Sigfús Sigfússon
now browsing by tag
Sigfús – kennsluleiðbeiningar
Smelltu á linkinn hér fyrir ofan til að sækja útprentanlegt eintak, PDF, af kennsluleiðbeiningum við námsefnið um Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritara.
Sigfús – Samantekt
Til að leysa verkefnin um Sigfús Sigfússon þarf að lesa samantekt sem Héraðsskjalasafn Austfirðinga, vann í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Minjasafn Austurlands.
Efnið er birt með góðfúslegu leyfi aðstandenda og heimilt er að útbúa bekkjarsett, og nýta skjalið sem samlestur í bekk og/eða varpa því upp á töflu.
Smelltu á bláa PDF linkinn efst á síðunni til að sækja skjalið.
Sigfús – þjóðsögurenningar
Orðasafn við 12 af þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar, fylgiefni við verkefnasafn Minjasafns Austurlands. Skriftarrenningana er tilvalið að prenta í lit, plasta og nota sem fjölnota gögn. Þá má nýta á margvislegan hátt í kennslu, sjá kennsluhugmyndir hér.
Sigfús Sigfússon
Prentgögn:
- Námsefni/ritunarverkefni/veggspjöld (blár linkur hér fyrir ofan)
- Samantekt um Sigfús Sigfússon
- Skriftarrenningar
- Bréfsefni
- Útprentanlegar kennsluleiðbeiningar
Heftið samanstendur af kynningu á Sigfúsi Sigfússyni þjóðsagnaritara og 12 af þeim fjölmörgu þjóðsögum sem hann safnaði. Verkefnin eru 14, auk krossaprófs, og tilvalið að skipta þeim niður á jafnmargar kennslustundir. Í efninu er lögð sérstök áhersla á málfræði og hugtök tengd bókmenntum. Í pakkanum fylgja einnig ritunarverkefni og veggspjöld.
Námsefnið er hugsað fyrir nemendur í 4. bekk en sjaldséð orð, hugtök og orðatiltæki geta vafist fyrir aldurshópnum. Hér gefst því gott tækifæri til að skoða og efla orðaforða sérstaklega. Útbúnir hafa verið skriftarrenningar við hverja þjóðsögu sem nýta má á margvíslegan hátt í kennslu, sjá kennsluhugmyndir hér. Bréfsefni fyrir skriftarrenninga og önnur ritunar- og stílabókaverkefni má nálgast hér. Kennsluleiðbeiningar eru allar hér á síðunni en einnig má sækja þær á PDF skjali hér.
Til að leysa verkefnin um Sigfús Sigfússon þarf að lesa samantekt sem Héraðsskjalasafn Austfirðinga vann í samstarfi við Bókasafn Héraðsbúa og Minjasafn Austurlands. Heimilt er að útbúa bekkjarsett og nýta skjalið sem samlestur í bekk og/eða varpa því upp á töflu. Samantektin er birt með góðfúslegu leyfi aðstandenda og má sækja hér.
Til að leysa önnur verkefni þarf að hlusta á upplestur á þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar sem vistaðar eru á heimasíðu Minjasafns Austurlands, sjá hér.
Efnisyfirlit:
Forsíða: Um Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritara
Bls. 2-3: Sigfús Sigfússon
Bls. 4: Skrímsli elta Vopnfirðinga (Vopnafjörður)
Bls. 5: Kappróður (Mjóifjörður)
Bls. 6: Klettaganga Oddnýjar (Hróarstunga)
Bls. 7: Ég heiti Víðförull (Seyðisfjörður)
Bls. 8: Skessa undir Fardagafossi (Fardagafoss)
Bls. 9: Vígdeildarhamar (Mjóifjörður)
Bls. 10: Skessurnar í Norðfirði (Norðfjörður)
Bls. 11: Sæluhúsfylgjan í Tungudal (Tungudalur)
Bls. 12: Mannshöndin (Vellir)
Bls. 13: Upphaf Freyfaxa (Hrafnkelsdalur)
Bls. 14: Skrúðsbóndinn (Skrúður)
Bls. 15: Völvuleiði í Breiðdal (Breiðdalur)
Bls. 16: Sigfúsarprófið – krossapróf.
Sigfús Sigfússon, bls. 2
Á fyrra verkefnablaðinu eru 15 lesskilningsspurningar. Hægt er að skipta þeim niður á nemendahópinn, eða svara með nemendum á töflu. Lögð er áhersla á að nemendur noti stóran staf í upphafi málsgreina og endi þær á punkti.
Sigfúsarlundur, könnun: Nemendur spyrja hvern annan, eða gera handauppréttingu í hópnum, telja, og skrá niðurstöðuna með talnastrikum. Í síðasta reitinn er niðurstaðan skráð með tölustöfum.
Vangaveltur:
Hver er munurinn á setningu og málsgrein?
– Setning er orðasamband sem inniheldur eina sögn. Setningar geta tengst saman með samtengingum eða kommum, og ein eða fleiri setningar mynda málsgrein. Einkenni málsgreinar er að byrja alltaf á stórum staf og enda á punkti.
Hvað eru samtengingar?
– Samtengingar eru óbeygjanleg smáorð sem tengja saman orð, orðasambönd og setningar. Samtengingar flokkast í aðaltengingar og aukatengingar. Dæmi um þær eru: og, eða, en, hvorki né, …
Sigfús Sigfússon, bls. 3.
Hvenær notum við þrípunkt og gæsalappir? Nemendur skoða málsgreinar sem teknar eru upp úr lesefni og ljúka við þær. Þrípunktur gefur til kynna að orð hafi verið felld úr upprunalegum texta, og gæsalappir þýða að texti er tekinn orðréttur upp úr efni. Nemendur skoða málsgreinar úr lesefni og ljúka við þær.
Vangaveltur:
Eru allar gæsalappir eins?
– Nei, þær eru ýmist einfaldar (eitt strik) eða tvöfaldar (tvö strik) en samanstanda þó alltaf af opnunargreinarmerki og lokunargreinarmerki. Það fer meðal annars eftir tungumálum hvort þessi merki séu eins. Í íslensku er venjan að hafa opnunargreinarmerkið niðri og lokunargreinarmerkið uppi.
Skrímsli elta Vopnfirðinga (Vopnafjörður), bls. 4
Hér er unnið með bókmenntahugtakið sögusvið. Hvað er það sem gefur okkur til kynna hvert sögusviðið er? Hvað í umhverfinu s.s. fatnaður, munir, landslag, húsnæði, árstíð og tímabil varpa ljósi á það?
Nemendur finna samheiti nokkurra nafnorða í sögunni (tillaga að lausn: skepna/skrípi, útlit/ásjóna, gæðingur/hestur, maður/karl, spjör/flík, tún/engi, strompur/skorsteinn, ráð/lausn, yfirhöfn/jakki, öðru sinni/annað skipti), og skoða orðatiltæki sem koma fyrir í upplestrinum.
Kappróður (Borgarfjörður), bls. 5
Sögupersónur skiptast í aðalpersónur og aukapersónur, en hver er munurinn? Nemendur skrá svörin í stílabók eða meðfylgjandi bréfsefni.
– Aðalpersóna er sú sögupersóna sem viðburðir eða söguþráður snúast mest um. Aukapersónur gegna minna hlutverki en aðalpersónan, en eru oft notaðar til að varpa skýrara ljósi á hana og aðstæður hennar. Aukapersónur eru þó ekki síður mikilvægar fyrir söguna í heild sinni.
Sagnorð greina frá því sem sögupersónur gera, og finnast meðal annars í nútíð, þátíð og nafnhætti. Nemendur hlusta vel á upplesturinn og haka í reiti hjá sagnorðum sem þeir heyra. Neðst á verkefnablaðinu skoða nemendur sömu orð og skrá þau í nafnhætti.
Klettaganga Oddnýjar (Hróarstunga), bls. 6
Nemendur skoða samsett orð sem koma fyrir í þjóðsögunni, skrá hvaða orðflokki þau tilheyra og hvaða orð mynda þau. Neðst á verkefnablaðinu er aukaverkefni þar sem nemendur búa annars vegar til málsgreinar sem innihalda samsettu orðin, og hins vegar finna þeir 10 samsett orð til viðbótar.
Vangaveltur:
Algengt er að kvenmannsnöfn sem enda á –ý séu rangt fallbeygð. Hvað þekkja nemendur mörg nöfn sem enda á bókstafnum? Hvernig á að fallbeygja slík nöfn?
Ég heiti Víðförull (Seyðisfjörður), bls. 7
Útdráttur kallast það þegar frásögn eða saga er tekin saman í styttri útgáfu. Nemendur æfa sig á því að stytta texta, og skilja aðalatriði frá aukaatriðum. Aftast í námsefnispakkanum er að finna verkefnablað fyrir hverja þjóðsögu, og veggspjald við, sem nýta má í þessari vinnu.
Vangaveltur:
Hver er munurinn á orðunum útdráttur og úrdráttur?
– Sjá svar Vísindavefs Háskóla Íslands
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki:
– Að mæta kunnum og ókunnum
– Að vera tröll að vexti
– Að standa stuggur af einhverjum
– Að snarast framhjá
– Að brjóta upp á samtali
– Að gera eitthvað að fyrra bragði
– Að vera víðförull
– Að bera nafn með rentu
– Að gefa í skyn
– Að koma við hjá einhverjum
Skessa undir Fardagafossi (Fardagafoss), bls. 8
Nemendur hlusta á þjóðsöguna og svara hvort fullyrðingar séu sannar eða ósannar. Líklegt er að hlusta þurfi nokkrum sinnum á efnið. Bókmenntahugtakið endurtekning er skoðað og nemendur gera því skil í stílabók.
Vangaveltur:
Hvað þýðir bókmenntahugtakið endurtekning?
– Þegar skáld eða höfundur vill leggja sérstaka áherslu á hugsun eða athöfn, eða auka áhrifamátt, eru orð eða setningar í texta endurteknar. Þetta er mjög algengt stílbragð og endurtekningar geta verið margvíslegar. Tilvalið er að fletta bókinni Skólaljóð, eða öðrum ljóðabókum, og finna dæmi um endurtekningar.
Vígdeildarhamar (Mjóifjörður), bls. 9
Þjóðsagan fjallar um þræla sem struku frá húsbónda sínum og mannskæðan eltingaleik sem upphófst í kjölfarið. Til að afla sér lífsviðurværis stálu þeir frá bændum í sveitinni sem urðu fyrir búfjártjóni. Við fáum lítið að vita hvernig þrælunum leið og hlutverk nemenda er að setja sig í þeirra spor, og endurskrifa atburðinn frá sjónarhorni þrælanna. Nemendur tengja einnig saman orð og orðskýringar. Nokkur orð eru undirstrikuð en þeim raða nemendur í stafrófsröð neðst á verkefnablaðinu.
Vangaveltur:
– Af hverju verður fólk grimmt eða illa innrætt?
– Getur verið að illa hafi verið farið með þrælana?
– Telur þú það vera glæp að veiða sér til matar þegar fólk sveltur?
– Fengu þrælarnir sanngjarna meðferð?
– Hvað urðu til mörg örnefni í tengslum við þjóðsöguna? (Svar: Kiðahjalli, Þræladalur, Þrælatindur, Þinghóll, Teitatindur og Vígdeildarhamar.)
Skessurnar í Norðfirði (Norðfjörður), bls. 10
Í sögunni segir frá því hvernig landslagi er gefið nafn í tengslum við prestahvarf. Nöfn á náttúrufyrirbærum og stöðum kallast örnefni. Þau eru sérnöfn og því skrifuð með stórum upphafsstaf. Nemendur hlusta á þjóðsöguna og skoða örnefni sem þau þekkja í eigin byggð.
Norðfjarðarskessurnar er langt orð og hægt að búa til mörg ný orð úr bókstöfunum sem koma fyrir í því. Orð í orði felst í því að finna orð í orðinu án þess að færa til stafi eða víxla þeim (orð, fjarða, jarða, skessur, Norðfjarðar, …). Orð úr orði felst í því að nota bókstafina sem fyrir koma og endurraða þeim til að finna ný og jafnvel óskyld orð (roð, rass, fer, norður, …).
Vangaveltur:
Er munur á örnefni og kennileiti?
– Já, munurinn felst í því að kennileiti geta verið hlutir í umhverfinu sem við notum til að vísa til vegar, eða lýsa aðstæðum, en þó ekki merkilegri en svo að ástæða sé til að þeir fái sitt eigið nafn. Þetta gæti verið stórt tré, slóði, rústir, bílhræ eða annað drasl.
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að seyða einhvern til sín
– Að setjast niður réttum beinum
– Að vera ekki til setunnar boðið
– Að reka á land
– Að heita á einhvern/eitthvað
Áhugaverðir tenglar:
– Örnefnasjá Landmælinga Íslands
– Örnefnasjá Alta
– Örnefnasögur á mjólkurfernum
Sæluhúsfylgjan í Tungudal (Tungudalur), bls. 11
Nemendur læra hvað felst í orðinu tilvitnun og skoða hvernig gæsalappir eru notaðar í texta, sjá ennfremur verkefni 3 um Sigfús Sigfússon.
Nemendur finna nafnorð í sögunni og setja inn í töflu þar sem þeir skrá kyn og tölu þess, og bæta við það greini. Sem aukaverkefni geta nemendur unnið meira með orðasafnið og fallbeygt orðin í eintölu og fleirtölu, með og án greinis, í stílabók.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að verða dagþrota
– Að búast um
– Að eitthvað sæki að manni
– Að hrökklast upp
– Að snarast að einhverjum
– Að taka á móti (í slagsmálum)
– Að hafa einhvern undir
– Að smjúga úr greipum einhvers
– Að hníga í öngvit
– Að vera ófælinn
Mannshöndin (Vellir), bls. 12
Ytri tími tengist almanaksárinu, nemendur kynnast bókmenntahugtakinu og skoða atriði í þjóðsögunni sem gefið geta vísbendingar um ytra tíma.
Verkefnavinnan felst í því að hlusta eftir lýsingarorðum í þjóðsögunni og skrá 10 þeirra í reitaða dálkinn inni í orðasúpunni (dæmi: duglegur, efnileg, fríð, ungur, vænn, æf, viljug, heitustu, sárasta, undarlegur, máttlaus, heilt, langir, góð, …).
Því næst hanna nemendur orðasúpuna og staðsetja lýsingarorðin ýmist áfram, afturábak, upp, niður eða á ská, einn bókstaf í hvern reit. Að lokum eru auðir reitir einnig fylltir með bókstöfum.
Hugmyndir að aukaverkefnum:
– Stigbreyta lýsingarorðin, flokka eftir kyni og fallbeygja.
– Skrifa setningar þar sem lýsingarorðin koma við sögu.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að vera vel fjáreigandi
– Að vera gjafvaxta
– Að vera vel gefinn
– Að bindast heitorðum
– Að verða einhvers var
– Að koma einhverjum fyrir (einhvers staðar)
– Að fara eitthvað nauðug viljug
– Að verða hverft við
– Að hljóða upp yfir sig
– Að vera ekki mönnum sinnandi
– Að verða úti um nótt
Upphaf Freyfaxa (Hrafnkelsdalur), bls. 13
Sögusvið þjóðsögunnar um upphaf Freyfaxa er skoðað (Hrafnkelsdalur). Hvaða örnefni tengjast þjóðsögunni og verða til í kjölfar hennar? Til eru margir flokkar af ritverkum og þjóðsögur eru einn þeirra, hvernig myndi ritverk byggt á lífi nemenda flokkast?
Sigfús Sigúfsson flokkaði sögurnar sínar í marga undirflokka og finna má svörin við verkefninu í samantekt Héraðsskjalasafns Austfirðinga, Bókasafns Héraðsbúa og Minjasafns Austurlands.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að ganga sjálfala
– Að vera í látum
– Að fylgja einhverjum fast eftir
– Að vera með fyli
– Að spinnast út frá einhverju
Skrúðsbóndinn (Skrúður), bls. 14
Innri tími greinir frá því hversu langur tími líður innan sögu, frá því að hún byrjar og þar til henni lýkur. Nemendur hlusta á þjóðsöguna um Skrúðsbóndann og haka í rétt svar. Verkefnið reynir jafnframt á hlustun og ritun, þar sem nemendur skrá niður 20 orð að eigin vali meðan hlýtt er á upplesturinn. Að lokum skoða þeir stafsetningu orðanna og leiðrétta eftir atvikum.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að vera tröll að vexti
– Að þekkjast hvorki fyrr né síðar (hér á landi)
Hvað er spraka? (Svar: lúða)
Hvaða fleiri orð eru til yfir lúðu? (Svar: flyðra, heilagfiski og stórlúða)
Hvar er Skrúður? Er búið í Skrúð?
Völvuleiði í Breiðdal (Breiðdalur), bls. 15
Á tímum Sigfúsar notaði fólk fjaðurpenna og blekbyttur við skriftir, og sortulyng var notað til blekgerðar. Á Vísindavef Háskóla Íslands má sjá hvernig blek úr sortulyngi er útbúið.
Vangaveltur:
Hvað þýða þessar setningar og orðatiltæki?
– Að segja fyrir um eitthvað
– Að leggja eitthvað á (álögur)
– Að ráðast í eitthvað
– Að áræða eitthvað
– Að þurfa frá að hverfa
Sigfúsarprófið (Krossapróf), bls. 16
Nemendur rifja upp innihald námsefnispakkans og reyna sig við krossaprófið.
Námsefnisgerð og grafísk uppsetning:
Unnur María Sólmundsdóttir, grunnskólakennari og námsefnishöfundur.
Yfirlestur:
Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands.
Elín Sigríður Arnórsdóttir, grunnskólakennari.
Vésteinn Valgarðsson, sagnfræðingur.
Myndaskrá:
Teikningar: Sóldís Perla Ólafsdóttir, 5. bekk Breiðholtsskóla, vor 2018.
Ljósmynd af Sigfúsi Sigfússyni við skriftir: Vigfús Sigurðsson frá Egilsstöðum í Fljótsdal, mynd í eigu Ljósmyndasafns Austurlands.
Fjaðurpenni 1: moziru.com
Fjaðurpenni 2: clipartpanda.com