Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Kennarinn útgáfa – siðareglur

1. grein – Efnistök

Kennarinn.is er vettvangur fyrir uppeldismenntað fólk til að deila verkum sínum með kollegum, forráðamönnum og nemendum. Allt efni er gefið út undir nafninu Kennarinn útgáfa, í eigu Unnar Maríu Sólmundsdóttur sem jafnframt sér um hönnun, uppsetningu og verkefnastjórn. Námsefni, upplýsingar, fréttaefni, ábendingar um efni á vef eða söluvara sem birtist á vefnum skal tengjast uppeldi og menntun á einn eða annan hátt. Hönnun og uppsetning útprentanlegs efnis, hvort heldur sem um frítt efni eða söluvöru er að ræða, aðsent eða gefið út á vegum Kennarans er sett upp í samræmi við heildarútlit útgáfunnar og miðilsins. Ávallt er getið hvaðan efnið er fengið og/eða það birt með leyfi höfunda. Aðsent efni er merkt höfundi en sett upp í samræmi við annað efni útgáfunnar. Komi ábendingar um að lög um höfundarétt séu ekki virt, efni sé stolið eða ranglega merkt er það tekið af vefnum meðan ábendingar þess efnis eru kannaðar.

 

2. grein – Auglýsingar og styrkir

Ekki má auglýsa vörur eða viðburði á Kennarinn.is, samfélagssíðum Kennarans, eða öðru útgefnu efni, sem stangast á við tilgang vefsins, sært getur blygðunarkennd eða stuðlað að óheilbrigðum lifnaðarháttum barna og ungmenna. Eingöngu skal auglýsa vörur á miðlum Kennarans sem tengjast fræðslu- og uppeldismálum. Undanþága frá þessu er baksíðan á Vefriti Kennarans og sérstök undirsíða á vefnum Kennarinn.is þar sem tilgreindir eru þeir styrktaraðilar og auglýsendur sem tengjast útgáfunni og gera henni kleift að halda fríu efni úti. Greina verður frá öllum styrkjum sem verkefnið hlýtur og tilgreina í hvaða verkefni þeim er varið. Fréttabréfum, markpóstum og öðrum rafrænum fjöldasendingum og auglýsingum má ekki beina beint til barna. Fagfólk í uppeldisfræðum, kennarar, leikskólakennarar og eftir atvikum forsjársaðilar þurfa að taka afstöðu um útgefið efni og vera milligöngumenn þar um.

 

3. grein – Jafnræði

Ekki má deila efni á samfélagssíðum Kennarans, eða í útgefnu efni, sem mismunar fólki á einhvern hátt með tilliti til þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, menningar eða kynferðis. Ekki má benda á eða krækja efni heimasíðu og/eða samfélagsmiðla Kennarans við síður á vefnum sem á einhvern háttar mismunar fólki eða þjóðfélagshópum. Leitast verður við að afla fjölbreyttra upplýsinga fyrir öll skólastig og gera þeim jafn hátt undir höfði eftir því sem efnistök, upplýsingar, lög og reglur í samfélaginu gefa tilefni til. Ekki verður tekin afstaða í stjórnmálum eða þjóðfélagsmálum í nafni útgáfunnar.

 

4. grein – Myndefni og krækjur

Engar myndbirtingar (myndir eða kvikefni) af börnum eða starfsmönnum menntastofnana, eða annarra vinnustaða, verðar birtar nema með þeirra leyfi (eða forráðamanna) en slíkt á þó ekki við um áður birt efni á vefnum sem krækjur kunna að leiða til. Á sama hátt verður myndefni og teikningar barna ekki notaðar í auglýsingar eða öðru markaðslegu tilliti nema með vitund þeirra og/eða skriflegu leyfi forrsjáraðila. Þess skal gætt að skapist tekjur af slíku efni fái viðkomandi listamenn/höfundar sanngjarna greiðslu í sinn hlut. Geta skal uppruna alls myndefnis sem tekið er úr öðrum miðlum og skrá samkvæmt viðurkenndum skráningarkerfum. Vanda verður valið þegar kemur að krækjum út fyrir efni heimasíðunnar enda er markmiðið að tengja síðuna eingöngu við lög, reglur, fréttir og upplýsingar sem nýtast fólki í menntunar- og uppeldisgeiranum.

 

5. Samfélagsmiðlar og ský

Kennarinn er með aðgang á Issuu, Twitter, Pinterest, Flickr, Youtube, Facebook og fleiri vinsælum samfélagsmiðlum. Einnig hefur verið stofnaður reikningur á ýmsum skýjum og gagnvirkum síðum er tengjast námi og kennslu, og námstengdri afþreyingu. Síðurnar gegna eingöngu því hlutverki að koma boðskap útgáfunnar á framfæri og styrkja markaðsstöðu hennar. Ekki má dreifa efni á þeim miðlum sem stangast á við gildi, viðmið og tilgang útgáfunnar. Sömu reglur gilda fyrir samfélagsmiðla, ský og gangvirkt efni, og getið er í siðareglum Kennarans.

 

6. grein – Vefverslun

Vefverslun Kennarans inniheldur eingöngu vörur sem tengjast námi og kennslu. Greiðslur fara í gegnum PayPal greiðslukerfið. Öryggi viðskiptavina verður tryggt eins og best verður á kosið og upplýsingar um viðskiptavini aldrei látnar þriðja aðila í té. Telji viðskiptavinur sig á einhvern hátt hlunnfarinn í viðskiptum, varan gölluð eða uppfyllir ekki væntingar neytandans mun hún endurgreidd að fullu.