Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Jólaratleikur Stúfs

Það er engin lognmolla í kringum Stúf karlinn og nú er hann kominn á kreik með skemmtilegan jólaratleik.

Pakkinn samanstendur af boðskorti sem tilvalið er að senda þeim árgöngum sem eru að lesa og vinna með Ljósaseríuna, 20 spjöldum með fjölbreyttum þrautum, þátttökublaði fyrir nemendur, svarlykli fyrir kennara og viðurkenningarskjali í formi jólakúlu.

Boðskortið er samið af Stúfi sjálfum enda er hann ótrúlega spenntur að kynna ratleikinn sinn fyrir krökkum. Hann mælir með því að skipuleggjandi ratleiksins prenti skjalið út og sendi þátttökubekkjunum boðskortið í umslagi með innanhúspóstdreifingu skólans. Það er nefnilega ótrúlega spennandi að fá jólapóst! Stúfur gaf meira að segja út frímerki af þessu hátíðlega tilefni.

Ratleikurinn er unninn út frá bókunum um hann Stúf; Stúfur hættir að vera jólasveinn og Stúfur leysir ráðgátu. Bækurnar eru eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur og Blær Guðmundsdóttir teiknar myndirnar. Höfundur ratleiksins er Unnur María Sólmundsdóttir. Efnið er á 20 miðum og stútfullt af skemmtilegum þrautum sem byggjast meðal annars á rökhugsun, samvinnu og útsjónarsemi. Ekki er nauðsynlegt að hafa lesið bækurnar um Stúf en þó er möguleiki á að ná sér í eitt og eitt aukastig sem tengist innihaldi þeirra.

Þátttökublaðið samanstendur af fimm svarblöðum og reglublaði aftast. Áríðandi er að lesa leikreglur Stúfs í upphafi, og þá ekki síst mikilvægastu regluna sem er sú að slíta ekki niður miðana sjálfa og safna þeim, heldur bara lesa það sem stendur, leysa þrautirnar og skrá svörin á þátttökublöðin. Nemendur geta unnið sér inn 100 stig úr þrautunum sjálfum, plús sjö aukastig.

Svarlykillinn er trúnaðargagn innsiglað af Grýlu og Leppalúða. Á því eru lausnir við öllum þrautunum og upplýsingar um hvernig stigin deilast niður á þrautirnar. Svarlykillinn auðveldar skipuleggjendum ratleiksins að reikna stigin út og finna sigurvegarana.

Þátttökuviðurkenningin er í formi jólakúlu. Stúfi er sérlega umhugað um að kúlurnar geti bæði glatt þátttakendur og skreytt stofuna þeirra - og bókasafnið. Hann mælir því með að jólakúlurnar séu klipptar út, plastaðar og spotti festur í áður en þær eru afhentar. Föndurglöðustu kennararnir geta líka prentað út myndir af þátttakendum, klippt út og límt aftan á jólakúlurnar áður en þær eru plastaðar.

Uppskrift að góðum degi:

  1. Finnið hentugan dag á aðventunni til að fara í skemmtilega ratleikinn hans Stúfs.
  2. Bjóðið árgangi til leiks með boðskorti í frímerktu umslagi.
  3. Hengið ratleikinn upp úti á skólalóð eða á skógi vöxnu svæði í nágrenninu.
  4. Gefið börnunum klukkutíma til að finna og svara eins mörgum þrautum og þau geta.
  5. Gleðjið rjóða, káta og mögulega smá kalda krakka með heitu kakói og piparkökum í heimastofu að ratleik loknum.

Svo er bara að telja stigin, finna sigurvegarana og afhenda viðurkenningarskjölin. Smellið á hnappana undir myndunum til að sækja gögnin.

Þrautabók Stúfs

Stúfi finnst svakalega gaman að leysa ráðgátur og þrautir og nú er einnig komin út þrautabók með honum. Í þessari bók eru einmitt allskonar þrautir til að leysa og myndir sem hægt er að lita. Hér er meira að segja hægt að skrifa sína eigin ráðgátu! Tilvalið er að gefa sigurvegurum í jólaratleik Stúfs eintak af henni í verðlaun. Þrautabók Stúfs er hægt að panta hér.

Góða skemmtun!