Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Menning, samkeppnir og viðburðir

Augað

Augað er stuttmyndasamkeppni fyrir 9. bekki grunnskólans unnið í samvinnu við Myndver grunnskólanna.

Skólahreysti

Skólahreysti er liðakeppni á milli grunnskóla landsins og samanstendur af fjögurra manna liði sem skipað er tveimur stelpum og tveimur strákum í 9. og 10. bekk. Þátttakendur keppa meðal annars í hraðabraut, upphýfingum, hreystigripi, dýfum og armbeygjum. Keppnin nýtur vaxandi vinsælda og við skóla hafa risið þrautabrautir ekki ósvipaðar þeirri sem keppt er í. 

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda er hugmyndasamkeppni meðal barna í 5. – 7. bekk. Nemendur senda hugmyndir inn í keppnina og dómnefnd velur hverjar komast áfram til frekari útfæringar í vinnusmiðjum. Þar aðstoða leiðbeinendur frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík börnin við að vinna að verkum sínum.

Skrekkur

Skrekkur er hæfileikakeppni sem haldin er árlega meðal unglingadeilda í reykvískum grunnskólum. Senda má eitt atriði í keppnina þar sem átta skólar keppa á þremur undanúrslitakvöldum í Borgarleikhúsinu. Á fjórða kvöldi er keppt til úrslita. Skrekkur hóf göngu sína árið 1990 og verið haldinn óslitið síðan.

Lego forritunarkeppnin

Lego forritunarkeppnin er nokkurs konar áskorun þar sem keppendur takast á við raunveruleg vandamál og leysa þau. Liðin hafa hvern sinn þjálfara og vinna eftir ákveðnu þema sem gefið er upp hverju sinni. Vinnan felst meðal annars í því að smíða vélmenni, skrá niður verkferla og kynna afraksturinn. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir börn til að gera tilraunir og sigrast á hindrunum á sviði tækni og vísinda. Lego forritunarkeppnin er fyrir 9-16 ára nemendur og hvert lið hefur að skipa 6-10 börnum.

Söngkeppni Samfés, Stíll, Rímnaflæði og SamLeikur

Söngkeppni Samfés er árleg keppni þar sem 13-16 ára gamlir nemendur keppa sín á milli. Samfés eru frjáls félagasamtök félagsmiðstöðva á Íslandi þar sem unglingar geta hist án áfengis og vímuefna. Samfés var stofnað 1985 og heldur einnig árlega keppni sem nefnist Stíll þar sem keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun og Rímnaflæði þar sem vakinn er áhugi ungmenna á rappi.

Stóra upplestrarkeppnin

Stóra upplestrarkeppnin er fyrir 7. bekk grunnskóla og er í höndum skólaskrifstofu í hverju sveitarfélagi. Fylla þarf út skráningarblað, nemendur æfa sig í upplestri og framsögn og haldnar eru forkeppnir meðal árgangsins í hverjum skóla fyrir sig. Verkefnið er sett við hátíðlega athöfn 16. nóvember ár hvert á degi íslenskrar tungu. Markmiðið er að vekja áhuga á vönduðum framburði og upplestri og keppnin er gott tækifæri fyrir kennara til að leggja markvissa rækt við þessa þætti móðurmálsins.

Tóbakslaus bekkur

Tóbakslaus bekkur er samkeppni á vegum Landlæknisembættisins þar sem nemendur í 7. 8., og 9. bekk geta tekið þátt. Nemendur skrifa undir sáttmála um að halda bekknum utan tóbaks allt skólaárið, vinna verkefni og senda inn. Skilyrði fyrir þátttöku er að allir í bekknum séu lausir við tóbaksnotkun. Bekkirnir senda inn lokaverkefni sem geta verið í formi veggspjalda, auglýsinga eða fræðsluefnis um tóbaksvarnir, og geta unnið fé til ráðstöfunar að eigin vild. Tvisvar yfir veturinn eru dregnir út nokkrir bekkir sem fá sendar litlar gjafir.

Áhugaverðir tenglar