Frímerkjanámsefni
- Version
- Download 154
- File Size 21.01 MB
- File Count 1
- Create Date 9. október, 2019
- Last Updated 12. október, 2019
Frímerkjanámsefni
Um námsefnið
Efnið er unnið af Unni Maríu Sólmundsdóttur fyrir Kennarann.is og styrkt af Frímerkja- og póstsögusjóði. Markmið námsefnisins er vekja áhuga grunnskólanemenda á frímerkjum, sögu þeirra og þróun.
Námsefnispakkinn samanstendur af forsíðu,18 verkefnablöðum og krossaprófi í lokin. Hann er settur fram sem þrautatengt hefti og samþætt áherslum í stærðfræði og íslensku á miðstigi. Námsefnið er hugsað sem stuðningur í sögu og samfélagsfræði og má nota sem sjálfstætt þemaverkefni og/eða sem uppbrot í öðrum námsgreinum. Efnið er opið öllum sem vilja nýta það í vinnu með börnum og unglingum.
Ljósmyndir af frímerkjum eru úr rafbókinni Frímerki íslenska lýðveldisins I, 1944-1999, sem jafnframt er aðalheimild námsefnispakkans. Forsíðumynd er tekin af Unni Maríu Sólmundsdóttur.
____________________
Kennsluleiðbeiningar
Verkefni 1 - Upphafið
Markmið, að nemendur
- kynnist upphafi og tilgangi frímerkisins sem staðfestingu á greiðslu fyrir póstsendingar
- flokki nafnorð í karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn
- vinni með nafnorð í nefnifalli, eintölu og með greini
Nemendur lesa textann og flokka undirstrikuð nafnorð eftir kyni. Orðin setja þau í nefnifalli, eintölu og með greini inn í þar til gerða töflu á verkefnablaðinu.
Lausn
kk: pappírsmiðinn, pósturinn, skildingurinn, hólminn, farsíminn.
kvk: leiðin, myndin, stofnunin, verðlagningin, sagan.
hk: tökuorðið, frímerkið, verðgildið, útlitið, umslagið.
____________________
Verkefni 2 - Merkileg ártöl í póstsögunni
Markmið, að nemendur
- lesi um áhugaverð ártöl í póstsögunni
- þjálfist í að finna ártöl í talnasafni
- æfi sig í að vinna með stafrófið
- læri í gegnum þraut og leiki
Nemendur lesa textann og finna ártölin jafnóðum í talnasúpunni. Þeir skoða næst undirstrikuðu orðin í textanum og raða þeim í stafrófsröð í stílabók.
Lausn
aska - aurafrímerkin - árið - bananar - eldgosið - farsímanum - ferð - frímerkin - hlutafélagið - króna - milljónir - piparkökuilm - póstferðum - póstmálum - póstsiglingar - síma - stjórn - súkkulaði - vínylplötu - þjóðsöng.
____________________
Verkefni 3 - Minnisvarði þjóðar
Markmið, að nemendur
- átti sig á hlutverki frímerkja sem minnisvarða um menningu og sögu Íslands
- skoði fjölbreytt myndefni sem prýða frímerkjaflóru okkar Íslendinga
- læri um ólíka frímerkjaflokka og kynnist dæmum þeim til stuðnings
- lesi um valin frímerki úr 10 flokkum og tengi saman mynd og texta
Nemendur skoða 10 frímerki og lesa textann sem fylgir þeim. Að svo búnu tengja þeir frímerkin við þann flokk sem þau tilheyra.
Lausn
1960 - Dýralíf: Íslenski fálkinn er heimsfrægur veiðifálki og eftirsóttur sem slíkur.
1965 - Náttúra: Surtseyjargosið hófst 1963 og lauk ekki fyrr en árið 1967.
1965 - Stjórnmál: Nú er þess minnst að 50 ár eru liðin síðan að konur fengu kosningarétt.
1971 - Atvinnuvegir: Veiðar og fiskvinnsla er ein elsta atvinugrein Íslendinga.
1978 - Arkitektúr: Húsavíkurkirkja er mikil merkisbygging sem reist var 1906-07.
1983 - Framfarir: Beislun jarðhita þótti miklar framfarir og fór á frímerki.
1993 - Menning: Útilistaverkið Þotuhreiðrið eftir Magnús Tómasson sett á frímerki.
1995 - Viðburðir: HM karla í handbolta var stór íþróttaviðburður haldinn í Reykjavík.
1998 - Merkisdagar: Nú eru 125 ár liðin síðan fyrsta frímerkið kom út.
1999 - Hátíðarhöld: Frímerki með 13 íslenskum jólasveinum gefin út.
____________________
Verkefni 4 - Frímerkjasagan mín
Markmið, að nemendur
- átti sig á hlutverki frímerkja sem minnisvarða um menningu og sögu Íslands
- setji hlutverk frímerkja í samhengi við eigið æviskeið
- þjálfist í ritun stuttra hnitmiðaðra texta
- þjálfist í að hanna og teikna viðfangsefni út frá ákveðnum forsendum og að koma hugmyndum sínum á blað
Nemendur velta fyrir sér hvaða þrír atburðir í eigin lífi eru eftirminnilegastir að þeirra mati. Þeir taka saman lítinn upplýsingatexta um þá og hanna frímerki við.
Aukaverkefni
- Hvaða frímerki komu út árið sem þú fæddist? Taktu saman upplýsingar um frímerkin, greindu frá útgáfudegi þeirra og verðgildum.
- Hvaða frímerki hafa komið út frá því að þú fæddist sem þér finnast áhugaverðari en önnur? Hvers vegna finnst þér þessi frímerki áhugaverð?
Tenglar
Frímerki íslenska lýðveldisins I, 1944-1999
Frímerki íslenska lýðveldisins II, 2000-2014
____________________
Verkefni 5 - Hátíðarfrímerki
Markmið, að nemendur
- kynnist Hátíðarfrímerkjunum, fyrstu frímerkjunum sem gefin voru út af lýðveldinu Íslandi
- skoði lykilhugtök er tengjast stofnun lýðveldisins og útgáfu frímerkja á þeim tíma
- læri í gegnum leik og þrautir
Nemendur lesa texta um stofnun lýðveldisins Íslands á Þingvöllum árið 1944. Þeir kynnast frímerkinu með Jóni Sigurðssyni sem gefið var út af því tilefni. Lykilhugtök textans eru feitletruð og nemendur finna orðin í orðasúpu. Þau eru falin ýmist upp, niður, fram, aftur á bak eða á ská.
Aukaverkefni
- Nemendur búa til stuttar setningar sem orðskýringar á feitletruðu orðunum í textanum.
- Nemendur kynna sér ævi Jóns Sigurðssonar og gera samtekt í stílabók.
____________________
Verkefni 6 - Póststimplar
Markmið, að nemendur
- kynnist hlutverki póststimpla
- þjálfist að hefja málsgreinar á stórum staf og enda þær á punkti
- læri í gegnum leik og þrautir
Nemendur skoða völundarhús fyllt af orðum og hugtökum tengdum póstþjónustu. Þeir finna réttu leiðina í gegnum völundarhúsið og skrá orðin sem á leið þeirra verður. Orðin mynda málsgrein sem svarar því hvaða hlutverki póststimplar gegna.
Lausn
Hlutverk stimpla er fyrst og fremst að ógilda frímerki og sýna að búið sé að nota það.
Nánar um póststimpla
Póststimplar sýna dagsetningu og sendingarstað póstsins. Ef frímerki var stimplað var ekki hægt að endurnota það og áður en frímerkjasöfnun hófst fyrir alvöru voru stimpluð frímerki talin verðlaus og þeim fleygt eins og hverju öðru pappírsrusli. Ákveðnar reglur gilda líka um stimplunina sjálfa og sem dæmi má hvorki stimpla bréf aftur í tímann né stimpla á frímerki sem ekki eru lengur í gildi. Í dag hafa gömul frímerkið með skýrum og heilum póststimpli mikið verðmætagildi.
____________________
Verkefni 7 - Flugfrímerki
Markmið, að nemendur
- kynnist fyrstu Flugfrímerkjunum sem gefin voru út eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki
- þjálfist í kortalestri og að merkja áfangastaði inn á mynd af Íslandi
- læri í gegnum leik og þrautir
Nemendur skoða landakort og/eða kortavefsjá á netinu og áætla hvar staðirnir eru sem rætt er um í verkefninu. Þeir merkja staðina inn á Íslandskort.
Umræðupunktar
- Hvernig tengist hönnun frímerkjanna flugsögu Íslendinga?
- Hvaða gildi hafa flugvélamyndirnar fyrir flugsögu Íslendinga?
- Væru frímerkin myndskreytt með þessum landslagsmyndum ef ekki væri flogið á áfangastaði í grennd við þá?
- Hvernig var pósti komið á milli staða áður en flugsamgöngur hófust?
Tengt efni
Flugsaga Íslands
Borgarvefsjá Reykjavíkurborgar
Kortasjá Landmælinga Íslands
Kortavefsjá Menntamálastofnunar
____________________
Verkefni 8 - Líknarfrímerki
Markmið, að nemendur
- kynnist hlutverki líknar- og hjálparfrímerkja og hvernig útgáfa þeirra er nýtt til að safna peningum til líknarmála
- kynnist starfsemi þeirra líknarmála sem prýða Líknarfrímerkin frá árinu 1949
setji sig í spor viðburðastjórnanda sem tekur að sér að skipuleggja góðgerðarmál
- þjálfist í ritun ólíkra texta
Nemendur skoða fyrstu Líknarmerkin sem komu út í júní 1949 og kynnast tilgangi þeirra. Þeir kynna sér starfsemi þeirra líknarmála sem prýða frímerkin og velja sér málefni til að vinna meira með. Nemendur setja sig í spor þeirra sem stóðu að fjáröflun á þessum árum og vinna ritunarverkefni því tengdu.
Umræðupunktar
- Hvað þarf almennt að hafa í huga þegar fjáröflunarviðburðir eru skiplagðir?
Viðburðarstaður?
Viðburðatími?
Markhópur?
Samkeppni? Aðrir svipaðir viðburðir á sama tíma?
- Hvaða miðlar hafa verið nýttir við skipulag viðburða á þessum tíma (1947)?
Dagblöð?
Útvarp?
Sjónvarp?
Annað, hvað?
- Hvaða fjáröflunarleiðir er hægt að fara?
Tónleikar?
Söfnun? Hvers konar? Hverju á að safna?
Útgáfa? Hvers konar útgáfa?
Áheiti? Hvað á að gera?
Annað, hvað?
Tenglar
Um Barnaspítalann
Heimasíða Rauða Kross Íslands
Heimasíða Reykjalundar
Slysavarnafélagið Landsbjörg
____________________
Verkefni 9 - Frímerkjahönnun
Markmið, að nemendur
- kynnist árverkniverkefnum samtímans og hvað þau standa fyrir
- setji sig í spor frímerkjahönnuðar sem fengið hefur það verkefni að hanna seríu af frímerkjum út frá ákveðnum forsendum
- þjálfist í sjálfstæðri þekkingarleit á netinu
- þjálfist í vinnubrögðum tengdum hönnun og hugmyndavinnu
Nemendur kynna sér fjögur árverkniverkefni sem eru í gangi á Íslandi og hanna seríu af frímerkjum þeim tengdum. Nemendur setja sig í spor hönnuða, skissa og ákveða litaþema fyrir heildarverkefnið.
Umræðupunktar
- Hvaða litaþema tengist þessum árverkniverkefnum?
- Er hægt að nota þá liti eða aðra t.d. sem tengjast árstíðunum sem árverkniverkefnin eru í gangi?
- Eiga árverkniverkefnin sitt eigið vörumerki (logo) eða táknmyndir sem hægt er að vinna með?
- Er hægt að vinna með önnur form og einkenni í hönnunarvinnunni?
- Hvernig er hægt að tengja þessi fjögur árverkniverkefni saman svo fólk átti sig að um seríu af frímerkjum er að ræða?
Tenglar
Plastlaus september
Bleika slaufan/Bleikur október
Mottumars
Blár apríl
____________________
Verkefni 10 - Dýrafrímerki
Markmið, að nemendur
- skoði íslensk Dýrafrímerki og kynnist um leið dýraflórunni á Íslandi og í hafinu umhverfis landið
- þjálfist í sjálfstæðri þekkingarleit á netinu
- læri að hægt sé að afla gagna á fjölbreyttan hátt
- tileinki sér skipulögð vinnubrögð og vandvirkni þegar kemur að því að setja upp rannsóknargögn
- fái tækifæri til að stunda hlutbundið nám
Nemendur skoða hluta þeirra Dýrafrímerkja sem gefin hafa verið út á Íslandi. Gott er að þeir undirbúi gagnaöflunina og geri töflu með dýraheitunum í stílabók. Hver nemandi þarf bréfaklemmu sem hann tyllir í gegnum blýantsodd og svo á miðja skífuna. Bréfaklemmunni er spinnt í hring og skráð með talnastriki á hvaða dýri hún lendir. Þetta er endurtekið 100 sinnum eða þar til komið er dágott gagnasafn til að vinna með. Niðurstöðuna setja nemendur upp í súlurit. Einnig má hugsa sér að skrá niðurstöðuna sem prósentur og almenn brot.
Aukaverkefni
- Nemendur gera töflu í stílabók og flokka dýrin á frímerkjunum eftir því hvort um sjávardýr, fugl eða landspendýr er að ræða.
- Nemendur velja sér eitt dýr og gera ítarlegi samantekt um dýrið. Þeir skrá m.a. búsetu, fæðu, afkæmi, nytjar, óvini, o.s.frv. Gögnin setja nemendur upp sem texta annars vegar og hugtakakort hins vegar.
Umræðupunktar
Íslendingar kusu holtasóley sem þjóðarblóm sitt haustið 2004. Við eigum hins vegar ekkert þjóðardýr. Ef nemendur mættu ráða, hvaða dýr ætti að vera þjóðardýr Íslendinga, hvað yrði fyrir valinu? Rökræður með og á móti, og lýðræðisleg kosning um Þjóðardýrið.
Tenglar
Íslensku húsdýrin
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Melrakkasetur Íslands
Selasetur Íslands
Kattholt.is
Fauna.is
Fuglavefurinn
Vistkerfi sjávar í Eyjarfirði
____________________
Verkefni 11 - Galli í frímerkjum
Markmið, að nemendur
- kynnist því hvað teljast gallar í frímerkjum
- þjálfist í að lesa úr hnitakerfi
- læri í gegnum leik og þrautir
Nemendur leysa dulmálið með aðstoð hnitakerfis og komast að því hvaða gallar í frímerkjum geta haft áhrif á gildi þeirra og verðmætamat.
Lausn
Pappír sem prentað er á má ekki vera rifinn, brotinn eða of þunnur. Takkar eiga að vera heilir og í fullri lengd. Frímerki verða að vera hrein og blettalaus. Þau mega ekki vera upplituð af sólarljósi eða efnum. Ef frímerki eru stimpluð þarf blek að vera hreint og læsilegt.
Tenglar
Um galla í frímerkjum
____________________
Verkefni 12 - Landvættafrímerki
Markmið, að nemendur
- skoði Landvættafrímerkin í verkefninu og kynni sér þjóðsöguna á bak við þau
- afli sér upplýsinga um fleiri landvættafrímerki sem komu út á árunum 1987-1990
- þjálfist í lesskilningi
Nemendur kynna sér þjóðsöguna um landvættirnar og útsendarann í hvalslíki sem átti að tryggja dönskum konungi örugga landgöngu á Íslandi, en konungur var í þeim erindagjörðum að hefna fyrir níðvísur sem ortar höfðu verið um hann. Nemendur lesa fullyrðingarnar og haka í hvort þær séu sannar eða ósannar. Nemendur leita sér einnig meiri upplýsinga um öll Landvættafrímerkin sem komu út á árunum 1987-1990 en um 5 útgáfur er að ræða í mismunandi verðgildum.
Lausn
S: Maður (galdramaður) í hvalslíki kom upp að Íslandsströndum í þeim erindum að njósna um land og þjóð.
Ó: Maðurinn var sendur af Haraldi Gormssyni Danakonungi.
S: Stór dreki tók á móti manninum á Austurlandi ásamt minni ófögnuði á borð við eiturspúandi nöðrur og eðlur.
S: Griðungur óð út í sjó á móti manninum þegar hann kom upp að vesturströnd landsins.
Ó: Griðungur er af ætt nautgripa en ekki fugla.
Ó: Á Norðurlandi tók fugl svo ógurlegur á móti útsendaranum að vænghaf hans náði fjalla (og fjarða) á milli. Bergrisinn mætti hins vegar kappanum á Suðurlandi. Sá var ógnarhár, hærri en fjöllin umhverfis og bar járnstaf í hendi.
S: Útsendari konungs komst hvergi í land og gafst að lokum upp.
S: Sagan birtist í Heimskringlu
Ó: Landvættirnar voru fjölmargar samkvæmt þjóðsögunni en þessar fjórar vörnuðu útsendara konungs landgöngu.
S: Landvættirnar prýddu skjaldarmerki Íslands fyrst árið 1919. Það var skjöldur með íslenska fánanum, landvættirnar voru skjaldberar og efst á var kóróna sem táknaði danska konungsdæmið. Ísland fékk nýtt skjaldarmerkið með forsetaúrskurði árið 1944. Þá hvarf danska kórónan en landvættirnar voru áfram skjaldberar íslenska fánans og stóðu nú jafnframt á steinhellu úr stuðlabergi.
Tenglar
Meira um landvættafrímerkin
Landvættir Íslands
Saga skjaldarmerkisins
____________________
Verkefni 13 - Póstflutningar / Póstflutningaspil
Markmið, að nemendur
- kynnist frímerkjaflokknum sem fjallar um sögu póstsamgangna á Íslandi
- geri sér grein fyrir því hvernig póstsamgöngum var, og er, háttað hérlendis
- læri að vinna með stærðfræðiformúlur og að reikna í þriðja veldi
- vinni hlutbundið með hugtök í stærðfræðinni
- læri í gegnum leiki og þrautir
Nemendur skoða frímerkin í námsefninu og þau farartæki sem notuð voru (og eru) til að koma pósti á milli staða. Hægt er að vinna verkefnablaðið sem einstaklingsverkefni eða sem hópverkefni þrír nemendur saman. Ef um einstaklingsverkefni er að ræða kastar nemandi til skiptis fyrir hvern samgönguflokk. Nota þarf tvo teninga til að spila Póstflutningaspilið. Til að hefja leikinn þarf keppandi að fá par af sexum og skráir stigin (6x6x6 eða 6 í þriðja veldi) í fyrsta reitinn. Nemendur kasta til skiptis en til að komast áfram á næsta reit þarf sama talan að koma upp á báðum teningunum. Þriðja veldið er svo reiknað af þeirri tölu og skráð í reit númer tvö. Ef nemandi fær ekki par þarf hann að segja pass. Sá nemandi (eða sú póstflutningaleið) sem fyrstur að fara fram og til baka vinnur spilið. Einnig má hugsa sér að allir klári spilið og sá sem hefur hæstu samanlögðu töluna vinni.
Umræðupunktar
- Hvernig farartæki eru þetta á myndunum?
- Hversu langan tíma gæti það hafa tekið seglskútu að fara á milli landsfjórðunga?
- Hvernig bárust sendingar á milli fólks áður en reglulegar póstflutningar komust á? (Ferðalangar, reiðskjótar, ...)
- Hvaða fleiri leiðir höfum við í dag til að koma pósti eða upplýsingum á milli staða? (Tölvupóstur, samfélagsmiðlar, sjónvarp, útvarp, sími, ...=)
Aukaverkefni
Nemendur velja sér póstflutningaleið, afla sér meiri upplýsinga um hana og gera samantekt í stílabók.
____________________
Verkefni 14 - Hver sendi hvað? / Rökþraut
Markmið, að nemendur
- átti sig á mikilvægi þess að póstur sé vel merktur til að hann komist til rétts viðtakanda
- þjálfist að beita rökhugsun og útilokun við úrlausn verkefna
- læri í gegnum leik og þrautir
Nemendur skoða vísbendingarnar og fylla inn í töfluna. Í hvert sinn sem vísbending er staðsett í réttum reit í töflunni (t.d. með x) er gott að útiloka aðra möguleika (t.d. með o). Þannig er x sett þar sem nöfnin Rökkvi og Þór mætast sem útilokar að hin börnin hafi þetta eftirnafn, og aðrir reitir í línum Rökkva og Þórs eru fylltir upp með o. Einnig er vísbending fólgin í því að Rökkvi Þór sé ekki að senda til Búðardals og því er o skráð þar sem Rökkvi og Búðardalur mætast í töflunni. Á sama hátt má skrá x þar sem Þór og reikningar mætast. Nemendur lesa yfir allar vísbendingar og halda áfram að fylla inn x eða o eftir upplýsingum sem koma fram. Með rökhugsun og útilokun valmöguleika koma rétt svör hægt og rólega í ljós. Þau eru sett inn í töfluna fyrir neðan.
Lausn
Rökkvi - Þór - reikniningar - Djúpivogur.
Sóldís - Perla - boðskort - Búðardalur.
Sævar - Karl - ábyrgðarbréf - Neskaupstaður.
Alexander - Ingi - endursending - Þórshöfn.
Svava - Lind - sendibréf - Dalvík.
Umræðupunktar
- Hvers vegna er mikilvægt að merkja póst vel áður en farið er með hann í póstkassa eða á pósthúsið?
- Sumir skrá nafn sendanda aftan á póst, til hvers er það gert?
- Hvað ber öllum að gera sem fá óvart póstsendingu inn um lúguna sem tilheyrir þeim ekki?
- Hvers vegna er mikilvægt að merkja póstkassann utan á húsinu sínu vel og vandlega?
____________________
Verkefni 15 - Póstburðargjöld
Markmið, að nemendur
- læri hvað hugtakið póstburðargjald felur í sér og hvernig það er áætlað
- kunni að lesa úr töflum s.s. gjaldskrá Íslandspósts
- vinni með stærðfræðihugtökin grömm og kíló
- vinni með peninga og upphæðir
- læri í gegnum þrauti og leiki
- setji sig í spor annarra sbr. póstburðarfólks
Nemendur telja umslögin á myndinni og skrá fjölda af hverri stærð. Gott er að lita hverja stærð í ákveðnum lit og telja svo. Ef vafi leikur á stærð umslaganna í hrúgunni má nota reglustiku til að mæla hliðarlengdir þeirra. Nemendur lesa einnig úr gjaldskrártöflu Íslandspósts kostar að senda hverja þyngd fyrir sig. Þeir reikna einnig sendingarkostnað bréfanna í heild sinni sem og þyngdina sem póstburðarfólk þarf að bera við störf sín.
Lausn
a) Samkvæmt gjaldskrá póstsins þann 9. október 2019 er sendingargjaldið eftirfarandi:
0-50 g = 150 kr.
51-100 g = 230 kr.
101-250 g = 250 kr.
251-500 g = 315 kr.
501-1000 g = 550 kr.
1001-2000 g = 720 kr.
b) Á myndinni eru 27 umslög, 7 af stærstu gerð (750 g), 8 af næststærstu gerð (450 g), 8 af næstminnstu gerð (210 g) og 4 af minnstu gerð (45 g).
c) Sendingargjald samanlagt: (4x195) + (8x250) + (8x315) + (7x550) = 9.150 kr.
d) Samanlögð þyngd: (4x45) + (8x210) + (8x450) + (7x 750) = 10 kg og 710 g.
Umræðupunktar
- Er dýrt að senda bréf í pósti?
- Hvað kostar að senda tölvupóst?
- Eru 10 kg mikil þyngd? Má gera ráð fyrir að þynd í pokum bréfbera sé meiri eða minni?
- Telst það til erfiðsvinnu að bera út póst?
- Hvað með ýmsar sendingar sem ekki eru á bréfaformi t.d. pakka? Ætti að vera skylda að sækja þá á pósthúsið?
- Hvað getum við gert til að auðvelda bréfberum störf sín? Til dæmis hvað aðkomu að húsinu varðar? Snjó á bílastæðum og/eða á göngustígum? Hunda sem eru úti í bandi? Annað, hvað?
____________________
Verkefni 16 - Póstkassinn
Markmið, að nemendur
- leiki sér með bókstafi og orð
- búi til ný orð úr orðum, og noti bókstafi hugtaka sem tengjast yfirferð námsefnisins
- þjálfist í réttritun orða með einföldum og tvöföldum samhljóðum
- læri í gegnum leik og þrautir
Nemendur skoða orðin í póstkassanum og nota bókstafina sem þar eru til að mynda ný orð. Nota má hvern bókstaf til að búa til fleiri en eitt orð, en ekki má nota hvern bókstaf oftar í sama orðinu en hann kemur fyrir inni í póstkassanum. Dæmi: Í póstkassanum eru orðin BRÉF - PÓSTUR - FRÍMERKI - SENDING - KRÓNUR. Nota má orð sem innihalda tvöföldu samhljóðana -ss, -nn, -rr, -ff og -kk þar sem þeir koma oftar en einu sinni fyrir í orðunum í póstkassanum. Á sama hátt má ekki nota -mm, -pp eða -bb því í póstkassanum koma þessir bókstafir bara einu sinni fyrir. Dæmi um orð sem hægt er að skrifa eru kerti, merki, rós, dóni, fótur, ...
____________________
Verkefni 17 - Merkir Íslendingar
Markmið, að nemendur
- skoði frímerkjaflokkinn Merkir Íslendingar og hvaða hlutverki hann gegnir í frímerkjaútgáfunni
- læri um nokkra merka Íslendinga og geti tengt þá við sögu lands og þjóðar
- átti sig á því hvað felst í orðinu merkur eða merkilegur og skoði það í nútímalegu samhengi samhliða orðunum áhrifavaldur og samfélagsmiðlastjarna
Nemendur kynna sér fólkið á frímerkjunum og framlag þeirra til íslensks samfélags. Upplýsingarnar taka þeir saman og skrá í stílabók. Í framhaldinu velta þeir fyrir sér hvaða næsti merki Íslendingur ætti að fara á frímerki og rökstyðja val sitt.
Umræðupunktar
- Fólkið á myndunum er allt látið, er það svo með alla í frímerkjaflokknum Merkir Íslendingar?
- Hvað felst í því að vera merkur?
- Er merkur það sama og vera merkilegur?
- Teljast svokallaðir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum merkir í þessum skilningi?
- Eru samfélagsmiðlastjörnur merkir Íslendingar?
- Hvers vegna/hvers vegna ekki?
- Er það að vera merkur sama hugtakið og að vera frægur?
- Er nóg að vera frægur fyrir eitthvað til þess að njóta þess heiðurs að prýða íslenskt frímerki? Það er hægt að vera frægur fyrir góða hluti og slæma hluti, nefnið dæmi.
Lausn, frá vinstri
Þorbjörg Sveinsdóttir, 1827-1903. Frímerkið kom út 8. september 1982. Þorbjörg fæddist áramótin 1827-28 og settist að í Reykjavík um svipað leyti og miklar breytingar áttu sér stað í íslensku þjóðlífi. Hún starfaði sem ljósmóðir nær hálfa öld og skipti sér mikið af þjóðmálum sem var óvanalegt af konum þess tíma. Þorbjörg var mælsk og mikill stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar. Hún barðist meðal annars fyrir stofnun íslensk háskóla. Þorbjörg stofnaði Hið íslenska kvenfélag 1894 sem varð fyrsta fjöldahreyfing kvenna á Íslandi, og Hvítabandsdeildina árið 1895 sem var kristilegt bindindisfélag sem starfaði að margvíslegum málum s.s.friðarmálum, jafnréttismálum, dýravernd og fræðslumálum. Þorbjörg var elskuð og virt af öllum þeim sem hjálpar hennar nutu.
Séra Bjarni Þorsteinsson, 1861-1938. Frímerkið kom út 11. desember 1979. Bjarni var bóndasonur úr Mýrarsýslu og starfaði sem prestur. Hann vann mikið og merkilegt starf m.a. á sviði tónlistar og samdi fjölda þekktra laga. Bjarni gaf út þjóðlagasafnið Íslensk þjóðlög og samdi einnig ritið Íslenskir hátíðarsöngvar ásamt fleiri merkum ritum á sviði söng- og þjóðlaga. Hann var sæmdur prófessorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1930 fyrir ritstörf sín. Bjarni var einnig gerður að heiðursborgara Siglufjarðar vegna tengsl hans við sögu bæjarins.
Torfhildur Hólm, 1845-1918. Frímerkið kom út 3. júlí 1979. Torfhildur fluttist 17 ára til Reykjavíkur og þaðan til Kaupmannahafnar. Hún giftist Jakobi Hólm verslunarstjóra á Skagaströnd 1874 og varð ekkja ári síðar. Árið 1876 flutti hún til Kanada og bjó þar næstu 13 árin. Hún lærði málaralist og starfaði sem rithöfundur. Torfhildur varð fyrsta íslenska konan til að rita sögulegar skáldsögur á Íslandi og jafnframt fyrsta íslenska konan sem hafði ritstörf að atvinnu. Hún var afkastamikið skáld en lést í spænsku veikinni 1918.
Pétur Guðjohnsen, 1812-1877. Frímerkið kom út 11. desember 1979. Pétur var bóndasonur úr Eyjafirði sem útskrifaðist frá Bessastaðaskóla árið 1835 og lauk kennaraprófi frá kennaraskóla Johnstrups í Danmörku árið 1840. Pétur starfaði sem kennari, söngkennari og alþingismaður í Reykjavík. Hann gaf út sálmasöngs- og messubók auk þess sem hann gengdi starfi organleikara við Dómkirkjuna í Reykjavík frá því hann flutti heim og til dauðadags.
Ingibjörg H. Bjarnason, 1867-1941. Frímerkið kom út 3. júlí 1979. Ingibjörg fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún stundaði nám við Kvennaskólann í Reykjavík 1882 og framhaldsnám í Kaupmannahöfn, Þýskalandi og Sviss. Ingibjörg starfaði lengi sem kennari og skólastýra en gegndi einnig hlutverki formanns Landsspítalasjóðsnefndar árið 1915 en sá sjóður barðist fyrir byggingu Landspítalans. Ingibjörg varð alþingismaður fyrst íslenskra kvenna árið 1923 og sat á þingi til ársins 1930.
Halldór Hermannsson, 1878-1958. Frímerkið kom út 1. desember 1978. Halldór var prófessor og bókavörður við Cornell-háskólann í Íþöku, Bandaríkjunum. Hann fæddist í Rangárvallasýslu og varð stúdent frá Lærða skólanum 1898. Halldór byrjaði í lögfræði í Kaupmannahöfn en hætti og fór að vinna á Ítalíu við íslenskt bókasafn í einkaeigu Williards Fiskes. Við andlát Fiskes tók Cornhell-háskólinn við safninu og Halldór fylgdi með. Hann varð mjög virtur rithöfundur, og kenndi íslensku og Norðurlandamál við háskólann í 40 ár. Halldór hélt íslenskri menningu mikið á lofti og fáir hafa unnið jafnmikið kynningarstarf fyrir landi og þjóð og Halldór gerði á sínum tíma.
Heimild: Frímerki íslenska lýðveldisins I, 1944-1999.
____________________
Verkefni 18 - Fleiri frímerkjaártöl
Markmið, að nemendur
- skoði margvísleg frímerki sem komu út á árunum 1944-1999 og setji þau í sögulegt samhengi
- þjálfist í að lesa úr ártölum og tengja tölur við talnalínu
- efli lesskilning
Nemendur lesa textann inni í frímerkjaboxunum og tengja þau við rétta reiti á talnalínunni. Þeir skrifa jafnframt ártölin inn í súluna.
Aukaverkefni
Ritun: Nemendur velja 10 frímerki til að vinna meira með og fletta þeim upp í ritinu Frímerki íslenska lýðveldisins I, 1944-1999. Þeir afrita myndirnar af frímerkjunum yfir á autt blað í ritvinnsluforriti (Snipping tool), prenta þau út, klippa og líma í stílabók. Við frímerkjasafnið skrá þeir sömu upplýsingar (útdrátt) og standa í heftinu. Neðst í stílabókina skrá þeir sem heimild hvaðan þeir fengu efnið.
Umræðupunktar
- Hvaða frímerki finnst nemendum áhugaverðast og hvers vegna?
- Hvaða flokki tilheyra þessi frímerki?
____________________
Verkefni 19 - Frímerkjaprófið
Markmiðið er að kanna hvað nemendur kunna eftir yfirferð námsefnins. Um 10 fjölvalsspurningar er að ræða með eitt rétt svar í hverjum lið.
Lausn
Frímerki er sett á póstsendingar.
Skildingafrímerkin eru fyrstu frímerki Íslendinga.
Líknarfrímerkin eru til styrktar góðum málefnum.
Landvættamerkin tengjast gamalli þjóðsögu.
Hátíðarfrímerkin eru af Jóni Sigurðssyni.
Póststimplar eru til að ógilda frímerki.
Frímerki verða að vera hrein og blettalaus.
Merkir Íslendingar er fólk sem unnið hefur góð störf.
Ísland fékk fullveldi 17. júní 1944.
Flugfrímerkin sýna flugvélaflota Íslendinga.
Heimildaskrá
Rafrit: Frímerki íslenska lýðveldisins I, 1944-1999
Skemman: Frímerki til frásagnar eftir Alexöndru Baldursdóttur
Vísindavefur.is: Hvernig varð frímerkið til?
Vísindavefur.is: Hvaðan kemur orðið frímerki?
Wikipedia: Íslensk aurafrímerki
Wikipedia: Íslensk skildingafrímerki
Póstur.is: Um frímerki
Póstur.is: Hlutverk og saga
Póstur.is Verðskrá
Tímarit.is: Heil frímerki eftir Sigurð H. Þorsteinsson
Vísir.is: Frímerki með eldfjallaösku
Mentalfloss.com: 11 Stamp Stories Worth Retelling
Letterhub.com: Fun Facts About Stamps
Comments are Closed