Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

gosflöskutappar

now browsing by tag

 
 

Tappamunstur

Tappamunstrin samanstanda af 6 skjölum. Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintaf af efninu.

Munsturshnappar

Í pakkanum eru samtals 15 mismunandi munstur (6 hnappar af hverju) á tveimur skjölum. Klippa þarf hnappana út og líma á gosflöskutappa. Einnig fylgir skjal með 54 auðum hnöppum fyrir nemendur sem vilja útbúa sín eigin munstur. Þá er einnig hægt að búa til margvísleg munstur með því að klippa þau úr tímaritum og dagblöðum.

Munstursrenningar

Efninu fylgja 10 mismunandi munstursrenningar sem gott væri að plasta og klippa niður. Nemendur finna tappa með samsvarandi munstri og leggja yfir hringlaga formið. Skjal með auðum renningum fylgir einnig sem hægt er að nota í munstursgerðinni. Til að tengja vinnuna við önnur hugtök í stærðfræði er kjörið að taka tímann hversu lengi nemendur eru að leysa munstursþrautirnar og skrá niður, og skoða form og tölfræðina í munstrunum.

Tappatafl

Tappataflið samanstendur af 3 skjölum. Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af efninu.

Taflmenn

Lita þarf taflmennina, klippa út og líma á gosflöskutappa. Nemendur geta hvort heldur sem er litað taflmennina sjálfa eða bakgrunn þeirra.

Taflborð – 2 helmingar

Klippa þarf taflborðið út, líma saman og merkja samkvæmt leiðbeiningum. Gott er að styrkja taflborðið með því að líma það á þykkari pappír t.d. utan af morgunkorni eða plasta í vél sem tekur A3 skjöl. Nánari leiðbeiningar er að finna á skjalinu sjálfu.

 

 

Tappastafróf

Tappastafrófið samanstendur af 3 skjölum. Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af efninu.

Hástafir og lágstafir

Prentaðu skjölin, klipptu hnappana út og límdu á gosföskutappa. Hægt er að lita sérhljóða rauða og samhljóða græna, prenta gögnin á rauðan og grænan pappír eða líma hnappana á sitt hvorn litinn af gosflöskutöppum. Gögnin er hægt að nota til að leggja inn sérhljóða og samhljóða, sem samstæðuspil en einnig til að mynda orð og setningar.

Þriggja stafa strimlar

Hægt er að vinna með þriggja stafa strimlana á ýmsa vegu. Kennari getur undirbúið gögnin með því að líma myndir á auðu svæðin með hlutum sem eiga það sameiginlegt að vera þriggja stafa (mús, hús, lús, bók, bær, lás, …). Nemendur finna svo rétta stafi og mynda orðin með því að leggja stafrófstappa í kringlóttu reitina. Einnig er hægt að láta nemendur sjálfa finna þriggja stafa orð, mynda það og teikna mynd af orðinu á auða svæðið. Þannig má einnig vinna með rímorð.

Tappastærðfræði

Tappastærðfræði samanstendur af 5 skjölum. Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af efninu.

Fjögur skjöl með tölum og reikniaðgerðum

Gagnasafnið samanstendur af tölunum 1-100, 100-1000, 1000-5000 og nokkrum núllum. Auk þess sem helstu reikniaðgerðir eru í pakkanum má finna prósentumerki, hérumbil tákn, jafntog merki, og meira en/minna en táknin. Klipptu hnappana út og límdu á gosflöskutappa.

Meira en/minna en

Skjalið inniheldur tvo renninga til fjölföldunar og plöstunar. Gott er að klippa skjalið í tvennt eftir plöstun. Nemendur draga tvo talnatappa af handahófi og leggja á hvítu reitina. Skyggðu reitirnir í miðjunni eru fyrir tappa með minna en/meira en táknunum. Nemendur raða þeim niður eftir því sem við á.

Bjölludómínó

Bjölludómínó samanstendur af 4 skjölum. Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af efninu.

Bjölludómínó

Hægt er að lita Dómínóbjöllurnar að eigin vali og spila eins og hefðbundið Dómínó. Einnig er hægt að prenta skjalið út á mismunandi litaðan pappír. Bjöllurnar eru klipptar út og límdar á gosflöskutappa.

Plúsbjöllur

Tilvalið er að plasta skjalið og margnota. Nemandi dregur tvær tappabjöllur og leggur þær sitt hvoru megin við plúsmerkið. Fyrst þarf að telja punktana á hvorri bjöllu áður en heildarpunktarnir á baki þeirra eru lagðir saman. Nemendur skrá svörin með glærupenna eða nota tölustafina sem finna má í pakkanum Tappastærðfræði.

Mínusbjöllur

Sama aðferð og með plúsbjöllurnar en nemandi þarf þó að gæta þess að raða mínusbjöllunum rétt svo minni talan dragist frá þeirri stærri. Hér gefst gott tækifæri til að ræða hvað gerist ef stærri talan er dregin frá þeirri minni, setja dæmi upp og læra að taka til láns.

Margföldunarbjöllur

Unnið er með margföldunarbjöllurnar á sama hátt og plús- og mínusbjöllurnar. Með yngri nemendum, sem ekki hafa lært margföldun, er tilvalið að leysa dæmin með vasareikni eða saman á töflu.

Tappabingó

Tappabingóið samanstendur af 4 skjölum. Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja PDF eintak af efninu.

 

Bingóspjald til fjölföldunar

Hægt er að vinna með bingóspjaldið á nokkra vegu. Nemendur draga tappa og raða á bingóspjaldið. Þegar bingóstjóri dregur orðið er viðkomandi tappi tekinn af spjaldinu, eða honum snúið við. Plasta mætti bingóspjaldið og í stað þess að leggja orðatappa á reitina eru orðin skrifuð í þá með glærupenna og auðir tappar lagðir yfir þegar spilað er.

Tveggja stafa orð

Hnapparnir með tveggja stafa orðunum eru klipptir út og límdir á gosflöskutappa. Tapparnir eru notaðir sem hjálpargögn í bingóinu og með skriftarstrimlunum. Bingóstjóri dregur orð (eða tappa með orðinu) og ef prentað er út fleiri en eitt eintak má nota annað skjalið sem stjórnborð fyrir bingóstjóra til að leggja á þegar spilað er. Bingóstjóri getur einnig klippt niður skriftarrenningana og notað þá miða til að draga í leiknum.

Skriftarrenningar

Skriftarrenningarnir innihalda tveggja stafa orð. Nota má skriftarrenninga á margvíslegan máta í vinnu með nemendum, sjá hugmyndabanka. Með Tappabingóinu eru skriftarrenningarnir hugsaðir sem orðasafn fyrir nemendur sem þá velja úr orð af þeim til að skrifa inn á bingóspjöldin. Einnig er hægt að plasta renningana, klippa niður og nota til að draga í bingóinu.

Skriftarstrimlar

Nemandi dregur tappa með tveggja stafa orði, leggur tappann í hringlaga reit og skrifar setningu á línurnar sem inniheldur orðið. Hægt er að plasta skjalið og margnota skriftarstrimlana ef skrifað er með glærupenna.