Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Jólahefðir – Kennsluleiðbeiningar

[featured_image]
Jólahefðir - Kennsluleiðbeiningar PDF
Download is available until [expire_date]
  • Version
  • Download 52
  • File Size 52.00 KB
  • File Count 1
  • Create Date 27. nóvember, 2023
  • Last Updated 3. desember, 2023

Jólahefðir - Kennsluleiðbeiningar

Verkefni 1 - Lestur

Markmið, að:
  • læra orð tengdum jólum og íslenskum jólahefðum
  • æfa íslensku málhljóðin
  • sýna fram á hugtakaskilning í formi teikninga
Innlögn:

1) Kennari dreifir fylgiskjalinu Orð og myndir 4 sem inniheldur sama orðabanka og Fánaveifurnar. Hann les fyrri hluta textans með nemendum, skoðar orðin eftir þörfum og fer yfir fylgiskjalið með orðunum og myndunum. Nemendur fá hlutverk og lesa samtal Jóns og Nam.

2) Kennari dreifir Fylgiskjali 4:1. Hann leggur inn heiti jóladaganna og dagsetningar þeirra sem finna má í fylgiskjalinu. Nemendur klippa út textana fjóra og líma inn í þann reit sem passar við hverja dagsetningu. Textinn á síðunni er mikill og því tilvalið að skoða einn dag í einu og fara yfir hann áður en næsti dagur er tekinn fyrir. Lausnin er í sömu röð og textarnir í fylgiskjalinu.

3) Nemendur teikna og lita myndir af hugtökunum inn í reitina. Þeir nýta sér fylgiskjalið Orð og myndir 4.

Kennslugögn:

Ritföng, trélitir, lím og skæri.

Tjáning, samræður:

Jóni finnst gaman að Nam hafi áhuga á hefðum fjölskyldu sinnar og skuli spyrja hann um aðventuna og jólin sjálf. Hér er tækifæri fyrir kennarann að spyrja nemendur hver sé stærsta hátíðin tengd þeirra trúarbrögðum.

Fylgiskjöl:

Verkefni 2 - Orðavinna

Markmið, að:
  • vinna með orðaforða sem tengist jólum og jólahefðum
  • leggja inn fyrsti, annar, þriðji og fjórði
  • æfa latneskt letur og hvar stafirnir sitja miðað við grunnlínu
Innlögn:

1) Kennari les textann um aðventu með nemendum og leggur inn raðtölurnar fyrsti, annar, þriðji og fjórði.

2) Nemendur lita aðventukransinn eftir fyrirmælum frá kennara. Fyrst eru orðin aðventukrans, köngull og greni lögð inn. Fyrirmæli:

  • Litaðu fyrsta kertið gult.
  • Litaðu annað kertið blátt.
  • Litaðu þriðja kertið appelsínugult.
  • Litaðu fjórða kertið fjólublátt.
  • Litaðu eplin rauð.
  • Litaðu köngulinn brúnan.
  • Litaðu grenið grænt.

3) Nemendur skrifa orðin inn í orðaskuggana og æfa þannig latneskt letur og læra hvar stafirnir sitja miðað við grunnlínu.

Kennslugögn:

Ritföng og stílabók.

Verkefni 3 - Ritun

Markmið, að:

  • geta afritað orð
  • festa orðmyndir í minni
  • læra fyrirmælin að strika yfir
Innlögn:

1) Nemendur lesa málsgreinarnar með aðstoð kennara.

2) Í hverri málsgrein er eitt orð sem passar ekki. Nemendur finna orðið og strika yfir það. Þeir rifja upp textann í verkefni 1 til að finna ranga orðið.

3) Nemendur skrifa rétta orðið í reitinn fyrir aftan hverja málsgrein. Orðin eru í Orðabankanum.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 4 - Rökhugsun

Markmið, að:
  • beita rökhugsun
  • læra að leysa Sudokuþrautir
  • festa orðmyndir í minni
Innlögn:

1) Á Fylgiskjali 4:1, sem nemendur hafa þegar fengið í tengslum við verkefni 1, eru klippimyndir fyrir Sudoku þrautina. Nemendur klippa myndirnar út og líma í rétta reiti til að leysa þrautirnar.

2) Nemendur skrifa heiti hugtakanna á línurnar.

3) Nemendur skrifa orðin í stílabók og þýða yfir á sitt tungumál.

Kennslugögn:

Ritföng, skæri, lím og stílabók.

Fylgiskjal:
  • Fylgiskjal 4:1 (sjá aftast í nemendahefti)

Verkefni 5 - Skilningur

Markmið, að:
  • þjálfa lesskilning
  • læra heiti yfir daga sem tengjast íslenskum jólum
  • rifja upp sagnorð
Innlögn:

1) Nemendur rifja upp textann í verkefni 1. Þeir botna svo málsgreinarnar með því að draga hring um rétt svar.

2) Nemendur endurrita málsgreinarnar í stílabók.

3) Kennari fer í gegnum sagnorðin. Nemendur tengja saman sagnorð og nafnorð sem passa best saman.

Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 6 - Flokkun

Markmið, að:
  • leggja inn samsett orð
  • festa orðmyndir í minni
  • rifja upp liti
Innlögn:

1) Kennari leggur inn samsett orð. Á Fylgiskjali 4:1, sem nemendur hafa þegar fengið í tengslum við verkefni 1 og 4, má finna neðri helming jólakúlnanna. Nemendur klippa út hálfhringina með orðunum og líma í neðri helmingana á jólakúlunum á verkefnasíðunni.

2) Nemendur skrifa samsettu orðin sem myndast á línurnar fyrir neðan hverja jólakúlu. Gott er að minna nemendur á að hvorki má vera bil né bandstrik á milli samsettra orða.

3) Nemendur flokka samsettu orðin í réttan yfirflokk með litum. Flokkarnir eru föt, skraut og matur. Jólakúlur sem tengjast fötum eru litaðar grænar. Þær sem tengjast jólaskrauti eru litaðar rauðar og þær sem tengjast jólamat eru litaðar bláar.

Lausn:

Kennslugögn:

Skæri, lím, ritföng og trélitir.

Fylgiskjal:
  • Fylgiskjali 4:1 (sjá aftast í nemendahefti)

Verkefni 7 - Málfræði

Markmið, að:
  • vinna með samsett orð
  • festa orðmyndir í minni
Innlögn:

1) Kennari rifjar upp samsett orð og útskýrir með aðstoð sýnidæmis að orð geta breyst. Nemendur skrá forskeytið jól- í fyrsta reitinn og skoða hvernig a bætist við.

2) Nemendur skoða fylgiskjalið Orð og myndir 4 og finna heiti myndanna.

3) Nemendur skrifa svo samsetta orðið í reitinn. Kennari minnir á að það má hvorki vera bil né bandstrik á milli.

Kennslugögn:

Ritföng.

Fylgiskjal:
Aukaverkefni: Stafsetning; upplestur eða sóknarskrift
Markmið, að:
  • þjálfa réttritun
Innlögn:

Kennari les upphátt fimm málsgreinar sem innihalda orð úr fyrri hluta heftisins. Nem-endur skrifa svo eitt orð úr málsgreininni í stílabókina sína.

Eða:

Kennari notar þessar fimm málsgreinar sem sóknarskrift. Hann hengir blað með málsgreinunum upp á vegg. Nemendur standa upp og lesa eina málsgrein í einu. Þeir leggja hana og ritun orðanna á minnið, setjast og skrifa málsgreinina í stílabók.

Fylgiskjal:

Sóknarskrift með verkefni 7.

Verkefni 8 - Miðjumat

Markmið, að:
  • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna úr fyrri hluta heftisins
  • veita kennara tækifæri til endurgjafar áður en lengra er haldið
Innlögn:

1) Nemendur tengja dagsetningu við réttan dag.

2) Nemendur búa til samsett orð sem byrja á jól-. Hér er verið að kanna hvort þeir muni eftir að bæta a á milli. Dæmi: jól+a+lag = jólalag.

3) Nemendur klára málsgreinarnar með því að velja orð úr orðabankanum sem passar við hverja sögn.

Lausn:
  • Að baka smákökur.
  • Að hlusta á jólalög.
  • Að borða jólamat.
  • Að horfa á jólamynd.
  • Að lesa bók.
  • Að skreyta jólatré.
Kennslugögn:

Ritföng.

Verkefni 9 - Lestur

Markmið, að:
  • auka orðaforða tengdum íslenskum jólahefðum
  • kynnast íslenskri hjátrú
  • læra hugtökin fyrsti og síðasti
  • lita eftir fyrirmælum
Innlögn:

1) Kennari les textann með nemendum, útskýrir orðin eftir þörfum og fer aftur yfir fylgiskjalið Orð og myndir 4. Hér bætast við tvö ný orð: fjall og hellir. Nemendur skrifa þessi orð inn á myndina.

2) Kennari gefur nemendum hlutverk Nam og Jóns og þeir lesa samtalið upphátt tveir og tveir saman.

3) Nemendur lita myndina eftir fyrirmælum frá kennara. Hér eru hugtökin fyrsti og síðasti lögð inn.

Fyrirmæli:

  • Litaðu buxur fyrsta jólasveinsins rauðar.
  • Litaðu peysu annars jólasveinsins græna.
  • Litaðu poka þriðja jólasveinsins brúnan.
  • Litaðu vesti fjórða jólasveinsins rautt.
  • Litaðu vettlinga fimmta jólasveinsins græna.
  • Litaðu skó síðasta jólasveinsins brúna.
  • Litaðu jólaköttinn svartan.
  • Litaðu pottinn hennar Grýlu svartan.
Kennslugögn:

Ritföng og litir.

Fylgiskjal:

Verkefni 10 - Þraut

Markmið, að:
  • kynnast íslensku jólasveinunum
  • læra raðtölurnar 1.-13.
Innlögn:

1) Kennari dreifir fylgiskjalinu Jólasveinaskífa. Nemendur klippa skífurnar út, gera fínlegt gat í miðju þeirra og festa saman með splitti. Nemendur skoða myndir og heiti jólasveinanna á skífunni. Við hvern jólasvein stendur raðtala með bókstöfum. Jólasveinaskífan er eigulegri, meðfærilegri og endist lengur ef hún er plöstuð.

2) Nemendur skoða myndirnar í verkefninu og finna út hvaða bókstafi vantar til að mynda heiti hvers jólasveins.

3) Með aðstoð kennara skrifa nemendur í hvaða röð jólasveinarnir koma til byggða. Raðtölurnarnar eru skráðar með bókstöfum í fyrsta dálkinn. Hér nýta nemendur Jólasveinaskífuna. Nemendur skrifa svo raðtölurnar 1.-13. með tölustöfum inn í hringina við jólasveinana.

Lausn:

1. Stekkjastaur, 2. Giljagaur, 3. Stúfur, 4. Þvörusleikir, 5. Pottaskefill, 6. Askasleikir, 7. Hurðaskellir, 8. Skyrgámur, 9. Bjúgnakrækir, 10. Gluggagægir, 11. Gáttaþefur, 12. Ketkrókur og 13. Kertasníkir

Kennslugögn:
  • Skæri, splitti og ritföng.
Fylgiskjal:
Aukaverkefni - Jólaveinatölfræði

Nemendur festa heiti jólasveinanna enn betur í minni með tölfræðiverkefni. Þeir nota neðri skífuna úr fylgiskjalinu Jólasveinaskífan og fá auk þess skjölin Jólatíðnitafla og Sveinasúlurit. Áður en tölfræðivinnan hefst skrifa nemendur nöfn jólasveinanna í tíðnitöfluna. Svo er blýantsoddi tyllt í gegnum bréfaklemmu á miðju skífunnar. Bréfaklemmunni er þeytt í 50 hringi og skráð hvar hún lendir. Niðurstaða er skráð sem talnastrik, tíðnin tekin saman og að lokum eru talnagögnin sett upp í súluritið.

Kennslugögn:

Bréfaklemma og ritföng.

Fylgiskjöl:

Verkefni 11 - Ritun

Markmið, að:
  • skrifa einfaldar málsgreinar
  • læra tíma tengingarnar fyrst, svo, síðan, næst og að lokum
Innlögn:

1) Kennari les texta með nemendum og fer yfir orðin í efni og áhöld. Orðin í efni má finna í fylgiskjalinu Orð og myndir 4. Orðin skæri og blýantur undir áhöld ættu nemendur að þekkja.

2) Nemendur skoða myndirnar og kennari leggur inn tímatengingarnar.

3) Með aðstoð kennara skrifa nemendur leiðbeiningar.

Lausn:
  • Fyrst: Klippa jólapappír.
  • Svo: Pakka gjöfinni inn í jólapappír.
  • Síðan: Líma með límbandi.
  • Næst: Klippa borða og binda utan um jólagjöfina.
  • Að lokum: Skrifa á merkimiða.
Aukaverkefni - Bókamerki

Nemendur klippa út merkimiða á fylgiskjalinu Jólasveinaskífa og æfa sig í að skrifa Til og Frá. Nemendur klippa einnig út bókamerkið sem kennari plastar inn.

Kennslugögn:

Ritföng og skæri.

Fylgiskjöl:

Verkefni 12 - Rökhugsun

Markmið, að:
  • beita rökhugsun við lausn verkefna
  • þjálfa lesskilning
  • læra í gegnum þrautir og leiki
Innlögn:

1) Kennari skoðar orðin tröll, jólasveinn og óvættur með nemendum. Hann útskýrir að þetta eru allt persónur úr íslenskum þjóðsögum.

2) Nemendur lesa fyrstu vísbendinguna um Leppalúða með aðstoð kennara. Þeir skrá upplýsingarnar um hann jafnóðum inn í reitina. Hringur táknar að upplýsingar séu réttar. Kross táknar að svarmöguleikinn eigi ekki við. Áður en farið er í næstu vísbendingu um Kertasníki eru upplýsingarnar um Leppalúða skráðar í töfluna fyrir neðan. Þetta er gert koll af kolli þar til búið er að fylla inn í báðar töflurnar. Mikilvægt er að setja alltaf krossana líka því þá útilokast smám saman aðrir möguleikar og rétt svör koma í ljós.

Lausn:3) Nemendur teikna og lita myndir af Leppalúða, Kertasníki, Jóni, jólakettinum og Kamillu.

Kennslugögn:

Ritföng og trélitir.

Verkefni 13 - Skilningur

Markmið, að:
  • geta lesið og skilið einfaldan texta
  • skrifa einfaldar málsgreinar
  • leggja inn hugtökin hnit og upphrópunarmerki
Innlögn:

1) Kennari les textann við fyrstu tvö erindin af laginu Jólasveinninn minn fyrir nemendur og spilar svo lagið. Eftirfarandi orð í laginu má finna í skjalinu Orð og myndir 4: jólasveinn, gjafir og jólalag.

2) Nemendur svara spurningunum úr textanum. Undirstrikuðu orðin í spurningunum eru orðin sem svarið á að byrja á.

Lausn:

  1. Í dag ætlar jólasveinninn að koma.
  2. Í pokanum eru gjafir.
  3. Jólasveinninn ætlar að segja sögur.
  4. Hann ætlar að syngja jólalag.
  5. Jólasveinninn kemur með jólin.

3) Kennari leggur inn hugtökin hnit og upphrópunarmerki. Nemendur finna út hvaða stafur á að vera við hvert hnit og fá þannig út íslenska kveðju.

Lausn:

Gleðileg jól!

Kennslugögn:

Ritföng

Fylgiskjal:

Verkefni 14 - Skilningur

Markmið, að:
  • læra andheitin mjúkur og harður
Innlögn:

1) Kennari leggur inn andheitin mjúkur og harður.

2) Nemendur skoða orðin í Orðabankanum. Öll orðin í orðabankanum hafa komið fyrir í fyrri heftum af Þetta reddast! Kennari getur því rifjað upp þau orð sem þarf.

3) Nemendur flokka hlutina í yfirflokkana mjúkur pakki og harður pakki.

Lausn: 

Kennslugögn:

Ritföng, skæri og lím.

Fylgiskjal:
  • Fylgiskjal 4:2 (sjá aftast í nemendahefti) 

Verkefni 15 - Málfræði

Markmið, að:
  • kunna hugtakið málsgrein
  • geta skrifað einfaldar málsgreinar
  • muna eftir stórum upphafsstaf og punkti
Innlögn:

1) Kennari rifjar upp texta í verkefni 9 með nemendum, útskýrir hugtakið málsgrein og fer yfir sýnidæmið.

2) Kennari fer yfir að málsgrein byrjar á stórum staf og endar á punkti. Hann skoðar með nemendum orð sem eru með stórum staf og orð sem enda á punkti. Þau gefa vísbendingar um hvernig málsgreinin byrjar og endar.

3) Nemendur skrifa orðin í réttri röð þannig að málsgreinarnar séu rétt uppbyggðar. Nemendur geta skoðað textann í verkefni 9 sér til aðstoðar.

Lausn:

  • Börn setja skó út í glugga.
  • Jólakötturinn er svartur köttur.
  • Foreldrar jólasveinanna eru tröll.
  • Mamma þeirra heitir Grýla.
  • Kertasníkir kemur á aðfangadag.
  • Íslenskir jólasveinar eru þrettán.
  • Pabbi þeirra heitir Leppalúði.
  • Jólasveinarnir setja gjöf í skóinn.
  • Fyrsti jólasveinninn kemur 12. desember.
  • Jólasveinarnir eiga heima í helli.
Kennslugögn:

Ritföng.

Aukaverkefni:

Stafsetning; upplestur eða sóknarskrift.

Markmið, að:
  • þjálfa réttritun
Innlögn:

Kennari les upphátt fimm málsgreinar þar sem orð úr heftinu koma fyrir. Nemendur skrifa svo eitt orð úr málsgreininni í stílabókina sína.

Eða:

Kennari notar þessar fimm málsgreinar sem sóknarskrift. Hann hengir blað með málsgreinunum upp á vegg. Nemendur standa upp og lesa eina málsgrein í einu. Þeir leggja hana og ritun orðanna á minnið, setjast og skrifa málsgreinina í stílabók.

Fylgiskjal:

Verkefni 16 - Lokamat

 Markmið, að:
  • gefa nemendum tækifæri til að sjá hvað þeir kunna eftir yfirferð heftisins
  • veita kennara tækifæri til endurgjafar
Innlögn:

1) Nemendur flokka hluti í mjúkt eða hart.
2) Nemendur skrifa raðtölurnar 1.-13. með bókstöfum.
3) Nemendur skrifa morgunrútínu í réttri röð með því að nota tímatengingar fyrst, svo, síðan, næst og að lokum.

Kennslugögn:

Ritföng.

Orðabanki

Í lok hvers námsefnispakka er Orðabanki, þ.e. gátlisti með 40 hugtökum sem áhersla hefur verið lögð á í heftinu. Þar haka nemendur í þau orð sem þeir telja sig hafa náð tökum á og þjálfa betur hin sem út af standa. Einnig skrá nemendur sagnorð sem þeir hafa lært, og önnur orð sem þeir hafa bætt við orðaforðann í yfirferðinni. Orðabankann má nýta með lokamati áður en næsta hefti er tekið fyrir.

Fánaveifur

Með heftinu fylgja 40 Fánaveifur með hugtökum og ljósmyndum. Þessi hugtök eru þau sömu og í Orðabanka námsefnisins, og í fylgiskjalinu Orð og myndir 4. Tilvalið er að hengja fánaveifurnar upp í stofunni meðan á yfirferð námsefnisins stendur.

Útgöngupassi

Kennari skrifar nöfn nemenda á miða og setur í krukku. Hann dregur miða í lok kennslustundar eða skóladags. Sá nemandi svarar spurningu úr námsefninu. Þegar nemandi svarar rétt má hann fara.

Hugmyndir:

Búðu til samsett orð:

  • jól og gjöf
  • jól og kúla
  • jól og tré
  • jól og stjarna
  • jól og köttur
  • jól og sveinn
  • jól og matur

Hvað heita jóladagarnir?

  • 23. desember
  • 24. desember
  • 25. desember
  • 26. desember

Andheiti:

  • Nefndu tvo hluti, einn mjúkan og einn harðan.

Raðtölur:

  • Hvaða raðtala kemur á eftir? Kennari nefnir eina raðtölu á milli 1.-13. og nemandi segir raðtöluna sem kemur á eftir.

Sagnorð, kennari nefnir sagnorð og nemendur botna með nafnorði:

  • Að baka (smákökur)
  • Að hlusta á (jólalag)
  • Að horfa á (jólamynd)
  • Að borða (jólamat)
  • Að lesa (bók)
  • Að skreyta (jólatré)

Comments are Closed