Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Klippt og límt

now browsing by tag

 
 

Sjóræningjalestur

Sjóræningjalestur er skemmtileg klippilestraráskorun þar sem nemendur lesa í 10 skipti og velja miða hjá kennara (eða draga) til að líma í reitina. Áður en lestrarátakið hefst er hægt að setja sér lestrarmarkmið og skrifa í reitina, t.d. fjölda mínútna eða blaðsíðna sem barnið ætlar sér að lesa áður en límt er yfir reitinn. Í stóra reitinn teikna nemendur sjálfsmynd af sér með sjóræningjahattinn. Miðana má nota í margvísleg önnur verkefni t.d. til að para saman, draga miða og skrifa hvað er á honum eða draga miða, koma upp í pontu og tala um það sem dregið var í 1-2 mínútur.

Sjá einnig

Myndir:

Stafaröðin

Verkefnið er á allan hátt sambærilegt við stafrófsverkefnið Frá A-Ö, sjá kennsluleiðbeiningar, en hér reynir á nemendur að raða stafrófinu rétt áður en frekari vinna hefst.

Nemendur geta annars vegar þjálfað skrift og skrifað bókstafina í reitina áður en unnið er með verkefnablöðin, og hins vegar þjálfað fínhreyfingar með meðfylgjandi klippiverkefni, klippt stafina út, raðað miðunum á rétta staði og límt á verkefnablaðið. Tilvalið er að líma verkefnablöðin í heila opnu í stílabók.

Klippiverkefnablöðin má einnig ljósrita í stærri eintökum (A3) og nota í frekari stafrófsvinnu s.s. minnisleik, veiðimann, flokka í sérhljóða og samhljóða, …

Stafrófið frá A-Ö

Hægt er að vinna með stafrófsblöðin á marga mismunandi vegu en gaman er að skoða stafrófið einnig út frá sérhljóðum og samhljóðum. Þá er gott að byrja á því að lita sérhljóðana rauða og samhljóðana græna áður en klippt er. Þá má leika sér að því að skoða sérhljóða og samhljóða enn betur, og lita granna sérhljóða ljósrauða og breiða sérhljóða dökkrauða, einfalda samhljóða ljósgræna (c, ð, h, j, q, v, w, x, z, þ) og þá samhljóða sem geta staðið tveir eins saman (tvöfaldir) dökkgræna (bb, dd, ff, gg, kk, ll, mm, nn, pp, rr, ss, tt).

Í fyrirsögn fyrra verkefnablaðsins stendur að einn bókstafur (ð) geti aldrei staðið fremst í íslensku orði og nemendur lita þann reit gulan til helminga. Á seinna verkefnablaðinu stendur að sama skapi að Íslendingar hafi hætt að nota bókstaf (z) árið 1973 og að þann reit skuli lita bláan til helminga. Þetta er gert svo hægt sé að lita hinn helminginn grænan líkt og aðra samhljóða. Að öðru leyti má vinna með verkefnablaðið á eftirfarandi hátt sem dæmi:

Nemendur klippa verkefnablaðið út frá fyrirmælum, líma í opnu í stílabók og…

  • skrifa orð/setningar/málshætti/orðatiltæki að eigin vali sem byrja á bókstöfum stafrófsins, sjá einnig verkefnaheftið Málshættir í stafrófsröð.
  • finna orð í tímaritum sem byrja á stöfum stafrófsins, klippa þau út og líma undir flipana.
  • skoða stafrófið út frá orðflokkunum og finna sérnöfn, nafnorð, lýsingarorð eða sagnorð í texta sem jafnvel er unnið með í öðrum námsgreinum. Dæmi:
    • sögupersónur í bókum
    • fjöll á landakorti
    • nafnorð/sagnorð/lýsingarorð í yndislestrarbók
  • finna orð á öðrum tungumálum (ensku, dönsku eða móðurmálinu fyrir tvítyngd börn) og skrá undir flipana.

Stafrófsverkefnablaðið má nota í hvaða verkefnum sem er þegar unnið er með texta, orðflokka eða viðfangsefni. Einnig má búa til sérstakt safn í stílabók með orðum sem byrja á og/eða innihalda bókstafinn Z/z, bæði í dag (nöfn) og áður en breytingarnar urðu gerðar árið 1973. Sjá einnig verkefnaheftið Stafrófsbókin.