Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Bangsaganga

now browsing by tag

 
 

25 mismunandi bangsar

Það getur verið gott að þjálfa sig í að telja og skrá upp í 25. Skjalið er tilvalið að nota til að æfa sig að skrifa 1-25 áður en farið er í bangsagöngu, en einnig má nota það til að telja bangsa meðan á göngunni stendur. Þá er líka upplagt að taka blýanta og tréliti með ef vel viðrar og a) teikna bangsana sem sjást á göngunni s.s. útlit, föt, fylgihluti og annað sem einkennir þá og b) lita bangsana sem sjást á göngunni í réttum litum.

5 daga bangsaganga

Bangsasúluritið er gönguáskorun þar sem börn og foreldrar setja sér 5 daga útivistarmarkmið, og telja og skrá hversu margir bangsar sjást í hverri gönguferð. Fyrir hvern bangsa sem sést á göngunni er skráð inn í einn reit súluritsins. Eftir hverja gönguferð er niðurstaðan tekin saman og skráð með tölustöfum inn í bangsana. Eftir 5 daga eru niðurstöðurnar bornar saman. Vangaveltur: Hvaða dag sáust flestir bangsar? Fjölgaði böngsunum eða fækkaði þeim eftir því sem oftar var farið? Hvaða bangsi var eftirminnilegastur og hvers vegna?

3ja daga bangsaganga

Bangsaskráning og töfluvinna. Þetta skjal er hægt að nýta í þremur ólíkum bangsagöngum, innan húss sem utan, og jafnvel í bæjarferðum og verslunarleiðöngrum. Í hvert skipti sem barn sér bangsa í bæjarferðinni litar það einn reit í töflunni. Einnig má taka þetta lengra og skrá litinn á böngsunum í töfluna. Ef fyrsti bangsinn er brúnn er einn reitur í töflunni fylltur með brúnum lit og svo framvegis. Einnig má hugsa sér skjalið sem umbunarkerfi á þann hátt að í hvert sinn sem barn, og bangsi þess, gera hlutina rétt, fær það límmiða eða stimpil í reit.