Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Lesskilningur

Ljósaserían er gefin út af Bókabeitunni og samanstendur af myndskreyttum barnabókum með fjölbreyttum efnistökum. Sögurnar eru allar eftir íslenska höfunda, misþungar og með góðu letri. Fjórar bækur koma út á ári og hægt að vera í áskrift. Í samstarfi við Kennarann.is má nú nálgast fjölbreytta leslykla og verkefnahefti ásamt því að stofna lestrarklúbb og taka þátt í lestrarprettum.

Lesskilningsverkefni Eddu útgáfu koma mánaðarlega út með Disney bókunum. Verkefnin eru byggð á aðferðum Byrjendalæsis og henta vel fyrir skólahópana í leikskólunum og fyrstu árunum í grunnskóla. Hver lesskilningspakki samanstendur af 8 blaðsíðum.

Óvættaför er skemmtilegur og spennandi bókaflokkur fyrir spræka lestrarhesta á yngsta- og miðstigi. Skólaárið 2016-17 birti Kennarinn fjölbreytt verkefni upp úr 1. seríu í samvinnu við IÐNÚ útgáfu.

Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason er margverðlaunuð barnabók sem farið hefur sigurför um heiminn. Haustið 2016 hóf Borgarleikhúsið að sýna leikritið Blái hnötturinn sem byggt er á bókinni og í samstarfi við Kennarann.is kom út námsefni fyrir yngsta stig og miðstig.

Komnir eru 5 verkefnapakkar við Léttlestrarbækur Óðinsauga útgáfu. Þeir eru settir upp í takt við áherslur í íslensku í fyrstu bekkjum grunnskólans og aðferðafræði Byrjendalæsis. Hver verkefnapakki samanstendur af 4 blaðsíðum og leiðbeiningum fyrir kennara. Tilvalið er að safna verkefnablöðunum saman í stærra hefti. 

Listin að lesa og skrifa er örbókaflokkur sem Námsgagnastofnun gaf út, nú Menntamálastofnun. Þetta eru frábærar heimalestrarbækur ásamt vinnubókum og lestrarspilum. Kennslugögn Kennarans eru hugsuð sem stuðningsefni við bækurnar, og viðbótarefni til að auðvelda kennurum og foreldrum ennfrekar að kenna börnum listina að lesa og skrifa.

Lesskilningsefni við fótboltabækur Gunnars Helgasonar samanstanda af 32 síðna heftum ásamt margvíslegum viðauka. Námsefnið er einkum hugsað fyrir miðstig en opið öllu fótboltaáhugafólki sem vill spreyta sig. Einnig má benda á skemmtilegan lestrarsrpett tengdan viðfangsefninu. Áfram Ísland!

Strandaglópar! er sannsöguleg og skemmtileg saga sem fjallar um Ævar, afa höfundarins Ævars Þórs Benediktssonar, og hrakfarir hans á eldfjallaeyjunni Surtsey. Hún fjallar líka um heppni, óheppni, úthald, þrautseigju, óskastundir og galdrasekúndur. Verkefnaheftið við bókina er 14 blaðsíður, fjölbreytt að vanda og hugmyndir að skemmtilegum aukaverkefnum fylgja í kennsluleiðbeiningunum!

Áhugaverðir tenglar

fraegt_folkLesskilningsverkefni Ásdísar H. Haraldsdóttur um frægt fólk er aðgengilegt og gott efni til að vinna með nemendum sem eru komin aðeins áleiðis í lestri og skrift. Hvert verkefni er ein blaðsíða með stuttum lestexta og 4-5 efnisspurningum sem svara þarf með heillri setningu. Fínt til að leggja inn stóra stafi og punkta.