Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Jólahald

[featured_image]
Jólahald í gamla daga - PDF
Download is available until [expire_date]
 • Version
 • Download 1273
 • File Size 127.01 MB
 • File Count 1
 • Create Date 20. nóvember, 2017
 • Last Updated 4. desember, 2018

Jólahald

Um námsefnið

Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnafræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum. Ljósmyndir af jólasveinastyttum eru teknar og birtar með leyfi frá Sólarfilmu, heildsölu og útgáfufyrirtæki.

Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem jólahald og líf fólks í gamla daga er skoðað. Sérstök áhersla er á hluti og athafnir sem koma fram í jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum, og sveinarnir draga nöfn sín af.

Tilvalið er að hefja yfirferðina, og kveikja áhuga nemenda, á því að lesa fyrstu erindin, og lesa svo erindin um hvern svein fyrir sig áður en farið er í verkefnablöðin.

Jólasveinarnir eftir Jóhannes úr Kötlum

Segja vil ég sögu
af sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðum
á bæina heim.

Grýla var þeirra móðir
og gaf þeim tröllamjólk,
en pabbinn Leppalúði,
það var leiðindafólk.

Þeir voru þrettán
þessir heiðursmenn,
sem ekki vildu ónáða
allir í senn.

Lævísir á svipinn
þeir leyndust hér og þar,
til óknyttanna vísir,
ef enginn nærri var.

Þeir upp á fjöllum sáust,
eins og margur veit,
í langri halarófu
á leið niður í sveit.

Þeir jólasveinar nefndust,
um jólin birtust þeir.
Og einn og einn þeir komu,
en aldrei tveir og tveir.

Að dyrunum þeir læddust
og drógu lokuna úr.
Og einna helzt þeir leituðu
í eldhús og búr.

Og eins, þó einhver sæi,
var ekki hikað við
að hrekkja fólk og trufla
þess heimilisfrið.

Ítarefni

Verkefni 1 - Stekkjarstaur

Stekkjarstaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin,
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
það gekk nú ekki vel.

Umræðupunktar

 • Hvaðan er nafn Stekkjarstaurs? - Stekkur var sérstök gerð fjárréttar í gamla daga og þaðan fékk Stekkjarstaur nafnið sitt.
 • Af hverju gat Stekkjarstaur ekki beygt sig?
 • Stekkjarstaur er með staurfætur, hvað þýðir það?
 • Fætur Stekkjarstaurs voru stífir eins og staurar, hvernig ætli líf fatlaðs fólks hafi verið í gamla daga miðað við nú?
 • Hvaða hjálpartæki eru til í dag sem auðvelda líf fatlaðs fólks?
 • Stekkjarstaur sótti sér volga mjólk beint úr spenum ánna. Af hverju fór hann ekki bara í ísskápinn og náði sér í mjólk?
 • Hvernig ætli volg mjólk bragðist beint úr spenanum?
 • Hvernig er áferðin á ómeðhöndlaðri mjólk? Kekkjótt? Þykk?
 • Í gamla daga drakk fólk mjólk úr geitum, ám og beljum. Hvaða mjólk drekkur þú?
 • Í hvernig ílátum var mjólk geymd í gamla daga? - Sjá mjólkurtrog.
 • Stundum var búfé geymt undir baðstofunni, af hverju ætli það hafi verið gert? - Í gamla daga var hvorki rafmagn né hitaveita. Þess vegna var hitinn sem lagði frá búfé nýttur á þennan hátt.
 • Kindin hefur fylgt Íslendingum allt frá landnámi. Hvaða afurðir gefur hún okkur? - Kjöt, ull, horn, ...
 • Hvaða áhöld voru notuð til að vinna ullina? - Sjá ullarkambur, snældustokkur, rokkur, snælda, togkambur, ...

Verkefni 2 - Giljagaur

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
Hann skreið ofan úr gili,
og skaust í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.

Umræðupunktar

 • Hvað þýðir það að vera við mjaltir? - Að mjólka dýr (kýr og kindur).
 • Hvað störfuðu mjaltakonur við í gamla daga? - Mjaltakonur kölluðust konurnar sem mjólkuðu ær, geitur og kýr.
 • Hvernig voru dýrin mjólkuð? - Oftast var setið við hlið dýrsins og mjólkað ofan í mjólkurfötu með því að kreista spenana niður á við með höndunum. Sjá einnig mjólkurbrúsa sem komu síðar.
 • Mikilvægt hefur verið að þrífa spenana vel fyrir mjaltir, af hverju ætli það hafi verið? -Til að menga ekki mjólkina með óhreinindum.
 • Af hverju myndaðist froða ofan á mjólkinni þegar fjósakonan var að mjalta?
 • Hvaða tæki eru notuð við mjaltir í dag? - Sjá grein Torfa Jóhannessonar um mjaltir.
 • Á hvernig kolli sátu mjaltakonur í gamla daga? - Mjaltakolli.

Eyðufyllingarverkefni

Nemendur skoða orðin í kassanum og raða þeim á réttan stað. Hvert strik táknar bókstaf. Lausn: Mjólk fáum við frá ám og kúm. Úr mjólk er unninn rjómi og undanrenna. Undanrenna gefur ost, skyr og flautir. Rjómi gefur smjör og skyr gefur skyrmysu.

Umræðupunktar

 • Með hvernig ílátum og áhöldum var mjólkurmatur unninn í gamla daga? - Öll mjólkurílát í gamla daga voru stafaílát úr tré, girt með svigagjörðum og trénegld. Svörin við vinnslu mjólkurmatarins, ásamt margvíslegum skemmtilegum fróðleik, er að finna í ritinu Eldamennska í íslenskum torfbæjum sem Hallgerður Gísladóttir tók saman fyrir Byggðasafn Skagfirðinga.
  • Rjómi: “Mjólk var yfirleitt aðskilin í rjóma og undanrennu í eldri tíð. Það var gert með því að láta hana standa í lágum ílátum, trogum eða byttum þar til rjóminn settist ofaná.” (bls. 18). Seinna var notuð skilvinda til verksins.
  • Undanrenna: Á mjólkurbyttunum var lítill tappi neðarlega og þaðan var hægt að tappa undanrennunni í burtu og skilja hana frá rjómanum.
  • Ostur og flautir:
  • “Úr undanrennunni gerðu menn m.a. skyr, osta, flautir. Þessir réttir eru hleyptir og við gerð þeirra var notaður hleypir úr kálfsmaga.” (Bls. 19). Sjá ostamót og ostapressu.
  • Skyr: “Við skyrgerð var undanrenna hituð að suðumarki og þannig gerilsneydd. Hún var látin kólna niður í líkamshita og þá bætt í þétta - gerlagróðri frá eldri lögun - og hleypi. Síðan var hún látin hlaupa í nokkra klukkutíma í upphleypudalli/skyrkollu eða hleypiskirnu. Mysan var síuð frá á skyrgrind og skyrið geymt í skyrsáum.” (Bls. 19).
  • Smjör: “Úr rjómanum var svo strokkað smjör, sem var sýrt á fyrri öldum vegna viðvarandi saltleysis á Íslandi. Smjör var strokkað í bullustrokki frá fyrstu tíð þangað til fyrir nálægt hundrað árum síðan.” (Bls. 18-19). Sjá einnig smjörmót og smjörhnífur.
  • Sjá einnig: Flautaþyrill var notaður til að þeyta flautum.

Verkefni 3 - Stúfur

Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

Völundarhús

Nemendur finna réttu leiðina í gegnum þrautina.

Umræðupunktar

 • Hvernig fallbeygist nafnið Stúfur?
 • Er munur á því að skrifa upp Stúfur eða uppstúfur?
 • Hvað er uppstúfur?
 • Hvað þýðir málshátturinn Margur er knár þótt hann sé smár?
 • Hvað þýða orðatiltækin?
  • Að vera snar í snúningum
  • Að stinga í stúf við eitthvað
  • Að vera potturinn og pannan í einhverju

Verkefni 4 - Þvörusleikir

Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.

Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Orðaskuggar

Nemendur skoða orðin yfir gömlu eldhúsháhöldin og skrá orðaskugga þeirra í reituðu töflurnar. Bókstafur sem nær niðurfyrir hefðbundna skriftarlínu, sbr. bókstafurinn p, (reitarröðina í miðjunni) er skyggður með tveimur reitum, í neðstu reitarröðina og miðjuröðina. Þannig nær bókstafurinn þ sem dæmi yfir allar þrjár reitaraðirnar en bókstafurinn a bara yfir einn reit í miðjuröðinni.

Þekkir þú eldhúsáhöldin?

 • Þvara er áhald sem notað var til að hræra í pottum eða til að ná föstum matarafgöngum innan úr þeim. Hún var stundum löng og mjó, getur verið að skáldið hafi verið að líkja Þvörusleiki við áhaldið? Matarafgangar voru nefndar skófir.
 • Bullustrokkur var notaður til að strokka smjör úr rjóma. Hvað gerist ef þú þeytir rjóma of lengi í hrærivélinni? - Hann verður að smjöri.
 • Spónn er skeið úr beini, horni eða tré, sem fólk notaði til að matast með en þá var maturinn skammtaður í minni ílát sem nefnd voru askar. Oft átti hver sinn spón og ask, og margir gripir voru fagurlega útskornir með upphafsstöfum eigenda sinna.
 • Grasajárn var þá notað til að saxa fjallagrösin smátt niður en áður fyrr voru þau mikið notuð í brauð, grauta og slátur.
 • Pottaskafi líkt og þvara, var notaður til að skrapa skófir innan úr pottunum. Skófir voru oft eftirsóttar innansleikjur í gamla daga og eru jafnvel enn. Hvaða sagnorð tengist þessari athöfn? - Að skafa.
 • Skyrgrind var trégrind sem notuð var til að sía skyr úr undanrennu.
 • Flautaþyrill var notaður til að vinna og þeyta flautum úr undanrennu.
 • Hvað þýðir það að standa eins og þvara?

Verkefni 5 - Pottaskefill/Pottasleikir

Sá fimmti Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.

Þau ruku´upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti´ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.

Teiknað/klippt og límt

Nemendur leita sjálfir, eða með aðstoð kennara, að myndum á netinu sem sýna margvísleg ílát er notuð voru í gamla daga. Sarpur.is hefur að geyma fróðleik og myndir af safnmunum sem fundist hafa víða um land. Tilvalið er að nota leitarstrenginn á vefnum til að finna ílátin. Hægt er að teikna ílátin í reitina eða vista þá saman á blað, prenta, klippa út og líma í reitina.

Aukaverkefni fyrir eldri nemendur

 • Skoða samsettu orðin og vinna með þau í stílabók. Út hvaða orðum eru þau sett saman?
 • Raða orðunum í stafrófsröð.
 • Fallbeygja orðin í eintölu og fleirtölu, og bæta við þau greini.

Umræðupunktar

 • Hvaðu eru skófir? - Matarafgangur sem fastur var innan í pottum og pönnum eftir eldamennsku voru kallaðar skófir.
 • Til hvers voru þessi ílát notuð? - Öll eiga það sameiginlegt að hafa verið notuð í matvælavinnslu, hvort heldur til að geyma matvæli, elda mat í eða vinna eldhússtörfin.
 • Hlóðapottur voru pottar úr steypujárni (pottjárni) sem notaðir voru til að elda mat við opinn eld. Þeir voru hengdir í krók sem festur var upp í rót/rjáfur með hóbandi. Sumir eldstæði voru útbúin þannig að hægt var að hækka og lækka í hóbandinu eftir því hversu mikill hiti átti að vera í pottinum. (Heimild: Eldamennska í íslenskum torfbæjum.) Þurrkaður mór var notaður sem eldsneyti í hlóðaeldhúsi, en það eru samanþjappaðar plöntuleifar sem grafnar voru upp.
 • Askur var ílát undir mat. Fólk borðaði upp úr askinum með spóninum sínum. Líkt og með spóna voru askar oft fagurlega útskornir með munstrum og nöfnum eigenda sinna.
 • Stafatunna var til í nokkrum stærðum og hýsti margvísleg matvæli. Í gamla daga var ekki til frystir og því var matur geymdur í mysu/settur í súr og síðar þegar saltið kom til sögunnar var hann saltaður niður í tunnur.
 • Mjólkurfata var oftar en ekki með handfangi til að auðvelda burð. Handfangið var þá úr tré eða leðri. Mjólkurfötur voru einnig nefndar skjólur.
 • Kornkista var notuð undir kort og jurtir.
 • Soðningarfat var eins og nafnið gefur til kynna notað undir soðningu (soðinn fisk).
 • Skyrkolla er ílát sem skyr var sett í þegar búið var að sía það frá mysunni í skyrgrindinni. Í skyrkollunni var skyrið geymt meðan að það var að hlaupa/þykkna.
 • Trog er lágt kassalaga ílát sem notað var undir matvæli en einnig var unnið í trogum sbr. brauðtrog sem brauð var hnoðað í.

Verkefni 6 - Askasleikir

Sá sjötti Askasleikir,
var alveg dæmalaus.
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund.
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

Orð úr orði

Með námsefninu fylgir skjal (aftasta blaðið) þar sem búið er að taka bókstafina í nafni Askasleikis og stækka upp. Bókstöfunum hefur einnig verið gefið vægi, eða stig. Nemendur klippa bókstafnina út og nota miðana til að búa til ný orð. Orðin skrá þau á línurnar og reikna saman hversu mörg stig þau gefa.

Umræðupunktar

Verkefni 7 - Hurðaskellir

Sá sjöundi var Hurðaskellir,
sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.

Orðaglímur

Nemendur skoða orðin HJÖR, MARR og NÓTT og finna nafnorð sem byrja á þessum upphafsstöfum. Einnig má nota fleiri orðflokka eins og lýsingarorð eða sagnorð. Eins mætti finna mannanöfn, kaupstaði eða hvað annað og skrá í reitina. Dæmi: H (hurð, háttalag, hundur, Hannes, ...) o.s.frv.

Umræðupunktar

 • Hvað er baðstofa? Hvað gerði fólk þar? - Í baðstofum kom fólk saman og vann innivinnu svokallaða sem var þá handverk ýmisskonar eins og útskurður, útsaumur og ullarvinnsla. Þar snæddi fólk saman og spjallaði, og lesnar voru sögur. Fólk svaf einnig í baðstofunum, oft 2 og 2 saman og þaðan er orðið rekkjunautur komið. Baðstofan var klædd með þiljum og á henni var gluggi, baðstofugluggi. Undir baðstofunni voru oft fjárhús og ylurinn frá búfénu leiddi upp og hitaði baðstofuloftið.
 • Af hverju voru vistarverur manna kallaðar baðstofur?

Ítarefni

Verkefni 8 - Skyrgámur/Skyrjarmur

Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o´n af sánum
með hnefanum braut.

Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
uns stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

Stafrófsverkefni

Nú ættu nemendur að kannast vel við gamla mjólkurmatinn og forvitnilegt að sjá hvað þeir muna úr verkefninu um Giljagaur. Nemendur skoða orðin sem koma fyrir í töflunni og raða þeim í stafrófsröð. Hvað þarf að hafa í huga þegar raðað er í stafrófsröð og fleiri en eitt orð byrja á sama bókstafnum? Hver er reglan?

Umræðupunktar

Nútímamjólkurmatur

Skyrgámur þekkir best þann tíma þegar vöruúrvalið var ekki eins mikið og það er í dag. Nemendur hjálpa honum að fylla stafatunnuna af nútímamjólkurmat. Hér er tilvalið að búa til orðaskjóðu saman á töfluna, og leyfa nemendum að velja 7 orð til að skrá niður.

Umræðupunktar

 • Skyrgámur horfir hissa á stóru stafatunnuna, hvað er hann að hugsa? Skráðu hugrenningar hans í hugsanabóluna.
 • Úr hverju var stafatunna búin til? - Öll mjólkurílát í gamla daga voru úr tré, girt með svigagjörðum og trénegld.
 • Í vísu Jóhannesar úr Kötlum er Skyrgámur nefndur Skyrjarmur. Jarmur er karlkyns nafnorð tengt sagnorðinu að jarma. Skyrgámi er lýst sem ægilegu nauti sem braut og bramlaði, hámaði sig matinn og stundi og hrein. Þetta hafa verið hin mestu tröllalæti enda eru jólasveinar af tröllakyni og synir þeirra Grýlu og Leppalúða. Hvernig myndi þér verða við að mæta svona skyróðum jarmi?
 • Í verkefninu um Giljagaur kom fram að skyrið var geymt í skyrsáum sem voru litlar stafatunnur. Í ljóði Jóhannesar úr Kötlum er talað um að Skyrgámur hafi brotið hlemminn ofan á sánum, hvað er átt með því?

Ítarefni

Verkefni 9 - Bjúgnakrækir

Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.

Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.

Dagbókarskrif

Bjúgnakrækir leggur líf og limi að veði við að stela bjúgum, og einn daginn fór næstum illa fyrir honum. Hvað gerðist? Nemendur skrá dagbókarfærslu fyrir hönd sveinka og greina frá ævintýri hans.

Umræðupunktar

 • Hvað þýða þessi nafnorð:
  • Hlóðir - Í gamla daga var eldað við opinn eld. Eldstæði var hlaðið upp með steinum og kallað hlóðir. Hlóðapottar héngu yfir eldinum.
  • Rót - Efsti hluti loftsins var kallað rót eða rjáfur. Þar hékk ýmislegt góðgæti, m.a. hangilæri sem var verið að reykt með reyknum er liðaðist upp úr hlóðunum.
  • Sót - Svartur reykur kemur þegar verið er að brenna við og hann skilur eftir sig agnir sem mynda sót. Þaðan er lýsingarorðið sótsvartur komið.
  • Rjáfur - Efsti hluti loftsins var kallað rjáfur eða rót. Þar voru einnig þverbitar sem notaðir voru til að styrkja þakið. Þar sat Bjúgnakrækir í sót og reyk og gæddi sér á stolna góðgætinu. Hann hefur trúlega orðið sótsvartur og óárennilegur, eða hvað?
  • Iðja - Að gera eitthvað, stunda eitthvað, vinna við eitthvað, æfa eitthvað, ...
 • Hvað þýða þessi lýsingarorð?
  • Brögðóttur - Sá sem beitir brögðum og gerist óheiðarlegur til að fá það sem hann vill.
  • Snar - Að vera fljótur í förum, snöggur eða snar í snúningum.
 • Hvað þýða þessi sagnorð?
  • Hendast - Að skjótast, að þjóta eða æða eitthvað.
  • Hnupla - Að stela, ræna, taka eitthvað sem maður ekki á.
 • Hvað þýðir orðatiltækið að eiga eitthvað upp í rót? - Líkt og fram kemur í verkefninu var venja að geyma matvæli í rjáfrum eldhúsa. Orðatiltækið þýðir að eiga eitthvað í handraðanum eða birgðir af einhverju, og vísar í þessa gömlu aðferðar við að geyma matvæli. Heimild: Eldamennska í íslenskum torfbæjum.

Verkefni 10 - Gluggagægir

Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.

Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

Teikniverkefni

Nemendur teikna mynd af því sem blasir við Gluggagægi þegar hann kíkir á gluggann í herberginu þeirra.

Aukaverkefni

Hvernig var umhorfs fyrir 200 árum þegar Gluggagægir leit inn um baðstofugluggann hjá fólki? Nemendur teikna verkefnið aftur og útbúa nú baðstofu eins og hún leit út í gamla daga.

Umræðupunktar

 • Hvað þýðir að vera grályndur? - Lýsingarorðið merkir að vera óheiðarlegur. Það hlýtur líka að teljast býsna óheiðarlegt að gægjast inn um glugga hjá ókunnugu fólki í leit að verðmætum til að stela.
 • Í vísunni er talað um að jólasveinninn hafi laumast á skjáinn, hvað er átt við? Laumaðist hann í sjónvarpið þeirra eða tölvuna? Eða jafnvel í útsendingarnar sjálfar?
 • Voru til raftæki á þessum tíma?
 • Hvernig hefur notkun á þessu orði breyst síðustu áratugina?
 • Hvernig myndi skilningurinn breytast ef Gluggagægir tæki upp á því í dag að laumast á skjáinn hjá fólki? - Orðið skjár er annað heiti yfir glugga og með tilkomu tækninnar hefur orðið fengið nýja merkingu. Hvað er á skjánum? gæti þýtt í dag: Hvað er í sjónvarpinu? eða: Hvað ertu að horfa á í tölvunni? Að birtast á skjánum hjá fólki er ekki lengur það sama og að birtast á glugganum - eða hvað?
 • Gluggagægir var að svipast eftir verðmætum til að stela síðar. Hvaða persónulegu verðmæti áttu Íslendingar hér áður fyrr? - Spón, ask, skinnskó, rósalepp, greiðu, ...
 • Hvaða persónulegu verðmætum gæti Gluggagægir verið að leita að í dag?

Verkefni 11 - Gáttaþefur

Ellefti var Gáttaþefur,
aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.

Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.

Dulmálslykillinn

Nemendur skoða kóðann og finna út hvaða bókstafir eiga að standa á línunum. Lausn: snerting, sjón, lykt, heyrn og bragð.

Umræðupunktar

 • Gáttaþefur var með svo stórt nef að hann gat fundið lyktina af laufabrauði upp á heiðar. Hvað er laufabrauð? - Næfurþunn hveitikaka sem skorin er út og steikt. Kökurnar voru hafðar mjög þunnar til að allir fengju a.m.k. eina köku. Laufabrauðið var "jólanammi" þess tíma og skreytt til gera upplifunina enn meiri og hátíðarlegri. Til eru sérstök laufabrauðsjárn til að skera falleg mynstur í hveitikökurnar en einnig er hægt að nota venjulega hnífa.
 • Hvernig ætli það sé að vera með svona gott þefskyn þegar lyktin er ekki jafn lokkandi og af nýsteiktu laufabrauði? - Hmmm…
 • Getur verið hættulegt að missa þefskynið? - Já, lykt getur varað okkur við hættum, t.d. ef það kvikna í heima hjá okkur.
 • Hvað er heiði? Hvaða heiði er næst þínu sveitarfélagi? Er langt að aka þangað? Hversu langan tíma tæki að ganga upp á heiðina?
 • Hvað þýðir lýsingarorðið hlálegt? - Hlægilegt eða skoplegt.
 • Gáttaþefur var léttur eins og reykur á leið sinni niður heiðina. Það er furðuleg samlíking, hvað á skáldið Jóhannes við með því?

Aukaverkefni fyrir eldri nemendur

 • Skrifa niður hvaða táknmyndir eru notaðar fyrir bókstafina (a = snjókarl, b = jólabjalla, ð = karamella, …).
 • Skrifa orðin aftur og raða þeim nú í stafrófsröð.
 • Fallbeygja orðin í eintölu og fleirtölu, með og án greinis.
 • Nota bókstafina í dulmálslyklinum til að finna fleiri orð og teikna þau upp sem dulmálsþraut.

Leitin að líkamshlutnum

Nemendur finna út hvað á að standa í kössunum og nota stafina í hringjunum til að raða orðunum saman. Lausn: eyra - auga - nef - munnur - húð. Nota má hvern bókstaf einu sinni. Gott er að lita hringina með mismunandi litum, t.d. hringi með bókstöfum sem mynda orðið eyra með grænum lit, hringi sem mynd orðið auga með gulum o.s.frv.

Aukaverkefni 

Nemendur skrifa setningar í stílabók og tengja saman skilningarvit og líkamshluta, dæmi: Við finnum lykt með nefinu. Við sjáum með augunum.

Ítarefni

Verkefni 12 - Ketkrókur/Kjötkrókur

Ketkrókur sá tólfti,
kunni á ýmsu lag.
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.
Hann krækti sér í tutlu
þegar kostur var á,
En stundum reyndist stuttur
stauturinn hans þá.

Umræðupunktar

 • Hvað þýðir að kunna á ýmsu lag? - Það þýðir að vera sniðugur, finna lausn á vandamálum og kunna að bjarga sér. Stundum er sagt að einhver sé laghentur en það þýðir að viðkomandi geti smíðað hvað sem er.
 • Hvers vegna var þetta sagt um Ketkrók? - Líkt og seinni hluti vísunnar gefur til kynna notaði Ketkrókur áhald, staut, til einhverra verka. Hann hefur kannski smíðað hann sjálfur?
 • Hvað var hann að brasa með þennan staut og hvernig áhald eða verkfæri var þetta? - Stautur er lítill holur, aflangur (oft sívalur) hlutur.
 • Til hvers notaði Ketkrókur stautinn? - Sagt er að Ketkrókur hafi farið upp á torfþak og reynt að ná sér í kjöt í gegnum strompinn. Hann hefur þá trúlega notað stautinn, eða prikið, til að krækja í kjötið.
 • Hvað á skáldið Jóhannes við þegar hann segir að Ketkrókur hafi krækt sér í tutlu? Hvað er tutla? - Tutla var (og er) notað yfir litlar tuskur og sömuleiðis orðið pjatla. Á sama hátt er kjöttutla notað yfir lítinn kjötbita og líklega er átt við kjöttutlu í þessu samhengi.
 • Hvað er Þorláksmessa? - Þorláksmessa er 23. desember, daginn fyrir aðfangadag. Þetta er dánardagur Þorláks Þórhallssonar Skálholtsbiskups, sem dó árið 1193. Fimm árum síðar var hann útnefndur heilagur maður eða Þorlákur hinn helgi og þessi messudagur tekinn upp honum til heiðurs.

Tölfræðiverkefni

Nemendur útkljá rifrildi bræðranna með því að setja blýantsodd í gegnum bréfaklemmu og tylla honum á miðju skífunnar. Bréfaklemmunni er þeytt í hringi, um blýantsoddinn, og skráð hvar hún stöðvar. Dæmi: Ef bréfaklemman nemur staðar við mynd af hangilæri er merkt X í fyrsta reitinn í töflunni fyrir neðan skífuna. Þetta er endurtekið 20 sinnum eða þar til búið er að fylla í alla reitina hjá annarri hvorri kjötafurðinni. Niðurstaðan er skoðuð og spurningunum svarað.

Umræðupunktar

 • Hvernig á að túlka það ef matvælin fá jafnmörg X? - Þá er jafntefli og bræðurnir verða að sætta sig við að kjötafurðirnar er jafngómsætar.
 • Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að það verði jafntefli? - Með því að kasta 21 sinnum í stað 20 sinnum.

Ítarefni

Verkefni 13 - Kertasníkir

Þrettándi var Kertasníkir,
þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.

Hann elti litlu börnin,
sem brostu glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.

Umræðupunktar

 • Hvað þýðir orðið tíð? - Orðið hefur fleiri en eina merkingu. Í vísu Jóhannesar er um kvenkyns nafnorð að ræða, notað um veðurlag á ákveðnu tímabili (þá var tíðin köld). Í bók Árna Björnssonar, Saga Jólanna, er sagt frá því að áður fyrr hafi jólasveinarnir mætt til byggða snemma morguns nema Kertasníkir sem seinkaði stundum til kvölds vegna ófærðar og veðurs. Heimild: Kertasníkir.
 • Hvaða orð eru skyld orðinu tíð? - Vertíð, árstíð, fortíð, nútíð, framtíð, tíðindi og tíðarfar sem dæmi.
 • Hvers vegna elti Kertasníkir börnin? - Í gamla daga voru kerti búin til úr tólg sem er hörð dýrafita (til dæmis kindamör) og það hefur Kertasníki þótt lostæti. Hann elti því börnin til að ná kertunum þeirra sem hann svo át.
 • Af hverju voru börnin svona glöð með kertin sín? - Á þessum tíma voru tólgarkerti munaðarvara sem búin var til fyrir jólin. Heimilisfólkið steypti þau sjálf í kertaformum en dýrafeitin var mjög verðmæt. Tólgarkerti voru því eingöngu notuð til hátíðarbrigða. Hefð var að börn (og stundum allir á heimilinu) fengu sitt eigið kerti á aðfangadagskvöld og þau voru í raun fyrsti vísirinn að jólagjöfum. Það hefur því verið ferlegt að horfa á eftir jólagjöfinni ofan í magann á Kertasníki ekki satt?
 • Voru híbýli manna þá ekki lýst upp með kertum? - Nei, notaður var frumstæður lampi sem nefndist kola. Hún var með skafti sem stungið var í vegg og brætt lýsi (hvalspik, selllýsi, hákarlalýsi eða þorskalýsi) var sett í hana. Kolur voru einnig nefndar lýsislampar vegna þessa, en lýsi er náskylt orðinu ljós. Lýsingin frá kolunni var ekki eins björt og frá kertinu, og því hefur það verið hátíðleg stund í baðstofunni þegar allir kveiktu á kertunum á aðfangadagskvöld. Kolur voru notaðar til ársins 1870 að steinolíulampar komu í staðinn.
 • Hvernig ætli lífið hafi verið án rafmagns? Gætum við verið án þess í dag?

Klippiverkefni

Námsefninu fylgir skjal (aftasta blaðið) með númerunum 1-12. Nemendur rifja upp í hvaða röð jólasveinarnir komu til byggða, klippa tölustafina út og líma á réttan stað á verkefnablaðinu.

Ítarefni

Verkefni 14 - Grýla og Leppalúði
Sem fyrr segir eru jólasveinarnir af tröllakyni og synir þeirra Grýlu og Leppalúða þótt þeir líkist þeim ekki mikið. Sagan segir líka að Grýla sé hörð við þá og flengi bræðurna jafnvel með vendi þegar hún nær til þeirra. Það er kannski ástæðan fyrir því að þeir láta mömmu sína bíða talsvert eftir sér um hátíðirnar eða allt þar til á þrettándanum að síðasti töltir aftur heim.

Á sjálfa jólanóttina,
sagan hermir frá,
á strák sínum þeir sátu
og störðu ljósin á.

Svo tíndust þeir í burtu,
það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.

Fyrir löngu á fjöllunum
er fennt í þeirra slóð.
En minningarnar breytast
í myndir og ljóð.

Umræðupunktar

 • Í hvaða vísu/jólalagi er talað um að Grýla flengi jólasveinana með vendi?
 • Hvað þýðir málshátturinn Nýir vendir sópa best? Skyldu þeir líka flengja best?
 • Til hvers voru vendir notaðir? - Í gamla daga notaði fólk hrísvendi til að sópa gólfinn. Hann var mikið notaður til að þrífa í hlóðaeldhúsinu, en einnig til að flengja börn. Sagan segir að börn hafi einmitt verið flengd í eldhúsinu. Heimild: Eldamennska í íslenskum torfbæjum.

Stafarugl

Nemendur finna nöfn jólasveinana í stafaruglinu, þau eru falin ýmist lárétt, lóðrétt, aftur á bak, áfram, til hliðar eða á ská.

Aukaverkefni fyrir yngri nemendur

 • Teikna orðaskugga fyrir jólasveinanöfnin.

Aukaverkefni fyrir eldri nemendur

 • Raða jólasveinunum eftir stafrófsröð.
 • Fallbeygja nöfn jólasveinana.
 • Öll sérnöfnin eru samsett, nema nafnið hans Stúfs. Nemendur finna úr hvaða orðum nöfn jólasveinanna eru.

Verkefni 15 - Jólasveinaprófið

Hvað nemendur úr verkefnaheftinu um jólasveinana og líf fólks í gamla daga? Lausn:

 • Jóhannes úr Kötlum samdi vísurnar um jólasveinana.
 • Stekkjarstaur kemur fyrstur til byggða.
 • Gáttaþefur er væntanlega með fimm skilningarvit þótt þefskyn sé öðru næmara.
 • Allt ofangreint er búið til úr mjólk.
 • Askasleikir tók ask sem fólk lagði frá sér fyrir hund og kött eins og segir í vísunni. Ílátið var þó ekki ætlað dýrunum á bænum en eflaust hafa þau komist í ílátið rétt eins og Askasleikir.
 • Kertasníkir stal tólgarkertum.
 • Stekkjarstaur staulast á sínum staurfótum í leit að ám til að fá hjá þeim volga mjólk úr spena.
 • Kertasníkir kom síðastur til byggða.
 • Matvæli voru geymd í stafatunnum.
 • Gáttaþefur finnur ilminn af laufabrauði upp á heiðar.

Ljósmyndir og vinnsla

Unnur María Sólmundsdóttir

Teikningar

Myndaskrá í vinnslu

Comments are Closed