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar segir frá því hvernig maður var manns gaman á samkomum áður fyrr – og er enn í dag. Þorri var oft persónugerður og honum lýst sem trölli, förukarli, vetrarguði, vetrarvætti, fornkappa, tilsjónarmanni og jafnvel verndara bænda. Hvernig stendur á því að þorrinn hefur fengið svona mörg hlutverk í hugum fólks?

Aukaverkefni
Hvað eru margar ljóðlínur í kvæði Sveins?
Eru dæmi um endurtekningar í kvæðinu? Rökstuddu.
Finndu rímorðin í kvæðinu. Er þetta kvenrím, karlrím eða veggjað rím?
Er bragfræðireglum um höfuðstafi og stuðla fylgt? Rökstuddu.

Tengt efni
Bragi, orðfræðivefur Árnastofnunar
Um bragfræði á Wikipedia

Heimildir
Saga daganna, bls. 469.
Þorrablót, bls. 12-13, 62
Þorrablót á Wikipedia

__________

VERKEFNI 5: Þorraglíman
Nemendur glíma við ljóðagerð með hliðsjón af fræðslunni sem þeir hafa aflað sér um þorrablót. Hver ljóðlína byrjar á ákveðnum upphafsstaf sem gefinn er og saman mynda upphafsstafirnir ÞORRABLÓT þegar lesið er lóðrétt. Tilgangurinn er að skoða hvað þorrinn þýðir fyrir yngri kynslóðina. Hvað er gert í skólanum á þessum árstíma? Er þorramaturinn í skólamötuneytinu tilefni til þess að fagna gamla tímanum eða vekur hann upp aðrar tilfinningar hjá aldurshópnum? Eru einhverjar fjölskylduhefðir í gangi sem nemendur tengja við þorrann? Hvað finnst börnum almennt um þessa gömlu hefð?

Mögulega færi betur á því að leggja ljóðaverkefnið fyrir í lok yfirferðar námsefnispakkans þar sem áhugaverðar upplýsingar um þorratungl, þorraguð, þorramat og þorrasiði eru handan við hornið.

Klippimiði 5
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Þar eru spurningar sem vakið gætu skáldagyðjuna sem dvelur innra með þeim. Komið er inn á muninn á hefðbundnu og óhefðbundnu ljóði og nemendur hvattir til að fara eigin leiðir í sinni þorraglímu.

Tengt efni
Rímorðabók
Ljóð.is

Heimildir
Hvað er ljóð?

__________

VERKEFNI 6: Þorramánuður
Nemendur finna gömlu og nýju mánaðaheitin í orðasúpunni. Þau eru ýmist falin upp, niður, áfram, afturábak eða á ská.

Klippimiði 6
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um breytingar sem urðu á mánaðaheitum þegar latneska tímatalið var tekið upp.

Stílabókarvinna
Nemendur skipta blaðsíðu í 3 dálka. Í fyrsta dálkinn skrá þeir nöfn allra bekkjarsystkina sinna. Í miðjudálkinn skrá þeir fæðingardag þeirra samkvæmt tímatalinu sem við notum í dag. Í síðasta dálkinn skrá nemendur mánuðina sem bekkjarsystkinin fæddust í miðað við gömlu heitin. Nauðsynlegar upplýsingar má finna í greininni Hvaða mánaðanöfn voru notuð samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og yfir hvaða tímabil náðu þau? Hægt er að prenta greinina út af Vísindavefnum og fjölfalda fyrir bekkinn.

Tengt efni
Hvað þýðir mánaðarheitið þorri og hversu gamall siður eru þorrablótin?
Gömlu íslensku mánaðaheitin og gregoríanska tímatalið

Heimildir
Saga daganna, bls. 17-18, 433
Hvaðan koma nöfnin á mánuðunum?
Hvers vegna notum við ekki lengur gömlu íslensku nöfnin á mánuðunum og hvenær var því hætt?
Hvaða mánaðanöfn voru notuð samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og yfir hvaða tímabil náðu þau?
Hvað merkir mánaðarheitið mörsugur?

__________

VERKEFNI 7: Þorratungl
Nemendur gefa hugmyndarfluginu lausan tauminn og skrá allt það sem þeim dettur í hug að tengist orðinu þorratungl.

Stílabókarvinna
Nemendur skipta blaðsíðu í tvo dálka og skrá orð sem byrja á tungl- í annan (tunglfar, tunglskuggi, …), og orð sem enda á -tungl í hinn (himintungl, gervitungl, …). Hér mætti setja stærri orðaskjóðu upp á töflu og vinna meira með safnið t.d.  raða í stafrófsröð, vinna með orðskýringar, draga miða með orðinu og fjalla um það í púlti og fleira.

Tunglið
Hjátrú sem tengist fullu tungli:
– Menn breytast í varúlfa.
Frjósemi eykst með dönsum undir fullu tungli.
Vikudagur sem tengist tungli:
– Mánudagur var áður kallaur mánadagur.
Dæmi um tunglgyðjur:
Lúna, gyðja Rómverja.
Luna á Wikipedia.
Selena, mánagyðja Grikkja.
Mama Killa, gyðja Inka.
Chandra, gyðja Hindúa.
Heng O, gyðja Kínverja.
Nokkur lög sem tengjast tunglinu:
Tunglið, tunglið taktu mig.
Tunglið skín á himni háa.
Þula um tunglið.
Álfareiðin.
Annað sem tengist tunglinu:
Sagan um karlinn í tunglinu.
Tunglið og brennimerkti sauðaþjófurinn.

Klippimiði 7
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvenær Íslendingar hættu að nota gömlu mánaðaheitin og skiptu yfir í þau latnesku sem við notum í dag.

Umræðupunktar
Hvaða hjátrú tengist sól? – Tröll verða að steini þegar sól skín á þau.

Tengt efni
Um tunglið á Geimurinn.is.
Hvers vegna góla úlfar upp í tunglið?
Af hverju verður ofurmáni?

Heimildir
Oft er talað um jólatungl og í gamalli vísu er talað um þorratungl. Hvernig veit maður hvaða tungl er jólatungl?
Af hverju eru tungl alltaf kölluð luna og er orðið lunatic eitthvað skylt því?
Tunglið, tunglið taktu mig, greinasafn Mbl.is
Saga daganna, bls. 442
Þorrablót, bls. 22-23

__________

VERKEFNI 8: Þorrasiðir 1
Hvernig ætli torfbæir hafi litið út ofan frá séð?
a) Nemendur skoða hús og teikningar af gömlum bæjum og hanna grunnmynd af torfbæ. Hver reitur táknar 1 fm2 (hver hlið 100 sm).
Sjá upplýsingar um gamla byggingahætti og grunnmyndir: Gamlir byggingahættir,
Litla-Þúfa og Glaumbær og Stöng í Þjórsárdal.
b) Nemendur skrá flatarmál og ummál torfbæjarins inn á teikninguna.

Klippimiði 8
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum eru upplýsingar um herbergisskipan í torfbæjum sem nemendur geta haft til hliðsjónar við hönnun sína. Einnig er greint frá hermigaldri sem felst í því að varpa af sér fatnaði í von um að veturkonungur varpi af sér vetrarskrúðanum á móti. Hvað finnst nemendum um þá galdratrú? Þekkja nemendur fleiri galdra?

Stílabókarvinna
Verkefnið má einnig vinna á teikniblöð. Nemendur teikna torfbæinn í heild sinni og staðsetja hann í fallegu sveitarumhverfi. Skoða má hugtök eins og burst, burstabær, bæjarþil, bæjarhlað, baðstofa, baðstofugluggi, steinhleðsla, grjótgarður, hestasteinn, þvottasnúrur, fjós, …

Aukaverkefni
Hvað hleypur bóndinn langa vegalengd í frostinu ef hann fer hringinn í kringum torfbæinn og heldur sig metra frá húsveggnum?
Torfbæirnir voru hlaðnir úr torfi og grjóti svo þykkt veggja var mikil. Ef gert er ráð fyrir að veggir hafi verið ½ m að þykkt (50 sm), hversu stór er grunnflötur bæjarins þá í fermetrum?

Heimildir
Saga daganna, 444, 445
Þorrablót, bls. 26-29
Hvað þýðir mánaðarheitið þorri og hversu gamall siður eru þorrablótin?
Eldamennska í íslenskum torfbæjunum.

__________

VERKEFNI 9: Þorrasiðir 2
Nemendur klippa út reiti með tölustöfum í fylgigögnum (Klippigögn – ljóð) og raða þeim í reitina eftir tímaröð miðað við upplýsingar á verkefnablaðinu. Rómversku tölurnar eru fyrir fortíðarbóndann og arabísku tölustafirnir fyrir nútímamanninn.

Klippimiði 9
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið áður en verkefnið er unnið. Á miðanum eru hugtök tengd sólarhringnum sem eru mismikið (lítið) notuð í dag. Heilabrot: Bóndi fortíðarinnar talar um dagmál í einræðu við sjálfan sig en ekkert er rætt um dagmál á klippimiðanum. Ef hver eykt er 3 klst. að lengd þá vantar einhvers staðar upplýsingar. Eru glöggir nemendur að átta sig á þessu? Klukkan hvað ætti dagmál að vera? – Lausn: Klukkan 9:00.

Lausn og skýringar
I) Óttumál. Nei, er ekki heillin… (Hefð var fyrir því að húsfreyja geymdi besta kjötbitann fyrir bónda sinn og gaf honum í upphafi þorra. Hér hefur karl komist á snoðir um góðgætið um miðja nótt. En hvaða ráp er þetta eiginlega á bónda?)
II) Eyktarskipti. Þá er að gyrða sig í brók… (Sjá fyrri upplýsingar þess efnis að einhvers staðar hafi tíðkast að bóndi hlypi hálfnakinn hring í kringum bæ sinn og það jafnvel með aðra buxnaskálmina á eftir sér. Þetta hafði hann reyndar vit á að gera áður en aðrir vöknuðu sem skýrir kannski skort á heimildum.)
III) Rismál. Sei, sei, er komið rismál… (Nú er kominn tími til að vakna en ekkert heyrist í hananum, ætli hann hafi orðið þorranum að bráð?)
IV) Dagmál. Brrr, en sá belgingur, … (Það er kalt og vindasamt úti. Bóndinn hefur engu að síður ákveðið að baða sig í næsta snjóskafli svona í tilefni dagsins og mannamótsins seinni partinn en ekkert bólar enn á öðru heimilisfólki.)
V) Árdegi. Uss, uss, langt liðið af… (Bóndi er nú hinn hressasti eftir kjötát og snjóskaflabað. Hann hefur jafnframt tekið til við að yrkja fyrir skemmtun kvöldsins.)
VI) Miðaftann. Miðaftann á fyrsta degi… (Bóndi er bjartsýnn og hress, hann ætlar sér að halda harðindin út og sér vorið í hyllingum. Þorrinn skal ekki svelta hann og hans fólk út á gaddinn úr því sem komið er.)

1) Miðnætti. Tölvuleikurinn uppfærður… (Nútímabóndinn er ekki bara kominn með mjaltavélar fyrir beljurnar og blandara fyrir berjabústið. Hann er einnig nettengdur og spilar Fortnite milli annarra verka. Hann leyfir sér sjálfsögðu að taka einn leik (eðta tvo) aðfaranótt bóndadags. Ef ekki þá, þá hvenær?)
2) Úff, hvað er málið… (Tja, málið er bara að þeir sem gleyma sér við tölvuspil um miðja nætur gleyma stundum að stilla vekjarann í símanum sínum. Síminn er ekkert endilega ónýtur, gæti líka verið rafmagnslaus…).
3) Atjsjúúú! Ég er sáttur… (En leiðinlegt, kappinn er með ofnæmi fyrir blómum. Eins gott að hann er ekki blómabóndi! En þótt hann sé að fara út að borða um kvöldið voru blómin á morgunverðarbakkanum þar sem hann situr hnerrandi og mögulega ennþá í náttfötunum.)
4) Úllala! Kjötveisla, kók og… (Hvaða skrifstofu er hann að tala um? Hjá Bændasamtökum Íslands? Eða Samtökum ungra bænda? Hjá Landssamtökum sauðfjárbænda kannski? Getur verið að nútímabóndi sé ekki í bara í sveitarstörfunum heldur vinni á skrifstofu líka? Hvað þýðir eiginlega orðið bóndi? Hefur merking orðsins eitthvað breyst frá því að byggð tók að þéttast og þorp að myndast? Og já, hvað er kjötveisla? Kannski trog með lundaböggum, sviðakjömmum og slátri?)
5) Jæja, heitavatnslaust fram á… (Heitavatnslaust þýðir þá væntanlega að bóndinn hafi jafnan aðgang að heitu rennandi vatni og sé hættur að baða sig í köldum snjósköflum, hættur að bera allt nytjavatn úr bæjarlæknum og hættur að safna öllu rigningarvatni? Það þýðir þá líka að bóndi hafi nú hellings tíma aflögu til að stunda sjálfsrækt og hreyfingu eftir vinnu. Heppinn!)
6) Ég er þakklátur… (bóndadegi lýkur að þessu sinni á þorrahlaðborði þar sem nútímamaðurinn okkar fékk hrútspunga í forrétt. Þeir falla ekki alveg í kramið hjá honum en sem betur fer hefur hann úr margskonar öðru góðgæti að velja eins og súrum hval, kæstum hákarli, sviðnum kindahausum og selshreifum! Sjá veggspjöld með þorramat.)

Umræðupunktar
Getur verið að einhvers staðar í heiminum búi fólk við svipaðar aðstæður og voru á Íslandi áður fyrr?

Tengt efni
Hvernig er sólarhringnum skipt, hádegi og svo framvegis, og hvernig var honum skipt til forna? Af hverju voru nöfnin dregin?
Hvenær komu klukkur til Íslands og hvernig vissu menn hvað tímanum leið áður en þær komu til sögunnar?

Heimildir
Saga daganna, bls. 441-442, 444-445
Þorrablót, bls. 21, 26-29
Almanaksskýringar

__________

VERKEFNI 10: Þorrablóm
Nemendur leysa orðaruglið í blómunum og skrá á línurnar. Af því búnu nota þau stafina í blómunum til að mynda eins mörg ný orð og þau geta.

Klippimiði 10
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvenær sá siður hófst að færa maka sínum blóm á bóndadegi og konudegi.

Heimildir
Saga daganna, bls. 480.
Þorrablót bls. 83

__________

VERKEFNI 11: Þorramatur 1
Nemendur skoða þorramatinn og skrá hvað réttirnir heita. Tilvalið er að nota veggspjöld með sömu myndum sem fylgja námsefninu Þorramatur.

Klippimiði 11
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvernig matur var verkaður og geymdur í gamla daga.

Aukaverkefni
Raða þorramatnum í stafrófsröð.
Fallbeygja orðin í stílabók.
Leita að upplýsingum um hvernig maturinn er verkaður/framleiddur/bakaður.

Tengt efni
Voru haldnar stórar veislur með þorramat á þorranum hér áður fyrr?
Um þorramat á Wikipedia

Heimildir
Saga daganna bls. 477-479
Þorrablót bls. 79-81

__________

VERKEFNI 12: Þorramatur 2
Fyrri hluti: Nemendur gera könnun á því hvaða þorramat samnemendur hafa smakkað og skrá með talnastrikum. Tilvalið er að leysa þetta verkefni saman með handauppréttingu. Niðurstaða hverrar talningar er skráð í reitina undir jafntog merkinu.
Seinni hluti: Eftir að könnun lýkur er upplagt að draga fram smakkbakka og kynna þorramat fyrir þeim sem aldrei hafa séð hann eða ekki þorað að smakka. Stjörnugjöfin í síðasta reitnum er einstaklingsverkefni þar sem nemendur skrá hvernig þeim líkaði maturinn. Þá má hugsa sér að matur sem fellur alls ekki í kramið fái enga stjörnu, 1 stjarna þýði sæmilegt, 2 þýði allt í lagi og 3 mjög gott.

Klippimiði 12
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um hvers vegna hluti þorramatsins er súr eða kæstur.

Stílabókarvinna
Nemendur vinna áfram með niðurstöðu matarkönnunarinnar og setja gagnasafnið upp í súlurit. Hvaða þorramat hafa flestir smakkað?
Hvaða mat hafa fæstir smakkað?

Umræðupunktar
Hvað er annað heiti yfir súran hval? – Rengi
Hvað er annað heiti yfir flatkökur? – Flatbrauð

Tengt efni
Um verkun hákarla á Vísindaefnum
Hákarlasafnið á Bjarnarhöfn

Heimildir
Saga daganna bls. 477-479
Þorrablót bls. 79-81

__________

VERKEFNI 13: Þorraguð
Nemendur leysa dulmálið sem samanstendur af eyrnamörkum.

Lausn
Vér elskum menntun, afl og fjör
en ánauð hverja hötum.
Vor allur starfi æ sé gjör
af inum bestu hvötum;
og sýnum jafnan dáð og dug
og drengskap manni hverjum;
en Þórs með hamri, Þórs með hug
á þrældóm öllum berjum.

Klippimiði 13
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er fróðleikur um blót sem heiðnir stunduðu á víkingaöld og breytingarnar sem urðu við kristnitökuna. Einnig er fjallað um vinsældir þrumuguðsins Þórs þegar þorrablót voru endurvakin.

Stílabókarvinna
Fjörbaugsgarður er refsing sem fólst í því að sekir þurftu að yfirgefa Ísland innan þriggja sumra frá dómi, og dveljast erlendis í þrjú ár áður en þeir mættu snúa aftur. Refsingunni var beitt á þjóðveldisöld, hún var séríslensk og tekin upp skömmu fyrir kristintöku. Þeir sem fengu þennan dóm voru kallaðir fjörbaugsmenn. Hvað finnst þér um þessa refsingu?
Fjármörk flokkast í eyrnamörk, brennimörk, hornamörk og skúðdregin mörk. Eyrnamörk voru (og eru enn) skorin í eyru nýfæddra lamba. Einnig er skylt að nota merkiplötur í dag. Brennimörk eru brennd í horn á kindum og rétthærri en eyrnamörk ef fleiri en einn gerir tilkall til sömu kindar. Áður fyrr var stundum tálgað í horn kindar og kallaðist það hornamark. Þegar talað er um skrúðdregin mörk er átt við þrílitað fléttað ullarband sem þrætt var í gegnum eyra kindar. Þessi aðferð er ekki lengur notuð.
Á sama hátt og búfé var hverjum bónda mikilvægt voru önnur hlunnindi á jörð hans það einnig. Til voru sérstök viðarmörk til að merkja rekavið sem bar á fjörur. Ef bóndinn gat ekki sótt viðinn strax var hann merktur til að sanna eignarhaldið. Þannig voru hvalskutlar einnig merktir með viðarmörkum því hvali gat borið langan veg með skutul í sér. Þá var mikilvægt að vita hver átti aflann og veiðarfærið.

Umræðupunktar
Hvaða merki eru þetta? – Táknin kallast eyrnamörk og eru notuð til að merkja eyru nýfæddra lamba. Hvert merki táknar eyra og sýnir hvernig skorið var í það með hníf. Í dag er aðferðin enn notuð en í stað hnífa er sérstökum markatöngum beitt auk þess sem skylda er að merkja eyrun líka með merkjum úr plasti eða málmi.
Á hvert merki eitthvað ákveðið nafn? – Já, eyrnamerkin nefndust ýmsum nöfnum eftir útliti þeirra, dæmi: alheilt, andfjaðrað ,biti, blaðrifað, blaðstýft, bragð, fjöður gagnbitað og gagnfjaðrað.
Hvers vegna eru kindur merktar með þessum hætti? – Sauðfé, ásamt öðrum búfénaði, er dýrmæt eign sem nauðsynlegt er að merkja. Kindur ganga lausar yfir sumartímann og blandast öðru fé svo og þá er enn mikilvægara að átta sig á því hvaða kindur bændur eiga.
Hvað er þjófamark? – Þjófamark, öðru nafni afeyrt mark, kallast það þegar eyrað er alveg skorið af. Sauðaþjófar notuðu þetta mark því auðveldasta leiðin til að fjarlægja merki rétts eiganda er að skera eyrað í burtu.
Hvað eru örmerki? – Gæludýraeigendur geta merkt dýrin sín með örmerkjum. Þá er lítilli örflögu á stærð við hrísgrjón komið fyrir undir húð og ef týnt gæludýr finnst er hægt að skanna merkið og fá upplýsingar um skráða eigendur.

Tengt efni
Þjóðtrú um fjármörk
Eyrnarmörk og heiti

Heimildir
Saga daganna bls. 457
Þorrablót, bls. 45
Fjörbaugsgarður
Fjármörk
Hvaðan eru eyrnamörk á búfénaði?
Mynd af eyrnamörkum er unnin upp úr skjölum frá Bændasamtökum Íslands og birt með þeirra leyfi. Höfundur myndar: Þórhildur Jónsdóttir.

__________

VERKEFNI 14: Þorrablót annó 900
Nemendur setja sig í spor unglings frá landnámsöld og skrifa um dag í lífi hans.

Klippimiði 14
Nemendur klippa miðann út og líma yfir textaboxið. Á miðanum er kveikja að ritunarverkefninu.

Umræðupunktar
Hvað þýðir annó? – Ártal
Hvenær er miðað við að víkingaöld hafi verið – Upphaf víkingaaldar miðast við innrás víkinga í klaustrið Lindisfarni á Englandi árið 793. Þar með hófst eitt frægasta og blóðugasta tímabil í sögu norrænna þjóða. Endalokin víkingaaldar miðast við fall Haralds harðráða Noregskonungs árið 1066.
Hvaða tímabil er landnámsöld? – Í bók sinni Íslandssaga skipti Jón J. Aðils Íslandssögunni niður í tíu tímaskeið og þar er sagt að landnámsöld hafi ríkt á árunum 870-930. Landnámsmenn komu frá Noregi og miðað er við árin 870 og 874 þegar talað er um landnám Íslands. Landnámi Íslands lauk með stofnun Alþingis árið 930.

Aukaverkefni
Hvernig lítur tímavél út sem borið getur manneskjur hundruði ára aftur í tímann? Nemendur hanna slíka græju í stílabók eða teikniblað.

Tengt efni
Anno Domini = Á því herrans ári
Íslendingasögur.is

Heimildir
Hvernig og af hverju skiptis Íslandssagan í tímabil?
Víkingaöldin á vefnum Íslendingasögur.is
Um landnámsöld á Wikipedia.org

__________

VERKEFNI 15: Þorrakönnun
Nemendur rifja upp efnið námsefnispakkans og spreyta sig á þorrakönnuninni.

Ljósmyndir
Forsíðumynd: Jón Arnar Önfjörð
Myndir af þorramat. Unnur María Sólmundsdóttir

Teikningar
Fótspor frá Freepik fyrir  www.flaticon.com
Hrafnar frá Vecteezy.com 
Tré frá Freepik fyrir www.flaticon.com
Kind frá Get Drawings
Hnífapör frá Freepik fyrir www.flaticon.com

Þorramatur

Um námsefnið

Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum. Námsefnið Þorramatur er hugsað fyrir yngstu nemendurnar þar sem unnið er með ritun og orðaforða í gegnum þrautir og leiki. Námsefnið skiptist í GEFA – TAKA spil, skriftarrenninga, orðasúpu, tengiverkefni og A4 veggspjöld.

Ljósmyndir: Unnur María Sólmundsdóttir, Jón Önfjörð Arnarsson, Stefanía Ragnarsdóttir og Elín Elísabet Ragnarsdóttir. Sérstakar þakkir fær Fjarðarkaup fyrir að heimila myndatöku í kjötvinnslu verslunarinnar.

GEFA – TAKA

Spilið samanstendur af 7 reituðum spilaspjöldum (Trog 1-7) og 7 blöðum sem innihalda myndir og orð með þorramat. Gott er að plasta þessi 14 skjöl áður en blöðin með orðum og myndum af þorramat eru klippt niður.

Nemendur spila saman í hóp með 1 eða fleiri spjald. Miðarnir eru settir á hvolf í bunka og spilið hefst á því að fyrsti leikmaður dregur miða. Ef hann dregur mynd af þorramat má hann leggja miðann á reit þar sem stendur mynd. Ef hann hefur hinsvegar dregið heiti á þorramat (miða með texta) verður hann að skila miðanum aftur í bunkann. Til að hefja söfnun á ákveðnum þorramatsorðum þarf fyrst að fá mynd af matnum og raða svo miðum með texta í dálkinn undir hana. Þannig getur leikurinn gengið í nokkra hringi áður en söfnun hefst. Leikmenn draga miða til skiptis. Ef leikmaður 1 er búinn að fá mynd af þorramat en leikmaður 2 dregur textamiða með nafninu verður sá síðastnefndi að GEFA leikmanni 1 miðann sinn. Leikmaður 1 leggur þá textamiðann undir myndina af viðkomandi þorramat. Ef leikmaður 1 er hinsvegar kominn með mynd af viðkomandi þorramat og búinn að fá 2 textamiða undir hana að auki (á bara 1 auðan textareit eftir af þorramatnum) má leikmaður 2 (sá sem dró síðsta textamiðann með þorramatnum) TAKA alla miðana af leikmanni 1 og raða á sitt spilaborð svo lengi sem enn er pláss á því. Sá leikmaður sem fyrstur nær að fylla upp í sitt spilaborð með þremur tegundum af þorramat vinnur leikinn.

Vinna má með gögnin úr spilinu á fleiri en einn máta, sé það prentað út í 2 eintökum er komið samstæðuspil, sé það prentað út í 4 eintökum má nota miðana í Veiðimann. Einnig má nota miðana í stafrófsverkefni. Smelltu á bláa linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af GEFA – TAKA spilinu með þorramatnum.

Orðasúpa, tengiverkefni, skriftarrenningar og A4 veggspjöld

Seinni hluti námsefnisins er ritunarverkefni þar sem nemendur finna þorramat í orðasúpu, tengja samsett orð sem slitin hafa verið í sundur, æfa sig að skrifa orð á þar til gerða skriftarrenninga og safna fleiri orðum tengdum þorranum. Smelltu HÉR til að sækja seinni hluta námsefnisins.

 

Flakkarinn – Þorrinn

Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak í prentupplausn.

bondadagur-01