Bókaflokkurinn Vísindalæsi miðar að því að efla skilning barna á raun- og náttúruvísindum, efla þekkingu þeirra á samspili manns og náttúru, og búa þau undir líf og starf í nútímasamfélagi.
Í bókinni Kúkur, piss og prump fjallar Sævar Helgi Bragason m.a. um meltinguna, hlutverk hennar, sögu salernis, þróun klósettpappírsins og tækniframfarir tengdar klósettferðum í geimnum. Rýnt er í útlit, form, liti, lykt og áferð viðfangsefnisins og mörgum skemmtilegum fróðleiksmolum varpað fram. Bókin er stórskemmtilega myndlýst af Elíasi Rúna.
Í námsefnisheftinu sem fylgir bókinni má finna fjölbreytt verkefni unnin með hliðsjón af hæfniviðmiðum Aðalnámsskrár grunnskóla í vísindalæsi og náttúrugreinum. Einnig er leitast við að samþætta yfirferðina við hæfniviðmið í íslensku.
Í kennsluleiðbeiningum eru umræðupunktar, fjölbreytt aukaverkefni fyrir stílabókavinnu og ábendingar um kveikjur og ítarefni á vef.
Námsefnið er samið af Unni Maríu Sólmundsdóttur og styrkt af Forlaginu.