Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

112 – Kennsluleiðbeiningar

[featured_image]
112 Kennsluleiðbeiningar - PDF
Download is available until [expire_date]
 • Version
 • Download 38
 • File Size 56.00 KB
 • File Count 1
 • Create Date 5. febrúar, 2024
 • Last Updated 17. mars, 2024

112 - Kennsluleiðbeiningar

Verkefni 1 - Lestur

Markmið, að:
 • læra orð tengd neyðartilvikum
 • þekkja heiti farartækjanna lögreglubíll, sjúkrabíll og slökkviliðsbíll
 • þjálfa lesskilning
Innlögn:

1) Kennari dreifir fylgiskjalinu Orð og myndir 6 sem inniheldur sama orðabanka og Fánaveifurnar. Kennari leggur inn viðfangsefni heftisins með því að skrifa eftirfarandi spurningar upp á töflu:

 • Hvað er neyð? -Neyð er þegar þú þarft að fá lögreglubíl, sjúkrabíl eða slökkviliðsbíl á staðinn.
 • Hvenær hringi ég í neyðarnúmerið 112? - Þegar kviknar í, ef einhver verður fyrir eitrun, ef fólk lendir í bílslysi, beinbrotnar, fær alvarlegt ofnæmiskast eða brotist er inn hjá því, eins ef manneskja er beitt heimilisofbeldi.
 • Hvenær hringi ég í Læknavaktina 1700/1770? - Þegar veikindi eiga sér stað.

2) Kennari dreifir Fylgiskjali 6:1. Nemendur klippa út flettiflipana á skjalinu. Kennari les textann í hverjum kassa með nemendum og fer yfir orðin með fylgiskjalið Orð og myndir 6 til hliðsjónar. Kennari og nemendur skoða hvað passar saman.

3) Nemendur brjóta heilu línuna á flipanum og setja lím aftan á appelsínugula reitinn. Flipinn er svo límdur á réttan appelsínugulan reit í verkefni 1. Kennari les fyrst textann á flettiflipanum með nemendum, dæmi: Það kviknar í. Í hvern hringi ég? Hver kemur? Svo les kennari textann í svarkassanum: Þú hringir í 112 og segir: Hér er eldur. Það er kviknað í. Hver kemur? -Slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningamenn.

Kennslugögn:

Skæri og lím.

Fylgiskjöl:

Verkefni 2 - Orðavinna

Markmið, að:
 • læra heiti áhalda og hluta í sjúkratösku
Innlögn:

1) Tilvalið er að mæta með sjúkratösku í tímann til að sýna innihald hennar og leyfa hlutunum að ganga. Sjúkratöskur ættu að vera til í öllum grunnskólum. Kennari dreifir Fylgiskjali 6:2 og fer yfir orðin. Nemendur hafa einnig hjá sér fylgiskjalið Orð og myndir 6.

2) Nemendur klippa út myndirnar í Fylgiskjali 6:2.

3) Nemendur lesa orðin og líma myndirnar í rétta reiti.

Kennslugögn:

Skæri og lím.

Fylgiskjöl:
Aukaverkefni:

Nemendur klippa út Neyðarkortið fyrir miðju á Fylgiskjali 6:2 með símanúmerum hjá Neyðarlínunni og Læknavaktinni. Ekki má klippa kortið í sundur heldur er það brotið saman á langhlið. Kennari aðstoðar nemendur við að plasta kortið. Neyðarkortið er í sömu stærð og debetkort og því ættu nemendur að geta fundið stað til að bera það alltaf á sér, t.d. í veski, skólatösku eða pennaveski. Bjóða má nemendum að gera einnig Neyðarkort handa fjölskyldumeðlimum, sjá fylgiskjalið Neyðarkortið.

Fylgiskjal:

Verkefni 3 - Ritun

Markmið, að:
 • þjálfa símtal í Neyðarlínuna með hlutverkaleik
 • kunna að skrifa og stafa heimilisfang sitt
 • skrifa einfaldar upplýsingar
 • þekkja hugtökin gifs, hækjur og fatli
Innlögn:

1) Kennari sýnir nemendum stutt myndskeið um hvernig skuli hringja í Neyðarlínuna, sjá slóð hér neðar. Kennari fer svo yfir atriðin þrjú sem gilda þegar hringt er í Neyðarlínuna. Ágætt er að benda nemendum á að slíta aldrei símtali að fyrra bragði þegar talað er við neyðarvörð Neyðarlínunnar. Mikilvægt er að brýna fyrir nemendum að ekki má hringja í 112 nema um neyð sé að ræða.

2) Kennari les stutt dæmi upphátt fyrir nemendur: Þú og vinur þinn eruð heima hjá þér að leika. Vinur þinn dettur og beinbrotnar. Þú hringir í 112. Hvað segir þú? Nemendur skrifa þær upplýsingar sem þeir þurfa að gefa upp í símtalinu til Neyðarlínunnar. Þeir skrifa nafn sitt og heimilisfang á línurnar. Hér gefst tækifæri til að hjálpa nemendum með framburð á götuheiti og húsnúmeri sínu, ásamt heiti hverfis og póstnúmeris. Með aðstoð kennara skrá nemendur upplýsingar um hvað kom fyrir, hver þarf hjálp og hvaða aðstoðar þörf er á. Lausn:

 • Hvað kom fyrir? -Vinur minn datt. Hann er beinbrotinn.
 • Hver þarf hjálp? -Vinur minn.
 • Hvaða aðstoð þarf? -Við þurfum sjúkrabíl.

3) Nemendur skrifa rétt orð við myndirnar. Sjá fylgiskjalið Orð og myndir 6.

Kennslugögn:

Ritföng.

Myndskeið:

Samtal-vid-1-1-2

Aukaverkefni:

Í verkefni 7 læra nemendur að stafa nafnið sitt með aðstoð Fylgiskjals 6:4. Tilvalið er að nota skjalið einnig hér til að kenna nemendum að stafa heimilisfangið sitt.

Fylgiskjöl:

Verkefni 4 - Rökhugsun

Markmið, að:
 • rifja upp heiti hluta
 • beita rökhugsun
 • festa í minni orðin lögreglubíll, sjúkrabíll og slökkviliðsbíll
Innlögn:

1) Nemendur lesa yfir verkefni 2 og rifja upp heiti áhalda og hluta sem finna má í sjúkratösku.

2)) Í hverri röð er eitt áhald eða hlutur sem ekki finnst í sjúkratösku. Nemendur gera kross yfir það sem ekki passar.

Lausn: sjúkrabíll, bráðamóttaka, eldur, sjúkrahús, læknir, ofnæmi, hjúkrunarfræðingur, heimilisfang, sími og innbrot.

3) Nemendur skrifa bókstafi sem vantar í reitina til að fullgera heiti farartækjanna. Nýta má fylgiskjalið Orð og myndir 6.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 5 - Skilningur

Markmið, að:
 • kunna símanúmer Neyðarlínunnar
 • rifja upp hvaða upplýsingar þarf að gefa neyðarverði
 • átta sig á hugtakinu neyð
Innlögn:

1) Nemendur draga hring um rétt símanúmer Neyðarlínunnar og leggja það á minnið.

2) Nemendur rifja upp og skrifa þrjú atriði sem þarf að greina frá í símtali til Neyðarlínunnar: nafn, heimilisfang og hver þarf hjálp.

3) Kennari leggur inn svörin og nei. Með aðstoð kennara lesa nemendur fullyrðingarnar og vega og meta hvort um neyð sé að ræða. Ef tilfellið fellur undir neyð þá skrifa nemendur , ef ekki þá er svarið NEI.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 6 - Flokkun

Markmið, að:
 • læra andheitin hættulegt og hættulítið
Innlögn:

1) Kennari leggur inn andheitin hættulegt og hættulítið.

2) Nemendur skoða orðin í Fylgiskjali 6:3 með aðstoð kennara. Kennari útskýrir orðin eftir þörfum.

3) Nemendur klippa út orðin og líma í yfirflokkana hættulegt og hættulítið.

Lausn:

 • Hættulegt: bílslys, ofbeldi, eldur, fótbrot, ofnæmi , nefbrot, inflúensa, slys á auga.
 • Hættulítið: detta og fá plástur, brjóta nögl, sprungin vör, blóðnasir, marblettur, flís í fingur, skráma, kvef.
Kennslugögn:

Skæri og lím.

Fylgiskjal:
 • Fylgiskjal 6:3 (sjá aftast í nemendahefti)

Verkefni 7 - Málfræði

Markmið, að:
 • læra hljóðin sem hver bókstafur stendur fyrir, íslensku málhljóðin
 • geta stafað nafnið sitt, t.d. í símtali til Neyðarlínunnar
Innlögn:

1) Kennari dreifir Fylgiskjali 6:4 og fer yfir málhljóð hvers bókstafs.

2) Með aðstoð fylgiskjalsins skrifa nemendur málhljóð bókstafanna þegar þeir stafa nöfnin, sjá nafnið Anna.

3) Nemendur skrifa sitt eigið nafn á efri línuna og svo málhljóð bókstafanna á línuna fyrir neðan með bandstriki á milli. Þeir æfa sig svo í að stafa nafnið sitt upphátt, dæmi: Aron: A - err - o - enn.

Kennslugögn:

Ritföng.

Fylgiskjal:
 • Fylgiskjal 6:4 (sjá aftast í nemendahefti)
Tjáning, samræður:
 • Kennari spyr nemanda: Hvað heitir þú?
 • Kennari spyr svo: Hvernig stafar þú nafnið þitt?

Verkefni 8 - Miðjumat

Markmið, að:
 • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna úr fyrri hluta heftisins
 • veita kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið
Innlögn:

1) Nemendur skrifa símanúmerin hjá Neyðarlínunni og Læknavaktinni.

2) Nemendur skrifa heiti hugtaka á línurnar undir myndunum.

3) Nemendur teikna skýringarmyndir við hugtökin skæri, hanskar, næla og flísatöng.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 9 - Lestur

Markmið, að:
 • læra orðin brunabjalla og slökkvitæki
 • þekkja ferli rýmingaræfinga í megindráttum
Innlögn:

1) Kennari les textann með nemendum og útskýrir orðin eftir þörfum.

2) Kennari skoðar myndina af Evely með nemendum. Hann leggur inn lýsingarorðið hræddur/hrædd/hrætt og orðasambandið að líða illa.

3) Nemendur teikna og lita myndir af brunabjöllu og slökkvitæki. Þeir geta skoðað myndir í fylgiskjalinu Orð og myndir 6.

Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Fylgiskjal:

Verkefni 10 - Orðavinna

Markmið, að:
 • læra hugtakið hnit
 • æfa eintölu og fleirtölu
Innlögn:

1) Kennari leggur inn hugtakið hnit. Nemendur lesa úr hnitunum, skrifa bókstafina á línurnar og fá þannig út fleirtölu orðanna sem standa vinstra megin á blaðsíðunni.

2) Nemendur tengja saman eintölu og fleirtölu orðanna.

3) Nemendur skrifa eintölumynd orðanna í stílabók og þýða yfir á eigið tungumál.

Kennslugögn:
 • Ritföng og stílabók.

Verkefni 11 - Ritun

Markmið, að:
 • skrifa einfaldar málsgreinar
Innlögn:

1) Kennari rifjar upp texta í verkefni 9 með nemendum og útskýrir hugtakið málsgrein.

2) Kennari fer yfir að málsgrein byrji á stórum upphafsstaf og endi á punkti. Hann skoðar með nemendum þau orð sem byrja á stórum staf og þau orð sem enda á punkti. Nemendur skrifa orðin í réttri röð þannig að málsgreinarnar eru rétt uppbyggðar. Nemendur geta skoðað textann í verkefni 9 sér til aðstoðar.

Lausn:

 • Evely kann ekki reglurnar.
 • Evely líður illa.
 • Allir klæða sig í skó og fara út.
 • Nemendur raða sér í stafrófsröð.
 • Nemendur svara hátt og skýrt.
 • Kennari réttir upp grænan fána.
 • Evely er ekki lengur hrædd.

3) Kennari fer með nemendum yfir rýmingaráætlunina sem gildir í þeirra skóla.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 12 - Rökhugsun

Markmið, að:
 • festa í minni ferli rýmingaræfingar
 • kunna leiðina út á safnsvæði síns skóla
Innlögn:

1) Nemendur leysa þrautina og finna leiðina frá skólastofunni út á fótboltavöll. Hér er tilvalið að leggja inn hugtökin byrja og enda.

2) Kennari biður nemendur um að lita fána kennarans grænan og ítrekar að það merkir að allir eru komnir út.

3) Kennari fer út með nemendum og sýnir þeim leiðina frá skólastofunni og út á safnsvæði skólans.

Kennslugögn:

Ritföng og grænn trélitur.

Verkefni 13 - Skilningur

Markmið, að:
 • þjálfa lesskilning
 • kunna fyrirmælin satt og ósatt
 • skrifa einfaldar málsgreinar
Innlögn:

1) Kennari leggur inn hugtökin satt og ósatt og rifjar upp texta í verkefni 9.

2) Nemendur lesa fullyrðingarnar og merkja S við satt eða Ó við ósatt.

3) Nemendur endurrita málsgreinarnar sem eru ósannar þannig að þær verði sannar. Málsgreinarnar eru í textanum í verkefni 9.

Lausn:

 • Í dag er brunaæfing.
 • Evely líður illa.
 • Allir klæða sig í skó.
 • Kennari réttir upp grænan fána.
Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 14 - Flokkun

Markmið, að:
 • festa í minni heiti áhalda og hluta í sjúkrakassa
 • þekkja nokkur starfsheiti innan heilbrigðisþjónustunnar
 • kunna heiti yfir nokkur farartæki
Innlögn:

1) Nemendur rifja upp orðin í Orðabanka með aðstoð kennara.

2) Kennari útskýrir hugtökin sjúkrakassi, starfsheiti og farartæki. Til að leggja inn og útskýra starfsheiti má t.d. benda nemendum á að kennari er starfsheiti.

3) Nemendur flokka orðin og skrifa í rétta dálka eftir því hvort þau tilheyri sjúkrakassa, starfsheiti eða farartæki.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 15 - Málfræði

Markmið, að:
 • læra stafrófið
 • þekkja sérhljóða og samhljóða
Innlögn:

1) Kennari fer yfir stafrófið með nemendum. Finna má útprentanlegt stafróf í fylgigögnum með verkefnaheftinu Þetta reddast! - Skólinn. Nemendur skrifa nöfnin í stafrófsröð.

Lausn: 1) Anna, 2) Áróra, 3) Bao, 4) Camila, 5) Evely, 6) Gabriel, 7) Halldór, 8) Ibrahim, 9) Ísabella, 10) Jón, 11) Linda, 12) Nam, 13) Mohammad, 14) Olga, 15) Ómar, 16) Patrik, 17) Rebekka, 18) Sandra, 19) Thelma, 20) Viktoria, 21) Wiktor, 22) Yustyna, 23) Þóra, 24) Ævar og 25) Örvar.

2) Kennari leggur inn sérhljóða og nemendur lita nöfn sem byrja á sérhljóða rauð. Kennari leggur inn samhljóða og nemendur lita nöfn sem byrja á samhljóða græn.

3) Nemendur lita eingöngu sérhljóðana í stafasúpunni rauða. Ef þeir hafa litað rétta bókstafi kemur símanúmer Neyðarlínunnar í ljós.

Kennslugögn:

Ritföng og rauður og grænn litur.

Ítarefni:

Verkefni 16 - Lokamat

Markmið, að:
 • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna eftir yfirferð heftisins
 • veita kennara tækifæri til endurgjafar
Innlögn:

1) Nemendur tengja saman farartæki við starfsheiti.

Lausn: - sjúkrabíll - sjúkraflutningamaður - lögreglubíll - lögreglukona - slökkviliðsbíll - slökkviliðsmaður.

2) Nemendur skrifa eintölu eða fleirtölu orðanna í auðu reitina.

3) Nemendur lita sérhljóða rauða og samhljóða græna.

4) Nemendur skrifa nafnið sitt eins og það er stafað með málhljóðum íslensku bókstafanna.

5) Nemendur skrifa orðið sem passar við myndina í reitina.

Kennslugögn:

Ritföng og rauður og grænn litur.

Orðabanki

Í lok hvers námsefnispakka er Orðabanki, þ.e. gátlisti með 40 hugtökum sem áhersla hefur verið lögð á í heftinu. Þar haka nemendur í þau orð sem þeir telja sig hafa náð tökum á, og þjálfa betur hin sem út af standa. Einnig skrá nemendur sagnorð sem þeir hafa lært, og önnur orð sem þeir hafa bætt við orðaforðann í yfirferðinni. Orðabankann má nýta með lokamati áður en næsta hefti er tekið fyrir.

Fánaveifur

Með heftinu fylgja 40 Fánaveifur með hugtökum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnisins, og í fylgiskjalinu Orð og myndir 6. Tilvalið er að hengja fánaveifurnar upp í stofunni meðan á yfirferð námsefnisins stendur.

Útgöngupassi

Kennari skrifar nöfn nemenda á miða og setur í krukku. Hann dregur miða í lok kennslustundar eða skóladags. Sá nemandi svarar spurningu úr námsefninu. Þegar nemandi svarar rétt má hann fara.

Hugmyndir:

 • Hvað er símanúmer Neyðarlínunnar?
 • Hvað er símanúmer Læknavaktarinnar?
 • Nefndu eitthvað sem finna má í sjúkrakassa.
 • Nefndu eitthvað sem er hættulegt.
 • Hvernig stafar þú nafnið þitt?
 • Nefndu einn sérhljóða.
 • Hvaða farartæki eru í heftinu?
 • Hvaða starfsheiti eru í heftinu?

 

Comments are Closed