Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Sund – Kennsluleiðbeiningar

[featured_image]
Sund - Kennsluleiðbeiningar PDF
Download is available until [expire_date]
 • Version
 • Download 79
 • File Size 52.00 KB
 • File Count 1
 • Create Date 7. október, 2023
 • Last Updated 21. október, 2023

Sund - Kennsluleiðbeiningar

Þetta reddast! Kennsluleiðbeiningar 3

Verkefni 1 - Lestur

Markmið, að:
 • læra orð tengdum sundi
 • æfa íslensku málhljóðin
 • sýna fram á hugtakaskilning í formi teikninga
Innlögn:

1) Kennari dreifir fylgiskjalinu Orð og myndir 3 sem inniheldur sömu orð og Fánaveifurnar. Hann les textann með nemendum, skoðar orðin eftir þörfum og fer yfir fylgiskjalið með orðalistanum.
2) Kennari gefur nemendum hlutverk Kamillu og Igors og nemendur lesa samtalið upphátt tveir og tveir saman.
3) Nemendur teikna og lita myndir inn í reitina af því sem Kamilla og Igor taka með sér í sund.

Lausn: sundföt, handklæði, sjampó, hárnæring, sundgleraugu og Kamilla tekur að auki með sér sundhettu.

Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Tjáning, samræður:
 • Kennari spyr nemendur hvort þeir hafi farið í sund og hvort þeir hafi farið í sund á Íslandi.
Fylgiskjal:

Verkefni 2 - Orðavinna

Markmið að:
 • vinna með orðaforða sem tengist sundi
Innlögn:

1) Kennari rifjar upp heiti hlutanna á myndunum.
2) Nemendur skrifa rétt orð við myndirnar. Þeir geta notað fylgiskjalið Orð og myndir 3 sér til aðstoðar ef þess þarf.
3) Nemendur skrifa orðin í stílabók og þýða á eigið tungumál.

Kennslugögn:

Ritföng og stílabók.

Verkefni 3 - Ritun

Markmið, að:
 • skrifa einfaldar málsgreinar
 • læra heiti helstu sundaðferða
Innlögn:

1) Myndirnar eru númeraðar. Nemendur ljúka hverri málsgrein með réttu hugtaki.
2) Nemendur endurrita málsgreinarnar aftur en nú með minni aðstoð þannig að þeir þjálfist í að skrifa heila málsgrein.
3) Nemendur þýða sundaðferðirnar bringusund, baksund, skriðsund og björgunarsund yfir á eigið tungumál.

Kennslugögn:

Ritföng og stílabók.

Verkefni 4 - Rökhugsun

Markmið, að:
 • festa í minni heiti hluta tengdum sundi
 • beita rökhugsun
 • læra íslenska sérhljóða
Innlögn:

1) Nemendur skoða fjölda reita og stafi sem gefnir eru upp. Þeir finna svo út hvaða orð eiga að standa í reitunum. Orðin má finna í verkefnum 1-3.
2) Kennari leggur inn íslenska sérhljóða og fer yfir framburð þeirra. Nemendur finna reiti með sérhljóðum og lita þá rauða.
3) Nemendur leysa orðaruglið og skrá lausnir í reitina. Orðin eru sundaðferðirnar fjórar. Lausn: 1. skriðsund, 2. björgunarsund, 3. bringusund og 4. baksund.

Kennslugögn:

Ritföng og rauður trélitur.

Ítarefni:
 • 123skoli.is - Sérhljóðar, samhljóðar og atkvæði orða.

Verkefni 5 - Skilningur

Markmið, að:
 • skilja fyrirmælin að tengja saman
 • skrifa einfaldar málsgreinar
Innlögn:

1) Kennari leggur inn fyrirmælin að tengja saman. Nemendur tengja saman málsgreinarnar. Þeir tengja fyrri hlutann við seinni hlutann. Málsgreinarnar koma fyrir í textanum í verkefni 1.
2) Nemendur endurrita málsgreinarnar á línurnar fyrir neðan. Kennari minnir á að málsgrein hefst á stórum staf og endar á punkti.
3) Nemendur rifja upp textann í verkefni 1. Þeir svara svo spurningunni um hvað Kamilla og Igor taka með sér í sund. Hér gefst nemendum tækifæri að festa orð í minni með endurtekningu. Lausn: sundföt, handklæði, sjampó, hárnæring, sundgleraugu og sundhetta.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 6 - Flokkun

Markmið, að:
 • læra fyrirmælin að krossa við
 • efla enn frekar orðaforða tengdum sundi
Innlögn:

1) Kennari leggur inn fyrirmælin að krossa við.
2) Nemendur skoða hvað er notað í sturtu og hvað er notað í sundlaug. Þeir krossa við rétt svar. Lausn: Sundlaug: sundföt, sundgleraugu, kútur, sundhetta. Sturta: handklæði, hárnæring, sjampó, sápa.
3) Nemendur skrifa orðin í Orðabankanum í réttan yfirflokk. Lausn: Sundföt: bikiní, sundbolur, sundskýla og sundhetta. Hreinlæti: sjampó, hárnæring, sápa og sturta. Sunddót: kútur, sundbolti, sundgleraugu og korkur.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 7 - Málfræði

Markmið, að:
 • vinna með samsett orð
 • læra persónufornöfn með sagnorðinu að nota
 • skrifa einfaldar málsgreinar
Innlögn:

1) Kennari leggur inn samsett orð. Með aðstoð kennara búa nemendur til fjögur samsett orð sem byrja á sund-. Orðin má finna í verkefni 2. Nemendur endurrita svo samsettu orðin. Lausn: sundhetta, sundgleraugu, sundföt og sundlaug.

2) Með aðstoð kennara búa nemendur til fjögur samsett orð sem enda á -sund. Nemendur endurrita svo samsettu orðin. Þau má finna í verkefni 3. Lausn: bringusund, baksund, skriðsund og björgunarsund.

3) Kennari útskýrir sagnorðið að nota og skoðar með nemendum töfluna, og hvernig það breytist með persónufornöfnum. Með aðstoð töflunnar skrifa nemendur fjórar málsgreinar. Þeir velja persónufornafn úr dálki 1, rétta beygingu sagnorðsins úr dálki 2, eitt hugtak úr dálki 3, forsetninguna í úr dálki 4 og enda svo málsgreinina á orðunum sturtu eða sundi eftir því sem við á.

Kennslugöng:

Ritföng.

Aukaverkefni:

Stafsetning; upplestur eða sóknarskrift.

Markmið, að:
 • þjálfa réttritun
Innlögn:

Kennari les upphátt fimm málsgreinar sem innihalda orð úr fyrri hluta heftisins. Nemendur skrifa svo eitt orð úr málsgreininni í stílabókina sína.
Eða:
Kennari notar þessar fimm málsgreinar sem sóknarskrift. Hann hengir blað með málsgreinunum upp á vegg. Nemendur standa upp og lesa eina málsgrein í einu. Þeir leggja hana og ritun orðanna á minnið, setjast og skrifa málsgreinina í stílabók.

Fylgiskjal:

Verkefni 8 - Miðjumat

Markmið, að:
 • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna úr fyrri hluta heftisins
 • veita kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið
Innlögn:

1) Nemendur skrifa heiti hugtaka á línurnar undir myndunum.

2) Nemendur teikna skýringarmynd við hugtökin sundgleraugu, kútur, sundhetta og hárnæring.

3) Nemendur skrifa tvö samsett orð sem byrja á sund- og tvö sem enda á -sund. Í verkefnunum fyrir ofan er í raun búið að gefa upp samsett orð sem byrja á sund-. Kennari metur út frá hópnum hvort nemendur megi nota þau orð aftur eða þurfa að finna önnur samsett orð.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 9 - Lestur

Markmið, að:
 • auka orðaforða tengdum sundi
 • læra sundreglur
 • hlusta og lita eftir fyrirmælum
Innlögn:

1) Kennari les textann með nemendum, útskýrir orðin eftir þörfum og fer aftur yfir fylgiskjalið Orð og myndir 3.
2) Kennari gefur nemendum hlutverk Kamillu og Igors og þeir lesa samtalið upphátt tveir og tveir saman.
3) Nemendur lita myndirnar af Kamillu og Igori eftir fyrirmælum frá kennara:

 • Litaðu sundbolinn grænan.
 • Litaðu sundhettuna fjólubláa.
 • Litaðu sundbuxurnar bleikar.
 • Litaðu vatnið blátt.
 • Litaðu kútinn appelsínugulan.
 • Litaðu öndina gula.
 • Litaðu handklæðið grátt.
 • Litaðu stigann svartan.
 • Gerðu rauðan kross yfir símann.
 • Dragðu rauðan hring í kringum sundreglurnar.
Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Verkefni 10 - Orðavinna

Markmið, að:
 • geta afritað orð
 • festa orðmyndir í minni
 • æfa íslensku málhljóðin
Innlögn:

1) Kennari les yfir og rifjar upp orðin neðst á síðunni með nemendum, jafnvel með aðstoð fylgiskjalsins Orð og myndir 3.

2) Nemendur búa til sína eigin orðasúpu með því að finna stað fyrir hugtökin í listanum. Orðin geta þeir falið ýmist áfram, aftur á bak, upp, niður eða á ská. Þegar nemendur hafa fundið stað fyrir orð haka þeir við það á listanum og fylla svo upp í auða reiti með bókstöfum. Gott að minna nemendur á að nota eingöngu hástafi og vanda skrift og frágang þar sem unnið verður meira með orðasúpurnar í verkefni 3.

3) Kennari tekur verkefnaheftin, leggur þau í bunka, rifjar upp sögnina að draga (sjá Spilahefti) og býður nemendum að draga hefti. Nemendur leysa orðasúpu hvers annars. Hér skiptir máli að biðja nemendur um að draga hring um orð, t.d. með mismunandi trélit, í stað þess að krassa yfir reitina því hver bókstafur gæti verið notaður oftar en einu sinni í þrautinni.

Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Verkefni 11 - Ritun

Markmið, að:
 • læra hugtakið raðtala
 • skrifa einfaldar málsgreinar
 • taka þátt í einföldum samræðum
Innlögn:

1) Nemendur læra hugtakið raðtala. Þeir skrifa raðtölurnar 1.-7. með bókstöfum endurtekið í reitina. Leggja áherslu á að raðtölur enda á punkti.

2) Nemendur raða sundreglum í rétta röð. Sundreglurnar má finna í verkefni 9.

3) Með aðstoð kennara svara nemendur spurningunni Finnst þér gaman í sundi? með heilli málsgrein.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 12 - Rökhugsun

Markmið, að:
 • rifja upp heiti hluta
 • beita rökhugsun
 • þjálfa lesskilning
Innlögn:

1) Kennari rifjar upp með nemendum hvað hlutirnir á miðunum heita.

2) Kennari og nemendur lesa saman fullyrðingarnar. Kennari aðstoðar nemendur eftir þörfum, jafnvel með látbragði.

3) Nemendur skrifa númerið sem passar við hverja fullyrðingu í reitina.

Kennslugögn:

Ritföng.

Tjáning, samræður:

 • Hvað setur þú á augun?
 • Með hverju þurrkar þú þér?
 • Hvað notar þú til að þvo hárið?
 • Í hvað klæðir þú þig?
 • Hvað má ekki nota í sundi.

Verkefni 13 - Skilningur

Markmið, að:
 • skilja orðaforða yfir daglegar athafnir í nánasta umhverfi
 • taka þátt í einföldum samræðum
 • vita hvar hverfislaugin er
Innlögn:

1) Kennari leggur inn að gera hring um og að svara með eða nei. Nemendur svara spurningunum með aðstoð kennara. Hér gefst tækifæri til að fá upplýsingar um sundreynslu nemenda.

2) Nemendur draga hring um þær sundaðferðir sem þeir kunna.

3) Kennari fer með nemendum í vettvangsferð, sýnir hvar þeirra hverfissundlaug er og hvað hún heitir. Með þessu móti kynnast nemendur nærumhverfi sínu.

Kennslugögn:

Ritföng.

Aukaverkefni:

Ef farið er í göngu þá er tilvalið að taka ljós- myndir eða teikna myndir af þeim þjónustuskiltum sem á vegi verða. Til dæmis skiltum sem benda á heilsugæslu, bókasafn, íþróttamannvirki og fleira. Vinna má nánar með skiltin og þá þjónustu sem þau standa fyrir í nærumhverfi.

Verkefni 14 - Flokkun

Markmið, að:
 • festa orð sem tengjast sundi í minni
 • læra fyrirmælin að strika yfir
 • geta afritað orð
Innlögn:

1) Verkefnið er blanda af flokkun, ritun og rökhugsun. Kennari leggur inn fyrirmælin að strika yfir. Nemendur strika yfir eitt orð í hverjum kassa sem ekki passar.

2) Nemendur endurrita orðin þrjú, sem eftir standa og tengjast sundi, á línurnar.

3) Kennari dreifir skjölunum Umslag og Minnisspil til nemanda. Spilið er með 16 orðum og myndum úr námsefninu. Gott er að plasta Minnisspilið áður en því er dreift til nemenda. Hver nemandi klippir út sitt spil og umslag, límir umslagið saman og merkir sér. Minnisspilið eiga nemendur. Þeir geta tekið það heim til að spila með forráðamönnum og systkinum, rifja upp innihald verkefnapakkans og byggja brú á milli heimilis og skóla.

Kennslugögn:

Ritföng.

Fylgiskjöl:

Verkefni 15 - Málfræði

Markmið, að:
 • kunna hugtakið málsgrein
 • geta skrifað einfaldar málsgreinar
 • muna eftir stórum upphafsstaf og punkti
Innlögn:

1) Kennari rifjar upp textann í verkefni 9 með nemendum og útskýrir hugtakið málsgrein.

2) Kennari fer yfir að málsgrein byrjar á stórum upphafsstaf og endar á punkti. Hann skoðar með nemendum þau orð sem eru með stórum staf og þau orð sem enda á punkti. Þau gefa vísbendingar um hvernig málsgreinin byrjar og endar.

3) Nemendur skrifa orðin í réttri röð og skrifa málsgreinarnar þannig að þær séu rétt uppbyggðar. Nemendur geta skoðað textann í verkefni 9 sér til aðstoðar.

Lausn:
 1. Kamilla fer í kvennaklefann.
 2. Igor fer í karlaklefann.
 3. Í búningsklefanum eru sundreglur.
 4. Þau fara í sturtu.
 5. Kamilla fer í sundbol.
 6. Igor fer í sundskýlu.
 7. Kamilla kann að synda.
 8. Hún setur á sig sundgleraugu.
 9. Igor þarf að nota kút.
 10. Þeim finnst gaman í sundi.
Kennslugögn:

Ritföng.

Aukaverkefni:

Stafsetning; upplestur eða sóknarskrift.

Markmið, að:
 • þjálfa réttritun
Innlögn:

Kennari les upphátt fimm málsgreinar þar sem orð úr heftinu koma fyrir. Nemendur skrifa svo eitt orð úr málsgreininni í stílabókina sína.
Eða:
Kennari notar þessar fimm málsgreinar sem sóknarskrift. Hann hengir blað með málsgreinunum upp á vegg. Nemendur standa upp og lesa eina málsgrein í einu. Þeir leggja hana og ritun orðanna á minnið, setjast og skrifa málsgreinina í stílabók.

Fylgiskjal:

Verkefni 16 - Lokamat

Markmið, að:
 • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna eftir yfirferð heftisins
 • veita kennara tækifæri til endurgjafar
Innlögn

1) Nemendur skrifa rétt heiti hluta á línurnar. Hér skiptir meira máli að þau hafi náð tökum á orðaforðanum frekar en réttrituninni. Það er styrkur í að þora að tjá sig þó réttritunin sé ekki komin.

Lausn: 1) bursti, 2) sundbolur, 3) sundgleraugu 4) sundbuxur, 5) sundbolti 6) sundreglur, 7) sturta, 8) handklæði, 9) kútur, 10) sápa, 11) sundhetta, 12) greiða, 13) sjampó, 14) sundpoki, 15) sundföt og 16) bikiní.

2) Gefa má þeim nemendum, sem eru fljótir að ljúka verkefninu, það aukaverkefni að skrifa orðin í stílabók og raða þeim í stafrófsröð. 

3) Ef tími gefst þá þýða nemendur orðin í stílabók yfir á eigin tungumál.

Kennslugögn:

Ritföng.

Orðabanki

Í lok hvers námsefnispakka er Orðabanki, þ.e. gátlisti með 40 hugtökum sem áhersla hefur verið lögð á í heftinu. Þar haka nemendur í þau orð sem þeir telja sig hafa náð tökum á, og þjálfa betur hin sem út af standa. Einnig skrá nemendur sagnorð sem þeir hafa lært, og önnur orð sem þeir hafa bætt við orðaforðann í yfirferðinni. Orðabankann má nýta með lokamati áður en næsta hefti er tekið fyrir.

Fánaveifur

Með heftinu fylgja 40 Fánaveifur með hugtökum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnisins, og í fylgiskjalinu Orð og myndir 3. Tilvalið er að hengja veifurnar upp í stofunni meðan á yfirferð námsefnisins stendur.

Útgöngupassi

Kennari skrifar nöfn nemenda á miða og setur í krukku. Hann dregur miða í lok kennslustundar eða skóladags. Sá nemandi svarar spurningu úr námsefninu. Þegar nemandi svarar rétt má hann fara.

Hugmyndir:
 • Hvað heitir hverfissundlaugin þín?
 • Nefndu eina af sundreglunum sjö.
 • Nefndu eitt orð sem byrjar á sund-.
 • Nefndu eitt orð sem endar á -sund.
 • Þú þurrkar þér með þessu.
 • Þú setur þetta á augun í sundi.
 • Þú þværð hárið með þessu.
 • Þú þvær líkamann með þessu.

Comments are Closed