Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Mánudagsgleðin

now browsing by tag

 
 

10 atriði um mig

Hvaða 10 atriði ættu aðrir að vita til að kynnast mér betur? Hvað hef ég afrekað sem enginn veit um? Hvaða drauma geng ég með í maganum? Hvað læt ég ekki bjóða mér? Hér má bæði nýta skjalið í naflaskoðun með nemendum en einnig mætti hugsa sér að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og skálda eitthvað skemmtilegt á línurnar :-).

Bókarýni

Það er gaman að lesa góðar bækur, en það er líka áhugavert að skoða uppbyggingu bóka og hugtökin sem þeim tengjast. Vita allir muninn á setningu og málsgrein? Er munur? Hvað eru greinarmerki, og hvað eru þau mörg? Hvað gera ritstjórar? Eru ritstjórar á öllu útgefnu efni? Hvað eru margar ólíkar leturgerðir í bókunum sem nemandinn er að lesa? Er letrið notað í öðrum tilgangi en að koma upplýsingum til lesanda? Er það skáletrað, undirstrikað eða feiletrað? Eru einhver orð sem eru stærri en önnur í textanum? Ef svo er, hvaða tilgangi gæti það þjónað?

Að þessu sinni eru renningarnir tvennskonar, einn sem tengist uppbyggingu og innihaldi bókanna sjálfra og nota má sem gátlisti við ritunarverkefnið, og annar sem sýnir dæmi um margskonar lesmeti.

Klippikort

Klippikortið og skorkortið er notað saman. Nemandi setur sér markmið t.d. að lesa í ákveðið marga daga eða mínútur, eða leysa svo og svo mörg stærðfræðidæmi í vikunni. Á sama hátt velur hann hvað hann vill gera þegar ákveðnum ávexti/markmiði er náð, og skráir á skorkortið.

Þegar nemandi hefur náð markmiðum sínum litar hann ávöxtinn á báðum kortum, og fær þá umbun/tilbreytingu/aukaverkefni/áhugasviðsverkefni sem unnið var að.

Hægt er að klippa kortin út og hefta saman eða ljósrita skjölin á eitt blað beggja vegna. Bæði er hægt er að nota gögnin með einstaklingum og/eða hópum, og þannig vinna að sameiginlegum markmiðum á einstaklingsmiðuðum hraða. Þegar unnið er með hóp má hugsa sér að hafa sameiginlegu markmiðin sýnileg og stækka skorkortið upp í A3 stærð og festa á vegg.

Góða skemmtun í markmiðasetningunni 🙂

Sjá einnig:

Pacmanminnisarmbönd

 

Þarf barnið að muna eftir einhverju sérstöku fyrir morgundaginn? Þarf að minna það á bókasafnsbók sem er heima, heimalærdóm, daglegan lestur, eða að koma með hollara nesti? Er skólaferðalag framundan, furðufatadagur eða sparinesti á morgun? Er kannski ávaxtahlaðborð í skólastofunni eða bangsadagur? PacManarmbandið kemur að góðum notum þegar þarf að muna eftir áríðandi hlut sem má ekki gleymast. Kennari eða nemandi skráir minnisatriðið á auða svæðið og svo er armbandið límt utan um úlnliðinn og þrengt eftir þörfum. Einnig má líma borðann utan um nestibrúsann, pennaveskið eða jafnvel hringa það utan um handfangið á skólatöskunni. PacManarmböndin má minnka eftir þörfum í ljósritunarvél.

Sjá einnig:

Klinkið

Nemendur klippa verkefnablaðið út og upp í punktalínurnar. Lím er borið aftan á kjölinn, svæðið með málshættinum, og borðann með fyrirsögninni (límda svæðið minnir á bókstafinn L á hvolfi). Verkefnablaðið er límt í reikningsbók eða stílabók þannig að myndist opnanlegir flipar. Nemendur skrá upphæðirnar með tölustöfum í reitina, opna flipana og búa til orðadæmi sem inniheldur peningaupphæðirnar.

Einnig má setja verkefnið upp sem sparnað og orðadæmin sem innlegg inn á bankabók. En leggur maður krónur inn á bankabók? Er klink peningur? Af hverju er þetta kallað klink? Af hverju er gott að spara? Hægt er að vinna samhliða með málshættina Safnast þegar saman kemur og Græddur er geymdur eyrir ;-).

Sparnaður

Markmiðið er að leggja saman tugi og hundruð sem hlaupa á tölunni 5. Nemendur geta unnið verkefnið einir eða spilað tveir og tveir saman saman. Hver nemandi þarf bréfaklemmu til að leysa verkefnið sem felst í því að tylla henni í gegnum blýantsodd á miðju skífunnar og þeyta í hringi. Talan úr fyrri snúningnum, vinstri skífunni, er skráð í dálk #1 og talan úr seinni snúningnum, hægri skífunni, er skráð í dálk #2. Svo er lagt saman í huganum. Ef nemendur spila tveir og tveir er hægt að keppast um það hver fær hærra heildarstig og hefur þannig sparað meira fyrir grísinn.

Sparilestur

Fyrir hverjar 10 mínútur sem nemendur lesa skrá þeir inn í peningana eða lita. Hér gefst skemmtilegt tækifæri að vinna með munstur og þrykk með því að leggja 10 króna pening undir kringlóttu reitina, og rissa yfir svæðið til að ná munstrinu í gegn. Fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að staðsetja myntina nógu nákvæmlega undir hringjunum er hægt að taka peningamunstrin upp á hvítt, autt blað, klippa svo út og líma í reitina.

Orðatetris

Hvað getur þú búið til mörg ný orð úr stöfunum í orðakubbnum? Fyrir lengra komna mættu fyrirmælin vera flóknari eins og að finna bara nafnorð, sagnorð eða lýsingarorð. Hér mætti einnig hugsa sér að skrásetja tímann á ýmsan hátt: 1) Tímann sem tekur að klára verkefnablaðið. 2) Tímann sem tekur að klára hvern dálk fyrir sig. 3) Gefa ákveðinn tíma í upphafi og skoða hversu mörg orð nemendur náðu að gera á fyrstu 10 mínútunum, 20 mínútunum eða 30 mínútunum. Smelltu á bláa linkinn fyrir ofan myndina til að sækja PDF í prenhæfri upplausn.

Bjölluritun

Maríuhænur eru fallegar bjöllur en það er ekki síður fróðlegt að fræðast um þær í þeirra náttúrulega umhverfi. Vissir þú að flestar tegundirnar eru rándýr? Náðu í þennan orðalista og bréfsefni ef þig vantar skemmtilegt ritunarverkefni. Smelltu á bláa PDF linkinn efst á síðunni til að sækja gögnin á prenthæfu formi.

Ítarefni:

Lesbjöllur

Lestrarátakið samanstendur af 30 bjöllum og þegar nemandi hefur lesið í ákveðið langan tíma má hann lita yfir bjöllu sem nemur lestrartímanum. Ef lesið er lengur en 30 mínútur má lita fleiri en 1 bjöllu. Lesbjöllurnar má nota sem átak í heimalestri og/eða í yndislestri á skólatíma. Með lesbjöllunum fylgir hornbókamerki fyrir þá sem vilja klippa, lita og líma.