Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Markmið

kennarinn_logo-01Skólagangan á að vera líflegt og litskrúðugt æviskeið, með fjölbreyttum tækifærum og góðum stundum. Kennarinn þarf að ganga í takt við samtíma sinn, fagna fjölbreytileika og fanga hug og hjörtu skjólstæðinga sinna. Kennarinn þarf að mennta og menntast, fræða og fræðast, gleðja og gleðjast.

Kennaranum þarf ekki að líka vel við alla frekar en að öllum þurfi að líka vel við hann. Kennarinn má pirrast, svekkjast og jafnvel öskureiðast. Og það má líka öskureiðast kennaranum og benda á veikleika hans. Veikleikar eru sóknarfæri kennarans, jafnt sem annarra, til að styrkjast í leik og starfi.

Kennarinn þarf svigrúm til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, þarf frið til að stýra námshópum útfrá hagsmunum heildarinnar án afsakana eða útskýringa. Kennarans er að vernda og hlú að menningarauði, varast jaðarsetningar minnihlutahópa og finna námsneistann í brjósti ólíkra einstaklinga – þitt er að gefa honum vinnufrið til þess.

Svo, komdu nú fram við kennarann eins og þú vilt láta koma fram við þig, því þrátt fyrir allt er það jú hann sem hefur menntað sig í að mennta forseta framtíðarinnar.

 

 

Tilgangur vefsins Kennarinn.is er að:

– halda til haga upplýsingum sem snertir menntun á Íslandi, frá fyrstu skrefum barns hjá dagforeldrum til útskriftar á háskólastigi. Vefurinn er hugsaður fagaðilum, forsjáraðilum og nemendunum sjálfum til handagagns.

– vera gagnabanki fyrir fagfólk í uppeldisfræðum, safn með ítarefni, skipulagsgögnum og ábendingum um gott efni á vef og þriðja aðila.

– vera vettvangur þar sem kennarar geta deilt eigin námsefni með kollegum og fengið aðstoð við að gera efnið frambærilegt til útprentunar.

– vera vettvangur fyrir mánaðarlegt Vefrit Kennarans, Dreifildi Kennarans og önnur gögn sem gefin eru út á vegum fyrirtækisins Kennarinn útgáfa.

– vera sá vettvangur sem fyrstur kemur í hugann þegar upp koma vangaveltur um menntamál á Íslandi og málaflokka þeim tengdum.