Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Safnafræðsla

now browsing by tag

 
 

vefrallý

Um námsefnið

Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum. Að þessu sinni er efnið hugsað fyrir 6. bekk þar sem nemendur fara í vefrallý um heimasíðu safnsins, minjasafn.is, og leysa margvísleg verkefni. Efnið má einnig vinna með eldri eða yngri nemendum.

Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem farið er yfir sögu safnsins, sýningar og ýmsir munir skoðaðir. Námsefnispakkinn samanstendur af 14 verkefnablöðum og krossaprófi í lokin.

Ljósmyndir í heftinu eru frá Minjasafni Austurlands.

Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Elín Sigríður Arnórsdóttir.

Kennsluleiðbeiningar

Vefrallýið er skemmtileg aðferð til að kynna sögu og starfsemi Minjasafns Austurlands fyrir nemendum. Til leysa verkefnin þurfa nemendur að hafa ritföng, og aðgang að tölvu eða snjalltækjum. Víðsvegar í heftinu eru aukverkefni hugsuð fyrir stílabók svo einnig er gott að hafa eina slíka við höndina.

Forsíða
Minjasafn Austurlands er á Egilsstöðum. Það var stofnað árið 1943 að frumkvæði Gunnars Gunnarssonar sem lagði jafnframt til húsnæði undir safnmunina fyrstu árin. Nemendur lesa inngangsorð á forsíðu heftisins áður en lengra er haldið.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Staðsetning, frumkvæði, landshluti, safnafræðsla, menningararfur, ræktarsemi, menningarminjar, safnastarf og upprunaslóðir.

Verkefni 1 – Veftré safnsins, skráning í töflu
Veftré sýnir uppbyggingu vefs og hvernig hann skiptist í einstaka síður og undirflokka. Í þessu verkefni er tilgangurinn að nemendur kynnist vefsíðu Minjasafns Austurlands og átti sig á uppbyggingu hennar. Með því að smella á flettistikuna efst á síðunni minjasafn.is koma fellilistar með svörin í verkefninu.
Dæmi: Smellt er á hnappinn Sýningar og þá birtist fellilisti með 3 undirsíðum: Grunnsýningar, Yfirstandandi sérsýningar og Fyrri sýningar. Þessi atriði eru skráð í fyrsta dálkinn á verkefnablaðinu.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Vefsíða, lén, veftré, fellilisti, leitargluggi, veraldarvefur, vefhýsing, tölvupóstur, leitarvél og vörumerki.

__________

Verkefni 2 – Saga safnsins, tímalína og lesskilningur
Á vef Minjasafns Austurlands er að finna upplýsingar um áfanga í sögu og rekstri safnsins. Verkefnið er sett upp sem tímalína og nemendur lesa textann vel og tengja svo saman ártal og texta. Áður en tengt er á milli þarf að skrá rétt tímatal í stafrænu reiti tímalínunnar.

Lausn
Ártölin sem eiga að koma í tímalínuna eru í réttri röð: 1942, 1943, 1945, 1948, 1966, 1981, 1982, 1995, 1996 og 1996 – . Athygli er vakin á því að þrír liðir tengjast við ártalið 1995 á tímalínunni.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Ártal, tímalína, áfangi, rekstur, stofnsamingur, fastasýning, sérsýning, aðfangabók og varðveisla.

__________

Verkefni 3 – Söfnunarstefna, ritun og lesskilningur
Á síðunni Um safnið er að finna undirsíðu um söfnunarstefnu þess. Nemendur lesa upplýsingarnar sem þar koma fram og enda setningarnar. Nemendur geta stytt setningarnar ef þarf.

Lausn
… hlutverki safnsins sem almenns byggðasafns.
… af Austurlandi, og miðla þeim arfi til gesta safnsins með sýningarhaldi og miðlun af ýmsu tagi.
… Austurlandi úr fortíðinni en einnig er safnað munum frá síðustu árum og áratugum eins og tök eru á og tilefni er til.
… heilbrigðis- mennta- og menningarmálum, samfélagsþróun, daglegu lífi og starfi fólks, nytjahlutum, smíðisgripum, verkfærum, innanstokksmunum, skrautmunum og fatnaði o.s.frv.
… í fyrirrúmi í öllu safnastarfi sem og fyrir fyrri eigendum þeirra.
… fylgja sérstök skilyrði nema í algerum undantekningartilvikum.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Safnmunur, söfnunarstefna, meðhöndlun, innanstokksmunur, safnsvæði, sýningarstefna, hagleiksmaður, forvarsla og fjöldaframleiðsla.

Verkefni 4 – Söfnunarflokkar, eyðufylling
Á síðunni Um safnið er að finna undirsíðu um söfnunarstefnu þess. Þar má finna upplýsingar um helstu söfnunarflokka Minjasafns Austurlands. Nemendur finna hvaða stafi vantar í 10 söfnunarflokka og skrá á eyðurnar. Nemendur lesa um hvern söfnunarflokk og skrá dæmi um mun í töfluna neðst á verkefnablaðinu.

Lausn
Heimilishald – skólahald – atvinnuhættir – félagsleg uppbygging – dægradvöl – hús og híbýlahættir – kirkjumunir – fornmunir – ljósmyndir – bækur og skjöl.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Heimilishald, skólahald, atvinnuhættir, uppbygging, dægradvöl, híbýlahættir, kirkjumunir, fornmunir, sendibréf og skjalasafn.

__________

Verkefni 5 – Þjóðsagnaritun, hlustun, upplýsingaleit og skráning
Fjallað er um Sigfúsar Sigfússon þjóðsagnaritara á síðunni Fróðleikur. Þar má einnig hlusta á nokkrar af þeim sögum sem hann skrásetti, og sjá staðsetningu sögusviða á korti af Austurlandi. Nemendur smella á hljóðskrárnar og skrá lengd þeirra í töfluna. Á síðunni er jafnframt að finna upplýsingar um þann sem les og nokkra mola um Sigfús sjálfan.

Lausn
Skrímsli elta Vopnfirðinga 1:24
Kappróður 2:05
Klettaganga Oddnýjar 2:54
Ég heiti Víðförull 1:30
Skessa undir Fardagafossi 1:06
Vígdeildarhamar 1:45
Skessurnar í Norðfirði 1:22
Sæluhúsfylgjan í Tungudal 2:16
Mannshöndin 2:36
Upphaf Freyfaxa 0:55
Skrúðsbóndinn 1:15
Völvuleiði í Breiðdal 1:01
Upplestur: Rúnar Snær Reynisson

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Þjóðsagnaritun, skrásetning, sögusvið, hljóðskrá, upplestur, hljóðupptaka, afspilun, heimildaöflun, kortalestur og heimildamaður.

Ítarefni
Námsefni um þjóðsögur og Sigfús Sigfússon má nálgast hér.

__________

Verkefni 6 – Eldgos í Öskju, hlustun, ritun og orðasúpa
Árið 1875 varð mikið eldgos í Öskju í Kverkfjöllum sem hafði mikil áhrif á íbúa Austurlands og víðar. Á síðunni Fróðleikur má hluta á frásagnir fólks af þessum náttúruhamförum. Nemendur hlusta á frásagnir, skrá hvaðan fólkið er og finna staðina í orðasúpunni.

Lausn
Hólsfjöll, Jökuldalur, Jökulsárhlíð, Borgarfjörður, Fell, Loðmundarfjörður, Skriðdalur, Seyðisfjörður og Suðurfirðir.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Náttúruhamfarir, atburðarás, frásögn, öskufall, gosmökkur, eldvirkni, jarðvarmi, jarðskjálfti, eldstöð og hraunkvika.

__________

Verkefni 7 – Fyrri sýningar Minjasafnsins, tengja saman
Minjasafn Austurlands er reglulega með sýningar í gangi en einnig má finna upplýsingar á vefnum um allar fyrri sýningar safnins. Í verkefninu skoða nemendur fimm af þeim, kynna sér innihald þeirra og tengja saman.

Lausn
Minningar um torfhús:
– Sandra Coullenot doktor í fornleifafræði.
– Minningar og hugrenningar um vistarverur í gamla daga.
Fjöllistamaður í fjallasal:
– Jón A. Stefánsson, bóndi frá Möðrudal.
– Altaristafla, útskornir listmunir, söngur og tónlist.
Festum þráðinn:
– Ingrid Larssen rannsakandi og listakona frá Noregi.
– Samanburður á íslenskri og norskri handavinnu.
Ging gang gúllí á Ásnum:
– Skátafélagið Ásbúar stofnað árið 1962.
– Margvíslegir munir tengdir sögu og starfi félagsins.
Leikið á Ásnum:
– Ungviðið í hópi frumbyggja Egilsstaða.
– Brúður, bílar, spil og fleiri leikföng fyrri tíma.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Fjöllistamaður, tækifæri, altaristafla, hugrenningar, vistarverur, skátamót, félagslíf, útsaumur, rannsókn og fornleifar.

__________

Verkefni 8 – Grunnsýningar, útdrættir
Á Minjasafni Austurlands eru grunnsýningarnar Hreindýrin á Austurlandi og Sjálfbær eining í gangi allt árið um kring. Nemendur finna upplýsingar um þær og greina stuttlega frá þeim með eigin orðum. Nemendur skoða vefinn og skrá fleiri sýningar sem eru í gangi.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Grunnsýning, sérstaða, lífsbarátta, heimildamynd, sjálfbærni, lífshættir, lífsnauðsyn, vitnisburður, bústofn og baðstofa.

Tengt efni
Námsefni um hreindýrin.

__________

Verkefni 9 – Öðruvísi ABC, leit og skráning
Hér er um öðruvísi stafrófsverkefni að ræða þar sem nemendur vafra um vef Minjasafns Austurlands í leit að orðum til að fylla upp í óútfyllta stafrófstöflu. Í stað hefðbundins stafrófsverkefnis, þar sem upphafsstafur orðs gildir, þurfa nemendur nú að skoða annan bókstaf orðsins (nr. 2 ) þegar taflan er fyllt. Þannig fer orðið SARPUR í fyrsta reitinn (reit a) þar sem a er annar bókstafur orðsins. Nemendur skrá hvað klukkan er í upphafi og lok leitar.

Umræðupunktar
– Hvað tók verkefnið langan tíma?
– Hvernig gekk að leita að orðum stafrófsins eftir þessari óhefðbundnu aðferð?
– Hvaða fleiri leiðir má fara til að a) kynna sér innihald vefs? b) rifja upp stafrófið?
– Hvers vegna er gott að kunna stafrófið?

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Stafróf, málfræði, setning, málsgrein, upphafsstafur, greinaskil, eyðufylling, lesskilningur og hugtakaskilningur.

__________

Verkefni 10 – Þorpið á Ásnum, tengja saman, kortaleit
Þorpið á Ásnum er ein af fyrri sýningum Minjasafns Austurlands og fjallar um þéttbýlismyndun við Gálgaás í Egilsstaðahreppi. Búið er að hanna gagnvirkt kort með húsunum og með því að smella á þau (bláu reitina) birtast ýmist ljósmyndir af fyrstu íbúunum eða húsnæðinu sjálfu. Einnig birtast upplýsingar um byggingarár, götuheiti og númer, og heiti húsanna sjálfra en nemendur nota þau gögn til að leysa verkefnið.

ATH
Ef myndin á skjánum er of stór getur það gerst að neðstu húsin á kortinu sjáist ekki (Hamrahlíð 2 og 4). Þá þarf að þysja skjágluggann aðeins inn og minnka myndina (ýta á CTRL og mínus).

Lausn
Hamrahlíð 2, Hjarðarholt, byggt 1949
Hamrahlíð 4, Hlíðarfell, byggt 1951
Tjarnarbraut 1, Lyngás, byggt 1947
Tjarnarbraut 3, Hvassafell, byggt 1950
Tjarnarbraut 5, Lágafell, byggt 1946
Tjarnarbraut 7, Háafell, byggt 1953
Tjarnarbraut 9, Heiðmörk, byggt 1953
Laufás 1, Laufás, byggt 1947
Laufás 2, Bjarki, byggt 1953
Laufás 3, Birkihlíð, byggt 1947
Laufás 4, Ásbrún, byggt 1950
Laufás 7, Vindás, byggt 1946
Laufás 9, Sunnuhvoll, byggt 1956
Laufás 10, Ás, byggt 1953
Selás 1, Oddi, byggt 1956
Selás 4, Bjarmahlíð, byggt 1946
Selás 6, Varmahlíð, byggt 1947
Selás 10, Reynihlíð, byggt 1950
Selás 12, Hlíð, byggt 1948
Selás 14, Fell, byggt 1948
Lagarás 20, Dýralæknabústaður byggt 1946

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Hreppur, þorp, tímamót, uppbygging, dreifbýli, þéttbýli, frumbyggi, frumkvöðull. ás og kynslóð.

__________

Verkefni 11 – Vefrýni, sjálfstæð þekkingarleit á leitarvélum
Þegar efni er sett fram hvort heldur sem er á vef eða í útprentuðum ritum þarf að hafa ýmsar reglur um stafsetningu og greinarmerki í huga. Nemendur þurfa að kunna skil á mörgum hugtökum hvað lesmál snertir og markmið verkefnisins felst í því að skerpa á nokkrum þeirra. Um leið og nemendur finna dæmi um notkun hugtakanna á vef Minjasafns Austurlands gera þeir hring um þau á listanum. Ef nemandi er ekki viss hvað ákveðið hugtak þýðir gefst hér kjörið tækifæri til sjálfstæðar þekkingarleitar á leitarvélum netsins, Google sem dæmi.

Aukaverkefni 1 í stílabók – raðað í stafrófsröð
Nemendur skrifa hugtökin á verkefnablaðinu í stílabók og raða eftir stafrófsröð.

Aukaverkefni 2 í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Myndrit, upplýsingaöflun, hugtak, skipurit, yfirlitsmynd, graf, höfundaréttur, tilvitnunog heimildaskrá.

__________

Verkefni 12 – Spurt & svarað
Verkefni Minjasafns Austurlands eru fjölbreytt og skráningarvinna safnkosts er stór hluti vinnunnar. Nemendur leita svara við spurningunum á verkefnablaðinu og skrá á línurnar.

Aukaverkefni í stílabók – hvað þýða þessi hugtök?
Safnkostur, safnvörður, gagnasafn, varðveislugildi, áfangaskýrsla, kreppa, viðtal, efnahagshrun, niðurstaða og farandssýning.

__________

Verkefni 13 – Sarpur.is, upplýsingaleit og skráning
Sarpur.is er menningarsögulegt gagnasafn sem varðveitir upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og örnefnalýsingar ásamt öðru efni. Þar er hægt að leita að gömlum munum eftir söfnum. Á verkefnablaðinu eru þrír munir sem nemendur fletta upp og leita nánari upplýsingar um. Svörin skrá þeir á verkefnablaðið. Munirnir eru skráðir undir Minjasafni Austurlands.

Lausn
Íleppur
Askur
Sveifarstokkur

Aukaverkefni í stílabók – hvernig vefir eru þetta?
sarpur.is
bin.arnastofnun.is
já.is
minjasafn.is
rimordabok.is
visindavefur.is
eldgos.is
geimurinn.is
almanak.is
krakkaruv.is

Umræðupunktar
Ef þú værir að setja upp heimasíðu, um hvað myndi hún fjalla?

__________

Verkefni 14 – Safnhluturinn, safnaferð
Á Minjasafni Austurlands kennir ýmissa grasa. Nemendur velja hlut að eigin vali og gera nánari grein fyrir honum. Fyrir þá sem ekki komast á Minjasafn Austurlands má nota vefinn Sarp.is til að leita að áhugaverðum munum til að fjalla um.

__________

Verkefni 15 – Safnaprófið, fjölvalsspurningar
Að vefrallýi loknu spreyta nemendur sig við krossapróf um Minjasafn Austurlands.

Aukaverkefni í stílabók – hvernig söfn eru þetta og hvar á landinu eru þau?
steinapetra.is
galdrasyning.is
melrakki.is
warandpeace.is
thjodminjasafn.is
thorbergur.is
hnjotur.is
lavacentre.is
selasetur.is
fuglasafn.is
whalesoficeland.is
saeheimar.is

Umræðupunktar
Hvaða fleiri söfn þekkja nemendur?
Hvaða söfn hafa nemendur farið á?
Er nauðsynlegt að hafa söfn á Íslandi? Rökstyðjið.

Þorramatur

Um námsefnið

Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum. Námsefnið Þorramatur er hugsað fyrir yngstu nemendurnar þar sem unnið er með ritun og orðaforða í gegnum þrautir og leiki. Námsefnið skiptist í GEFA – TAKA spil, skriftarrenninga, orðasúpu, tengiverkefni og A4 veggspjöld.

Ljósmyndir: Unnur María Sólmundsdóttir, Jón Önfjörð Arnarsson, Stefanía Ragnarsdóttir og Elín Elísabet Ragnarsdóttir. Sérstakar þakkir fær Fjarðarkaup fyrir að heimila myndatöku í kjötvinnslu verslunarinnar.

GEFA – TAKA

Spilið samanstendur af 7 reituðum spilaspjöldum (Trog 1-7) og 7 blöðum sem innihalda myndir og orð með þorramat. Gott er að plasta þessi 14 skjöl áður en blöðin með orðum og myndum af þorramat eru klippt niður.

Nemendur spila saman í hóp með 1 eða fleiri spjald. Miðarnir eru settir á hvolf í bunka og spilið hefst á því að fyrsti leikmaður dregur miða. Ef hann dregur mynd af þorramat má hann leggja miðann á reit þar sem stendur mynd. Ef hann hefur hinsvegar dregið heiti á þorramat (miða með texta) verður hann að skila miðanum aftur í bunkann. Til að hefja söfnun á ákveðnum þorramatsorðum þarf fyrst að fá mynd af matnum og raða svo miðum með texta í dálkinn undir hana. Þannig getur leikurinn gengið í nokkra hringi áður en söfnun hefst. Leikmenn draga miða til skiptis. Ef leikmaður 1 er búinn að fá mynd af þorramat en leikmaður 2 dregur textamiða með nafninu verður sá síðastnefndi að GEFA leikmanni 1 miðann sinn. Leikmaður 1 leggur þá textamiðann undir myndina af viðkomandi þorramat. Ef leikmaður 1 er hinsvegar kominn með mynd af viðkomandi þorramat og búinn að fá 2 textamiða undir hana að auki (á bara 1 auðan textareit eftir af þorramatnum) má leikmaður 2 (sá sem dró síðsta textamiðann með þorramatnum) TAKA alla miðana af leikmanni 1 og raða á sitt spilaborð svo lengi sem enn er pláss á því. Sá leikmaður sem fyrstur nær að fylla upp í sitt spilaborð með þremur tegundum af þorramat vinnur leikinn.

Vinna má með gögnin úr spilinu á fleiri en einn máta, sé það prentað út í 2 eintökum er komið samstæðuspil, sé það prentað út í 4 eintökum má nota miðana í Veiðimann. Einnig má nota miðana í stafrófsverkefni. Smelltu á bláa linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af GEFA – TAKA spilinu með þorramatnum.

Orðasúpa, tengiverkefni, skriftarrenningar og A4 veggspjöld

Seinni hluti námsefnisins er ritunarverkefni þar sem nemendur finna þorramat í orðasúpu, tengja samsett orð sem slitin hafa verið í sundur, æfa sig að skrifa orð á þar til gerða skriftarrenninga og safna fleiri orðum tengdum þorranum. Smelltu HÉR til að sækja seinni hluta námsefnisins.

 

Kennsluleiðbeiningar – hreindýr

Útbreiðsla hreindýra

Á verkefnablaðinu má sjá mynd af Austurlandi. Útbreiðslumörk hreindýra markast norður af Austurlandi frá Jökulsá á Fjöllum, norður fyrir Dettifoss og yfir í Þistilfjörð. Suður af Austurlandi liggja mörkin að Breiðamerkurlóni. Nánari upplýsingar um útbreiðslu hreindýra má finna í vöktunarskýrslum Náttúrustofu Austurlands, sjá mynd 1.

Aukaverkefni:

 • Teikna útbreiðslumörkin inn á Íslandskortið.

Hreindýrakönnun

Nemendur gera könnun meðal bekkjarfélaga hversu margir hafa séð eða komist í návígi við villt hreindýr í umhverfi sínu. Nemendur geta velt því fyrir sér hvort hreindýr í húsdýragarði falli undir skilgreininguna villt hreindýr.

Fyrstu hreindýrin

Hreindýr hafa verið flutt fjórum sinnum frá Noregi til Íslands. Nemendur finna staðina á landakorti og skrá inn á Íslandskortið.

Umræðupunktar:

 • Hvað er langt síðan fyrstu dýrin komu til Íslands?
 • Af hverju ætli Vestmannaeyjar hafi orðið fyrir valinu?

Fæða hreindýra 1

Nemendur finna orðin sem falin eru ýmist áfram, aftur á bak, upp, niður eða á ská í orðasúpunni.

Umræðupunktar:

 • Hvað af jurtaheitunum eru samsett orð?
 • Af hverju eru jurtaheiti skrifuð með litlum staf?
 • Hvaða jurtir eða gróður eru líka mannanöfn?

Fæða hreindýra 2

Nemendur prenta út myndir, klippa niður og líma í reitina eða teikna myndir í þá. Vefurinn Flóra Íslands hefur að geyma mjög góðar upplýsingar. Einnig má hugsa sér að tína jurtirnar, þurrka og líma í reitina.

Hugtakakortið

Aftast í verkefnaheftinu er fylgiskjalið Klippt og límt. Nemendur klippa miðana út og líma í reitina eftir því sem við á. Með flokkun er átt við hvernig hreindýr flokkast innan dýraríkisins.

Aukaverkefni:

 • Útbúa orðskýringar í stílabók.
 • Skrá orðin í stafrófsröð í stílabók.
 • Raða hverjum flokki fyrir sig í stafrófsröð áður en miðar eru límdir á verkefnablaðið.
 • Draga miða og útskýra hugtakið fyrir bekknum.

Hreindýrahornin

Nemendur setja orðin á réttan stað í eyðurnar. Ljósmyndir í heftinu eru teknar af Skarphéðni G. Þórissyni sérfræðingi hjá Náttúrustofu Austurlands. Á síðunni hans, hreindyr.com, er að finna mikið magn af fallegum árstíðatengdum myndum af villtum hreindýrum á Íslandi.

Hreindýrasagan

Hvað er að gerast á myndinni? Nemendur búa til frétt eða smásögu og skrifa á línurnar.

Aukaverkefni:

 • Lesa söguna upp fyrir samnemendur.
 • Hvaða fleiri hættum í umhverfinu getur hreindýrum staðið ógn af?

Hreindýraveiðar

Veiðar hafa verið stundaðar á hreindýrum um árabil og nánari upplýsingar um hreindýraleyfi, veiðikort, lög og reglur, uppskriftir og veiðiupplýsingar má finna á vef Umhverfisstofnunar.

Safnarallý

Á Minjasafni Austurlands er sýningin Hreindýrin á Austurlandi. Hægt er að nálgast PDF skjal hér með númeruðum munum fyrir safnarallýið:

 • H01 Loðin krúna
 • H02 Staðsetningartæki fyrir hreindýr
 • H03 Byssa
 • H04 Göngustafur úr hreindýrshorni
 • H05 Hreindýrshorn flækt í vír
 • H06 Fótur af hreindýri
 • H07 Eyrnamerki fyrir hreindýrskálfa
 • H08 Klyfberi
 • H09 Verkfæri úr hreindýrshorni
 • H10 Hreindýrshorn sem hefur dottið af hreindýri (efst: brennimerki, miðja: hófjárn, neðst: heynál).

Hreindýraprófið

Könnun fyrir nemendur í lok yfirferðar.

Umræðupunktar:

 • Hvað fannst þér áhugaverðast?
 • Hvað myndir þú vilja vita meira um hreindýr?
 • Þekkir þú einhver fræg hreindýr? Hver?
 • Hefur þú smakkað hreindýrakjöt?
 • Áttu hlut úr beini, horni eða skinni hreindýra?

Hægt er að sækja útprentanlegt PDF form af kennsluleiðbeiningum með því að smella á bláa linkinn efst á síðunni.  Í VINNSLU