Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Þetta reddast – um námsefnið

Um námsefnið

Námsefnispakkinn samanstendur af nemendahefti, kennsluleiðbeiningum, fánaveifum, fylgiskjölum og gögnum fyrir safnmöppu.

Framsetningin gerir ráð fyrir einstaklingsmiðuðu námi og því eru þrjú eða fleiri verkefni á hverri blaðsíðu. Sumum verkefnum fylgir aukaverkefni og öðrum ábendingar um ítarefni á netinu. Kennari metur hvaða verkefni henta hverjum nemanda, eða nemendahópnum í heild. 

Nemendahefti

Hvert hefti er forsíða, 16 verkefnasíður með 3 verkefnaliðum á hverri síðu og orðasafni. Unnið er með yfirhugtökin lestur, orðavinna, ritun, rökhugsun, skilningur og flokkun og leitast við að festa efni í minni með endurtekningu. Miðjumati er ætlað að gefa nemendum og kennurum tækifæri til að meta kunnáttuna eftir yfirferð fyrri hluta heftisins, og lokamati er ætlað að meta kunnáttu þeirra á efni heftisins í heild. Námsmatið veitir kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið. Neðst á hverri verkefnasíðu eru stutt verkefnafyrirmæli sem lýst er ítarlegar í kennsluleiðbeiningum. 

Kennsluleiðbeiningar

Með hverju hefti fylgja kennsluleiðbeiningar með markmiðum verkefna, ítarlegri verkefnalýsingu, umræðupunktum, fylgiskjölum og ábendingum um ítarefni á netinu. Á forsíðu kennsluleiðbeininganna er bent á námsefni sem gott er að vinna áður en yfirferð hefst, og efni sem gott er að taka í kjölfarið. Aftast kennsluleiðbeiningum eru hugmyndir að útgöngupössum sem tengjast innihaldi verkefnaheftsins.

Fánaveifur

Hverju hefti fylgja 40 fánaveifur með orðum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnisins. Tilvalið er að hengja fánaveifurnar upp í kennslurýminu meðan á yfirferð námsefnisins stendur til að festa orð enn betur í minni.

Fylgiskjöl og ábendingar um ítarefni

Margvísleg skjöl fylgja heftunum og er þeim ætlað að mæta þörfum þeirra sem vilja dýpka ákveðin viðfangsefni. Sama gildir um ábendingar um ítarefni á vef.

Skipulagsmappa

Fyrir þá sem vilja halda til haga öllum gögnum sem fylgja námsefninu er hægt að prenta út forsíðu, baksíðu og kjalmiða sem passa á nokkrar stærðir af myndlistarmöppum.