Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Jólaratleikur Stúfs – Viðurkenningarskjal

Þáttökuviðurkenningin er í formi jólakúlu. Stúfi var sérlega umhugað um að kúlurnar gætu bæði glatt þátttakendur og skreytt stofuna þeirra – og bókasafnið. Hann mælir því með að jólakúlurnar séu klipptar út, plastaðar og spotti festur í áður en þær eru afhentar. Föndurglöðustu kennararnir geta líka prentað út myndir af þátttakendum, klippt út og límt aftan á jólakúlurnar áður en þær eru plastaðar.

 

Frímerki Stúfs

Smellið á bláa hnappinn hér ofar til að sækja PDF skjal með frímerkjum Stúfs. Klippið frímerkin út og límið á umslögin með boðskortunum. Ef nemendur vilja skrifa Stúfi svarbréf á aðventunni er tilvalið að leyfa þeim að fá eintak af frímerkinu til að líma á umslag svarbréfsins.

Heimilisfangið er: Stúfur jólasveinn, Grýluhellir Esjunni, 162 Kjalarnes, (dreifbýli).

Bókabeitan, Síðumúla 31, 108 Reykjavík tekur að sér að koma bréfum til Stúfs á leiðarenda. Tilvalið er að safna bréfum nemenda saman í A4 umslag og senda til þeirra.

 

Jólaratleikur Stúfs – Svarlykill

Svarlykillinn er trúnaðargagn innsiglað af Grýlu og Leppalúða. Á því eru lausnir við öllum þrautunum og upplýsingar um hvernig stigin deilast niður á þrautirnar. Svarlykillinn auðveldar skipuleggjendum ratleiksins að reikna stigin út og finna sigurvegarana.

Jólaratleikur Stúfs – Þátttökublað

Þátttökublaðið samanstendur af fimm svarblöðum og reglublaði aftast. Áríðandi er að lesa leikreglur Stúfs í upphafi, og þá ekki síst mikilvægastu regluna sem er sú að slíta ekki niður miðana sjálfa og safna þeim, heldur bara lesa það sem stendur, leysa þrautirnar og skrá svörin á þátttökublöðin. Nemendur geta unnið sér inn 100 stig úr þrautunum sjálfum, plús sjö aukastig.

Á þátttökublaðinu sést hversu mörg stig hægt er að fá fyrir hverja þraut. Kennari notar svarlykil við yfirferðina. Fremst á þátttökublaðinu er autt hvítt flagg til að skrá heildarstigafjölda liðsins.

Jólaratleikur Stúfs

Jólaratleikurinn er unnin við bækur Stúfs; Stúfur hættir að vera jólasveinn og Stúfur leysir ráðgátu. Bækurnar eru eftir Evu Rán Þorgeirsdóttur og myndskreyttar af Blævi Guðmundsdóttur. Höfundur ratleiksins er Unnur María Sólmundsdóttir. Efnið er á 20 miðum og stútfullt af skemmtilegum þrautum sem byggjast meðal annars á rökhugsun, samvinnu og útsjónarsemi. Ekki er nauðsynlegt að hafa lesið bækurnar um Stúf en þó er möguleiki að ná sér í eitt og eitt aukastig sem tengist innihaldi þeirra.

Smelltu á bláa linkinn hér ofar til að sækja PDF eintak af jólaratleik Stúfs.