Námsefnið er hugsað fyrir kennara sem kenna íslensku sem annað mál á öllum stigum grunnskólans. Því er ætlað að byggja ofan á grunnorðaforðann í Orðasjóði og efnisþátta í Ég vil læra íslensku, og nýtist einnig í tungumálakennslu á framhaldsskólastigi og nemendum sem þurfa sérkennslu.
Efnið er 10 hefti sem hvert um sig er 16 verkefnasíður, og fjallar um afmarkað viðfangsefni á fjölbreyttan máta. Með því fylgja kennsluleiðbeiningar, fánaveifur, orðabankar og margvísleg fylgiskjöl. Efnið verður prufukennt í Breiðholtsskóla veturinn 2023-24 og birt mánaðarlega á vefnum í kjölfarið. Markmiðið er að:
Námsefnið er styrkt af RANNÍS, Þróunarsjóði námsgagna, og er frítt til útprentunar. Óheimilt er að breyta því eða þýða á önnur tungumál, að hluta eða í heild, án leyfis höfunda.
Höfundar eru Elín Margrét Gunnarsdóttir og Unnur María Sólmundsdóttir, og myndhöfundur er Sóldís Perla Ólafsdóttir.
Yfirlestur og góð ráð: Erla Guðrún Gísladóttir.
Námsefnispakkinn samanstendur af nemendaheftum, kennsluleiðbeiningum, fánaveifum, fylgiskjölum og gögnum fyrir safnmöppu. Framsetningin gerir ráð fyrir einstaklingsmiðuðu námi og því eru þrjú eða fleiri verkefni á hverri blaðsíðu. Sumum verkefnum fylgir aukaverkefni og öðrum ábendingar um ítarefni á netinu. Kennari metur hvaða verkefni henta hverjum nemanda, eða nemendahópnum í heild.
Nemendahefti
Hvert hefti er forsíða, 16 verkefnasíður með 3 verkefnaliðum á hverri síðu og orðasafni. Unnið er með yfirhugtökin lestur, orðavinna, ritun, rökhugsun, skilningur og flokkun og leitast við að festa efni í minni með endurtekningu. Miðjumati er ætlað að gefa nemendum og kennurum tækifæri til að meta kunnáttuna eftir yfirferð fyrri hluta heftisins, og lokamati er ætlað að meta kunnáttu þeirra á efni heftisins í heild. Námsmatið veitir kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið. Neðst á hverri verkefnasíðu eru stutt verkefnafyrirmæli sem lýst er ítarlegar í kennsluleiðbeiningum.
Kennsluleiðbeiningar
Með hverju hefti fylgja kennsluleiðbeiningar með markmiðum verkefna, ítarlegri verkefnalýsingu, umræðupunktum, fylgiskjölum og ábendingum um ítarefni á netinu. Á forsíðu kennsluleiðbeininganna er bent á námsefni sem gott er að vinna áður en yfirferð hefst, og efni sem gott er að taka í kjölfarið. Aftast kennsluleiðbeiningum eru hugmyndir að útgöngupössum sem tengjast innihaldi verkefnaheftsins.
Fánaveifur
Hverju hefti fylgja 40 fánaveifur með orðum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnisins. Tilvalið er að hengja fánaveifurnar upp í kennslurýminu meðan á yfirferð námsefnisins stendur til að festa orð enn betur í minni.
Fylgiskjöl og ábendingar um ítarefni
Margvísleg skjöl fylgja heftunum og er þeim ætlað að mæta þörfum þeirra sem vilja dýpka ákveðin viðfangsefni. Sama gildir um ábendingar um ítarefni á vef.
Safnmappa
Fyrir þá sem vilja halda til haga öllum gögnum sem fylgja námsefninu er hægt að prenta út forsíðu, baksíðu og kjalmiða sem passa á nokkrar stærðir af myndlistarmöppum. Hægt er að nálgast skjölin hér.
Elín Margrét útskrifaðist með B.Ed árið 2006. Hún hefur starfað sem grunnskólakennari hér heima og í Svíþjóð þar sem hún öðlaðist sænsk kennsluréttindi árið 2012. Elín Margrét lauk áfanga í CLIL (Content and Language Integrated Learning) frá Kennaraháskólanum í Stokkhólmi, þar sem lögð er áhersla á að samþætta tungumálakennslu almennum námsgreinum. Elín kynntist fjölmenningunni í skólasamfélaginu í Svíþjóð, en einnig í starfi sínu sem umsjónarkennari í Fellaskóla. Frá árinu 2022 hefur hún starfað í íslenskuveri Breiðholtsskóla, einu af fjórum íslenskuverum á vegum Reykjavíkurborgar. Meginverkefnin eru að undirbúa kennslu ÍSAT nemenda (íslenska sem annað tungumál), taka á móti flóttabörnum og öðrum börnum sem eru nýkomin til landsins, halda utan um námsefni sem til er og semja það sem upp á vantar. Elín hefur fylgst vel með umræðunni og þróun málaflokksins. Hún hefur góða innsýn í hvar og hvernig má efla kunnáttu nemenda og almennan orðaforða.
Unnur María útskrifaðist með B.Ed. árið 2002 og hefur starfað meira og minna við kennslu- og námsefnisgerð frá útskrift. Hún hefur samið töluvert af efni fyrir stofnanir, útgáfufyrirtæki og félagasamtök m.a. Slysavarnafélagið Landsbjörg, Minjasafn Austurlands, Íslenska lögregluforlagið, Eddu útgáfu, IÐNÚ og Menntamálastofnun. Hún hefur einnig samið útvarps- og sjónvarpshandrit fyrir RÚV og Vitann, söngtexta fyrir Brúðubílinn, og söngleikrit fyrir Halaleikhópinn. Unnur María lærði margmiðlunarhönnun í Borgarholtsskóla. Hún og á rekur námsefnisvefinn Kennarinn.is þar sem hún semur, hannar og setur upp allt efni, ásamt því annast vefumsjón. Unnur María starfar sem sjálfstætt starfandi námsefnishöfundur og safnakennari á skólasafni Breiðholtsskóla.
Sóldís Perla er ung og upprennandi listakona, og fyrsta árs nemi á myndlistarbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún myndskreytt margvíslegt efni fyrir námsefnisvefinn Kennarinn.is, meðal annars þjóðsögur Minjasafns Austurlands, Útvarpssögu IBBY og nú námsefnið Þetta reddast! Sóldís Perla elskar að teikna og sést sjaldnast öðruvísi en með skissubók og teikniáhöld í hönd.