Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Spil – kennsluleiðbeiningar

[featured_image]
Afþreyging - kennsluleiðbeiningar PDF
Download is available until [expire_date]
 • Version
 • Download 73
 • File Size 48.00 KB
 • File Count 1
 • Create Date 6. júlí, 2023
 • Last Updated 11. október, 2023

Spil - kennsluleiðbeiningar

Þetta reddast! - 2) Spil

Verkefni 1 - Lestur

Markmið, að:
 • læra orð tengd spilum
 • æfa íslensku málhljóðin
Innlögn:

1) Kennari dreifir fylgiskjalinu Orð og myndir 2 sem inniheldur sama orðabanka og Fánaveifurnar. Hann les textann með nemendum, skoðar orðin eftir þörfum og fer yfir fylgiskjalið með orðalistanum. Hér má leggja inn orðin dragðu og veiddu.

2) Kennari gefur nemendum hlutverk Fatimu og Daniels sem lesa textann upphátt tveir og tveir saman.

3) Nemendur læra heiti spila í spilastokki með því að tengja saman orð og mynd. Tilgangurinn er að kenna orðaforða til að efla félagsleg tengsl í gegnum spil.

Kennslugögn:

Ritföng og spilastokkur.

Tjáning, samræður:

Kennari spyr nemendur hvaða spil þeir kunna. Dæmi:

 • Kunnið þið Jatsí?
 • Hafið þið spilað Lúdó?
 • Hver kann að tefla?
 • Hvert er uppáhaldsspilið ykkar?
 • Hvaða spil finnst ykkur skemmtilegt að spila?
 • Hvaða spil spilið þið fjölskyldan oftast saman?
Fylgiskjöl:

Verkefni 2 - Orðavinna

Markmið, að:
 • vinna með heiti spila
 • kynnast hugtökunum tíðnitafla og súlurit
 • læra hugtökin oftast, sjaldnast og aldrei
Innlögn:

1) Nemendur skrá heiti spila í fyrsta dálkinn. Dæmi: ás, tvistur, þristur, fjarki o.s.frv. Kennari fer yfir áður en áfram er haldið.

2) Hver nemandi fær spilastokk, dregur eitt spil í einu og skrifar heiti þess í réttan dálk. Nemandi heldur áfram þar til hann hefur fyllt alla dálkana, alls 52 spil.

3) Verkefnið má samþætta við stærðfræði þar sem hugtökin tíðnitafla og súlurit eru kynnt. Kennari prentar út fylgiskjölin Tíðnitafla og Súlurit. Hver nemandi fær tvo teninga. Þeim er kastað 100 sinnum og niðurstöður skráðar í tíðnitöflu. Að því loknu leggur kennari inn hugtakið súlurit, dreifir samnefndu fylgiskjali og hver nemandi skráir sínar niðurstöður. Kennari leggur inn hugtökin oftast, sjaldnast og aldrei, sjá dæmi neðar.

Kennslugögn:

Ritföng, spilastokkar og teningar.

Tjáning, samræður:
 • Hvaða tala kom oftast?
 • Hvaða tala kom sjaldnast?
 • Kom einhver tala aldrei?
Fylgiskjöl:

Verkefni 3 - Ritun

Markmið, að:
 • skilja fyrirmælin að svara með heilli málsgrein
 • skrifa einfaldar málsgreinar
 • kynnast þolfalli
Innlögn:

1) Kennari fer yfir töfluna með nemendum og hjálpar þeim að læra þolfall spila sem nýtist þegar spilað er, t.d. Veiðimaður eða teningaspil.

2) Nemendur skrá heiti spila í fyrri dálkinn. Hér er endurtekning frá verkefni 2. Seinni dálkinn vinna nemendur með aðstoð kennara. Þar skrifa þeir fyrst málsgrein sem byrjar á Ég á… og svo spurninguna Átt þú… til að þjálfa þolfall spila enn frekar. Styðjast má við töfluna.

3) Nemendur spila Veiðimann, sjá spilareglur undir ítarefni, og styðjast við verkefnablað 3. Upplagt er að leyfa þeim að hafa töfluna hjá sér í spilatímum þar til þolfallið situr í minni.

Kennslugögn:

Ritföng og spilastokkur.

Ítarefni:

Verkefni 4 - Rökhugsun

Markmið, að:
 • festa í minni heiti spila
 • beita rökhugsun
 • læra hugtökin á undan og á eftir
 • rifja upp heiti lita
Innlögn:

1) Nemendur stokka spilastokk, draga eitt spil í einu og skrá heiti þess í miðdálkinn (Mitt spil). Hér er tilvalið að ræða sögnina að stokka.

2) Nemendur skrá heiti spilanna sem koma á undan og á eftir spilinu sem skráð var í miðdálkinn.

3) Nemendur lita reiti á verkefnablaðinu eftir fyrirmælum kennara, sjá neðar. Hann rifjar upp litaheiti og leggur inn forskeytin ljós- og dökk- sbr. ljósgrænn og dökkblár. Dæmi: Ef nemandi er með tvist í einhverjum dálkum litar hann þá fjólubláa. Ef nemandi er með drottningu í einhverjum dálkum litar hann þá dökkbláa.

Fyrirmæli:
 • Sjöa er rauð.
 • Tía er appelsínugul.
 • Ás er hvítur.
 • Drottning er dökkblá.
 • Tvistur er fjólublár.
 • Sexa er bleik.
 • Nía er grá.
 • Þristur er ljósgrænn.
 • Átta er dökkgræn.
 • Fjarki er ljósblár.
 • Kóngur er brúnn.
 • Fimma er svört.
 • Gosi er gulur.

Hér gefst tækifæri til að skoða litamynstrin sem birtast og rifja upp hugtökin oftast, sjaldnast og aldrei á verkefnablaði 2. Einnig má vinna aftur með fylgiskjölin Tíðnitafla og Súlurit.

Tjáning, samræður:
 • Hvaða litur kom oftast?
 • Hvaða litur kom sjaldnast?
 • Kom einhver litur aldrei?
Kennslugögn:

Ritföng, spilastokkur og litir.

Verkefni 5 - Skilningur

Markmið, að:
 • vinna með orðasambandið satt eða ósatt
 • þjálfa lesskilning
 • efla félagstengsl og tjáningu
Innlögn:

1) Kennari leggur inn orðasambandið satt eða ósatt. Nemendur rifja upp texta í verkefni 1 og merkja við satt eða ósatt.

2) Kennari og nemendur skoða í sameiningu lista með borðspilum. Hægt er að fletta þeim upp á netinu og varpa upp á skjá í kennslustofunni. Myndir af borðspilunum eru skoðaðar og nemendur læra íslensk heiti þeirra. Þeir þýða heitin á sitt tungumál í stílabók.

3) Hver nemandi gefur borðspili einkunn með því að lita 1-3 stjörnur eftir því hversu skemmtilegt honum finnst spilið. Hér má styrkja félagstengsl og tjáningu á tvenns konar hátt:

 • Leyfa nemendum sem gefa sama spili 3 stjörnur að spila saman það sem eftir er kennslustundar, eða síðar í sérstökum spilatíma.
 • Nýta spilin í stöðvavinnu þannig að allir nemendur fái að kynnast þessum borðspilum.
Kennslugögn:

Ritföng, stílabók, spilastokkur og spilin Lúdó, Slönguspil, Minnisspil, tafl, Jatsí, Monopoly, Mylla, UNO og Dómínó.

Tjáning, samræður:

Spurning til nemenda: Hvaða spil finnst ykkur skemmtilegt að spila?

Ítarefni:

Verkefni 6 - Flokkun

Markmið, að:
 • læra orðin hjarta, spaði, tígull og lauf
 • þekkja sagnorðið að stokka
Innlögn:

1) Kennari rifjar upp sögnina að stokka. Hver nemandi fær spilastokk sem hann stokkar, dregur svo eitt spil í einu, leggur í réttan bunka og strikar út af orðalistanum. Dæmi: Nemandi dregur hjartafimmu. Hann leggur spilið í hjartabunkann og strikar yfir orðið hjartafimma á listanum. Verkefnið má vinna sem einstaklingsverkefni, í paravinnu, hópavinnu eða sem stöð í stöðvavinnu.

2) Nemendur skrifa heiti mannspila á línurnar til að festa þau betur í minni.

3) Nemendur endurrita heiti spila í stílabók og þýða yfir á eigið tungumál. Kennari útfærir verkefnið eftir aldri nemenda, t.d. að þýða eingöngu hugtökin hjarta, spaði, tígull og lauf.

Tjáning, leikir:

Ásadansinn. Kennari tekur ásana fjóra úr spilastokk og límir í horn kennslustofunnar. Tónlist er spiluð og nemendur dilla sér í takt. Kennari slekkur tónlistina og nemendur velja horn til að fara í. Kennari dregur spil úr stokknum og segir upphátt. Ef spilið er hjartatía eru allir nemendur úr leik sem völdu hornið með hjartaásnum. Þeir setjast því í sætin meðan aðrir gera sig klára í næstu umferð. Kennari kveikir á tónlist og nemendur dilla sér. Slökkt er á tónlist, spil dregið og nemendur velja horn. Ef spilið er spaðafimma eru núna öll börn úr leik sem völdu hornið með spaðaásnum. Ferlið er endurtekið þar til einn nemandi stendur uppi sem ásakóngur eða ásadrottning.

Kennslugögn:

Ritföng, spilastokkar og stílabók.

Verkefni 7 - Málfræði

Markmið, að:
 • kynnast nafnorðum og sagnorðum sem tengjast spilum
 • skoða nafnhátt sagna og 1. persónu eintölu
 • geta lýst athöfnum og tjáð með látbragði
Innlögn:

1) Í verkefninu eru kynnt til leiks orðin spilareglur, keila og tafl sem unnið verður meira með í seinni textanum. Nemendur tengja saman nafnorð og sagnorð með aðstoð kennara. Sum sagnorð geta tengst fleiri en einu nafnorði. Dæmi: sagnorðin að vinna og að tapa tengjast flestum spilunum. Í þeim tilfellum er hægt að velja 1-3 nafnorð og fá tillögur frá nemendum í hvaða spil þeir vilja tengja sagnorðin.

2) Nemendur búa til töflu í stílabók með tveimur dálkum. Í fyrri dálkinn skrifa þeir sagnorðin í verkefninu í nafnhætti (endurritun). Í seinni dálkinn skrifa þeir sögnina í 1. persónu eintölu með aðstoð kennara, Dæmi:

Þetta reddast! - 2) Spil

Fyrir lengra komna má bæta við 2. og 3. persónu eintölu og fleirtölu, og með aðstoð kennara að skrifa sagnorðin í þátíð.

3) Tilvalið er að enda yfirferðina með látbragðsleik. Einn nemandi velur sér sagnorð af listanum. Hann leikur það án orða fyrir framan hópinn. Samnemendur giska á hvert sagnorðið er og segja það í nafnhætti.

Kennslugögn:
 • Ritföng og stílabók.
Tjáning, leikir:

Kennari tekur t.d. öll hjartaspil úr spilastokk og notar ás upp í kóng. Nemendur standa. Kennari dregur eitt spil í einu og segir spilið upphátt. Nemendur mynda hópa eftir tölunni sem spilið stendur fyrir. Dæmi: Kennari dregur tvist og segir yfir hópinn TVISTUR. Nemendur para sig saman tveir og tveir. Kennari dregur fimmu og segir yfir hópinn FIMMA. Nemendur mynda fimm manna hópa. Kennari dregur drottningu og segir yfir hópinn DROTTNING. Nemendur mynda 12 manna hópa. Þegar kennari dregur mannspil þjálfast nemendur bæði í að muna hvað þau heita og hvaða númer þau standa fyrir. Leikurinn þjálfar samvinnu og styrkir jákvæð samskipti.

Aukaverkefni:

Stafsetning; upplestur eða sóknarskrift.

Markmið, að:
 • þjálfa stafsetningu
Innlögn:

Kennari les upphátt fimm málsgreinar sem innihalda orð úr fyrri hluta heftisins. Nemendur skrifa svo eitt orð úr málsgreininni í stílabókina sína.

Eða:

Kennari notar þessar fimm málsgreinar sem sóknarskrift. Hann hengir blað með málsgreinunum upp á vegg. Nemendur standa upp og lesa eina málsgrein í einu. Þeir leggja hana og ritun orðanna á minnið, setjast og skrifa málsgreinina í stílabók.

Þetta reddast! - 2) Spil

Fylgiskjal:

Verkefni 8 - Miðjumat

Markmið, að:
 • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna úr fyrri hluta heftisins
 • veita kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið
Innlögn:

1) Nemendur skrifa rétta tölu við hvern tening með stuttri málsgrein. Dæmi: Þetta er ás. Þetta er tvistur. Leggja áherslu á að byrja málsgrein á stórum staf og enda hana á punkti.

2) Nemendur lesa orðin undir spilunum og teikna viðeigandi spil.

3) Nemendur skoða sagnorðin og merkja við réttan svarmöguleika. Myndirnar til hliðar gefa vísbendingar.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 9 - Lestur

Markmið, að:
 • kenna orðaforða tengdum keilu
 • læra að panta tíma
 • geta heilsað og kvatt
Innlögn:

1) Kennari les textann með nemendum. Nemendur skiptast svo á að lesa samtölin upphátt. Hér er hægt að para nemendur saman og gefa þeim sitt hvort hlutverkið, annars vegar Arons og Ellu, og hins vegar Arons og starfsmanns. Kennari getur útfært lesturinn eftir því sem best hentar nemendahópnum.

2) Nemendur skoða orðin í Orðabankanum með kennara. Þeir skrifa svo orðin í stílabók og þýða yfir á sitt tungumál.

3) Nemendur gera tvo dálka í stílabók. Í annan skrifa þeir orð og frasa úr textanum sem notuð eru til að heilsa og í hinn orð og frasa sem notuð eru til að kveðja. Dæmi:

Þetta reddast! - 2) Spil

Verkefni 10 - Þraut

Markmið, að:
 • kenna orðaforða tengdan tafli
 • læra heiti taflmanna
 • þjálfa virka hlustun og samræður
Innlögn:

1) Með aðstoð kennara skrifa nemendur heiti taflmanna á línurnar.

2) Nemendur skrifa heiti taflmanna í stílabók og þýða yfir á eigið tungumál.

3) Nemendur lita taflmenn eftir munnlegum fyrirmælum kennara:

 • Litaðu biskupinn bláan.
 • Litaðu riddarann rauðan.
 • Litaðu kónginn bleikan.
 • Litaðu peðið fjólublátt.
 • Litaðu hrókinn gulan.
 • Litaðu drottninguna græna.
Kennslugögn:

Ritföng, stílabók, litir, taflmenn og taflborð.

Tjáning, leikir:

Kennari gefur nemendum tíma til að tefla, t.d. í sérstökum spilatíma. Það er um að gera að hvetja nemendur til að nota íslensk heiti taflmanna svo þau festist í minni. Nemendur sem þegar kunna skák geta kennt samnemendum að tefla.

Verkefni 11 - Ritun

Markmið, að:
 • skrifa einfaldar málsgreinar
 • geta, með stuðningi, tekið þátt í samræðum
Innlögn:

1) Eyðufyllingin er byggð á samtalstextanum í verkefni 9. Nemendur fylla í eyðurnar, en skipta út orðinu keila fyrir Bingó. Kennari kannar hvort nemendur þekki Bingó og hverjir hafa spilað það.

2) Nemendur lesa orðin í Orðabankanum. Á örvarnar skrifa þeir orðin sem eiga við myndirnar. Hér eru lögð inn orðin sælgæti og gos. Orðin við myndirnar eru: sælgæti, gos, klukka og bingóspjald.

3) Nemendur spila Spilaorðabingó, sjá fylgiskjal til útprentunar. Kennari er bingóstjóri. Bingóið samanstendur af öllum 40 orðum í Orðabanka heftisins. Gott er að plasta spjöldin, klippa niður miðana í skjalinu Orð og myndir 2 til útdráttar og nota töflutúss til að krossa yfir reiti. Auðvelt er að þrífa tússinn af á milli umferða.

Kennslugögn:

Ritföng og gögn Spilaorðabingós.

Fylgiskjal:

Verkefni 12 - Rökhugsun

Markmið, að:
 • beita rökhugsun
 • þekkja nafnháttarmerkið
 • læra íslenska stafrófið
Innlögn:

1) Nemendur lesa orðin fjögur í hverjum reit og gera hring utan um það sem ekki passar. Kennari rifjar upp fyrirmælin að gera hring utan um. Með aðstoð hans rökstyðja nemendur hvers vegna orðið passar ekki. Æfingin er góð til að þjálfa orðasambandið vegna þess að. Dæmi: Spilastokkur passar ekki vegna þess að hann er ekki notaður í skák. Laufakóngur passar ekki vegna þess að hann er spil.

Aukaverkefni: Nemendur finna orð sem passar í hvern reit í stað þess sem passar ekki. Dæmi: Biskup passar í staðinn fyrir spilastokkur.

2) Nemendur finna fimm sagnorð í reitunum í nafnhætti og skrifa á línurnar. Lausn: að tefla, að draga, að stokka, að veiða og að skrifa.

3) Nemendur finna fimm orð í reitunum sem byrja á sp- og skrifa á línurnar í stafrófsröð. Hér er markmiðið að þjálfa stafrófið þegar orð hafa sömu upphafsstafi. Lausn: spaði, spil, spilareglur, spilastokkur og spjald.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 13 - Skilningur

Markmið, að:
 • geta lesið og skilið einfaldan texta
 • læra fyrirmælin að krossa við rétt svar
Innlögn:

1) Kennari leggur inn fyrirmælin að krossa við rétt svar. Nemendur rifja upp textann í verkefni 9 og svara krossaspurningunum.

2) Með aðstoð kennara svara nemendur fyrri spurningunni með heilli málsgrein. Kennari leggur fyrst inn orðasambandið að hlakka til. Lausn: Já, Aron og Ella hlakka til að fara í keilu.

3) Kennari spyr nemendur seinni spurningarinnar: Hvað hlakkar þú til að gera? og aðstoðar þá við að svara: Ég hlakka til að…. Nemendur gætu hér nefnt að eiga afmæli, að fara í skólann, að fara í keilu o.s.fr.

Aukaverkefni: 

Nemendur rifja upp rökstuðning frá verkefni 12 og svara með lengri málsgrein: Ég hlakka til að … vegna þess að …

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 14 - Flokkun

Markmið, að:
 • festa orðaforða í minni
 • beita rökhugsun
 • læra fyrirmælin að klippa og að líma
Innlögn:

1) Fylgiskjal 1: Orð og mynd er aftasta síðan í námsheftinu en einnig er hægt að prenta það sérstaklega. Nemendur klippa út reiti með orðum og myndum.

2) Nemendur para saman orð og mynd. Verkefnið má vinna sem einstaklingsverkefni, paraverkefni, hópaverkefni eða sem stöð í stöðvavinnu.

3) Nemendur líma orð og mynd sem eiga saman í réttu reitina undir yfirheitunum skák, spilastokkur, keila, teningaspil og bingó. Lausn:

 • Skák: hrókur, taflborð og riddari.
 • Spil: kóngur, spilastokkur og hjartafimma.
 • Keila: keilukúla, keilur og keiluskór.
 • Teningaspil: Slönguspil, teningur og Lúdó.
 • Bingó: bingókúlur, bingóröð og bingóspjald.
Kennslugögn:

Fylgiskjal 1: Orð og mynd, skæri og lím.

Fylgiskjal:
 • Fylgiskjal 1: Orð og mynd.

Verkefni 15 - Málfræði

Markmið, að:
 • geta teiknað röð mynda sem lýsa einföldum málsgreinum
 • kynnast persónufornöfnum
 • læra fyrirmælin að strika undir og að gera hring utan um
Innlögn:

1) Nemendur teikna myndir sem lýsa einföldum málsgreinum byggðum á efnistökum heftisins.

2) Nemendur strika undir sagnorðin í málsgreinunum og skrá á línurnar. Hér er tækifæri til að leggja inn fyrirmælin að strika undir.

3)) Nemendur gera hring utan um persónufornöfnin í málsgreinunum og skrá þau í töfluna. Hér er tækifæri til að leggja inn fyrirmælin að gera hring utan um.

Aukaverkefni:

Upplestur eða sóknarskrift.

Markmið að:
 • þjálfa réttritun
Innlögn:

Kennari les upphátt fimm málsgreinar þar sem orð úr heftinu koma fyrir. Nemendur skrifa svo eitt orð úr málsgreininni í stílabókina sína.

Eða:

Kennari notar þessar fimm málsgreinar sem sóknarskrift. Hann hengir blað með málsgreinunum upp á vegg. Nemendur standa upp og lesa eina málsgrein í einu. Þeir leggja hana og ritun orðanna á minnið. Að lokum setjast þeir við borðið sitt og skrifa málsgreinina í stílabók.

Þetta reddast! - 2) Spil

Kennslugögn:

Ritföng og stílabók.

Fylgiskjal:

Verkefni 16 - Lokamat

Markmið, að:
 • gefa nemendum tækifæri til sjá hvað þeir kunna eftir yfirferð heftisins
 • veita kennara tækifæri til endurgjafar
Innlögn:

1) Nemendur tengja saman orð og mynd.

2) Nemendur skrifa níu sagnorð sem þeir hafa lært eftir yfirferð heftisins.

3) Nemendur lesa orðin fyrir ofan reitina og teikna mynd í réttum lit.

Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Orðabanki

Í lok hvers námsefnispakka er Orðabanki, þ.e. gátlisti með 40 hugtökum sem áhersla hefur verið lögð á í heftinu. Þar haka nemendur í þau orð sem þeir telja sig hafa náð tökum á, og þjálfa betur hin sem út af standa. Einnig skrá nemendur sagnorð sem þeir hafa lært, og önnur orð sem þeir hafa bætt við orðaforðann í yfirferðinni. Orðabankann má nýta með lokamati áður en næsta hefti er tekið fyrir.

Fánaveifur

Með heftinu fylgja 40 fánaveifur með hugtökum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnisins, og í fylgiskjalinu Orð og myndir 2. Tilvalið er að hengja fánaveifurnar upp í stofunni meðan á yfirferð námsefnisins stendur.

Útgöngupassi

Kennari skrifar nöfn nemenda á miða og setur í krukku. Hann dregur miða í lok kennslustundar eða skóladags. Sá nemandi svarar spurningu úr námsefninu. Þegar nemandi svarar rétt má hann fara.

Hugmyndir:
 • Kennari dregur spil úr spilastokk, heldur spilinu uppi og nemandi segir hvað spilið heitir.
 • Kennari kastar teningi á borð nemandans og nemandi segir hvaða tala kom upp.
 • Kennari sýnir taflmann og nemandi segir hvað hann heitir.
 • Kennari bendir á mynd á forsíðu heftisins og nemendur segja hvað er á myndinni.

 

Comments are Closed