Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Óskastjarnan

Sjóræningjalestur

Sjóræningjalestur er skemmtileg klippilestraráskorun þar sem nemendur lesa í 10 skipti og velja miða hjá kennara (eða draga) til að líma í reitina. Áður en lestrarátakið hefst er hægt að setja sér lestrarmarkmið og skrifa í reitina, t.d. fjölda mínútna eða blaðsíðna sem barnið ætlar sér að lesa áður en límt er yfir reitinn. Í stóra reitinn teikna nemendur sjálfsmynd af sér með sjóræningjahattinn. Miðana má nota í margvísleg önnur verkefni t.d. til að para saman, draga miða og skrifa hvað er á honum eða draga miða, koma upp í pontu og tala um það sem dregið var í 1-2 mínútur.

Sjá einnig

Myndir:

marglytturnar boðlestur

Það er ekki hægt annað en að henda í boðlestur til heiðurs Marglyttunum okkar sem í skrifuðum orðum eru að synda yfir Ermasund milli Englands og Frakklands. Lestrarsprettinn má nýta á ýmsa vegu:

  1. Hópavinna með 6 nemendum sem lesa saman. Einn les í einu og hinir fimm hlusta á meðan. Endurtekið 4x. Eftir lestur kvitta börnin á marglyttublað samnemenda og/eða lita marglytturnar í fallegum litum.
  2. Hópavinna með 3 nemendum. Einn les í einu og hinir tveir hlusta á meðan. Endurtekið 8x. Eftir lestur kvitta börnin á marglyttublað samnemenda og/eða lita marglyttunar í fallegum litum.
  3. Paralestur. Tveir nemendur lesa til skiptis fyrir hvorn annan. Hér er hægt að skipta reglulega um lesfélaga yfir vikuna og skrá nöfnin inn í marglytturnar.
  4. Einstaklingslestur. Nemandi les og litar eina marglyttu í hvert sinn sem hann lýkur lestrinum. Einnig getur hann skráð lesnar blaðsíður eða mínútufjölda inn í marglytturnar.

Áfram Marglyttur! Áfram marglyttulestur! 🙂

Uglulestur

Hvað er skemmtilegra en að kasta tening og lesa? Og læra að lesa á tening í leiðinni? Uglulesturinn felst í því að nemendur kasta tening til að ákveða hversu margar blaðsíður eða mínútur er lesið í hvert sinn. Í stað þess að skrá tölustafina teikna nemendur teningana í reitina. Hér getur kennari leyft sér að setja ýmsar reglur s.s. að til að byrja verði að fá 6, ef talan 1 kemur upp verði að kasta aftur og eins má nota 2 teninga fyrir eldri börn og þá leggja saman eða margfalda teningana saman til að ákveða fjölda lesinna mínútna. Bara það sem hugmyndaflugið leyfir hverju sinni :-). Úúú… bara gaman!

Ágústspretturinn 2019 er til heiðurs alþjóðadegi uglunnar sem er 4. ágúst ár hvert. Í byrjun september 2019 verður hægt að nálgast smá fróðleik og orðasúpu um ugluna hér.

 

Bekkjarlestur

Í bekkjarlestri lesa nemendur í 30 daga og skrá fjölda blaðsíðna í hvern reit. Markmiðið er ekki að lesa sem mest heldur halda út 30 daga sprett svo inn á milli eru stjörnumerktir umbunarreitir sem kennarar og foreldrar geta útfært eftir þörfum.

Umbunarreiti má þannig útfæra á margvíslegan máta s.s. að lesa með hárkollu, lesa undir borði, lesa fram á gangi, lesa úti, …  Einnig má hugsa sér að nemendur sem heild safni stjörnum sem kennari skráir þá upp á töflu og þegar komið er ákveðinn stjörnufjöldi sé uppbrot af einhverju tagi á kennslustund. Það er nefnilega allt opið og ekkert mál að gera lesturinn skemmtilegan og spennandi! Ekki verra að hafa 5 stjörnu lestrarsprett til að styðjast við, smelltu á bláa linkinn efst til að tryggja þér frítt eintak ;-).

Lestrarskráin

Lestrarkráin er nokkurs konar lestrarbókhald þar sem nemendur skrá dagsetningu, lesnar síður og lesnar mínútur. Skjalið má einnig nota sem skipulagsgagn þar sem nemendur setja sér lestrarmarkmið fram í tímann, sjá einnig lestrarsprettinn Lestrarplanið.

Með lestrarskráningunni gefst kennara og nemendum tækifæri til að skoða bekkjarlesturinn í nýju samhengi s.s. hversu margar mínútur eru nemendur í bekknum búnir að lesa síðustu vikuna? Hvað voru margar blaðsíður lesnar á þessu tímabili? Hvert er meðaltalið af a) lesnum blaðsíðum b) fjölda lesinna mínútna? Hvert er miðgildið í báðum flokkum? Tilvalið er að setja niðurstöður hvers og eins upp í stöplarit annars vegar og niðurstöðu bekkjarins hins vegar og bera saman. Hvað er skemmtilegra en að samþætta stærðfræði og lestur? Góða skemmtun! 🙂

Lestrarplan

Lestrarplanið er öðruvísi og skemmtilegur lestrarsprettur. Nemendur ákveða sjálfir hvaða tímabil þeir ætla að lesa en frá því að þeir byrja tekur spretturinn 2 vikur með helgarhléi á milli. Nemendur haka í hvort þeir ætli að lesa ákveðinn blaðsíðufjölda eða mínútufjölda, og áætla magnið fram í tímann með því að skrá tölustafinn í reitinn undir vikudögunum. Þegar markmiði dagsins er náð kvitta þeir undir með fingrafarinu svo nauðsynlegt er að hafa blekpúða við höndina. Hér gefst gott tækifæri til að rifja upp hinar ýmsu fingravísur.

Bókahillan

Í bókahillunni eru 15 bækur. Þegar nemandi hefur lesið bók er hún “sett í hilluna” með því að rita titil hennar á bókarkjöl á skráningarblaðinu. Á sama hátt er hægt að búa til pappírsbókahillu upp á vegg kennslustofunnar/barnaherbergsisins með stóru bókakjölunum sem fylgja. Þá klippir nemandi kjölinn út, skráir titil bókarinnar á línuna og límir bókina upp á vegg. Einnig má nýta kilina til að útbúa falleg bókamerki til að plasta.

Handboltalestur

Handboltalestur er 2 vikna (14 daga) lestrarátak. Í hvert sinn sem lesið er skrá nemendur nafn íslenskrar handboltahetju á línuna og lita leikmanninn í litum félagsliðsins sem hann/hún æfði með á sínum yngri árum. Á eftir nafninu má skrá lesnar mínúturnar innan sviga, dæmi: Harpa Melsteð (20 mín) eða Arnór Ingi (15 mín). Góða skemmtun í handboltalestrinum og ÁFRAM ÍSLAND.

Pacmanlestur

Hver fæddur 1980 eða fyrr man ekki eftir því að hafa spilað PacMan í stóra spilakassanum í sjoppunni á horninu? Það er alveg kominn tími til að dusta rykið af þessum gaur og kynna hann fyrir yngra liðinu! Og ekki er leiðinlegt að skella einum PacManlestrarspretti á mannskapinn í leiðinni. Hér má hugsa sér ýmsar leiðir til að vinna með skjalið, t.d. að láta reitina tákna hvern dag sem lesið er, eða þau skipti þegar kennari les fyrir bekkinn. Einnig má skrá lesnar mínútur í hringina og hafa ákveðið ávaxtaþema í nesti þá daga sem nemendur ná þeim. Að sama skapi geta draugarnir táknað umbun af einhverju tagi og/eða að þann dag þurfi nemendur að lesa helmingi meira en vanalega. Það er allt galopið í þeim efnum og bara eitt skilyrði fyrir að hlaða niður PacManlestrarskjalinu, en það er að rifja upp taktana hérna :-).

Sjá einnig: