Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Íþróttir – Kennsluleiðbeiningar

[featured_image]
Íþróttir - kennsluleiðbeiningar PDF í vinnslu
Download is available until [expire_date]
  • Version
  • Download 0
  • File Size 56.00 KB
  • File Count 1
  • Create Date 9. apríl, 2024
  • Last Updated 18. apríl, 2024

Íþróttir - Kennsluleiðbeiningar

Íþróttir - kennluleiðbeiningar - Þetta reddast!

Verkefni 1 - Lestur

Markmið, að:
  • læra orð tengdum boltaíþróttum
  • æfa íslensku málhljóðin
  • þjálfa lesskilning
  • kynnast nafnháttarmerkinu
Innlögn:

1) Kennari dreifir fylgiskjalinu Orð og myndir 7 sem inniheldur sama orðabanka og Fánaveifurnar. Hann les textana með nemendum, skoðar orðin eftir þörfum og fer yfir fylgiskjalið með orðalistanum.

2) Nemendur finna heiti hvers bolta á fylgiskjalinu Orð og myndir 7 og skrifa á rétta línu út frá texta.

Lausn: fótbolti, körfubolti, handbolti og blakbolti.

Með aðstoð kennara skrifa nemendur skáletruðu sagnorðin í hverri frásögn á línurnar. Sagnorðin eru lituð til að auðvelda nemendum að átta sig á þessum orðflokki.

3) Nemendur lita treyjurnar í réttum litum út frá upplýsingum í texta. Til að vekja athygli á hugtakinu fyrirliði gefur kennari nemendum fyrirmæli um að lita fyrirliðabandið hans Kims grænt.

Fylgiskjal:
Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Verkefni 2 - Orðavinna

Markmið, að:
  • geta afritað orð
  • festa orðmyndir í minni
Innlögn:

1) Í texta 1 eru 15 undirstrikuð nafnorð. Nemendur finna þessi orð í nefnifalli í Orð og myndir 7.

2) Þegar nemendur hafa fundið orðin í nefnifalli skrá þeir þau á auðu línurnar. Kennari aðstoðar eftir þörfum.

3) Nemendur leita að orðunum í orðasúpunni. Þau eru ýmist rituð áfram, afturábak, upp, niður eða á ská. Nemendur haka við orðin um leið og þau eru fundin. Búið er að gefa upp orðið karfa vegna hljóðbreytingarinnar a - ö.

Fylgiskjal:
Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 3 - Ritun

Markmið, að:
  • skilja fyrirmælin að svara með heilli málsgrein
  • skrifa einfaldar málsgreinar
  • nemendur geta með stuðningi tjáð sig um íþróttir
Innlögn:

1) Nemendur lesa málsgreinarnar. Þeir fylla svo í orðin sem vantar. Að lokum skrifa þeir alla málsgreinina.

2) Nemendur svara spurningunum með heilli málsgrein. Hér er gott að leggja inn fyrirmælin að svara með heilli málsgrein.

3) Kennari les spurninguna Ert þú að æfa íþróttir? og aðstoða nemendur við að svara henni skriflega.

Kennslugögn:

Ritföng.

Tjáning, umræðupunktar:

Kennari spyr nemendur Hvaða íþrótt er vinsæl í þínu heimalandi? og aðstoðar nemendur við að svara spurningunni. Nemendur þjálfast í að bera fram ólíkar íþróttagreinar og segja frá vinsælum íþróttum.

Verkefni 4 - Rökhugsun

Markmið, að:
  • beita rökhugsun
  • festa í minni heiti hluta tengdum boltaíþróttum
  • þekkja hugtökin sérhljóðar og samhljóðar
Innlögn:

1) Nemendur rifja upp feitletruðu orðin í verkefni 1 og orðin í orðasúpunni í verkefni 2. Þeir skoða svo þá stafi sem gefnir eru upp, finna út hvaða orð á að vera í hverri runu og skrá bókstafina sem vantar.

Lausn:
  • 3 bókstafir: net, lið
  • 4 bókstafir: mark, blak
  • 5 bókstafir: karfa, bikar
  • 6 bókstafir: flauta
  • 7 bókstafir: medalía
  • 8 bókstafir: búningur, fótbolti
  • 9 bókstafir: takkaskór, handbolti
  • 10 bókstafir: körfubolti

2) Kennari leggur inn sérhljóða og fer yfir framburð þeirra, sérstaklega breiðu sérhljóðana. Nemendur finna reiti með sérhljóðum og lita þá rauða.

3) Kennari leggur inn samhljóða. Nemendur finna reiti með samhljóðum og lita þá græna.

Verkefni 5 - Skilningur

Markmið, að:
  • þjálfa lesskilning
  • kunna fyrirmælin satt eða ósatt
  • skrifa einfaldar málsgreinar
Innlögn:

1) Kennari leggur inn fyrirmælin satt eða ósatt og rifjar upp texta í verkefni 1.

2) Nemendur lesa fullyrðingarnar með aðstoð kennara og merkja X við satt eða ósatt.

Lausn:

Satt:

  • Kim spilar körfubolta.
  • Agnes skorar mark.
  • Ruben er fyrirliði.
  • Dómari flautar með flautu.
  • Ruben æfir handbolta.
  • Kim hoppar hátt til að skora.

Ósatt:

  • Agnes æfir handbolta.
  • Lið Lilyjar vinnur.
  • Kim fer í takkaskó.
  • Lily æfir fótbolta.

3) Nemendur endurrita málsgreinarnar sem eru ósannar þannig að þær verði sannar. Málsgreinarnar má finna í textanum í verkefni 1.

Lausn:

  • Agnes æfir fótbolta.
  • Lið Lilyjar tapar.
  • Agnes fer í takkaskó.
  • Lily æfir blak.
Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 6 - Flokkun

Markmið, að:
  • efla enn frekar orðaforða tengdum boltaíþróttum
  • læra fyrirmælin að krossa við
Innlögn:

1) Kennari leggur inn fyrirmælin að krossa við.
2) Nemendur lesa orðin í vinstri reitunum. Þeir krossa við þá boltaíþrótt sem hluturinn/hugtakið er notað í, sumt er notað í fleiri en einni eins og t.d. bolti.

Lausn:

3) Nemendur leysa orðaruglið. Orðin má finna í fylgiskjalinu Orð og mynd 7.

Lausn: fyrirliði - dómari - þjálfari - keppandi.

Fylgiskjal:

Kennslugögn:
Ritföng.

Verkefni 7 - Málfræði

Markmið, að:
  • þjálfa sagnorð
  • læra nafnháttarmerkið
  • æfa fleirtölu
Innlögn:

1) Kennari fer yfir sagnorðin í vinstri reitunum og leggur inn nafnháttarmerkið . Sagnorðin eru úr textanum í verkefni 1 og eru í 3. persónu eintölu. Nemendur skrifa, með aðstoð kennara, sagnorðin í nafnhætti.

Lausn:

  • æfir - að æfa
  • keppir - að keppa
  • spilar - að spila
  • hoppar - að hoppa
  • skorar - að skora
  • vinnur - að vinna
  • flautar - að flauta
  • tapar - að tapa

2) Nemendur tengja saman eintölu og fleirtölu. Kennari aðstoðar eftir þörfum.

3) Í auðu miðana skrifa nemendur orð sem þeir kunna nú þegar í eintölu og fleirtölu og tengja saman.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 8 - Miðjumat

Markmið, að:
  • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna úr fyrri hluta heftisins
  • veita kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið
Innlögn:

1) Nemendur skrifa heiti hluta á línurnar undir myndunum.

2) Nemendur skrifa fleirtölu orðanna.

3) Nemendur teikna skýringarmynd við hugtökin treyja, takkaskór, bikar og medalía í reitina.

4) Nemendur átta sig á að orðið fótbolti er samsett úr orðinu fótur og bolti með því að skrifa fótbolti.

Kennslugögn:

Ritföng.

Aukaverkefni - Boltalúdó:

Kennari prentar út spilið Boltalúdó (prenta báðu megin) og plastar. Hann prentar einnig út myndirnar af boltunum. Nemendur klippa út myndirnar og líma ofan á tappa til dæmis af gosflöskum eða mjólkurfernum. Fjórir nemendur spila saman hefðbundið lúdó, hver með fjóra tappa með mynd af sínum bolta. Finna má spilareglur hér.

Fylgiskjal:
Kennslugögn:

Skæri, lím, gosflöskutappar og plast fyrir plöstunarvélar.

Verkefni 9 - Lestur

Markmið, að:
  • auka orðaforða tengdum íþróttum
  • æfa íslensku málhljóðin
  • hlusta og lita eftir fyrirmælum
Innlögn:

1) Kennari les textann, útskýrir orð eftir þörfum og fer yfir fylgiskjalið Orð og myndir 7.

2) Kennari gefur nemendum hlutverk Liams, Theos, Evu og Juliu. Nemendur lesa samtölin upphátt tveir og tveir saman.

3) Nemendur lita myndirnar eftir fyrirmælum frá kennara:

  • Litaðu bolinn hans Theos bleikan.
  • Litaðu æfingabuxurnar hans Liams bláar.
  • Litaðu treyjuna hennar Evu gula og skrifaðu töluna 15 á treyjuna.
  • Litaðu hárið á Juliu brúnt.

Fylgiskjal:

Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Verkefni 10 - Þraut

Markmið, að:
  • vinna með samsett orð
  • æfa latneskt letur og hvar stafirnir sitja miðað við grunnlínu
Innlögn:

1) Kennari leggur inn samsett orð. Með aðstoð kennara búa nemendur til fimm samsett orð sem enda á -bolti. Orðin má finna í fylgiskjalinu Orð og myndir 7 fyrir utan orðið sundbolti sem kemur fyrir í Þetta reddast! 3 - SUND og gott er að rifja upp.

Lausn: fótbolti, handbolti, körfubolti, blakbolti og sundbolti.

2) Kennari leggur inn íslensku bókstafina Ðð og Þþ, hvernig þeir eru dregnir til stafs og hvar þeir sitja miðað við grunnlínu.

3) Nemendur skrifa orðin inn í orðaskuggana og æfa þannig latneskt letur og hvar stafirnir sitja miðað við grunnlínu.

Fylgiskjal:
Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 11 - Ritun

Markmið, að:
  • skrifa einfaldar málsgreinar
  • skilja fyrirmælin að svara með heilli málsgrein
Innlögn:

1) Myndirnar eru númeraðar. Nemendur ljúka hverri málsgrein með réttu hugtaki.

2) Nemendur endurrita málsgreinarnar aftur en nú með minni aðstoð svo þeir þjálfist í að skrifa heila málsgrein.

3) Nemendur þýða heiti boltanna handbolti, fótbolti, körfubolti og blakbolti yfir á eigið tungumál.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 12 - Rökhugsun

Markmið, að:
  • beita rökhugsun
  • mynda orð
  • læra hugtakið stigatafla
Innlögn:

1) Kennari prentar út fylgiskjöl 7:1a, 7:1b og 7:1c. Athugið að fylgiskjölin eru aftast í verkefnaheftinu og nauðsynlegt að prenta þau sér og öðru megin á blaðið þar sem um klippigögn er að ræða. Kennari dreifir fylgiskjalinu og nemendur klippa út bókstafina.

2) Nemendur raða bókstöfunum til að mynda orðin í stigatöflunni. Þeir mynda eitt orð í einu, reikna saman stigafjölda orðsins og skrá í reitinn sem stendur við það.

3) Nemendur mynda orðið íþróttir og reikna út stigafjölda orðsins.

Fylgiskjöl:
  • Fylgiskjöl 7:1a, 7:1b og 7:1c (sjá aftast í nemendahefti)
Kennslugögn:

Ritföng.

Aukaverkefni:

Nemendur búa til fótboltamark úr maskínupappír og hengja upp á vegg. Kennari prentar út og klippir niður orðin 20 á fylgiskjali 7:1c. Orðin eru sett í krukku eða annað ílát. Nemendur draga eitt orð hver, mynda orðið sem þeir drógu með bókstöfunum sem þeir voru að vinna með og líma inn í markið. Þetta er endurtekið þar til búið er að draga öll orðin úr krukkunni, sem eru þau sömu og í stigatöflunni.

Kennslugögn:

Maskínupappír, límstifti og skæri.

Verkefni 13 - Skilningur

Markmið, að:
  • þjálfa lesskilning
  • geta afritað orð
  • festa orðmyndir í minni
Innlögn:

1) Nemendur rifja upp textann í verkefni 9 og feitletruðu orðin en þau má finna í fylgiskjalinu Orð og myndir 7.

2) Kennari les yfir málsgreinarnar með nemendum og orðin þrjú fyrir neðan hverja málsgrein.

3) Nemendur skrifa rétta orðið á línuna til að klára hverja málsgrein. Kennari minnir á að málsgrein endar á punkti.

Lausn: íþróttaföt, fimleikaæfingu, ganga, lóðum, trampólíni, dans, íþróttatösku, kapphlaup.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 14 - Flokkun

Markmið, að:
  • festa orðaforða í minni
  • læra fyrirmælin að strika yfir
  • geta afritað orð
Innlögn:

1) Kennari leggur inn fyrirmælin að strika yfir.

2) Nemendur lesa orðin fjögur í hverjum reit. Þrjú orð eiga eitthvað sameiginlegt. Nemendur strika yfir orðið sem ekki passar.

3) Nemendur endurrita orðin þrjú sem eftir standa á línurnar.

Lausn frá vinstri til hægri: karate, karfa, fyrirliði, dans, flauta, fimleikar, takkaskór, blak, mark.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 15 - Málfræði

Markmið, að:
  • þekkja sagnorð
  • læra nafnháttarmerkið
Innlögn:

1) Kennari leggur inn sagnorð og bendir nemendum á að í verkefni 9 eru átta sagnorð í nafnhætti skáletruð.

2) Nemendur finna þessi átta sagnorð í textanum og skrifa þau á línurnar í markinu.

Lausn:

  • að klæða
  • að fara
  • að teygja
  • að stökkva
  • að dansa
  • að sparka
  • að æfa
  • að sækja

3) Nemendur finna sagnorðin, sem eru skrifuð í rammanum, í orðasúpunni. Þau eru falin fram, afturábak og á ská.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 16 - Lokamat

Markmið, að:
  • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna eftir yfirferð heftisins
  • veita kennara tækifæri til endurgjafar
Innlögn:

1) Nemendur skrifa rétt heiti hluta á línurnar. Hér skiptir meira máli að þeir hafi náð tökum á orðaforðanum frekar en réttrituninni. Það er styrkur í að þora að tjá sig þó réttritunin sé ekki komin.

Lausn: 1) körfubolti, 2) lóð, 3) takkaskór, 4) trampólín, 5) net, 6) medalía, 7) flauta, 8) bikar, 9) búningur, 10) fótbolti, 11) treyja, 12) mark, 13) karfa, 14) handbolti, 15) blakbolti, 16) keppandi.

2) Gefa má þeim nemendum sem ljúka verkefninu, aukaverkefnið að skrifa orðin í stílabók og raða þeim í stafrófsröð.

3) Ef tími gefst þá þýða nemendur orðin yfir á eigin tungumál í stílabók.

Kennslugögn:

Ritföng og stílabók.

Orðabanki - lokamat

Í lok hvers námsefnispakka er Orðabanki, gátlisti með 40 hugtökum sem áhersla hefur verið lögð á í verkefnaheftinu. Þá haka nemendur í þau orð sem þeir telja sig hafa náð tökum á og þjálfa hin sem út af standa betur. Einnig skrá nemendur sagnorð sem þeir hafa lært, og önnur orð sem þeir hafa bætt við orðaforðann í yfirferðinni. Orðabankinn má nýta þannig sem lokamat áður en næsta hefti er tekið fyrir.

Fánaveifur

Með heftinu fylgja 40 Fánaveifur með hugtökum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnispakkans. Tilvalið er að hengja fánaveifurnar upp í kennslurýminum meðan á yfirferð námsefnisins stendur.

Útgöngupassi 

Kennari skrifar nöfn nemenda á miða og setur í krukku. Hann dregur miða í lok kennslustundar eða skóladags. Sá nemandi svarar spurningu úr námsefninu. Þegar nemandi svarar rétt má hann fara. 

Hugmyndir:

  • Nefndu eina boltaíþrótt.
  • Hvernig skór eru notaðir í fótbolta?
  • Sá sem þjálfar lið kallast… (þjálfari).
  • Sá sem dæmir leik kallast… (dómari).
  • Staðan er tvö-tvö, það kallast… (jafntefli).
  • Það er hægt að hoppa hátt á þessu… (trampólín)
  • Í ræktinni lyftir maður… (lóðum).
  • Hvaða íþrótt æfir þú?
  • Hver er fleirtala orðsins bolti? 
  • Nefndu sérhljóða.
  • Nefndu samsett orð sem endar á -bolti
  • Nefndu sagnorð sem tengist íþróttum.

 

Comments are Closed