Skólinn – kennsluleiðbeiningar
- Version
- Download 135
- File Size 48.00 KB
- File Count 1
- Create Date 6. júlí, 2023
- Last Updated 25. september, 2023
Skólinn - kennsluleiðbeiningar
Smelltu á bláa kassann til að sækja kennsluleiðbeiningarnar á PDF formi.
Verkefni 1 - Lestur
Markmið, að:
- læra orð tengdum list- og verkgreinum
- æfa íslensku málhljóðin
- þjálfa lesskilning
Innlögn:
1) Kennari dreifir fylgiskjalinu Orð og myndir 1 sem inniheldur sama orðabanka og Fánaveifurnar. Hann les textann með nemendum, skoðar orðin eftir þörfum og fer yfir fylgiskjalið með orðalistanum.
2) Nemendur teikna eftirfarandi áhöld og verkfæri inn í reitina og hafa fylgiskjalið Orð og myndir 1 til hliðsjónar:
- Smíði: hamar, sandpappír, nagli, borvél.
- Textílmennt: saumavél, nál, prjónar, tvinni.
- Heimilisfræði: bakaraofn, örbylgjuofn, hrærivél.
- Myndmennt: tússlitir, málning, trélitir. Feitletruðu orðin vinna nemendur meira með í næstu verkefnum.
3) Með aðstoð kennara skrifa nemendur tvö sagnorð sem eiga við hverja mynd. Lausn:
- Smíði: að kenna, að smíða.
- Textílmennt: að sauma, að prjóna.
- Heimilisfræði: að baka, að elda.
- Myndmennt: að teikna, að mála.
Kennslugögn:
Ritföng, litir og stílabók.
Tjáning, samræður:
Út frá textanum um Jakub er góð þjálfun að spyrja nemendur um aldur, æfa þá í að spyrja aðra um aldur og svara hvað þeir eru gamlir.
Fylgiskjal:
Verkefni 2 - Orðavinna
Markmið, að:
- geta afritað orð
- festa orðmyndir í minni
- æfa íslensku málhljóðin
Innlögn:
1) Nemendur skrá feitletruðu orðin í verk- efni 1 á auðu línurnar.
2) Nemendur leita að orðunum í orðasúpunni. Þau eru rituð ýmist áfram, afturábak, upp, niður eða á ská. Gott er að draga hring í kringum orðin í stað þess að lita yfir þau því sumir bókstafir eru nýttir oftar en einu sinni. Nemendur haka svo við orðin um leið og þau eru fundin. Búið er að gefa upp orðin blýantur og vatnslitir þar sem þau eru ekki í nefnifalli í verkefni 1.
3) Nemendur þýða orðin á línunum yfir á eigið tungumál í stílabók.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Verkefni 3 - Ritun
Markmið, að:
- skilja fyrirmælin að svara með heilli málsgrein
- skrifa einfaldar málsgreinar
- nemendur geti með stuðningi tjáð hvað þeim finnst gaman að gera
Innlögn:
1) Nemendur lesa málsgreinarnar. Þeir fylla svo í orðin sem vantar. Að lokum skrifa þeir alla málsgreinina.
2) Nemendur svara spurningunum með heilli málsgrein. Hér er gott að leggja inn fyrirmælin að svara með heilli málsgrein.
3) Kennari les spurninguna Hvað finnst Alexander gaman að gera? og nemendur svara með aðstoð kennara. Kennari skrifar lokasvar nemenda á töfluna. Nemendur skrifa svarið á línurnar.
Tjáning, samræður:
Kennari spyr nemendur hvað þeim finnst gaman að gera, og aðstoðar þá við að orða svörin. Hér gefst nemendum gott tækifæri til að taka taka þátt í einföldum samræðum.
Kennslugögn:
Ritföng.
Verkefni 4 - Rökhugsun
Markmið, að:
- beita rökhugsun
- skrifa orð með aðstoð mynda
- læra íslenska stafrófið
Innlögn:
1) Nemendur skoða litlu myndirnar og rifja upp hvað hlutirnir heita. Kennari aðstoðar eftir þörfum.
2) Nemendur skoða fjölda bókstafa í hverju orði og skrifa þau í reitina við rétta mynd.
3) Nemendur skrifa orðin í stafrófsröð í stílabókina sína, og þjálfa í leiðinni íslenska stafrófið.
Kennslugögn:
Ritföng.
Fylgiskjal:
Ítarefni:
Verkefni 5 - Skilningur
Markmið, að:
- þjálfa lesskilning
- þekkja heiti lita
- skilja leiðbeiningar
Innlögn:
1) Kennari rifjar upp með nemendum persónurnar fjórar í verkefni 1. Nemendur rita rétt nöfn undir myndirnar.
2) Nemendur lesa spurningarnar og krossa við já eða nei, eftir því sem við á.
3) Nemendur lita myndirnar eftir fyrirmælum kennara:
- Anna er með brúnt hár.
- Sloppurinn hennar er blár.
- Tommustokkurinn er fjólublár.
- Peysan hans Alexanders er gul.
- Garnið hans Alexanders er rautt.
- Svuntan hennar Söndru er bleik.
- Kokkahúfan hennar Söndru er líka bleik.
- Peysan hans Jakubs er grá og appelsínugul.
Kennslugögn:
Ritföng og litir.
Tjáning, samræður:
Kennari spyr nemendur: Hver er uppáhaldsnámsgreinin þín? Hér gefst tækifæri til að leggja inn og útskýra orðið uppáhalds. Nemendur læra að segja hvaða námsgrein er í uppáhaldi hjá þeim. Það má nýta tækifærið og spyrja líka um uppáhaldslit.
Verkefni 6 - Flokkun
Markmið, að:
- festa heiti list- og verkgreina í minni
- læra orð sem tengjast áhöldum og verkfærum
- læra íslenska stafrófið
Innlögn:
1) Skoða orðin í Orðabankanum og rifja upp hvað þau þýða með aðstoð fylgiskjalsins Orð og myndir 1.
2) Skrá orðin undir rétta list- og verkgrein eftir því hvort þau tilheyra heimilisfræði, textílmennt, smíðum eða myndmennt.
3) Nemendur skrifa orðin í Orðabankanum í stafrófsröð í stílabók, og þýða yfir á sitt tungumál.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Fylgiskjal:
Verkefni 7 - Málfræði
Markmið, að:
- kynnast nafnorðum og sagnorðum
- þekkja fyrirmælin að tengja saman
- geta lýst athöfnum og tjáð með látbragði
Innlögn:
1) Nemendur skoða sagnorðin með aðstoð kennara, og tengja við rétt nafnorð vinstra megin á síðunni. Sum sagnorð tengjast fleiri en einu nafnorði.
2) Nemendur skrifa sagnorðin í stílabók og þýða yfir á eigið tungumál.
3) Það er upplagt að enda verkefnið á sagnorðaleik. Nemendur skiptast á að velja eitt sagnorð úr verkefni 7 og leika, hinir giska á sagnorðið.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Ítarefni:
- Sagnorðabingó 1 - 123skoli.is
- Eldhúsorðasúpa – Kennarinn.is
- Orðasúpan Að tala – Kennarinn.is
Verkefni 8 - Miðjumat
Markmið, að:
- gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna úr fyrri hluta heftisins
- veita kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið
Innlögn:
1) Nemendur skoða myndir og draga hring um rétt orð.
2) Nemendur lesa sagnorðin og draga hring um þá list- og verkgrein sem við á.
3) Nemendur skrifa sagnorðin í stílabók og teikna skýringamyndir við sem sýna fram á skilning sagnanna.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Verkefni 9 - Lestur
Markmið, að:
- auka orðaforða tengdum stundatöflu og matseðli
- þekkja heiti vikudaga
- taka þátt í einföldum samræðum
Innlögn:
1) Kennari les textann með nemendum og útskýrir orðin eftir þörfum. Nemendur skoða matseðilinn og svara spurningunni Hvað er í morgunmat?
2) Kennari leggur inn vikudagana sem eru feitletraðir og grænir til aðgreiningar frá öðrum feitletruðum hugtökum í lestexta. Nemendur fylla í sína eigin stundatöflu og tengja við þær list- og verkgreinar sem þeir eru í. Hér er tækifæri til að leggja inn fagorð eins og stærðfræði, íslenska, náttúrufræði, samfélagsfræði o.fl. Stærri útgáfa af stundatöflu er í fylgiskjölum.
3) Nemendur endurrita heiti vikudaga í stílabók og þýða yfir á eigið tungumál.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Tjáning, samræður:
Þegar búið er að fylla inn í stundatöfluna spyr kennari spurninga sem nemendur þjálfast í að svara. Dæmi:
- Hvaða daga ert þú í smíði?
- Hvaða daga ert þú í íþróttum?
- Hvaða daga ert þú í heimilisfræði?
Fylgiskjal:
Verkefni 10 - Þraut
Markmið, að:
- afrita orð
- skrifa einfaldar málsgreinar
Innlögn:
1) Nemendur skoða textann í verkefni 9 og skrifa orðin sem vantar á línurnar.
2) Orðin á línunum fylla nemendur svo á rétta staði í krossgátunni.
3) Nemendur endurrita loks málsgreinarnar í stílabók.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Verkefni 11 - Ritun
Markmið, að:
- skrifa einfaldar málsgreinar
- sýna fram á orðskilning í formi teikninga
- læra íslenska stafrófið
Innlögn:
1) Nemendur skoða myndir af Kamillu og Igor, og hlutum á borðunum þeirra.
2) Nemendur skrifa stuttar málsgreinar um hlutina. Orðin yfir þá eru í Orðabankanum og á Fánaveifunum. Átta orð standa út af. Nemendur finna þau, teikna myndir af þeim í reitina, lita og skrifa heitin undir. Þau eru: bók, skæri, hamar, reglustika, örbylgjuofn, hrærivél, desilítramál og nál.
3) Nemendur endurrita öll orðin í í stafrófs- röð í stílabók, og þýða yfir á eigið tungumál. Sum hafa þeir glósað áður, og því góð upprifjun og endurtekning.
Kennslugögn:
Ritföng, litir og stílabók.
Fylgiskjal:
Verkefni 12 - Rökhugsun
Markmið, að:
- beita rökhugsun
- geta, með stuðningi, tekið þátt í samræðum
Innlögn:
1) Nemendur skoða fjögur orð sem standa saman í línu. Eitt passar ekki við hin þrjú. Nemendur finna út hvaða orð það er og draga hring um það. Hér er gott að leggja inn fyrirmælin að draga hring um.
2) Með aðstoð kennara rökstyðja nemendur hvers vegna orðið sker sig úr. Hér reynir á tjáningu, hugsun og ritun.
3) Nemendur koma með tillögur að fleiri verkefnum og skrifa í stílabók. Æfinguna má einnig leggja fyrir sem hópverkefni þar sem nemendur hjálpast að við að finna fjögur orð þar sem eitt passar ekki. Hver hópur leggur svo sína orðarunu fyrir skólafélaga sem finna orðið og rökstyðja valið.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Verkefni 13 - Skilningur
Markmið, að:
- festa í minni orðin stundatafla og matseðill, og orð þeim tengdum
- þekkja heiti vikudaga í þágufalli
- kynnast nafnorðum
Innlögn:
1) Kennari leggur inn fyrirmælin satt eða ósatt. Nemendur skoða myndir af stundatöflu og matseðli, lesa fullyrðingarnar og merkja við satt eða ósatt.
2) Í fullyrðingunum eru nokkur vikuheiti í þágufalli. Nemendur finna þau og draga hring utan um.
3) Nemendur gera rautt strik undir nafnorð í fullyrðingunum. Þau eru 18: stundatafla, námsgreinar, dag, kjúklingur, matinn, nemendur, frímínútur, matseðil, matsalnum, matur, þriðjudögum, smíði, fimmtudögum, myndmennt, morgun, súpa, morgnana og hafragrautur. Fyrir lengra komna má setja upp tvo dálka í stílabók. Skrifa nafnorðin eins og þau koma fyrir í fullyrðingunum í fyrri dálkinn, og með aðstoð kennara skrifa nafnorðin í nefnifalli í seinni dálkinn.
Kennslugögn:
Ritföng, rauður trélitur og stílabók.
Verkefni 14 - Flokkun
Markmið, að:
- festa heiti vikudaga, námsgreina og fleiri skólaorða í minni
- þjálfa hugtökin í gær, í dag og á morgun
Innlögn:
1) Nemendur rifja upp orðin í Orðabanka með aðstoð kennara.
2) Nemendur flokka orðin eftir því hvort þau tilheyri vikudögum, námsgreinum eða öðrum skólaorðaforða.
3) Nemendur rifja upp vikudagana og þjálfa hugtökin í gær, í dag og á morgun með því að skrifa réttan dag á undan og á eftir deginum í miðjureitnum.
Kennslugögn:
Ritföng.
Verkefni 15 - Málfræði
Markmið, að:
- þjálfa eintölu og fleirtölu
- læra persónufornöfn
Innlögn:
1) Orðin í Orðabankanum eru bæði í eintölu og fleirtölu. Nemendur skrá þau í réttan dálk í töflunni með aðstoð kennara.
2) Kennari og nemendur velja saman orð úr töflunni og skrifa tvær málsgreinar í stílabók, eina í eintölu og aðra í fleirtölu. Dæmi:
- Elín er kennari. Elín og Unnur eru kennarar.
- Á borðinu er blýantur. Á borðinu eru tveir blýantar.
- Íþrótt er námsgrein. Íþrótt og smíði eru námsgreinar.
- Blár er fallegur litur. Blár og rauður eru fallegir litir.
3) Kennari fer yfir töflurnar með persónufornöfnunum og framburð þeirra. Nemendur búa til sams konar töflur í stílabók og skrá persónufornöfnin. Gott er að hvetja þá til að læra persónufornöfnin utan að.
Kennslugögn:
Ritföng og stílabók.
Aukaverkefni:
Upplestur eða sóknarskrift.
Markmið, að:
- þjálfa réttritun
Kennari les upp fimm málsgreinar sem innihalda orð úr heftinu. Nemendur skrifa eitt orð úr málsgreininni í stílabókina sína.
Eða:
Kennari notar málsgreinarnar sem sóknarskrift. Blað með þeim er hengt upp á töflu. Nemendur fara upp að töflu og lesa eina málsgrein í einu. Þeir leggja hana og ritun orðanna á minnið, setjast og skrifa málsgreinina í stílabók.
Fylgiskjal:
Verkefni 16 - Lokamat
Markmið, að:
- gefa nemendum tækifæri til sjá hvað þeir kunna eftir yfirferð heftisins
- veita kennara tækifæri til endurgjafar
Innlögn:
1) Nemendur skrifa rétt orð við myndirnar.
2) Nemendur skrá persónufornöfnin sem vantar í töfluna, ýmist í eintölu eða fleirtölu.
3) Nemendur skrá fleirtölumyndir orðanna nemandi, kennari, námsgrein og kennslustund.
4) Nemendur skrifa vikudagana.
Kennslugögn:
Ritföng.
Orðabanki
Í lok hvers námsefnispakka er Orðabanki, þ.e. gátlisti með 40 hugtökum sem áhersla hefur verið lögð á í heftinu. Þar haka nemendur í þau orð sem þeir telja sig hafa náð tökum á, og þjálfa betur hin sem út af standa. Einnig skrá nemendur sagnorð sem þeir hafa lært, og önnur orð sem þeir hafa bætt við orðaforðann í yfirferðinni. Orðabankann má nýta með lokamati áður en næsta hefti er tekið fyrir.
Fánaveifur
Með heftinu fylgja 40 fánaveifur með hugtökum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnisins, og í fylgiskjalinu Orð og myndir 1. Tilvalið er að hengja fánaveifurnar upp í stofunni meðan á yfirferð námsefnisins stendur.
Útgöngupassi
Kennari skrifar nöfn nemenda á miða og setur í krukku. Hann dregur miða í lok kennslustundar eða skóladags. Sá nemandi svarar spurningu úr námsefninu. Þegar nemandi svarar rétt má hann fara. Hugmyndir:
- Kennari velur sagnorð á bls. 7. Nemandi segir hvaða list- og verkgrein sagnorðið tengist: Kennari: - Að syngja. Nemandi: - Tónmennt.
- Kennari velur nafnorð á bls. 7. Nemandi segir sagnorð sem tengist nafnorðinu: Kennari: - Smíði. Nemandi: - Að smíða.
- Kennari bendir á mynd á forsíðu heftisins og nemendur segja hvað er á myndinni.
Comments are Closed