Orðtakabingó
Um námsefnið
Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur í samvinnu við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur fyrir Minjasafn Austurlands. Það er hugsað sem stuðningur við safnfræðslu og skólaheimsóknir, og opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum og unglingum.
Í tengslum við námsefnið tekur Minjasafn Austurlands á móti skólahópum þar sem safngripir sem koma fyrir í efninu eru skoðaðir og tengdir lífi fólks í gamla daga. Orðskýringar í námsefninu eru víða fengnar, bæði úr bókum og af vefsíðum, sjá heimildir hér neðar.
Ljósmyndir á forsíðu: Sigrún Júnía Magnúsdóttir
Aðrar ljósmyndir: Minjasafn Austurlands
Yfirlestur: Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Eyrún Hrefna Helgadóttir
Kennsluleiðbeiningar
Áherslan er á orðaforða og orðatiltæki sem tengjast störfum og lífsbaráttu fólks í gamla daga. Námsefnið er miðað við nemendur í 8. bekk en tilvalið að skoða með nemendum í 7.-10. bekk. Gagnapakkinn samanstendur af:
- 25 bingóspjöldum með 156 mismunandi orðatiltækjum
- auðu bingóspjaldi til fjölföldunar
- 12 skriftarrenningum með jafnmörgum flokkum orðatiltækja
- auðum skriftarrenningum til fjölföldunar
- 50 lesrenningum með myndum og orðskýringum
Bingóspjöldin eru sett fram eins og hefðbundin bingóspjöld þar sem allur hópurinn getur spilað í einu, en einnig má skipta bekknum niður í minni hópa þar sem 4-5 börn spila saman. Tilvalið er að prenta bingóspjöldin út í lit, plasta og nota glærupenna eða töflutúss til að krossa yfir reiti þegar spilað er.
Fleiri hugmyndir:
- Spila bingóið á hefðbundinn hátt þar sem stjórnandi dregur miða, les upp orðatiltækið og keppendur krossa yfir. Sé safnmunur við höndina má nota tækifærið og sýna hann til nánari útskýringar á orðatiltækinu.
- Spila bingóið á hefðbundinn hátt þar sem stjórnandi dregur miða, les upp orðatiltækið og útskýrir það um leið, og keppendur krossa yfir.
- Spila bingóið á hefðbundinn hátt þar sem stjórnandi dregur miða, les upp orðatiltækið og býður nemendum að giska á hvað það þýðir. Það barn sem hefur rétt fyrir sér fær aukastig sem er skráð niður.
Skriftarrenningana má nýta á fjölbreyttan hátt og eru orðatiltækin, 156 talsins, flokkuð niður eftir því hvort þau tengist fæðu, eldhússtörfum, fatnaði, sjómennsku, veðri, náttúru, búskap, handverki, saumavinnu, húsdýrum, fuglum eða mannslíkamanum. Skriftarrenningarnir eru settir fram sem hluti af bingóinu fyrir stjórnanda til að klippa niður og nota sem miða til útdráttar. Séu börnin að spila saman í minni hópum eru miðarnir settir á hvolf á miðju borðinu og þátttakendur draga til skiptis.
Fleiri hugmyndir:
- Ritunaræfingar: Renningar eru látnir ganga á milli og börn velja sér flokk til að vinna með. Þau geta ýmist flett upp í bókum eða tölvum til að grúska og skrá niður hvað orðatiltækið stendur fyrir, auk þess að búa til skýringu (orðadæmi) um í hvaða samhengi má nota orðatiltækið í talmáli eða ritmáli nútímans.
- Ritunaræfing: Unnið á autt bingóspjald áður en spilað er, sjá neðar.
- Leitarverkefni á safni: Nemendur fá ljósrit af öllum skriftarrenningunum og draga hring um þau orðatiltæki sem innihalda hlut sem ætla mætti að finnist á Minjasafninu, eða öðrum söfnum. Börnin ganga um safnið og ef þau finna hlutinn gera þau kross yfir reitinn með orðatiltækinu og skrá númer safnhlutarins við.
- Upplýsingatækni: Nemendur fá ljósrit af öllum skriftarrenningunum. Ef minnst er á hlut í orðatiltækinu geta þau flett honum upp á vefnum Sarpur.is og skráð niður upplýsingarnar sem þau finna um hann s.s. efnið sem notað var í hlutinn, notkun hans, hvenær hluturinn var notaður, gefinn eða fannst, hver gaf tiltekinn hlut á safnið, hvaða safni þessi tiltekni hlutur tilheyrir o.s.frv. Þegar leitað er á Sarpur.is er gott að skoða flettigluggana Öll söfn og Öll aðföng. Þar er hægt að afmarka leitina ennfrekar með því að velja í hvaða safni er leitað og eftir hverju. Gott er að velja valmyndina Munir í tengslum við þetta verkefni.
- Sjá fleiri hugmyndir um notkun skriftarrenninga í kennslu á vef Kennarans.
Autt bingóspjald er hugsað sem liður í ritun áður en bingóið hefst. Börnin nota skriftarrenningana til að velja 24 orðatiltæki sem þau skrifa í reiti bingóspjaldsins áður en spilað er. Að bingóspili loknu getur næsta verkefni falist í að afla upplýsinga um hvað þessi orðatiltæki þýða og finna hlut á safninu sem tengist því. Sjá hugmyndir hér ofar.
Auðir skriftarrenningar eru hugsaðir til áframhaldandi gagnaöflunar þar sem nemendur velja sér þrjá flokka af orðatiltækjum til viðbótar við hina 12. Börnin leita að orðatiltækjum í bókum og á netinu og skrifa í auðu reitina. Hér má hugsa sér að velja enn afmarkaðra efni og finna til dæmis bara orðatiltæki sem tengjast hafinu, kisum, hundum, …
Lesrenningarnir eru 50 talsins og tengjast allir munum í eigu Minjasafns Austurlands. Þá er hægt að nota sem kveikju að vinnu með orðatiltækin og/eða lesa upp fyrir nemendur samhliða því að sýna hlutina áður en bingóspilið hefst.
Fleiri hugmyndir:
- Spurningakeppni: Stjórnandi skiptir hópnum upp í minni hópa og les upp orðatiltæki. Hann spyr hvað orðatiltækið þýði og liðið sem kemur með skilgreiningu sem rímar best við það sem stendur á miðanum fær 2 stig. Ef ekkert lið kemst nálægt því les stjórnandinn orðskýringuna. Næst spyr hann hvaðan hluturinn í orðatiltækinu er kominn þ.e.a.s. til hvers hann var notaður í gamla daga. Liðið sem getur svarað því fær 3 stig. Að lokum spyr stjórnandi hvernig hægt er að heimfæra orðatiltækið upp á nútímann og tengja daglegu lífi á 21. öldinni. Það lið sem kemur með bestu útskýringuna, samlíkinguna eða dæmið fær 5 stig. Hvert lið fær eina tilraun og ef enginn þekkir orðatiltækið útskýrir stjórnandinn það sem stendur á lesrenningnum áður en næsta orðatiltækið er skoðað. Eins má hugsa sér að kennari lesi upp öll orðatiltækin áður en spurningakeppnin hefst og að næst sé keppt í því hvaða lið hefur hlustað best á innlögnina og man flestar upplýsingarnar.
- Nemendur draga lesrenning til að vinna ítarlegar með, t.d. að finna hlutinn á vefnum Sarpur.is og greina nánar frá notkun hans, efninu sem notað var í hlutinn, segja frá gefanda hlutarins og öðrum upplýsingum sem koma fyrir á heimasíðunni. Nemendur geta sett upp stutta glærukynningu þar sem þeir kynna hlutinn, setja inn myndir af honum og flytja fyrir samnemendur. Ef fleiri orðatiltæki tengjast hlutnum má einnig greina frá þeim í kynningunni.
- Leikræn tjáning: Stjórnandi prentar út þrjú eintök af lesrenningunum og skiptir nemendahópnum í tvö lið sem hvort um sig fær eintak til að fletta upp í. Stjórnandi klippir þriðja eintakið niður í renninga og hefur hjá sér. Liðin senda svo fulltrúa til skiptis upp á svið til að leika eitt orðatiltæki. Fulltrúar sem eiga að leika draga lesrenning hjá stjórnanda og gera sitt besta til að túlka það sem á honum stendur. Bæði liðin keppa þannig um stig í hvert sinn óháð því úr hvoru liðinu leikarinn kemur hverju sinni. Ekki má gefa nein hljóð frá sér og það lið sem fyrr áttar sig á því hvaða orðatiltæki er verið að túlka fær stigið.
- Sóknarskrift: Kennari límir lesrenningana víðsvegar í skólastofunni, eða í stærri sal, og gefur nemendum ákveðinn tíma til að safna sem flestum í stílabókina sína. Ekki má ganga um með stílabækurnar heldur þarf að lesa af renningum þar sem þeir hanga á veggnum, muna hvað stendur, setjast við nemendaborðið og endurrita svo orðatiltækið í stílabókina. Ef viðkomandi man ekki allt í fyrstu ferð fer hann aftur, og í þriðja sinn, og jafnvel oftar ef með þarf. Sóknarskrift má leggja inn á undan leikrænu tjáningunni.
Heimildir:
Sarpur, menningarsögulegt gagnasafn: sarpur.is/
Íslensk nútímamálsorðabók: islenskordabok.arnastofnun.is/
Íslenskt orðanet: ordanet.arnastofnun.is/
Tilvitnun: tilvitnun.is/
Vísindavefurinn: visindavefur.is/
Íslensk orðtök með skýringum dæmum eftir Sölva Sveinsson. Iðunn 2. útgáfa 1995.
Íslenzkt orðtakasafn eftir Halldór Halldórsson. Almenna bókafélagið, 3. útgáfa, 2. prentun 1993