Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Strandaglópar – Kennsluleiðbeiningar

[featured_image]
-
Download is available until [expire_date]
 • Version
 • Download 0
 • File Size 52.00 KB
 • File Count 1
 • Create Date 5. október, 2023
 • Last Updated 11. október, 2023

Strandaglópar - Kennsluleiðbeiningar

Bókin Strandaglópar! eftir Ævar Þór Benediktsson er falleg og fræðandi yndislestrarbók. Í kennsluleiðbeiningum eru leiðbeiningar með verkefnaheftinu við bókina en einnig hugmyndir um hvernig má nýta hana ennfrekar í kennslustundum, og þá í umræðunni um bókmenntir, lestur, lesskilning og eldfjallaeyjuna Ísland. Tilvalið er að skoða orðaforðann sérstaklega og vinna aukaverkefnin með nemendum í stílabækur. 

Verkefni 1: Bókarannsókn

Markmið, að nemendur:
 • kynnist algengum bókmenntahugtökum
 • þekki heiti algengra bókmenntagreina
 • læri orð og hugtök sem tengjast bókarforminu s.s. blaðsíður, kaflar og efnisyfirlit
Orðaforði: 

Stór upphafsstafur, málsgrein, titill, höfundur, myndhöfundur, sögupersóna, aðalpersóna, aukapersóna, greinarmerki, ritstafir, menningarfjársjóður, bókarkápa, bókarkjölur, bókmenntagrein, bókaflokkur, saurblað, efnisyfirlit, höfundarréttur, …

Innlögn:

1) Nemendur skoða ýmis bókmenntahugtök og svara spurningum með heilum málsgreinum. Í verkefninu eru undirstrikuð orð sem gert er ráð fyrir að svörin hefjist á og lögð er áhersla á að byrja málsgreinar á stórum staf og enda á punkti.

2) Komið er inn á greinarmerki og sérstakir ritstafir kynntir. Nemendur skoða bókina vel og haka í þau tákn sem þau finna. 

3) Nemendur rannsaka sjálft bókarformið og mæla hæð og breidd bókarinnar. Hér er lögð áhersla á orðaforðann og að kynna hugtökin bókarkápa og bókarkjölur. Í framhaldi má skoða fleiri hugtök, sjá aukaverkefni 1. 

4) Kennari útskýrir hugtakið bókmenntagrein, að það nái yfir ákveðið form og innihald bóka. Þannig eru spennusögur ein bókmenntagrein og ástarsögur önnur. Innan bókmenntagreinar geta svo verið bókaflokkar sem eru þá fleiri en ein bók sem fjalla um sama heim eða sögupersónur, t.d. Binna B. Bjarna og Handbók fyrir ofurhetjur. Nemendur skoða nokkrar bókmenntagreinar og haka við þær sem þeim finnst hæfa sögunni Strandaglópar! best.

Umræðupunktar:
 • Hvers vegna er gott að hafa bókarkápuna úr þykkara efni en blaðsíðurnar?
 • Hvaða upplýsingar sjáum við á bókarkápum og bókarkjölum? - Titil bókarinnar, og oft einnig útgefendur og nafn höfunda.
 • Hver er munurinn á bókaflokki og bókmenntagrein? - Bókaflokkur eru nokkrar bækur sem tilheyra sömu seríunni en bókmenntagreinar flokka bækur eftir viðfangsefnum þeirra, t.d. spennusögur, ástarsögur, ævisögur og ljóðabækur.
 • Hver er munurinn á ástarsögu og orðabók?
 • Getur ferðasaga líka verið ljóðabók?
Aukaverkefni:

1) Nemendur skoða fleiri hugtök sem tengjast uppbyggingu bókar og skrifa orðskýringar í stílabók:

 • Blaðsíða - blöð í bókum eru kallaðar blaðsíður, á þeim stendur textinn sem við lesum og þær eru oft númeraðar, sumar blaðsíður eru þó auðar og aðrar hafa engin númer.
 • Saurblað - allra fremsta og aftasta blaðsíðan í bókinni sem er límd við bókbandið sjálft. Í bókinni Strandaglópar! eru þetta bláu síðurnar með vatnsáferðinni.
 • Kreditsíða - Síða með upplýsingum um höfundarrétt, útgáfustað og ár, prentun o.s.frv. 
 • Blaðsíðunúmer - númer sem eru skráð á blaðsíðurnar til að sýna lengd bókarinnar og til að auðvelda uppflettingar. Ekki eru þó allar bækur með blaðsíðutali.
 • Kafli - afmarkaður hluti bókarinnar sem fjallar um ákveðna atburði, oft merktur með númeri og jafnvel ákveðnu kaflaheiti. Bækur geta verið margir kaflar, en stundum eru þeir ekki merktir sérstaklega. Eru kaflar í bókinni Strandaglópar!?
 • Efnisyfirlit - tafla fremst í bók sem sýnir hversu margir kaflar eru í henni og hvað þeir heita. Efnisyfirlit gerir okkur auðveldara með að muna hvar við erum stödd í lestrinum, og einnig auðveldar það okkur að fletta upp ákveðnum köflum og blaðsíðum. Er efnisyfirlit í bókinni Strandaglópar!?

2) Nemendur fara á skólabókasafnið, finna fleiri bækur eftir Ævar Þór Benediktsson og skrá titla þeirra í stílabók. Nemendur skoða hvernig bókum hans er raðað á bókasafninu, hvernig þær eru merktar með kjalmiða og fræðast um hver tilgangur kjalmiðans er. Hvað tákna bókstafarunurnar? - Íslenskum höfundum er raðað í stafrófsröð eftir fornafni (erlendum höfundum eftir eftirnafni) og svo koma upphafsstafirnir í titlum bókanna. Líklega stendur því ÆVA og STR á kjalmiða bókarinnar Strandaglópar! ef hún er til á safninu. Nemendur teikna nokkrar bækur með kjalmiðum í stílabókina. Börnin skrá svo niður fleiri dæmi um kjalmiða á bókum Ævars.

3) Hvaða bækur eru til um eldgos á bókasafninu? Nemendur skrá niður titla bókanna og eftir atvikum höfunda, þýðendur, útgefendur og útgáfuár.

Kennslugögn:
 • Ritföng og litir.
Ítarefni:

Verkefni 2: Matseðillinn

Markmið, að nemendur:
 • rifji upp vandræði Ævars afa hvað nestimálin varðar og skilji hvers vegna hann mátti ekki skilja nein ummerki eftir út í Surtsey
 • þjálfast í ritun og töflugerð (matseðill)
Orðaforði: 

Nesti, matseðill, morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur, ómelt fræ, … 

Innlögn:

1) Nemendur rifja upp hvað Ævar afi var lengi úti í Surtsey og hvað þeir félagarnir höfðu lítinn mat meðferðis. Kennari minnir börnin á að Surtsey var á þessum tíma glæný og og að vísindamenn hafi viljað rannsaka hana og fylgjast með hvernig dýr og gróður nema land á nýjum svæðum án allra utanaðkomandi áhrifa.

2) Börnin velta fyrir sér hvernig nesti er gott að taka með í svona ferðalag þegar ekkert má skilja eftir sem getur haft áhrif á það hvernig gróður og dýralíf nemur land á nýrri eyju, sofið er undir berum himni og engar leiðir til að elda eða hita mat öðruvísi en með jarðhita. 

3) Nemendur velta vandamálum Ævars afa fyrir sér, skrifa niður hugmynd að matseðli fyrir tvo daga, þjálfast í ritun og vanda frágang.

Umræðupunktar:
 • Hvers vegna máttu Ævar afi og félagi hans ekki skilja neitt eftir á Surtsey?
 • Hvað myndir þú gera ef þú mættir ekki skilja eftir matarumbúðir eða annað dót á glænýrri eyju?
 • Hvað er átt við með orðunum ómelt fræ og hvaða áhrif geta þau haft á náttúruna?
  • Hvaða dýr hafa með þessum hætti áhrif á gróðurinn? - Fuglar sem borða ber á einum stað og drita þeim svo annars staðar.
 • Hvað myndir þú gera ef þú þyrftir að kúka eða pissa á svona merkilegri eyju?
 • Hvernig nýttu Ævar afi og vinur hans jarðhitann á nóttunni?
 • Hvers vegna var hættulegt fyrir þá að sofna? 
Aukaverkefni:

1) Settu þig í spor Ævars afa og félaga og skrifaðu litla sögu um það hvað þú hefðir gert í þeirra sporum.

2) Búðu til matseðil fyrir alla vikuna þar sem:

 • morgunmaturinn saman stendur af gjöfum náttúrunnar.
 • hádegismaturinn er umbúðalaus.
 • kvöldmatinn má bara elda með jarðhita.

3) Hvað er gott að taka með í eldfjallaleiðangur? Nemendur útbúa farangurslista og skrá í stílabók. Gott er að hafa í huga atriði eins og fatnað, öryggisbúnað og fjarskiptatæki.

Kennslugögn:
 • Ritföng og stílabók.

Verkefni 3: Litir og munstur

Markmið, að nemandi:
 • átti sig á mikilvægi myndmáls í bókmenntum og starfi myndhöfunda
 • skoði liti, form og litasamsetningar í bókinni, og efli orðaforða þeim tengdum
 • vinni með lýsingarorð og þjálfist í að stigbreyta þau
Orðaforði: 

Myndhöfundur, litir, munstur, litaprufur, röndótt, rákótt, köflótt, tíglótt, kringlótt, doppótt, kornótt, litahringur, heitir litir, kaldir litir, …

Innlögn:

1) Nemendur kynnast myndhöfundnum Anne Wilson og skoða sýnishorn af litum og munstrum sem tekin eru víðsvegar úr bókinni. Heimasíða Anne Wilson er litrík og full af skemmtilegum verkum eftir hana sem gaman er að sýna nemendum.

2) Nemendur taka til litina sem nota þarf í verkefnið og skrá heiti þeirra á línurnar.

3) Nemendur endurgera litaprufurnar á verkefnablaðinu í auðu reitina og leita í framhaldi að litaprufunum í bókinni.

Umræðupunktar:
 • Skipta myndir í bókum einhverju máli? Hvernig liti þessi bók út án mynda?
 • Litir eru flokkaðir á margvíslegan hátt og stundum er talað um heita liti og kalda liti, hvað er átt við? - Kaldir litir eru bláleitir og tákna kulda, heitir litir eru rauðleitir og appelsínugulir og tákna hita.
  • Hvernig er hægt að flokka liti á fleiri vegu? - Til dæmis bjartir/dimmir, ljósir/dökkir, skærir/daufir, svarthvítar myndir/litaðar myndir, …
 • Litir lýsa ákveðnum hlutum og gefa okkur betri mynd af þeim og þess vegna flokkast þeir sem lýsingarorð. Nefndu fleiri dæmi um lýsingarorð.
 • Hvað þekkið þið mörg munstur? - Röndótt, rákótt, köflótt, tíglótt, kringlótt, doppótt, kornótt, …
 • Hvers vegna ætli Anne Wilson hafi tekist svona vel að fanga töfra eldfjallaeyjunnar? - Hún er sjálf alin upp á eldfjallaeyju og kynnti sér Ísland vel áður en hún hóf vinnuna.
Aukaverkefni:

1) Skoðaðu heimasíðu Anne Wilson og skráðu 1-2 fleiri verkefni sem hún hefur unnið að. Veldu svo eina blaðsíðu úr bókinni, lestu textann aftur og gerðu þína eigin myndskreytingu.

2) Skiptu blaðsíðu stílabókar í fjóra jafna reiti og hannaðu þín eigin munstur sem tákna árstíðirnar vetur, sumar, vor og haust. 

3) Gerðu þriggja dálka töflu í stílabók með fyrirsögnunum frumstig - miðstig - efsta stig. Skráðu litina sem þú notaðir í verkefninu í töfluna og stigbreyttum lýsingarorðunum.

Kennslugögn:
 • Ritföng, stílabók og litir.
Ítarefni:

Verkefni 4: Eldfjallasúpan

Markmið, að nemandi:
 • kynnist heitum íslenskra eldfjalla og eldstöðva
 • átti sig á hættunni samfara ferðalögum nálægt gossvæðum
 • skoði staðsetningu Surtseyjar og helstu eldstöðva Íslands á landakorti
Orðaforði: 

Eldfjallaeyja, eldstöðvar, eldgos, óskastund, eldfjöll, hraunjaðar, landakort, aska, kvika, mökkur, gosmökkur, eiturgufur, gjóska, hraun, friðlýsing, …

Innlögn:

1) Kennari útskýrir fyrir nemendum að Ísland er eldfjallaeyja með mörgum virkum eldstöðvum og fara þurfi varlega þegar ferðast er um slík svæði því að:

 • hraun getur orðið 1250°C heitt og ætt fram á miklum hraða, hraunslettur skjótast hátt upp og geta lent langt frá gígsopinu.
 • hraunjaðar er nýstorknað hraun sem getur bráðnað strax aftur ef hraunár liggja undir því. Aldrei má ganga út á nýstorknaðan hraunjaðar því hann getur gefið sig snögglega.
 • aska er ský af steinögnum sem hafa molnað úr stærri steinum og bergkvikum þegar eldgos verður. Með ösku geta borist eitruð efni sem er slæmt að anda að sér.
 • gjóska verður til þegar kvika mætir vatni, t.d. við neðanjarðareldgos. Þá tætist hún í örsmáar gosefnisagnir sem kallast gjóska.
 • eiturgufur berast frá eldgosum. Þær geta verið banvænar í miklu magni og erfitt að forðast þær ef vindátt breytist skyndilega.
 • mökkur fylgir eldgosum og verður til þegar heitar gosgufur hita andrúmsloftið. Þá stígur gosmökkurinn upp og í honum má finna bæði gjall og ösku. Hættulegt er fyrir flugvélar að lenda í gosmekki. 

2) Nemendur finna eldfjöllin í orðasúpunni. Þau eru falin ýmist upp, niður, áfram, aftur á bak eða á ská. Gott er að hvetja nemendur til að gera hring um orðin en ekki strika yfir þau því bókstafirnir kunna að vera notaðir oftar en einu sinni. Nemendur haka við orðin um leið og þau finnast. Hér er líka tilvalið að nota mismunandi trélit fyrir hvert eldfjall, alla nema rauðan sem notaður er í lið 3.

3) Kennari útskýrir fyrir nemendum að enn séu falin sex laumuorð í orðasúpunni sem tengist umræðunni í upphafi og gefur börnunum nokkrar mínútur til að leita að þeim. Börnin draga hring um þessi orð með rauðum trélit til aðgreiningar. Orðin eru aska, gjóska, kvika, hraun, eiturgufur og mökkur.

Umræðupunktar:
 • Hvað hafa margir nemendur séð eldgos með berum augum?
 • Hvers vegna er ekki góð hugmynd að fara of nálægt eldgosi?
 • Hvað var svona merkilegt við Surtseyjargosið? - Það byrjaði neðansjávar og gaf vísindamönnum frábært tækifæri til að fylgjast með því hvernig gróður og dýralíf nemur land á nýjum svæðum.
 • Hvar á landinu er Surtsey? - Surtsey er syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum og liggur 20 km suðvestur af Heimaey.
 • Er hægt að fara í ferð út í Surtsey í dag? - Eyjan er friðlýst sem þýðir að ferðamenn þurfa sérstakt leyfi til að sækja hana heim.
Aukaverkefni:

1) Nemendur raða eldfjöllunum í stafrófsröð í stílabók.

2) Nemendur skoða kort af Íslandi, finna staðsetningu Surtseyjar og skoða hvar hin eldfjöllin eru. Tilvalið er að prenta kort af Íslandi út fyrir nemendur og leyfa þeim að merkja Surtsey og eldfjöllin inn á og líma svo í stílabók.

3) Nemendur gera orðskýringar í stílabók við hugtökin sex sem leyndust í orðasúpunni. Auk þeirra sem útlistuð eru í innlögninni bætist kvika við sem er bráðið berg í iðrum jarðar og verður að seigfljótandi hrauni þegar hún nær upp á yfirborðið.

Kennslugögn:
 • Ritföng, litir, lím og stílabók.
Ítarefni:

Verkefni 5: Teningaspil

Markmið, að nemandi:
 • fái tækifæri til að vinna hlutbundið með viðfangsefni bókarinnar í gegnum þrauti og leiki
 • skoði texta bókarinnar út frá grunneiningum læsis; bókstöfum og orðum
 • þjálfist í vinnu tengdu stafrófinu
 • læri að lesa úr töflum, reikna heildarstig og tileinka sér stærðfræðihugtök á borð við summa, jafnmargir, flestir, fæstir, …
Orðaforði: 

Strandaglópur, afþreying, eyðieyja, summa, jafnmargir, flestir, fæstir, bókstafur, orð, stig, áskorun, … 

Innlögn:

1) Kennari útskýrir fyrir nemendum að hugtakið strandaglópur er notað yfir fólk sem verður óvart eftir einhvers staðar og að sá möguleiki sé fyrir hendi að því verði ekki bjargað í tæka tíð.

2) Kennari útskýrir hvernig teningaspilið virkar, hver nemandi þarf tvo teninga og eintak af bókinni. Nemendur kasta teningunum, leggja tölurnar saman sem upp koma og finna orð í bókinni sem hefur jafnmarga bókstafi. Orðið skrifa þau á línurnar, lesa úr stafrófstöflunni og reikna stig þess. Dæmi: barn kastar teningum og fær 4 og 3. Summan er 7 og barnið finnur sjöbókstafaorðið Surtsey í bókinni. Það skrifar Surtsey í fyrri dálkinn, leggur saman stigin 1-1-1-2-1-1-1 og skráir í töluna 8 í seinni dálkinn. Ekki má endurtaka sama orð oftar en einu sinni þó sama summa komi upp.

3) Í lokin skoða nemendur gagnasafnið og skrá orðin sem hafa flestu og fæstu stigin. 

Aukaverkefni:

1) Nemendur leita að lengsta orðinu sem þeir finna í bókinni og reikna stig þess.

2) Nemendur setja upp súlurit með skalanum 2-12 (möguleg summa teninganna) og skrá hversu mörg orð komu upp með hverri summu (2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11 og 12).

3) Nemendur reikna heildarstigafjölda allra orðanna og bera saman við niðurstöður bekkjarfélaganna. Hver er með stigahæsta orðið og hvaða orð er það? Hver er með stigafæsta orðið og hvaða orð er það? Hver er með mesta samanlagða stigafjöldann?

Umræðupunktar:
 • Hvað geta strandaglópar gert til að vekja á sér athygli og auka möguleikann á björgun?
  • Hvað þýðir að vera ekki bjargað í tæka tíð?
 • Hvað er mikilvægt að gera ef manneskja verður strandaglópur einhvers staðar?
 • Hvað þýðir orðatiltækið að dunda sér?
 • Hvað finnst ykkur gaman að dunda ykkur við?
 • Hvað er hægt að lifa lengi á vatns og matar? - Um 3-7 daga án vatns og 40-60 daga án matar.
Kennslugögn:
 • Ritföng, stílabók og teningar.
Ítarefni:

Verkefni 6: Krossgáta

Markmið, að nemendur:
 • þjálfist í ritun og upprifjun á söguþræði
 • fái tækifæri til að læra í gegnum þrautir og leiki
 • þjálfist í að taka stafsetningarpróf og skrifa málsgreinar sem byrja á stórum staf og enda á punkti
 • læri að fallbeygja orð
Orðaforði:

Lárétt, lóðrétt, krossgáta, þyrla, strandaglópur, myndhöfundur, neðansjávareldgos, náttúrufyrirbæri, farartæki, trilla, þyrla, plastflækja, sekúnda, óskastund, titill,  …

Innlögn:

1) Kennari rifjar upp muninn á hugtökunum lárétt og lóðrétt með nemendum og hjálpar þeim að lesa úr vísbendingunum. 

2) Nemendur skrifa svörin á rétta staði í krossgátunni.

Aukaverkefni:

1) Nemendur taka svörin í krossgátunni og:

 • raða þeim í stafrófsröð í stílabók.
 • velja fjögur orð til að fallbeygja.

2) Nemendur nota vísbendingar og lausnir til að skrifa heilar málsgreinar í stílabók, dæmi: 

 • Mikilvægasta sekúnda í heimi kallast óskastund.
 • Afi fann plastflækju í úlpuvasanum.
 • Nafnið á nýju eldfjallaeyjunni er Surtsey.
 • Afi vildi sjá náttúrufyrirbæri sem heitir neðansjávareldgos.
 • Farartækið sem flutti afa heim var þyrla.
 • Síðasta nammið í nestispokanum var súkkulaði.
 • Farartækið sem flutti afa út í eyju var trilla.
 • Titill bókarinnar er Strandaglópar!
 • Ávöxturinn sem kemur við sögu er appelsína.
 • Anne Wilson er myndhöfundur og vinnur við að myndskreyta bækur.

3) Kennari notar ofangreindar málsgreinar sem hlustunar- og stafsetningaræfingu, hann les þær upp og nemendur skrifa niður. Kennari minnir á að byrja málsgreinar alltaf á stórum staf og enda þær á punkti. Kennari skrifar málsgreinarnar svo rétt upp á töflu, nemendur svissa stílabókum og fara yfir hjá hver öðrum.

Umræðupunktar:
 • Hvað þýðir orðatiltækið að koma við sögu? (sjá lið 7 í krossgátu).
 • Hversu marga ávexti þekkja nemendur í bekknum?
 • Hvað segir í bókinni um þjóðsöguna og óskastundina? 
 • Hvaða farartæki þekkja nemendur sem ferðast a) neðansjávar b) ofansjávar, c) neðanjarðar, d) ofanfjarðar e) í lofti f) í geimnum?
 • Hvers myndir þú óska þér ef þú ættir þrjár óskir?
Kennslugögn:
 • Ritföng og stílabók.

Verkefni 7: Tímaröð

Markmið, að nemandi:
 • læri að raða atburðarás í rétta tímaröð
 • fái tækifæri til að vinna með fjölbreytt og hlutbundin verkefni 
 • fái þjálfun í fínhreyfingum í formi klippiverkefna
 • fái tækifæri til samvinnu og listsköpunar
Orðaforði:

Tími, dagur, sólarhringur, vika, atburðarás, tímaröð, klippa, líma, raða, söguvegur, söguþráður, upphaf, miðja, endir, …

Innlögn:

1) Kennari dreifir fylgiskjalinu sem er aftast í heftinu og útskýrir fyrir nemendum hugtökin atburðarás og tímaröð

2) Börnin klippa renningana niður og raða í reitina á verkefnablaðinu. Þau lesa textann, rifja upp atburðarásina og raða renningunum í rétta tímaröð.

3) Nemendur staldra við, renna yfir úrlausnina með kennara og endurraða renningum eftir þörfum, áður en þeir eru límdir fastir inn í heftið.

Lausn:

 1. Ævar afi vaknaði dag einn við fréttir af nýju eldgosi.
 2. Eldgosið var risastórt og það var líka neðansjávar.
 3. Ævar afi fékk leyfi til að heimsækja Surtsey ásamt vini sínum.
 4. Vinirnir fengu far út í Surtsey með trillukarli.
 5. Ævar afi tók fullt af fallegum myndum af eldgosinu.
 6. Næsta dag gleymdi trillukarlinn að sækja vinina út í eyjuna.
 7. Þeir þurftu því að sofa undir beru lofti á virkri eldfjallaeyju.
 8. Vinirnir sváfu mjög nálægt glóandi hraunstraumnum.
 9. Fyrri nóttina bráðnuðu gleraugun hans Ævars afa.
 10. Seinni nóttina fóru vinirnir kaldir og svangir að sofa.
 11. Loks hittu félagarnir vísindamann sem bauð þeim heita súpu.
 12. Vísindamaðurinn bauð þeim líka far aftur heim með þyrlu.
Umræðupunktar:
 • Hvers vegna urðu Ævar afi og félagi hans strandaglópar?
 • Hvað varð um trillukarlinn sem ætlaði að sækja þá?
 • Frá hvaða landi var vísindamaðurinn sem fann þá loksins og gaf þeim súpuna?
 • Hvað hefði getað gerst ef vísindamaðurinn hefði ekki fundið Ævar afa og vin hans?
 • Hvernig komust Ævar afi og vinur hans aftur heim?
Aukaverkefni:
 1. Nemendur skrifa útdrátt úr bókinni í stílabók með því að endurrita textann á renningunum sem búið er að yfirfara og líma í rétta tímaröð.
 2. Kennari ljósritar aukablað með renningum og klippir niður. Hann parar nemendur saman í tveggja barna hópa. Hvert par fær svart A4 karton, klessuliti og renning til að myndskreyta. Börnin túlka textann á renningunum með eigin myndlist. Þegar listaverkin eru klár eru textarenningarnir límdir við neðri brún þeirra og að lokum eru listaverk barnanna hengd upp á vegg kennslustofunnar í réttri tímaröð. 
 3. Kennari ræðir við nemendur að sameiginlega bekkjarlistaverkið túlki nokkurs konar söguveg, eða söguþráð bókarinnar og útskýrir hugtakið. Hér er gott tækifæri til að ræða einnig hugtökin upphaf, miðja og endir.   
Kennslugögn:
 • Skæri, lím, ritföng, svart A4 karton, klessulitir og kennaratyggjó.

Verkefni 8: Sögusvið

Markmið, að nemandi
 • læri bókmenntahugtakið sögusvið
 • þjálfist í nafnorðaleit og þjálfist í ritun
Orðaforði:

Sögusvið, staður, nafnorð, sérnafn, samnafn, skammstöfun, eintala, fleirtala, karlkyn, kvenkyn, hvorugkyn, fallbeyging, …

Innlögn:

1) Kennari útskýrir hugtakið sögusvið, að það sé staður sem saga gerist á, og geti verið allt frá hlýrri og heimilislegri stofu til ógnvekjandi og eldspúandi eldfjallasvæðis. Kennari útskýrir jafnframt að í bókum geti verið fleiri en eitt sögusvið sem sögupersónur ferðast á milli.

2) Nemendur skoða myndina af stofunni hans Ævars afa og skrá niður allt sem þeir sjá. Kennari leggur inn hugtakið nafnorð og útskýrir nánar einkenni þeirra. Innlögnina lagar kennari að aldri og getu nemendahópsins en getur sem dæmi nefnt að:

 • nafnorð er flokkur orða sem notaður er yfir einstaklinga, staði, hugmyndir, atburði o.þ.h. Með yngstu nemendunum hjálpar að greina frá því að ef hægt er að snerta hlutinn flokkast orðið sem nafnorð. 
 • nafnorð finnast í karlkyni (kk.), kvenkyni (kvk.) og hvorugkyni (hk.), dæmi: hann stóll, hún stofa, það teppi.
 • hægt er finna kyn nafnorða með hjálparorðunum minn, mín og mitt, dæmi: stóllinn minn, stofan mín og teppið mitt.
 • nafnorð finnast í eintölu (et.) og fleirtölu (ft.), dæmi: einn stóll/margir stólar, ein stofa/margar stofur, eitt teppi/mörg teppi.
 • nafnorð bæta við sig greini, dæmi: stóll/stólinn, stofa/stofan, teppi/teppið.
 • nafnorð fallbeygjast, dæmi: Hér er stóll, um stól, frá stóli, til stóls.
 • nafnorð flokkast í sérnöfn sem eru t.d. nöfn á fólki og byrja með stórum staf, og samnöfn sem eru hlutir sem ekki fá sérstök nöfn eins og t.d. borð, glas og diskur.
Umræðupunktar:
 • Hvað þýðir orðasambandið að rifja eitthvað upp?
 • Sögusviðið Stofan hans afa er rólegt og afslappað umhverfi en hvað einkennir hitt sögusvið bókarinnar, Hina eldspúandi eldfjallaeyju Surtsey?
 • Hægt er að snerta alla hlutina í stofunni hans afa og því flokkast orðin sem nafnorð. Sum nafnorð tengjast óáþreifanlegum hugtökum en þá getum við þekkt þau á því að þau finnast í et./ft., bæta við sig greini, finnast í kk., kvk. og hk. o.s.frv., nefnið dæmi um nafnorð sem er ekki hægt að snerta: sól (of langt í burtu og of heit), eldur (of heitur), víkingatímabil (liðinn tíð), hugmynd (eitthvað sem gerist i huganum) og gas (ósýnilegt og hættulegt en við getum mögulega fundið einkenni eins og höfuðverk).
 • Hvernig eru nafnorð skammstöfuð? Og hvað er skammstöfun?
 • Nafnorð flokkast í sérnöfn og samnöfn, hver er munurinn? 
Aukaverkefni:

1) Kennari biður nemendur um að rifja upp margvísleg sögusvið sem þau þekkja úr bókum sem þau hafa lesið, kvikmyndum sem þau hafa séð eða sögur sem þau hafa hlustað á. Kennari skráir allar hugmyndir upp á töflu og loks endurrita nemendur gagnasafnið í stílabók undir fyrirsögninni Alls konar sögusvið

2) Nemendur skoða sögusvið líðandi kennslustundar og lýsa því í máli og myndum. Börnin nýta heila opnu stílabókar og teikna skólastofuna sína vinstra megin og lýsa henni í orðum hægra megin. Hvað einkennir sögusviðið? Hvaða sögupersónur eru þar þessa stundina?

3) Nemendur búa til þriggja dálka töflu í stílabók og finna 30 nafnorð í bókinni; 10 karlkyns, 10 kvenkyns og 10 hvorugkyns. Kennari getur eftir aldri og samsetningu nemendahópsins útfært verkefnið ennfrekar og beðið nemendur að bæta við greini, skrá eintölu- og fleirtölumyndir nafnorðanna o.s.frv.

Kennslugögn:
 • Ritföng, litir og stílabók.
Ítarefni:

Verkefni 9: Málfræðisúpan

Markmið, að nemandi:
 • vinni með orðflokkana nafnorð, sagnorð og lýsingarorð
 • þjálfist í orðaleit og ritun
 • fái tækifæri til að læra í gegnum þrauti og leiki
 • læri að nýta yndislestrarbækur sem námsgögn í málfræði
Orðaforði:

Orðflokkur, nafnorð, sagnorð, lýsingarorð, upp, niður, áfram, aftur á bak, á ská, bókstafir, hástafir, lástafir, … 

Innlögn:

1) Kennari rifjar upp orðflokkana nafnorð og lýsingarorð, og segir nemendum frá einkenni sagnorða, að þau segi frá athöfnum okkar, hvað við erum að gera hverju sinni, dæmi: að lesa, að skrifa, að hoppa, að borða, að leika, að lita, að reikna, …

2) Nemendur skoða bókina Strandaglópar!, finna fjögur orð úr hverjum orðflokki og skrifa á línurnar. Gott er að biðja börnin um að nota hástafi í verkefninu ef ske kynni að þau velji sérnöfn eða orð sem standa fremst í málsgrein. 

3) Næst raða nemendur orðasafninu inn í orðasúpuna, og halda áfram að vinna með hástafi eingöngu. Þegar búið er að koma orðunum 12 fyrir fylla börnin upp í alla auða reiti með bókstöfum.  

Aukaverkefni:

1) Kennari biður nemendur um að skrifa nafnorðin fjögur í verkefninu á jafnmarga miða og setja í box. Hann velur blaðsíðu af handahófi úr bókinni Strandaglópar! og les fyrir bekkinn nema núna sleppir hann öllum nafnorðum (sérnöfnum og samnöfnum) úr upplestrinum, staldrar við og dregur þess í stað miða úr boxinu. Hann les þetta nýja orð í stað nafnorðsins sem stendur í textanum. Hvernig virkar sagan núna? Breytist hún eitthvað? 

2) Nemendur nota öll 12 orðin sem þau skrifuðu á verkefnablaðið og búa til fjórar málsgreinar sem innihalda eitt orð úr hverjum dálki. Málsgreinarnar samanstanda því af tilviljanakenndum orðum (nafnorði, sagnorði og lýsingarorði) sem geta orðið að skemmtilegum bullsetningum sem gaman er að leyfa börnunum að lesa upp fyrir hvert annað í lokin.

3) Kennari leggur fyrir sagnorðakeppni þar sem nemendur vinna saman í 2-3 barna hópum. Börnin fletta bókinni Strandaglópar! og keppast við að finna eins mörg sagnorð í textanum og þau geta. Í lokin tekur kennarinn sagnorðasafnið saman og skrifar upp á töflu, telur þau og sker út um hvaða hópur sigrar keppnina.

Umræðupunktar:
 • Hvaða dæmi um nafnorð er hægt að finna í skólastofunni?
 • Hvaða dæmi um lýsingarorð er hægt að finna í skólastofunni?
 • Hvernig mynduð þið lýsa umsjónarkennaranum ykkar? 
 • Hvernig gæti umsjónarkennarinn lýst ykkur sem nemendahópi?
 • Hvaða dæmi um sagnorð er hægt að finna í skólastarfinu, t.d. í íþróttum og sundi? Eða í heimilsfræði? Tónmenntastofunni?
Kennslugögn:
 • Ritföng og stílabók.
Ítarefni:

Verkefni 10: Tröllin í fjöllunum

Markmið, að nemandi:
 • kynnist aðferðum myndhöfundar við skreytingu bókar
 • geri sér grein fyrir mikilvægi mynda þegar kemur að lestrarupplifun 
 • fái tækifæri til að læra með listsköpun
Orðaforði:

Að heiðra, tröll, þjóðsaga, landslag, að hanna, sögupersóna, sögusvið, persónusköpun, innblástur, …

Innlögn:

1) Kennari rifjar upp með nemendum að Surtsey fékk nafnið sitt frá eldjötninum Surti í norrænni goðafræði. Í Ragnarökum, heimsendi goðanna, ríður Surtur um jörðina og brennir hana með glóandi sverði. Kennari bendir nemendum á að ýmis tröll og verur sé líka að finna í íslenskum þjóðsögum sbr. Grýlu og Leppalúða, og að þjóðsögur hafi verið innblástur fyrir Anne Wilson þegar hún myndskreytti bókina. Nemendur skoða myndir af fimm tröllum sem leynast hér og þar í lesbókinni. Um leið og börnin finna tröllin haka þau við litlu reitina. 

2) Börnin hanna sína eigin tröllaveru og teikna hana í umhverfinu sínu. Hér gefst gott tækifæri til að kynna hugtakið persónusköpun og rifja upp hugtökin sögupersóna og sögusvið, en einnig aðra þætti sem einkenna útlit og skap sögupersóna: Er tröllaveran góð/vond? Hvernig er hún útlits? Hvernig er innræti hennar? Hver eru áhugamál hennar? Hvernig lifir hún? Hvar lifir hún? Á hverju lifir hún?

3) Nemendur svara spurningunum neðst á verkefnablaðinu með heillri málsgrein og hefja þær á undirstrikuðu orðunum, dæmi: 

 • Tröllaveran mín heitir …
 • Hún á heima … 
 • Surtur var … 
Umræðupunktar:
 • Hvers vegna ætli Surtsey hafi verið skírð í höfuðið á eldjötni?
 • Hvaða fleiri orð eigum við yfir tröll og jötna? -Bergrisar, risar, rumar, þursar, …
 • Hvaða fleiri vættir þekkja nemendur? -Drauga, huldufólk, dverga, álfa, dreka, … 
 • Í skjaldarmerki Íslands eru landvættir sem vernda það, hvaða verur eru þetta? -Bergrisi sem verndar Suðurlandið, Griðungur (gríðarstórt naut) sem verndar Vestfirði, Gammur (stór og mikill fugl) sem verndar Norðurland og Dreki sem verndar Austurland.
 • Hversu margir hafa heyrt þjóðsöguna af því þegar landvættirnir flæmdu í burtu galdramann í hvalslíki sem ætlaði að reyna að komast í land og njósna um Íslendinga? 
Aukaverkefni:

1) Kennari les landvættasöguna fyrir nemendur. Hana má finna í Heimskringlu, í Ólafs sögu Tryggvasonar og í einfaldari útgáfu á netinu, sjá ítarefni. 

2) Skjaldarmerki er merki fyrir ákveðinn hóp, ætt, samfélag eða ríki. Surtsey er friðuð og þangað má ekki ferðast nema með leyfi. Það er gert til að vernda plöntur og dýraríki sem þar er að finna. Ef Surtsey ætti skjaldarmerki, hvernig liti það út? Nemendur hanna sína útgáfu af skjaldarmerki fyrir náttúrulífið í Surtsey og hengja listaverkin upp í stofunni.

3) Til eru umferðarmerki (viðvörunarmerki) sem vara við umferð nautgripa, hesta, kinda og jafnvel hreindýra. Sum merki gefa til kynna fuglavarp. Hvernig liti umferðarmerki út sem varar við umferð trölla? Nemendur hanna í stílabók.

Kennslugögn:
 • Ritföng, litir og stílabók.
Ítarefni:

Verkefni 11: Hvað veistu um neðansjávareldgos?

Markmið, að nemandi:
 • kynnist hugtökum sem tengjast eldsumbrotum, bæði ofan- og neðansjávar
 • geti beitt rökhugsun við úrlausn verkefna
 • þjálfist í ritun og yfirfærslu upplýsinga (skrá á línurnar)
Orðaforði:

Neðansjávareldgos, eldstöð, gjóska, kvika, storknun, gosrás, bergeitill, hraun, aska, kvikuþró, jarðlög, eldgígur, vatnsgufa, …

Innlögn:

1) Kennari útskýrir að neðansjávareldgos eigi sér stað í sjó og að mörg eldgos nái ekki upp á yfirborðið, en geri þau það verður til landsvæði sem nefnist eyja (land umhverfis sjó á allar hliðar). Oft brýtur sjórinn nýja landið niður og það hverfur aftur en í sumum tilfellum stendur eldgos svo lengi yfir, og er svo stórt, að til verður ný eyja eins og í neðansjávareldgosinu sem skóp Surtsey. Kennari útskýrir einnig að vegna hitans sem fylgir neðansjávareldgosum stígur mikil vatnsgufa upp af svæðinu og hitinn í sjónum getur hækkað. Þannig urðu einmitt skipverjar á bátnum Ísleifi II fyrst varir við að neðansjávargos væri hafið þegar Surtsey varð til.

2) Nemendur skoða skýringarmynd af neðansjávareldgosi. Á henni eru númeraðar línur sem benda á ýmis náttúrufyrirbæri tengd eldgosum neðansjávar. Skýringartextinn er í þyngri kantinum og mikið af hugtökum. Kennari les textann með nemendum og aðstoðar þá við að tengja málsgreinarnar rétt saman. Lausn: 1: vatnsgufa, 2: aska, 3: eldgígur, 4: Norður-Atlandshaf, 5: hrauni og ösku, 6: jarðlög, 7: gosrás, 8: kvikuþró og 9: bergeitill. 

3) Nemendur flytja upplýsingar úr tengiverkefninu yfir á skýringarmyndina fyrir ofan, og skrifa rétt hugtök á línurnar.

Umræðupunktar:
 • Hvað er að gerast á myndinni? - Neðansjávareldgos er að hefjast, þ.e. gos sem byrjar á hafsbotni en ekki uppi á landi.
 • Hvers vegna verða eldgos yfir höfuð? - Jörðin er heit og kröftug pláneta og mestur hitinn er í kjarnanum, miðjunni. Þegar hitinn verður of mikill leitast jörðin við að kæla sig. Þá færast efnin til neðanjarðar og heitur vökvi, kvika, þrengir sér upp á yfirborðið. Þetta gerist hratt og við sjáum fallegt eldgos verða til. Í kvikunni er hraun og aska en líka lofttegundir sem hafa myndað andrúmsloft jarðar svo án eldgosa hefði ekki kviknað líf á plánetunni okkar. Eldgos eru því ein leið jarðarinnar til að kæla sig líkt og íþróttafólk svitnar til að ná aftur réttum líkamshita. (Heimild: Vísindavefurinn: Hvað er eldgos?)
 • Á myndinni er mikil gufa, hvers vegna myndast hún? - Þegar sjóðandi heit kvika frá eldgosi kemst í snertingu við sjó breytist vatnið úr fljótandi formi í gufu líkt og þegar við sjóðum vatn í potti.
 • Sést á myndinni hversu djúpt er niður á hafsbotninn þar sem Surtseyjargosið hófst? - Nei, sjávardýpið var 130 m á svæðinu þar sem eldumbrotin urðu. Það er svipað langt og 1/3 úr hlaupabrautinni umhverfis fótboltavöllinn í Laugardalnum eða næstum því tvær Hallgrímskirkjur.
 • Sést á myndinni hversu stór Surtsey er í dag? - Nei, Surtsey varð í fyrstu mun stærri en svo sökk hluti hennar aftur í sæ og í dag er eyjan 2,5 km í þvermál.
Aukaverkefni:

1) Nemendur teikna sína eigin skýringarmynd af neðansjávareldgosi í stílabók.

Verkefni 12: Hvað veistu um Surtsey?

Markmið, að nemandi
 • fái tækifæri til að læra i gegnum þrauti og leiki
 • þjálfist í að lesa úr töflum
 • fræðist meira um Surtseyjargosið
Innlögn:

1) Nemendur skoða dulmálslykil þar sem hver tölustafur vísar til bókstafs í stafrófinu. Börnin skoða talnarunurnar og finna bókstafina í töflunni. Lausnarorðin skrifa þau á línurnar. Kennari minnir á stóran upphafsstaf í upphafi málsgreina og að enda þær á punkti.

2) Nemendur leysa dulmálið með blýanti en fjórar talnarunur eru rauðlitaðar og þau orð skrifa börnin með rauðum trélit. Lausn: 

 1. Surtsey varð til á sögulegum tíma.
 2. Gosið hófst árið 1963 og lauk 1967.
 3. Það gaus í þrjú og hálft ár.
 4. Vísindafólk rannsakar eyjuna og hvaða dýr og jurtir nema þar land.
 5. Surtsey var friðlýst árið 1965 og ekki má fara þangað án leyfis.
 6. En hvar á landinu er Surtsey?
 7. Og hvað þýða rauðlituðu orðin?

3) Kennari og nemendur svara síðustu tveimur spurningunum í sameiningu.

Lausn:

 • Surtsey er 20 kílómetra suðvestur af Heimaey úti fyrir Suðurlandi. 
 • Rauðlituðu orðin:
  1. Mannkynssögu er skipt í sögulegan tíma og forsögulegan tíma. Sögulegur tími er sá tími mannkynssögunnar sem til eru ritaðar heimildir um. 
  2. Að nema land þýðir að hefja búskap á nýju landi, flytja þangað fyrstur manna (eða í þessu tilfelli dýra eða blóma).
  3. að vera friðlýst þýðir að landsvæðið er verndað því vísindafólk er að rannsaka það.
Umræðupunktar:
 • Hvað eru mörg ár síðan að Surtseyjargosið hófst?
 • Hversu lengi stóð gosið?
 • Hvað þýðir að Surtsey hafi gosið á sögulegum tíma?
 • Hvað eru vísindamenn meðal annars að rannsaka á eyjunni?
 • Hvað þýðir það að Surtsey sé friðlýst eyja?

Verkefni 13: Námsmat

Markmið, að nemandi:
 • rifji upp innihald bókarinnar Strandaglópar!
 • þjálfist í að svara fjölvalsspurningum
 • fái tækifæri til að sýna fram á kunnáttu sína og lesskilning
Innlögn:

1) Nemendur lesa 10 spurningar og þrjá svarmöguleika þeirra vel. Aðeins eitt svar er rétt við hverri spurningu. Kennari getur nýtt verkefnablaðið sem námsmat eftir yfirferð bókarinnar. 

Lausn:

 • Hvenær gerist sagan? - Eftir miðja síðustu öld.
 • Um hverja fjallar sagan? - Ævar afa og félaga hans.
 • Hvert er sögusviðið? - Eyjan Surtsey úti fyrir Suðurlandi.
 • Í þjóðsögu segir að óskastund sé… - Ein sekúnda stútfull af göldrum.
 • Nýja eldfjallaeyjan var nefnd eftir: - Eldjötninum Surti úr goðafræðinni.
 • Ævar afi hafði eina reglu á eldfjallinu: - Færa sig ef stígvélin fara að bráðna.
 • Hver var dularfulli súpumaðurinn? - Bandarískur vísindamaður.
 • Hvað kom fyrir gleraugun hans afa? - Þau bráðnuðu í vasanum hans.
 • Afi varð matarlaus af því að hann: - Gleymdist sjálfur á eyðieyju.
 • Hvaða smáatrið í bókinni var ósatt? - Auðvitað liturinn á stígvélunum.
 • Hvernig komst Ævar afi aftur heim? - Hann fékk far með þyrlu.
 • Hvað þurfa strandaglópar á eyðieyjum? - Allt ofangreint.

Comments are Closed