Kúkur, piss og prump – kennsluleiðbeiningar
- Version
- Download 0
- File Size 60.00 KB
- File Count 1
- Create Date 2. febrúar, 2025
- Last Updated 4. febrúar, 2025
Kúkur, piss og prump - kennsluleiðbeiningar
Bókaflokkurinn Vísindalæsi miðar að því að efla skilning barna á raun- og náttúruvísindum, efla þekkingu þeirra á samspili manns og náttúru, og búa þau undir líf og starf í nútímasamfélagi.
Í bókinni Kúkur, piss og prump fjallar Sævar Helgi Bragason m.a. um meltinguna, hlutverk hennar, sögu salernis, þróun klósettpappírsins og tækniframfarir tengdar klósettferðum í geimnum. Rýnt er í útlit, form, liti, lykt og áferð viðfangsefnisins og mörgum skemmtilegum fróðleiksmolum varpað fram.
Í heftinu sem fylgir bókinni má finna fjölbreytt verkefni unnin með hliðsjón af hæfniviðmiðum Aðalnámsskrár grunnskóla í vísindalæsi og náttúrugreinum, og leitast er við að samþætta yfirferðina eftir atvikum við valin hæfniviðmið í íslensku.
Í kennsluleiðbeiningum eru umræðupunktar, fjölbreyttu aukaverkefnum og ábendingar um kveikjur og ítarefni á vef.
Verkefnin Saga klósettsins, Kúkað í geimnum og Allt sem þig langaði að vita um prump! eru tilvalin námsmatsverkefni í lesskilningi og stafsetningu.
Umræður áður en lestur bókarinnar hefst
- Hvað haldið þið að bókin fjalli um og hvað gefur okkur vísbendingar um innihaldið?
- Hvað segir titillinn?
- Hvert er myndefnið á bókarkápunni?
- Hvað gefur efnisyfirlitið til kynna?
Kveikja
Viðtal við höfundinn Sævar Helga Bragason.
___________________________________________
1. Verkefni: Kúkur og klósett
Nemendur lesa kaflann Formáli, bls. 5-10, þar sem ýmis hugtök koma fyrir. Börnin skoða nokkur þeirra og tengja við rétta orðskýringu.
Lausn
- Úrgangur - Lykilatriði í hringrás vatns og efna í náttúrunni.
- Tyggjandi - Vöðvi í kjálkanum. Sterkasti vöðvinn í líkamanum.
- Smáþarmar - Nokkurra metra langt, pulsulaga líffæri. Hluti af meltingarvegi.
- Magi - Blandari sem tætir fæðuna í sundur og hnoðar og maukar.
- Gubb - Matur sem ferðast aftur upp vélinda vegna neyðartilviks.
- Bakteríur - Örlitlar lífverur sem brjóta niður matinn sem við borðum.
- Garnagaul - Hljóð frá þörmum. Myndast þegar mat er ýtt um meltingarveg.
- Að tefla við páfann - Orðatiltæki notað yfir það að losa sig við kúk.
Umræður
- Hvað þýðir hugtakið formáli? -Nokkurs konar upphafsorð eða inngangur sem kynnir okkur fyrir því sem á eftir kemur, sést oft á fyrstu síðum bóka.
- Hvað gerist ef við getum ekki losað okkur við úrgangsefni? -Þegar við kúkum, pissum, prumpum, svitnum og jafnvel öndum erum við að losa okkur við efni sem ekki er gott að safnist fyrir í líkamanum okkar. Ef við náum ekki að losa okkur við úrgangsefnin safnast þau upp og geta valdið lífshættulegu ástandi.
- Hvað þýðir máltækið: Það er enginn synd þó búkur leysi vind? -Það á enginn að skammast sín fyrir að þurfa að prumpa.
- Hvað þekkið þið mörg orð yfir heiti á kúk, bæði manna- og dýrakúk? -Fugladrit, kúadella, hrossatað, kindasparð, kattaskítur, hundakúkur, mykja, saur, köggull, drulla, della, …
Aukaverkefni: Málshættir og orðatiltæki, upplýsingaleit og orðaskjóður á vegg
Kennari greinir nemendum frá því að við eigum ótrúlega marga málshætti og orðatiltæki sem tengjast kúki, pissi og prumpi. Nemendur vinna í 2-3 barna hópum og leita að dæmum á netinu eða í uppflettibókum. Börnin skrifa málshættina og orðatiltækni á litla renninga og líma í stórar orðaskjóður sem kennari útbýr úr maskínupappír og hengir upp í skólastofunni. Í lok vinnunnar fer kennari yfir safnið með nemendum og finnur með þeim hvað þau þýða.
Dæmi um málshætti:
- Ekki er allur munur á kúk og skít.
- Það er lítill munur á kúk og skít.
- Það er skammvinn skemmtun að pissa í skóinn sinn.
- Þegar ein kýrin pissar, er annarri mál.
Dæmi um orðatiltæki:
- Að tefla við páfann.
- Að skíta upp á bak.
- Að pissa upp í vindinn.
- Að pissa í skóinn sinn.
Umræður
- Hvað þýða allir þessir málshættir og orðatiltæki?
- Hvaða fleiri málshætti þekkið þið?
- Hvaða fleiri orðatiltæki þekkið þið?
Ítarefni
- Vísindavefurinn: Hvaðan kemur orðið kúkur inn í íslenskt mál?
- Vísindavefurinn: Hver er uppruni orðsins della, samanber kúadella?
- Vísindavefurinn: Að kosta kúk og kanil, hvaðan kemur það?
- Tilvitnun.is: Málshættir og orðatiltæk
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Kennsluhættir, að nemandi fái
- tækifæri til að byggja upp orðaforða sinn í greininni.
Íslenska: Lestur og bókmenntir, að nemandi geti
- nýtt góðan orðaforða við að skilja texta og ráðið í merkingu orðs út frá samhengi,
- aflað sér upplýsinga úr ýmsum tiltækum gagnabrunnum, s.s. bókum og á rafrænu formi.
___________________________________________
2. Verkefni: Meltingarsúpan
Nemendur lesa Formála, bls. 5-9, og kaflann Kúkur, bls. 10-21 sem fjalla m.a. um meltingarkerfið. Börnin skoða vel skýringarmyndina á bls. 12 og skrifa inn orðin sem vantar. Næst finna þau þessi sömu orð í orðasúpunni sem falin eru ýmist fram, aftur, upp, niður eða á ská.
Lausn
Aukaverkefni: Einkenni nafnorðavinna, stílabókarvinna
Kennari leggur inn að orðin í orðasúpunni eru öll nafnorð og fer yfir einkenni nafnorða, sjá nánar um einkenni nafnorða í aukaverkefninu Stafrófstöflur í stílabók hér neðar. Í kjölfarið vinna nemendur fjölbreytta vinnu í stílabók:
- flokka orðin eftir kyni,
- skrifa orðin í eintölu og fleirtölu,
- fallbeygja orðin,
- bæta greini við orðin.
Aukaverkefni: Orðskýringar, stílabókarvinna
Nemendur gera lista með týndu orðunum í stílabók. Í fyrstu skrá þau orðin og leita svo að upplýsingum um þau í kaflanum. Ekki koma nákvæmar orðskýringar við öll orðin fram í texta bókarinnar.* Kennari getur unnið verkefnið upp á töflu eða hvatt börnin til sjálfstæðrar þekkingarleitar í bókum um mannslíkamann eða á netinu. Gott er að vinna með orðin í sömu röð og þau koma fyrir í meltingarveginum.
Lausn
- Munnur: Hér hefst ferðalag næringarinnar í líkamanum um leið og þú stingur mat upp í þig.
- Munnvatnskirtlar: Framleiða munnvatn sem undirbýr matinn fyrir meltinguna.
- Vélinda: 25 sentimetra slöng slanga sem liggur frá munni að maga.
- Þrengir: Tveir hringlaga vöðvar í vélinda sem ýta fæðunni niður í maga.
- Magi: Blandari sem tætir fæðuna í sundur og býr til næringarmauk úr henni.
- Lifur: Býr til gallrauða, efni sem gefur kúknum brúnan lit.
- Gallblaðra: Geymir auka gall frá lifrinni og losar inn í meltingarveginn ef þarf, t.d. ef manneskja þarf að melta mikla fitu.*
- Bris: Framleiðir meltingarsafa (ensím) sem hjálpar til við að melta stórar fæðusameindir.*
- Smáþarmar: Nokkurra metra langt líffæri sem mauka og vinna næringarefni úr fæðunni. Þeir hafa milljónir af þarmatotum.
- Þarmatotur: Eru innan í smáþörmum. Þær taka næringuna úr fæðunni og hjálpa henni við að komast inn í blóðrásina þaðan sem hún berst um allan líkamann.
- Botnlangi: Lítil tota þar sem smáþarmar og stórgirni mætast en ekki er vitað mikið um tilgang hans.*
- Stórgirni: Tekur við maukinu frá smáþörmunum sem nefnist nú frumkúkur. Í stórgirni hnoðast kúkurinn og færist í átt að endaþarminum.
- Endaþarmur: Hér bíður kúkur og prump eftir að komast út.
- Endaþarmsop: Opið þar sem við losum okkur við úrgangsefni. Hringvöðvar sjá um að opna og loka endaþarmsopinu eftir þörfum.
Umræður
- Hvernig losar líkaminn sig við mat sem hann vill ekki sjá? -Hann framleiðir uppköst þar sem við ælum fæðunni aftur upp um vélindað og út um munninn.
- Hvað gæti valdið því að líkaminn vilji losa sig við magainnihaldið? -Það gæti verið vegna fæðuofnæmis, matareitrunar, matarsýkingar, aukaverkunar vegna lyfjainntöku, mígreniskasta, bakflæðis, höfuðáverka og eins geta uppköst tengst bílveiki og sjóveiki. Algegnt er að barnshafandi konur kasti upp á meðgöngu.
- Hvað er matareitrun? -Þá hafa ákveðnir sýklar í matnum (klasasýklar og perfringensgerlar) fjölgað sér mikið og myndað eiturefni. Matareitrun fylgir bæði uppköst og niðurgangur en líka kviðverkir.
- Hvað er matarsýking? -Þá hafa ákveðnir sýklar eins og salmonella og nóróveirur komist í matinn en þær valda sýkingu í smágirninu og því fylgja kviðverkir, ógleði, uppköst og niðurgangur, sumir fá líka hita og hroll, höfuðverk, vöðvaverki og þjást af þreytu.
- Er hægt að koma í veg fyrir matareitrun og matarsýkingu? -Já, með því að geyma og elda matvæli rétt, þvo hendurnar vel eftir salernisferðir og spritta þær. Einnig er mikilvægt að þvo hendurnar áður en byrjað að útbúa mat.
Aukaverkefni: Týndu bókmenntahugtökin, stílabókarvinna
Í orðasúpunni eru nokkur bókmenntahugtök falin innan um hugtök úr efni kaflans. Kennari vinnur verkefnið með nemendum og gefur þeim í upphafi 10-15 mínútur til að finna þessi týndu orð og draga hring í kringum þau t.d. með rauðum lit. Í framhaldinu gefur hann orðin upp með því að undirstrika þau um leið og hann ritar spurningarnar upp á töflu. Verkefni nemenda er að svara töfluspurningunum með heilum málsgreinum og byrja á undirstrikaða orðinu. Kennari minnir börnin á að málsgreinar hefjast alltaf á stórum upphafsstaf og endar á punkti:
- Hver er titill bókarinnar? -Titill bókarinnar er Kúkur, piss og prump.
- Hver er höfundur bókarinnar? -Höfundur bókarinnar er Sævar Helgi Bragason.
- Hver er myndhöfundur? -Myndhöfundur er Elías Rúni.
- Hvað er efnisyfirlit? -Efnisyfirlit sýnir okkur hvernig bók skiptist í kafla og er fremst í bókum.
- Hvað er kafli? -Kafli er einn þáttur bókarinnar sem fjallar um ákveðið viðfangsefni.
- Til hvers er gott að hafa blaðsíðutal? -Blaðsíðutal hjálpar okkur að leita að upplýsingum, t.d. finna hvar ákveðnir kaflar eru.
- Hvað er saurblað? -Saurblað nefnist fyrsta og síðasta blaðsíðan í bókum
- Hvaða hlutverki gegnir bókarkápa? -Bókarkápa ver blaðsíðurnar í bókinni og á henni eru gagnlegar upplýsingar um efni hennar, höfunda, bókaútgefanda og fleira.
- Hvað er kjölur og hvaða upplýsingar standa þar? -Kjölur er sá hluti bókar þar sem arkir eru saumaðar saman og tengir spjöldin, einnig nefnt bókarkjölur. Þar eru upplýsingar um titil bókarinnar og höfund hennar sem dæmi.
- Hvað er bókaflokkur? -Bókaflokkur er notað yfir bækur sem fjalla um sama heim, viðfangsefni eða sögupersónur. Þessi bókaflokkur heitir Vísindalæsi.
- Hvað er bókaútgáfa? -Bókaútgáfa er fyrirtæki sem gefur bækur út. JPV útgáfa gaf þessa bók út.
- Hvert er útgáfuár þessarar bókar? -Útgáfuár bókarinnar er árið 2024.
- Hvað þýðir orðið umbrot? -Umbrot kallast það þegar bækur eru settar upp í tölvu.
- Hvaða fyrirtæki sá um prentun bókarinnar? -Prentun bókarinnar annaðist fyrirtækið Palto Print í Litháen.
- Hvað er átt við með orðinu útgáfustaður? -Útgáfustaður er bærin eða borgin þar sem bókin er gefin út. Þessi bók var gefin út í Reykjavík.
Ítarefni
- Heilsuvera: Ógleði - uppköst
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Kennsluhættir, að nemandi fái
- tækifæri til að byggja upp orðaforða sinn í greininni,
- tækifæri til að þjálfast í vinnu með nýjan orðaforða.
Náttúrugreinar: Lífsskilyrði manna, að nemandi geti
- útskýrt á einfaldan hátt byggingu og starfsemi líkamans,
- bent á skaðleg efni og hvernig ýmsir sjúkdómar og sýklar eru smitandi.
Náttúrugreinar: Vinnubrögð og færni, að nemandi geti
- notað ólíkar heimildir við öflun upplýsinga.
Íslenska: Lestur og bókmenntir, að nemandi geti
- nýtt góðan orðaforða við að skilja texta og ráðið í merkingu orðs út frá samhengi,
- lesið úr táknmyndum og myndrænu efni, s.s. einföldum skýringarmyndum, kortum og myndritum.
Íslenska: Málfræði, að nemandi geti
- gert sér grein fyrir mismunandi hlutverki nafnorða, lýsingarorða og sagnorða.
___________________________________________
3. Verkefni: Stafrófið af lýsingarorðum
Nemendur nota bókina Kúkur, piss og prump til að safna lýsingarorðum í stafrófstöflu og leika sér jafnvel að því að búa til samsett orð tengt innihaldi hennar (pissugult, hlandvolgt, kúkabrúnt, …). Kennari rifjar upp hlutverk og einkenni lýsingarorða áður en vinnan hefst, greinir nemendum frá því að þau:
- lýsa hlutum, verum og öðrum fyrirbrigðum,
- finnast í karlkyni, hvorugkyni og kvenkyni,
- fallbeygjast með nafnorðinu sem þau standa með:
- hér er gulur kúkur, um gulan kúk, frá gulum kúk, …
- stigbreytast eftir kynum í frumstig, miðstig og efsta stig.
- gult, gulara, gulast,
- finnast í eintölu og fleirtölu: gulur, gulir,
- hafa stofn sem finnst með því að nota hjálparorðin hún er, dæmi:
- gulur, stofn: hún er gul,
- eru skammstöfuð lo.
Ef nemendur ná ekki að fylla upp í allt stafrófið með innihaldi bókarinnar er tilvalið að leyfa hugmyndafluginu að ráða og finna orð sem tengjast viðfangsefninu á einhvern hátt eða skoða fleiri bækur í bókaflokknum Vísindalæsi eftir Sævar Helga Bragason. Þær eru nú orðnar fimm talsins og tilvalið að kynna þær fyrir nemendum:
- Sólkerfið: Eitt og annað um himingeiminn. Höfundur les brot úr fyrsta kaflanum.
- Umhverfið: Skemmtileg léttlestrarbók um umhverfismál.
- Úps: Fróðleg mistök sem breytti heiminum.
- Hamfarir: Frá upphafi hefur Jörðin gengið í gegnum hryllilegar hamfarir. Höfundur kynnir bókina sína.
- Kúkur, piss og prump: Lykilhlutverk ýmissa hringrása í náttúrunni. Höfundur kynnir bókina sína.
Nemendur rifja upp innihald kaflans og svara spurningunni um hlutverk vatns í líkamanum. Kennari hvetur börnin til að leita að svarinu áður en hann les það upp eða skráir upp á töflu.
Lausn
Vatn hjálpar blóðinu að flytja súrefni til frumna líkamans, leysir upp vítamín og næringarefni í fæðunni, smyr liðina og hjálpa til við að skola óhreinindum út úr líkamanum þegar við pissum.
Umræður
- Hvaða bókstafir standa aldrei fremst í íslenskum orðum? -Bókstafurinn ð er aldrei fremst í íslensku orð og einnig litlu bókstafirnir c, z, q, w og x.
- Ertu undantekningar frá því? -Já, sum mannanöfn, sérnöfn, byrja á C, Q, X, W eða Z sem dæmi.
- Hvers vegna er nauðsynlegt að kunna stafrófið? -Við nýtum þá kunnáttu á marga mismandi vegu, dæmi:
- flettum upp atriðaorðaskrám í vísindabókum,
- flettum upp stöðum og staðarheitum í kortabókum,
- flettum upp heimilisföngum og símanúmerum í símaskrám,
- flettum upp merkingu orða í orðabókum,
- röðum fólki á nafnalista t.d. bekkjarlista.
Aukaverkefni: Stafrófstöflur, stílabókarvinna
Nemendur gera tvær samskonar stafrófstöflur í stílabók og safna í þær nafnorðum annars vegar og sagnorðum hins vegar. Kennari fer yfir einkenni þessara orðaflokka á sama hátt og hér að ofan.
Nafnorð eru orð sem notuð eru yfir einstaklinga, staði, atburði og hugmyndir og flokkast í sérnöfn sem byrja á stórum staf og samnöfn sem byrja á litlum staf. Þau:
- finnast í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni: hann kúkur, hún æla og það piss,
- hjálparorð: hann/minn, hún/mín, það/mitt,
- finnast í eintölu og fleirtölu: einn kúkur, margir kúkar,
- bæta við sig greini: kúkurinn, ælan, pissið, …
- fallbeygjast: hér er æla, um ælu, frá ælu, til ælu,
- eru skammstöfuð no.
Sagnorð lýsa því sem gerðist eða hefur gerst, þau
- finnast í nútíð og þátíð: ég sef, ég svaf,
- finnast í nafnhætti: að sofa,
- breytast eftir persónufornafni sem þau standa með: ég sef, þú sefur, þau sofa, ég svaf, þú svafst, þau sváfu,
- finnast í eintölu og fleirtölu: ég sef, við sofum,
- eru skammstöfuð so.
Ítarefni
- Vísindavefurinn: Hver fann upp stafrófið?
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Kennsluhættir, að nemandi fái
- tækifæri til að byggja upp orðaforða sinn í greininni,
- tækifæri til að þjálfast í vinnu með nýjan orðaforða.
Íslenska: Málfræði, að nemandi geti
- nýtt orðaforða sinn til að skapa ný orð og orðasambönd og notað þau í texta,
- raðað í stafrófsröð og gert sér grein fyrir notagildi þess við leit og skipulag,
- gert sér grein fyrir mismunandi hlutverki nafnorða, lýsingarorða og sagnorða,
- leikið sér með orð og merkingu, s.s. með því að ríma og fara í orðaleiki.
Íslenska: Ritun, lestur og bókmenntir, að nemandi geti
- nýtt góðan orðaforða við að skilja texta og ráðið í merkingu orðs út frá samhengi.
___________________________________________
4. Verkefni: Litapissuprufur
Nemendur skoða töflu á netinu sem sýnir mismunandi litaafbrigði þvags, sjá mynd í ítarefni. Kennari útskýrir tákn litanna lauslega:
- 1-2: Mjög ljóst og lyktarlaust þvag: Þú ert að drekka passlega mikið.
- 3-4: Ljósgult til gult þvag: Þú gætir verið á mörkum þess að drekka nóg. Gættu þess að gleyma ekki vatninu og fáðu þér t.d. eitt glas nú þegar.
- 5-6: Dökkgult eða karrýlitað þvag: Þú þjáist af vökvaskorti. Nú þarftu að drekka meira og helst 2-3 glös strax.
- 7-8: Ljósbrúnt eða sýrópsgult þvag: Þú ert með mikinn vökvaskort og mögulega er líka vond lykt af pissinu. Nú þarftu að drekka strax og helst flösku af vatni.
Í kjölfarið lita nemendur reitina efst á verkefnablaðinu samkvæmt fyrirmælum. Í kaflanum Dýrapiss, bls. 52-61, er greint frá því að spendýr sem eru 1 kg eða þyngri séu um 20 sekúndur að losa þvagblöðruna. Nemendur lesa dæmi sem tekin eru af manneskju af handahófi og fylla jafnóðum inn í pissutöfluna. Loks reikna börnin út hversu langan tíma viðkomandi manneskja hefur eytt í að kasta af sér þvagi þessa viku.
Lausn
Manneskjan pissar mismunandi oft eftir dögum:
- mánudagur: 6x20= 120 sekúndur
- þriðjudagur: 4x20= 80 sekúndur
- miðvikudagur: 8x20 = 160 sekúndur
- fimmtudagur: 7x20 = 140 sekúndur
- föstudagur: 6x20 = 120 sekúndur
- laugardagur: 6x20 = 120 sekúndur
- sunnudagur: 10x20 = 200 sekúndur
Samanlagt eru þetta 940 sekúndur eða 15:40 mínútur (15 mínútur og 40 sekúndur).
Umræður
- Hvað getur haft áhrif á lit þvags annað en vökvainntaka? -T.d. sýkingar, blóð í þvagi, B-vítamín gerir það skærgult, rauðrófur gera það rauðleitt,
- Á verkefninu kemur fram að við pissum að meðaltali 6x á sólarhring. Hvaða dag pissar þessi manneskja oftast og hvað gæti hafa valdið því? -Hún pissar oftast á sunnudögum, eða 10 sinnum. Líklega er hún að drekka svolítið mikið af vökva þennan dag og mögulega kvöldið áður.
- En ef hún hefur ekki verið að drekka mikið en þarf samt að fara svona oft á klósettið? -Stundum gerist það að við fáum þvagfærasýkingu, þá þurfum við að fara oftar að pissa en pissum minna í einu, því getur líka fylgt sviði og þvagið getur lyktað illa.
- Í kaflanum kemur fram að manneskja pissar 1,5 lítrum á sólarhring að meðaltali. Hvað pissar þessi manneskja mörgum lítrum yfir vikuna? -7x1,5 = 10,5 lítrum.
- Hvaða dag pissar manneskjan sjaldnast og hvað merkir það? -Á þriðjudeginum og líklega er hún ekki að drekka nóg.
- Hvernig er líklegt að þvagið hennar sé á litið þennan dag? -Það er líklega í dekkri kantinum.
Aukaverkefni: Kortlagt hundapiss, stílabókarvinna
Í kaflanum Dýrapiss, bls. 52-61, er komið inn á margvíslega gagnsemi piss hjá hinum mismunandi dýrategundum. Þar er m.a. komið inn á það að hundar þefa af pissi til að finna út aldur, kyn, matarræði og heilsufar annarra hunda. Nemendur nota þessar upplýsingar og fleiri sem þeir finna á netinu eða í dýrabókum til að búa til hugtakakort yfir þefnæmi hunda. Þau skrifa fyrirsögnina Þefskyn hunda efst á stílabókarblaðið og gera hring á miðju þess. Inn í hringinn teikna þau hund. Næst teikna þau fjóra gula hringi í kringum hundinn og skrifa stikkorðin aldur, kyn, matarræði og heilsufar inn í hringina. Út frá þessum fjórum hringjum draga þau línur með ýmsum hugtökum sem þeim dettur í hug og tengjast undirflokkunum:
- Aldur: hvolpur, gamall hundur, ...
- Kyn: tík, rakki, ...
- Matarræði: bein, fóður, hundanammi, heimilismatur, ...
- Heilsufar: hraustur, veikur, eyrnasýking, þvagfærasýking, krabbamein, hvolpafull tík, ...
Fleiri viðfangsefni efni sem bæta má við með hringjum í öðrum litum:
- Skynfæri: lykt, heyrn, sjón, snerting, ...
- Tegund: íslenskur fjárhundur, labrador, sheffer, púðli, ...
- Útlit: fjórfættur, loðinn, með rófu, með trýni, loppur, ...
- Þyngd: mismunandi eftir tegundum, nemendur skrá hér bæði tegund og þyngd.
- Afkvæmi: hvolpur
- Hljóð: gelt, urr, spangól, væl, gjamm, ýlfur, ...
- Nytjar: veiðihundur, gæludýr, sporhundur, leitarhundur, blindrahundur, lestarvinur, sprengileitarhundur, heimsóknarvinur, veiðihundur, ...
Umræður
- Af hverju er fiska- og hvalahlandi líkt við fljótandi gull? -Það inniheldur svo mikið af næringarefnum sem þaraskógar, fenjasvæði, kóralrif og þörungar hafsins þarfnast.
- Hver er mesti hlandframleiðandi Jarðar? -Steypreyðurinn, hann pissar einu tonni á dag.
- Hvernig þekkja höfrungar vini sína í sundur? -Með því að synda inn í pissið þeirra og smakka á því.
Ítarefni
- NSW Health: Urine Colour Chart
- Vísindavefurinn: Hvað stjórnar litum á þvagi og hægðum fólks?
Hæfniviðmið
Kennsluhættir í náttúrufræði, að nemandi fái
- tækifæri til að afla upplýsinga og vinna með þær.
Íslenska: Lestur og bókmenntir, að nemandi geti
- lesið úr táknmyndum og myndrænu efni, s.s. einföldum skýringarmyndum, kortum og myndritum.
Stærðfræði: Tölur og reikningur, að nemandi geti
- skráð fjölda og reiknað með náttúrulegum tölum [...] og skráð svör sín með tugakerfisrithætti,
- notað tugakerfisrithátt,
- leyst viðfangsefni sem sprottin eru úr daglegu lífi og umhverfi, með hugarreikningi, vasareikni, tölvuforritum og skriflegum útreikningum.
Stærðfræði: Rúmfræði og mælingar, að nemandi geti
- unnið með mælikvarða og lögun.
___________________________________________
5. Verkefni: Pissurannsóknin
Nemendur rita síðustu tvær línur vísunnar á línurnar.
Lausn
Ef að þér er mikið mál, þá pissar þú bara í skóna.
Börnin gera nú rannsókn á eigin pissustandi yfir vikutíma sem felst í því að:
- skrá fjölda skipta sem þau pissa þessa sjö daga,
- fylgjast með lit þvags í hvert sinn sem pissað er með því að lita reiti rannsóknargagnsins í samskonar litum.
Að viku lokinni draga nemendur niðurstöðurnar saman og svara nokkrum spurningum. Í kjölfarið meta þau litakortið sem leit dagsins ljós við rannsóknina, bera saman við litapissuprufurnar sem þau unnu í verkefninu Litapissuprufurnar og meta hvort niðurstaðan gefi tilefni til þess að bæta vatnsbúskapinn.
Hæfniviðmið
Kennsluhættir í náttúrufræði, að nemandi geti
- aflað gagna,
- tjáð sig um niðurstöður,
- sett niðurstöður fram á ýmsan hátt m.a. myndrænan,
- miðlað niðurstöðum á margvíslegan hátt,
- tengt viðfangsefni við daglegt líf sitt.
___________________________________________
6. Verkefni: Kúkataflan
Kennari rifjar upp staðreynd sem varpað er fram í upphafi kaflans Kúkur, bls. 11. Þar kemur fram að að börn losi sig við 100 kg af saur á ári, og fullorðnir 145 kg. Þessar upplýsingar eru settar í samhengi við grunnskólagöngu þeirra sem þar sem nokkur dæmi eru skoðuð.
Nemendur klára að fylla inn í töfluna áður en útreikningar hefjast og tilvalið að leyfa þeim að spreyta sig með vasareikna.
Lausn
- Einn kennari og fimm nemendur: 500 kg + 725 kg = 1225 af kúk árlega.
- Tugur nemanda: Eitt tonn af kúk á ári eða 1000 kg.
- Fjölskyldulosunin: Hér þurfa nemendur að skoða sínar fjölskyldueiningar og reikna hver fyrir sig á rissblöðum áður en niðurstaðan er skráð á verkefnablaðið.
Í lokin svara börnin spurningu um útlit hins fullkomna kúks sem kemur fram í texta og teikna skýringarmynd við.
Lausn
- Brúnn, sléttur og pylsulaga kúkur er besti kúkurinn. Hann er merki þess að þú borðir hollan mat með trefjum og drekkir nóg vatn.
Umræður
- Hvað er kúkur? -Efnin sem eftir eru þegar líkaminn er búinn að ná mestu af næringarefnunum og vatninu úr fæðunni.
- Hvers konar kúkur er barnabik? -Fyrsti kúkurinn sem barn kúkar eftir fæðingu, þetta er dökkgrænn eða svartur og tjörulegur kúkur.
- Vísindamenn segja að við séum bara 12 sekúndur að kúka! Hvað gætum við vísindalega séð kúkað oft á mínútu? -60sek/12sek = 5 sinnum.
- Hvers vegna er mikilvægt að borða næringarríkan mat? -Líkaminn þarf prótein fyrir vöðva, kalk fyrir bein og fitu fyrir heilann sem dæmi.
- Hvað bendir til þess að við séum ekki að drekka nóg? -Þvagið verður dökkt og það kemur jafnvel stert lykt af því.
- Hvers vegna er mikilvægt að þvo hendur eftir klósettferðir? -Í kúk eru bæði áburðarefni og mikið magn örvera og sýkla. Góður handþvottur minnkar líkurnar á því að fólk smitist og veikist af völdum nóróveira og saurgerla.
Aukaverkefni: Hringrás kúksins, veggspjaldagerð
Nemendur skoða hringrás kúksins á bls. 21 og vinna að klippimyndaverkefni í 2-3 barna hópum. Verkefnið er unnið á A3 karton til að hengja upp í skólastofunni, eða í og við fjölmörg salerni skólans. Hér er tilvalið að endurvinna pappírsafganga og vinna með tímarit, afskrifaðar bækur og jafnvel afganga úr textílmennt.
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Lífsskilyrði manna, að nemandi geti
- útskýrt á einfaldan hátt byggingu og starfsemi líkamans,
- útskýrt mikilvægi hreyfingar, hreinlætis, hollrar fæðu og svefns,
- bent á skaðleg efni og hvernig ýmsir sjúkdómar og sýklar eru smitandi.
___________________________________________
7. Verkefni: Bristol kúkamatið
Nemendur lesa kaflann Kúkur, bls. 11-21. Á blaðsíðu 19 má sjá mynd af Bristol saurmatinu sem vitnað er í í textanum. Nemendur hafa þegar lýst eðlilegum hægðum í verkefninu á undan en skoða nú hinar gerðirnar sex og teikna skýringarmyndir af þeim. Meðan á vinnu nemenda stendur er tilvalið að finna mynd af saurmatinu og varpa upp á töflu, sjá slóð í ítarefni.
Umræður
- Hvað er Bristol kúkamat? -Tafla sem var útbúin árið 1997 sem flokkar kúk í sjö flokka eftir útliti, formi og áferð.
- Hver notar svona saurmat eiginlega? -Það er notað af heilbrigðisstarfsfólki til að fylgjast með heilsufari og/eða matarræði fólks í gegnum hægðirnar þeirra. Þetta er því nokkurs nokkar matstæki eða verkfæri til að mæla heilsu og lifnaðarhætti. Allt fólk getur nýtt sér þetta matstæki.
- Hvers vegna er mikilvægt að fylgjast með hægðunum sínum? -Þær geta gefið okkur vísbendingar um sjúkdóma í meltingarkerfinu.
- Hvaða kúkagerðir eru innan eðlilegra marka miðað við Bristol kúkamatið? Gerðir nr. 3 og 4.
- Hvað er að gerast ef barn kúkar oftast gerð nr. 1 eða 2? -Þá er það líklegas með mikið harðlífi og mögulega er ristillinn að stíflast. Hann vinnur ekki eðlilega og barnið finnur kannski fyrir verkjum og getur fengið ristilkrampa eða ristilbólgur. Kannski þarf það að borða meiri trefjar, drekka meira vatn og hreyfa sig meira. Stundum geta lyf valdið harðlífi en alltaf þarf að láta fullorðinn vita af svona ástandi.
- Hvað er að gerast ef barn kúkar oftast gerð nr. 6 eða 7? -Það getur alltaf gerst að hægðirnar breytist lítillega og tengist þá mögulega einhverju sem við höfum borðað eða lyfjum sem við erum að taka. Ef niðurgangur varir í langan tíma getum við tapað mikilvægum næringarefnum úr líkamanum. Ástæðan getur verið sýking í meltingarfærunum, fæðuofnæmi eða sjúkdómur. Ef börn fá oft niðurgang er mikilvægt að þau láti fullorðið fólk vita.
Aukaverkefni: Leirkúkasýni
Nemendur búa til sjö mismunandi kúkasýni úr trölladeigi og styðjast við upplýsingarnar á verkefnablaðinu eða leita sér að ítarlegri upplýsingum á netinu. Þegar trölladeigið hefur þornað má lita það í réttum litum og stilla upp til sýnis. Nemendur skrifa lítil stikkorð, samantekt eða skýringar við hverja kúkagerð og stilla upp með sýninum. Börnin geta stuðst við lýsingarnar á verkefnablaðinu.
Ítarefni
- Continence Foundation of Australia: Bristol Stool Chart
Hæfniviðmið
Hæfniviðmið í list- og verkgreinum: Sjónlistir, að nemandi geti
- skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum.
Náttúrugreinar: Gildi og hlutverk vísinda, að nemandi geti
- í máli og myndum miðlað hugmyndum sem tengjast náttúruvísinum.
___________________________________________
8. Verkefni: Saga klósettsins
Nemendur lesa kaflann Klósett, bls. 30-39, þar sem farið er yfir sögu klósettsins. Verkefnið er hugsað sem ritunar- og hlustunaræfing svo að lestri loknum leggja börnin bókina frá sér og skrifa svörin eftir upplestur kennara. Tilvalið er að nota verkefnið sem námsmat í stafsetningu.
- Lengst af pissaði og kúkaði fólk úti í náttúrunni.
- Fólk kúkaði og pissaði í potta og tæmdi þá út á akrana.
- Fyrir 2000 árum kúkuðu Rómverjar í gegnum göt á marmarabekkjum.
- Árið 1596 fékk Elísabet I. Bretadrottning fyrsta vatnsklósettið þar sem hægt var að sturta niður.
- Fyrstu nútímaklósettin voru úr málmi en í dag eru þau úr glansandi fínu postulíni.
- Í dag er meira að segja hægt að kúka og pissa úti í geimnum!
Umræður
- Í bókinni lesum við um margvíslega tækni sem felst í því að koma kúk og piss aftur út í hringrás umhverfisins. Hvaða áhrif hefur klósetttæknin haft á
- a) líf okkar?
- b) umhverfi okkar?
- Hvernig myndi líf þitt breytast ef ríkisstjórn Ísland ákveður að spara hressilega og loka öllum skólplögnum frá húsinu þínu?
- Hvað er útikamar og hvernig virkar hann?
Aukaverkefni: Ritun og orðaforði, stílabókarvinna
Hvernig hefur eftirfarandi tækni og uppfinningar haft áhrif á líf mannkyns til hins betra?Nemendur velta þessum lista fyrir sér og skrifa málsgreinar sem innihalda eftirfarandi hugtök. Kennari minnir á að málsgreinar byrja alltaf á stórum staf og enda á punkti.
- Pípulagnir
- Klósett
- Vaskur
- Klósettbursti
- Klósettpappír
- Baðkar
- Sturta
- Sturtuhaus
- Vatnslás
- Handsápa
Ítarefni
- Vísindavefurinn: Hver fann upp vatnsklósettið? Hvenær og hvar var það?
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Geta til aðgerða, að nemandi geti
- útskýrt hvernig tækni hefur áhrif á lífsgæði íbúa og umhverfi þeirra.
Náttúrugreinar: Gildi og hlutverk vísinda og tækni, að nemandi geti
- útskýrt hvernig tækni nýtist í daglegu lífi þeirra.
___________________________________________
9. Verkefni: Fyrsti klósettpappírinn
Nemendur lesa um þróun klósettpappírsins í kaflann Klósett, bls. 30-39. Í textanum er m.a. greint frá þeim leiðum sem mannkynið hefur farið við að þrífa sig eftir útskilnað á kúki og pissi, allt frá því að nota ullarafganga og keramikbrot til nútímalegri aðferða. Gefnir eru upp upphafsstafir leitarorðanna og fjöldi bókstafa, og nemendur beita rökhugsun við að fylla í eyðurnar.
Lausn
steinar - gras - mosi - hey - snjór - skeljar - hreinlætisstafur - hrísgrjónapappír - ávaxtahýði - svampbursti - ullarafgangar - laufblöð - keramikbrot.
Umræður
- Ísland er mikið ferðamannaland en stundum er langt á milli bæja. Hvað getur ferðamaður gert sem kemst ekki á nútímalegt klósett? -Pissað eða kúkað úti í náttúrunni.
- Hvað þarf ferðamaðurinn að gæta að? -Að skilja ekki skítugan klósettpappír eftir út um allt land.
- -Hvað getur ferðamaðurinn gert við pappírinn? -Sett hann í poka, bundið fyrir og hent í ruslið næst þegar hann fær tækifæri til.
- Hvað gæti hann gert ef hann kemst ekki í pappír? -Skeint sig á grasi eða mosa.
- Hvað gæti ferðamaðurinn gert í stað þess að skilja eftir kúk á víðavangi? -Mokað yfir hann, sett grjót yfir hann, grafið holu, kúkað í hana og fyllt svo aftur upp í hana.
- Hvað geta Íslendingar gert til að koma í veg fyrir að erlendir ferðamenn kúki um allt og skilji eftir klósettpappír á víðavangi? -Bætt aðstöðuna og sett upp fleiri klósett hringinn í kringum landið, t.d. við vinsælar gönguleiðr og útivistarperlur.
- Hvar væri best að setja slík ferðamannaklósett upp? -Þar sem auðvelt er að leggja bílum og rútum, þar sem aðgengi er að heitu rennandi vatni og auðvitað á stöðum sem ferðamaðurinn sækir í að skoða.
- Hver ætti að reka svona salerni, setja þau upp og viðhalda þeim? -Íslenska ríkið? -Sveitarfélagið? -Næsti bóndi? -Ferðaþjónustufyrirtækið sem selur ferðamönnunum ferðirnar? -Einhver sem finnst þetta frábær viðskiptahugmynd en hefur aldrei ferðast um Ísland?
- Hvað með þrifin, hver ætti að bera ábyrgð á þeim? -Vangaveltur barnanna.
- Ætti að kosta í þessi klósett? -Vangaveltur barnanna.
- Hvað væri sanngjarnt að borga? -Vangaveltur barnanna.
- Eiga Íslendingar líka að borga? Hvers vegna/Hvers vegna ekki? -Vangaveltur barnanna.
Aukaverkefni: Hvað kostar klósett?, stílabókarvinna
Nemendur kanna hvað kostar að reka salernisaðstöðu og gera kostnaðaráætlun fyrir eitt ár. Þau teikna 13 dálka töflu í stílabók og skrifa kostnaðarliður í fyrsta dálkinn og mánaðarheitin í hina 12. Börnin leita sér upplýsinga á netinu og kanna hver stofnkostnaður við uppsetningu salernis er, skrá þann kostnað í fyrsta mánuðinn, janúar, sem stofnkostnað og svo tengdar vörur í kjölfarið. Í lokin taka þau fyrir heildarkostnað þess að reka klósett á ársgrundvelli. Dæmi um kostnaðarliði:
Stofnkostnaður í janúar:
- klósett
- baðvaskur
- klósettrúllustandur
- handklæði
- handklæðastandur
- drullusokkur
- Annað?
Rekstrarkostnaður sem nemendur dreifa á mánuði og velja þá að vild:
- klósettbursti: 1-2 stk. á ári,
- salernishreinsir: 2-3 brúsar á ári,
- sótthreinsiklútar fyrir salerni: 1 pakki á mánuði,
- klósettpappír: nemendur áætla þörf fjölskyldunnar,
- handsápa: 1-2 brúsar á mánuði,
- handspritt: 3-4 brúsar á ári,
- lyktareyðir (kúkafýlusprey): 1-2 spreybrúsar á ári,
- ilmtöflur (wc steinar): 1 ilmtafla á mánuði,
- stíflueyðir: fer yfir umgengni, þ.e. hverju er sturtað niður um klósettið: 1 brúsi á ári.
Umræður
- Hver er munurinn á stofnkostnaði og rekstrarkostnaði? -Stofnkostnaður er sú upphæð sem kostar að koma sér upp klósetti, kaupa það og jafnvel fá pípara til að setja það upp. Rekstarkostnaður er sú upphæð sem kostar að reka klósettið s.s. klósettbursti, hreinsiefni og klósettpappír.
- Eru allir þessi hlutir á listanum nauðsynlegir eða væri hægt að spara eitthvað? -Nemendur velta þessu fyrir sér.
- Hvaða kostnaður er ekki með í þessari samantekt? -Eitt og annað tengt almennum rekstri heimilis eins og:
- Laun til pípara við að setja upp salernið.
- Vatns- og fráveitugjald, þ.e. kostnaðurinn við að fá kalt vatn í kranann og salernið, og svo við að hreinsa það aftur og koma því út í sjó.
Ítarefni
- Vísindavefurinn: Hver fann upp klósettpappírinn?
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Samspil vísinda, tækni og þróunar í samfélaginu, að nemandi geti
- rætt hvernig uppfinningar hafa gert líf fólks auðveldara eða erfiðara, á heimilum og í ólíkum atvinnugreinum.
Náttúrugreinar: Heilbrigði umhverfisins, að nemandi geti
- fjallað um samspil manns og náttúru.
Náttúrgreinar: Geta til aðgerða, að nemandi geti
- tekið frumkvæði við öflun upplýsinga til að skoða tiltekið málefni frá ýmsum sjónarhornum.
___________________________________________
10. Verkefni: Hringrás skólpvatnsins
Kveikja
Ísland í dag: Hvernig virkar holræsakerfið? Í myndbandinu fylgjum við Pétri Jóhanni leikara eftir þar sem hann fræðist um hvað verður um kúkinn sinn.
Áður en vinnan hefst útskýrir kennari hvað felst í orðinu skólp og skólpvatn, sjá umræðupunkta hér neðar. Nemendur teikna einfaldaða skýringarmynd af hringrás skólpvatnsins frá því að því er sturtað niður um skólplagnir þar til það rennur aftur inn í hús sem drykkjarvatn. Kennari les upp teiknifyrirmælinn fyrir nemendur:
- Teiknaðu lítið hús í miðjureitinn á verkefnablaðinu og litaðu það fallega.
- Skrifaðu götuheiti þitt á línuna undir því.
- Teiknaðu grátt rigningarský í efri reitinn hægra megin.
- Teiknaðu bláa regndropa undir skýinu.
- Skrifaðu rigningarský á línuna undir reitnum.
- Dragðu línu á milli hússins og regnskýsins.
- Skrifaðu orðið ofanvatn á línuna. Skýring: Í sumum sveitarfélögum er tvöfalt fráveitukerfi. Úrkoma í byggðum lendir í holræsum og blandast skólpvatni frá heimilum. Frá árinu 1965 hefur ofanvatn m.a. frá húsþökum, götum, bílastæðum farið í sérstakt ofanvatnskerfi og þaðan í næsta læk eða sjó. Hér má einnig útskýra að regnvatn sem fellur í náttúrunni blandast gjarnan grunnvatni sem borað er eftir og leitt inn í hús.
- Teiknaðu fjall í efri reitinn vinstra megin og litaðu myndina fallega.
- Teiknaðu á sem rennur niður hlíðarnar og litaðu myndina fallega.
- Skrifaðu orðið yfirborðsvatn á línuna undir reitnum.
- Dragðu línu á milli regnskýsins og fjallsins.
- Skrifaðu orðin þétting vatns á línuna.
- Dragðu tvær línur á milli hússins og fjallsins.
- Skrifaðu grunnvatn á aðra línuna og yfirborðsvatn á hina. Skýring: Neysluvatn kemur að mestu frá grunnvatni en að hluta frá yfirborðsvatni, sjá nánar í umræðupunktum.
- Teiknaðu skólphreinsistöð í neðri reitinn vinstra megin og litaðu myndina fallega.
- Skrifaðu orðið skólphreinsistöð á línuna undir reitnum.
- Dragðu línu á milli skólphreinsistöðvarinnar og hússins.
- Skrifaðu orðið fráveitukerfi á línuna.
- Teiknaðu neðansjávarlögn innan um þara og fiska í neðri reitinn hægra megin og litaðu myndina fallega.
- Skrifaðu orðið neðansjávarlögn á línuna undir reitnum.
- Dragðu línu á milli skólphreinsistöðvarinnar og neðansjávarlagnarinnar.
- Skrifaðu 4 kílómetrar á línuna.
- Dragðu línu á milli neðansjávarlagnarinnar og rigningarskýsins.
- Skrifaðu orðin uppgufun vatns á línuna.
Umræður
- Hvaðan kemur vatnið í:
- a) kranana? -Kalda vatnið kemur að mestu úr grunnvatni neðanjarðar sem aflað er úr lindum, borholum og brunnum. Þar sem ekki er aðgengi að grunnvatni er yfirborðsvatn úr lækjum, ám og stöðuvötnum notað.
- b) ofnana? -Heita vatnið kemur úr borholum og er leitt í hitaveitutanka, og þaðan inn í hús.
- c) þvottavélarnar? -Sama svar og í lið a.
- d) klósettkassann? -Sama svar og í lið a.
- Hvað er skólp? -Vatn frá fyrirtækjum og heimilum sem er búið að nota og þar með óhreinka.
- Hvað er það sem kallast húsaskólp og hvað inniheldur það? -Skólp frá heimilum okkar sem inniheldur t.d. baðvatn, vatn úr vöskum, klósettum og uppþvottavélum. Vatnið inniheldur einnig úrgang frá fólki, piss og kúk, en líka matarleifar, olíur, sápur, hreinsiefni og örverur. Á Íslandi fer einnig hitaveituvatnið, sem er notað til að hita upp húsin okkar, í skólplagnirnar og hjálpar til við að draga úr skolpmengun.
- Hvert fer úrgangurinn sem við sturtum niður í klósettið? -Út um skólplagnirnar sem tengjast húsinu og út í fráveitukerfið.
- Hvernig virkar skólplagnakerfið á Íslandi? -Þetta fráveitukerfi er í öllum sveitarfélögum og flytur skólp frá heimilum og fyrirtækjum til hreinsistöðva. Þar er skólpið hreinsað og svo dælt út í sjó.
- Hvað er iðnaðarskólp? -Skólp sem kemur frá fyrirtækjum, í því er oft annað úrgangsefni en frá heimilum, bæði efnaúrgangur og dýraúrgangur.
- Hvað er safnræsi? -Lagnakerfi sem safnar skólpi í þéttbýli og flytur það með lögnum til skólphreinsistöðva.
- Hvers vegna er mikilvægt að hreinsa skólp? -Margvísleg efni í því geta valdið skaða í náttúrunni ef þau blandast við bergvatn, ár, læki, tjarnir eða annað vatn. Örverur geta t.d. verið hættulegar heilsu manna og dýra.
- Hvað verður um hreinsað skólp? -Grófhreinsuðu skólpi er dælt rúmlega 4 km út í sjó.
- Hvað verður um kúkinn okkar í sjónum? -Saurgerlar í vatninu valda tímabundinni mengun en þeir eiga erfitt með að fjölga sér í vatni. Sólarljósið, kuldinn í hafinu og straumarnir í því hjálpa líka til við að brjóta niður mengunina.
- Hvað er skólpmengun? -Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda skaðlegum áhrifum á heilsu okkar eða raskar lífríki, mengar loft, land, ár, vötn og höf.
- Hvað getum við gert ef við uppgötvum að skólplagnir frá húsum eða fyrirtækjum eru að menga umhverfið okkar eða lífríkið í kring? -Ef upp koma neyðartilvik er hægt að hafa samband við Umhverfisstofnun.
- Hvernig getum við dregið úr mengun vatns frá þvottavélum og uppþvottavélum? -Með því að nota umhverfisvæn hreinsiefni og þvottaduft, nota lítið þvottaduft eða jafnvel sleppa því ef hægt er.
Aukaverkefni: Hugsaðu áður en þú sturtar, veggspjaldagerð
Kveikja
Kennari sýnir stutt myndskeið sem sýnir fráveitukerfi og hvað verður um það sem sturtað er niður um klósettið. Myndbandið er á ensku en myndefnið mjög lýsandi. Í framhaldinu gera nemendur upplýsingaspjöld fyrir skólann sem hengd eru upp á klósettum með fróðleik um hvers vegna er mikilvægt að sturta engu öðru en piss, kúk og klósettpappír niður í klósettin.
Umræður
- Notar þú salerni fyrir eitthvað annað en líkamlegan úrgang, ef já, hvað? -Dýraúrgang? -Matarafganga? -Eyrnapinna?
- Hvað má alls ekki sturta niður um klósettið? -Bómullarskífur, blauttuskur fyrir börn, andlitshreinsituskur, sótthreinsiklútar, klósettpappírsrúllur, lyf, sígarettur, nikótínpúðar, bleyjur, túrtappar, plástrar, dömubindi, tannþráður, hár, linsur, matarafgangar, …
- Hvað getur gerst? -Fráveitukerfið getur stíflast, það getur orðið bilun í búnaðinum sem tekur við skólpinu og þá getur þurft að dæla óhreinsuðum úrgang út í sjó til að koma í veg fyrir að hann skili sér inn í híbýlin okkar.
- Hvað er betra að gera? -Henda þessu í ruslið sem ekki er hægt að flokka í plast, pappír, málm eða gler. Lyf og hreinsiefni þarf að fara í efnaeyðingu og hægt að skila inn til Sorpu.
- Hvers vegna þarf að varast að sturta allskonar sterkum efnum og lyfjum í klósettið? -Lyf og efni geta verið skaðleg umhverfinu, þau eru lengi að brotna niður í náttúrunni (eyðast). Bakteríur geta orðið ónæmar fyrir lyfjunum sem þýðir að ef við fáum bakteríusýkingu duga lyfin ekki lengur til að lækna sýkinguna. Alls konar lyf með hormónum geta líka haft áhrif á fiska, froska og önnur dýr í ám, vötnum og höfum og t.d. dregið úr getu þeirra til að fjölga sér.
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Geta til aðgerða, að nemandi geti
- tekið frumkvæði við öflun upplýsinga til að skoða tiltekið málefni frá ýmsum sjónarhornum.
- sýnt virkni og látið sig varða nánasta umhverfi og lífsskilyrði lífvera í því.
Náttúrugreinar: Gildi og hlutverk vísinda og tækni, að nemandi geti
- gert sér grein fyrir hvernig maðurinn er hluti af náttúrunni og lífsafkoma hans byggist á samspili við hana.
Náttúrugreinar: Nýsköpun og hagnýting þekkingar, að nemandi geti
- útskýrt hvernig tækni hefur áhrif á lífsgæði íbúa og umhverfi þeirra.
Náttúrugreinar: Lífsskilyrði manna, nemandi geti
- rætt fjölbreytni í nýtingu vatns á heimilum og í umhverfinu.
___________________________________________
11. Verkefni: Kúkað í geimnum
Nemendur lesa kaflann Geimklósett, bls. 40-45, og spreyta sig á fjölvalsspurningunum. Tilvalið er að nota verkefnið til að kanna lesskiling nemenda og nýta jafnvel sem hluta af námsmati.
Lausn
- Árið 1969.
- Skítaklessa slapp úr poka.
- Í poka og bundu fyrir.
- Hátæknilegt ryksuguklósett.
- Bara 6 ár.
- Þyngdarleysið dreifir líkamsvökva.
- Svo þeir svífi ekki frá honum.
- Sýgur þvagkúlur frá geimförum.
- Notuðu fullorðinsbleyjur.
- Úr endurunnu geimfarapissi.
- Auðvitað … döööö!
Umræður
- Hvernig virka nýjustu geimklósettin? -Nemendur ræða innihald kaflans og komast sameiginlega að svari.
- Geimklósett…
- Áður fyrr rann saur og annar úrgangur beint niður á teinana í járnbrautarlestum, hvers vegna má ekki gera þetta í flugvélum? -Úrgangur sem er sleppt úr háloftunum frýs og getur valdið skaða ef hann fellur þannig til jarðar.
- Hvað verður þá um flugvélakúkinn? - Lofttæmibúnaður í flugvélaklósettum sogar allan saur og safnar honum í tank aftast í flugvélum. Tankurinn er svo tæmdur reglulega.
- Hvað stendur skammstöfunin hr. fyrir? -Herra. Það er hefð fyrir því að ávarpa forseta íslenska lýðveldisins með herra eða frú fyrir framan nafnið þeirra.
- Hvað stendur skammstöfunin UFO fyrir á verkefnablaðinu? -Þetta eru samtök umhverfisvænna framleiðenda orkudrykkja.
- Hvað stendur skammstöfunin UFO í raun og veru fyrir? -Þetta er ensk skammstöfun fyrir unidentified flying object sem á íslensku mætti þýða sem óþekktur fljúgandi hlutur. Það er hlutur sem sést á himninum og er talinn vera geimfar frá annarri plánetu.
- Hvaða fleiri skammstafanir þekkið þið? -Hér greina nemendur frá þekkingu sinni og kennari tekur saman á töfluna.
Aukaverkefni: Alls konar skammstafanir, gagnaöflun og stílabókarvinna
Í fjölvalsspurningu koma skammstafanir fyrir og nemendur kynnast nú fleiri algengum skammstöfunum í íslensku máli. Kennari tekur nokkur dæmi um skammstafnir.
- Orðflokkar:
- no: nafnorð
- so: sagnorð
- lo: lýsingarorð
- Stofnanir og fyrirtæki:
- RÚV: Ríkisútvarpið
- BYKO: Byggingarfélag Kópavogs
- LSH: Landspítali - háskólasjúkrahús
- Íslensk orðasambönd:
- þ.e.a.s.: það er að segja
- t.d.: til dæmis
- o.s.frv.: og svo framvegis
- Lönd:
- BNA: Bandaríki Norður-Ameríku
- DK: Danmörk
- IS: Ísland
- Félög og samtök:
- VR: Verzlunarmannafélag Reykjavíkur
- BÍL: Bandalag íslenskra listamanna
- FÍB: Félag íslenskra bifreiðaeigenda
Nemendur skrifa dæmin í stílabók og í framhaldinu rita þau öll nöfn samnemenda í stafrófsröð og finna skammstafanir þeirra, dæmi:
- Elías Rúni: ER
- Sævar Bragi Helgason: SBH
- Unnur María Sólmundsdóttir: UMS
- Æsa Guðrún Bjarnadóttir: ÆGB
Að lokum skoða börnin orðabækur eða orðalista á netinu og búa til skemmtileg fyrirtæki, stofnanir, viðburði eða félagasamtök sem hafa þessar sömu skammstafanir og börnin í bekknum, dæmi:
- ER: Einkaspítali rafleikjasjúklinga
- SBH: Sundfélag brjálaðra hafmeyja
- UMS: Umferðarmiðstöð Mars og Satúrnusar
- ÆGB: Æskulýðsfélag göldróttra barnalækna
Ítarefni
- Vatnsiðnaður: Hvernig virka klósett í flugvél?
- Vísindavefurinn: Hvert fer kúkurinn í flugvélum?
- Vísindavefurinn: Hvar pissar maður á leiðinni til tunglsins?
- Wikipedia: Listi yfir skammstafanir í íslensku
- Árnastofnun: Skammstafanir
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Geta til aðgerða, nemandi geti
- útskýrt hvernig tækni hefur áhrif á lífsgæði íbúa og umhverfi þeirra.
Íslenska: Lestur og bókmenntir, að nemandi geti
- nýtt góðan orðaforða við að skilja texta og ráðið í merkingu orðs út frá samhengi,
- tengt þekkingu sína og reynslu við lesefni í því skyni að ná merkingu þess.
Íslenska: Málfræði, að nemandi geti
- nýtt orðaforða sinn til að skapa ný orð og orðasambönd og notað þau í texta,
- leikið sér með orð og merkingu, s.s. með því að ríma og fara í orðaleiki.
___________________________________________
12. Verkefni: Neðansjávarkamarinn
Nemendur lesa kaflann Geimklósett, bls. 40-41, og hanna í kjölfarið salerni fyrir kafara sem þarf vinnu sinnar vegna að dvelja lengi neðansjávar. Þau tilgreina efni sem nota á í verkefnið og áhöld sem verkið þarfnast. Tilvalið er að rissa ýmsar hugmyndir upp í stílabók eða á laus blöð áður en hönnunin er hreinteiknuð á verkefnablaðið.
Umræður
- Hvaða fólk er á bak við klósettæknina? Hvaða menntun hefur fólk sem hannar:
- klósettin sjálf? -Hönnunarnám.
- baðherbergið? -Innanhúshönnun.
- lagnakerfið í húsum, þar með baðherbergjum? -Byggingaverkfræði.
- vinnur við að setja klósett upp og tengja þau? -Píparanám.
___________________________________________
Aukaverkefni: Þverskurður af klósetti, stílabókarvinna
Hvernig lítur þverskurður af klósetti út? Nemendur vinna með útlit salernis og gera skýringarmynd, annars vegar á ytra útliti þess og hönnun, og hins vegar þverskurð af klósetti til að átta sig á virkni þess. Börnin leita á netinu að myndum af þverskurði klósetts, og beita margs konar leitarorðum. Skýringarmyndina teikna þau í stílabókina og:
- skrifa orð inn á teikninguna til skýringar s.s. klósettskál, vatnskassi, vatnslás, seta, lok, skolbrún, pípulagnir, …
- sýna hvernig vatn kemur inn í salernið (klósettkassann), leið þess í gegnum uppfinninguna og hvar þar fer aftur út.
Þverskurð af klósetti má m.a. finna í þessari grein á Vísindavefnum og leið vatnsins í gegnum salernið hér.
Umræður
- Hvað er rotþró? -Söfnunarsvæði fyrir skólp sem er ekki tengt holræsi eða fráveitukerfi. Rotþró þarf því að tæma reglulega og þær eru algengar við sumarbústaði.
Ítarefni
- Á vef Nýsköpunarkeppni grunnskólanna er fróðleikur, gagnlegir tenglar og stuðningsefni fyrir kennara sem vilja virkja sköpunarkraft nemenda sinna og stuðla að nýsköpunarstarfi í skólastofunni.
- Vísindavefurinn: Hver fann upp vatnsklósettið? Hvenær og hvar var það?
- Wpplumbing.com: Basic functionsing of a conventional toiliet
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Nýsköpun og hagnýting þekkingar, nemandi geti
- komið auga á þarfir og vandamál í umhverfi sínu,
- unnið eftir verkferli nýsköpunar, þ.e. leitað að þörfum í daglegu umhverfi fólks, fundið lausn og hannað afurð,
- bent á störf sem krefjast sérþekkingar.
List- og verkgrinar: Hönnun og tækni, að nemandi geti
- dregið einfalda skissu og tvívíða teikningu til að útskýra hugmyndir sínar.
___________________________________________
13. Verkefni: Fæðukeðjur
Nemendur rifja upp nokkrar fæðukeðjur sem koma fyrir í bókinni. Annars vegar skoða börnin orðalista neðst á verkefnablaðinu og endrurita orðin í reitina til að mynda réttar fæðukeðjur. Hins vegar teikna börnin skýringarmyndir af fyrirbærunum í hringina.
Lausn
- páfafiskur - þörungar og bakteríur - sandur - baðströnd
- kýr - kúamykja - tún - grasbítur
- fíll - fílasaur - trefjar - pappír
- kattardýr - kattarkúkur - kaffibaunir - kaffibolli
Nemendur svara spurningunni neðst á síðunni. Börnin byrja á undirstrikaða orðinu, hefja málsgreinina á stórum upphafsstaf og enda á punkti.
Lausn
Regnskógar hafsins er notað yfir kóralrifin og dýraríkið þar.
Umræðupunktar
- Hvaða fleiri fæðukeðjur er minnst á í bókinni?
- Hvaða náttúrulegu ferlar fara í gang þegar úrgangur frá manninum brotnar niður í náttúrunni?
- Gefur maðurinn frá sér annan úrgang en þvag og saur? -Sorp frá manninum er ein tegund úrgangs sem við flokkum í gler, málma, pappír, fatnað og þess háttar. Dæmi um annan líkamlegan úrgang en þvag og saur er t.d. æla, húðflögur, líkamsleifar, hráki, sviti, koltvíoxið, …
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Gildi og hlutverk vísinda og tækni, að nemandi geti
- í máli og myndum miðlað hugmyndum sem tengjast náttúruvísindum.
Náttúrugreinar: Náttúra Íslands, að nemandi geti
- útskýrt fæðukeðjur og rakið fæðu til frumframleiðanda.
Náttúrugreinar: Heilbrigði umhverfisins, að nemandi geti
- gert sér grein fyrir þjónustu sem náttúrulegir ferlar veita
___________________________________________
14. Verkefni: Allt sem þig langaði að vita um prump!
Nemendur lesa 25 málsgreinar með staðhæfingum og haka við hvort þær séu sannar eða ósannar. Tilvalið er að nota verkefnið til að kanna lesskiling nemenda og nýta jafnvel sem hluta af námsmati.
Lausn - ósannar málsgreinar
- Rangt: Gasið kallast í daglegu tali helíum. Rétt: Gasið kallast í daglegu tali prump.
- Rangt: Af gasinu kemur oft mild musk lykt. Rétt: Af gasinu kemur oft vond lykt af brennisteinsvetni eða vetnissúlfíði.
- Rangt: Prumpið fyllir 10 tveggja lítra gosflöskur. Rétt: Prumpið getur fyllt sex kókómjólkurfernur.
- Rangt: Baunir gefa prumpinu sæta lykt. Rétt: Baunir gefa prumpinu ekki sæta lykt en við rekum oftar við ef við borðum mikið af baunum því bakteríurnar elska sykurinn í þeim.
- Rangt: Iðrabakteríur þola illa sykur og forðast hann. Rétt: Iðrabakteríur elska sykur, borða hann og gefa frá sér gas.
- Rangt: Því má aldrei prumpa í nálægð barna. Rétt: Það má prumpa í nálægð barna en þau finna oft meiri lykt því prumpið er þyngra en loftið og leitar því niður til jarðar.
- Rangt: Styrkur prumpuhljóðs fer eftir magni sykuráts. Rétt: Styrkur prumphljóðs fer eftir hraða fretsins og hversu þéttur hringvöðvinn er þegar prumpað er.
- Rangt: Stórir rassar pruma hraðar/Litlir rassar prumpa oftar. Rétt: Stórir rassar prumpa ekki hraðar og litlir rassar ekki oftar. Þetta er einstaklingsbundið, tengist matarræði og fer eftir því hversu stórt gatið á hringvöðvanum er þegar prumpað er.
- Rangt: Ekki er hægt að prumpa í geimnum. Rétt: Það er hægt að prumpa úti í geimnum.
Aukaverkefni: Endurritun og leiðrétting, stílabókarvinna
Nemendur endurrita textann í verkefninu í stílabók og leiðrétta rangar málsgreinar. Áður en vinnan hefst skrifa þau fyrirsögnina Allt um prump efst á síðuna. Kennari minnir börnin á að vanda skrift og frágang, og leggur áherslu á eftirfarandi þætti ritunar:
- Málsgreinar byrja á stórum bókstaf og enda á punkti.
- Stórir stafir eru stórir og litlir eru litlir.
- Stórir stafir standa aldrei inni í orði.
- Bókstafir eiga að standa á línum en ekki svífa fyrir ofan þær eða sökkva niður í þær.
- Passa þarf að hafa hæfilegt bil á milli orða.
Hæfniviðmið
Íslenska: Lestur og bókmenntir, að nemandi geti
- nýtt góðan orðaforða við að skilja texta og ráðið í merkingu orðs út frá samhengi,
- tengt þekkingu sína og reynslu við lesefni í því skyni að ná merkingu þess.
Íslenska: Ritun, að nemandi geti
- dregið rétt til stafs og skrifað skýrt og læsilega,
- nýtt sér fyrirmyndir í ritun, s.s. af lestri bóka, blaða eða rafræns efnis.
___________________________________________
15. Verkefni: Er þetta bara ein hringavitleysa?
Nemendur lesa kaflann Hring eftir hring, bls. 72-78, skoða hugtakalistann og skrifa staðreyndir sem innihalda hugtök sem koma þar fyrir. Kennari minnir börnin á að málsgreinar hefjast alltaf á stórum staf og enda á punkti.
Lausn
- Allt í náttúrunni er hluti af hringrás.
- Meltingin okkar leikur þar lykilhlutverk.
- Bakteríur eru ýmist góðar eða slæmar.
- Salmonella er slæm og veldur uppköstum.
- Meltingarkerfið vinnur prótein úr fæðunni.
- Kolvetni gefa líkamanum orku.
- Allt vatn hefur farið í gegnum endurvinnslukerfi plánetunnar.
- Náttúran hreinsar vatnið.
- Súrefnið sem við öndum að okkur er í stöðugri endurvinnslu.
- Sólin gefur okkur orku.
Umræðupunktar
- Hvað er vatn? -Bragðlaus vökvi sem búinn er til úr vetni og súrefni.
- Hvar geymir Jörðin mestu birgðirnar sínar af fersku vatni? -Í jöklunum.
- Hvað er vatnið til á morgum mismunandi formum? -Við sjáum það á fljótandi formi í ám, sjó og vötnum, á föstu formi í jöklum og á gufuformi þegar við sjóðum það.
- Er þoka dæmi um vatn á gufuformi? -Þegar vatn sýður sjáum við gufu liðast upp sem samanstendur af agnarlitlum vatnsdropum. Þótt við upplifum þoku oft eins og mistur, móðu eða jafnvel reyk, þá flokkast hún frekar sem ský og er ekki ólík gufunni því hún samanstendur af örsmáum, nær ósýnilegum vatnsdropum sem eru miklu minni en regndropar.
- Hvað er málið með þetta risaeðlupiss? -Líkt og með önnur dýr og plöntur sem lifað hafa á Jörðinni í hundruðir, þúsundir og jafnvel milljónir ára hefur allt drykkjarvatn þeirra, og þar af leiðiandi þvag, verið hlutið af hringrásinni. Því er ekki ólíklegt að vatnið sem þú drekkur í dag hafi einhvern tímann verið risaeðlupiss.
Aukaverkefni: Hringrás vatnsins , upplýsingaöflun og stílabókarvinna
Nemendur leita sér upplýsinga í bókum eða á netinu hvernig hringrás vatnsins í umhverfinu virkar. Þau teikna skýringarmyndina í stílabókina sína og skrifa stuttan skýringartexta við. Í ítarefni má sjá nokkrar útfærslur af hringrás vatnsins en markmiðið er að nemendur átti sig á því að vatn er undirstaða alls lífs á Jörðinni og kynnist ferlinu sem felst í hringrás þess. Tilvalið er að leggja jafnframt inn eftirfarandi orðaforða:
- uppgufun - þétting - úrkoma
- Grunnvatn - yfirborðsvatn -
- vatnsforði - ferskvatnsforði - grunnvatnsforði
Umræður
- Hvað felst í orðinu úrkoma? -Allt vatn sem þéttist og fellur aftur til jarðar, bæði rigning, él og snjór.
- Hvernig mælum við úrkomuna?-Til eru nokkrar gerðir mælitækja til að mæla úrkomu. Á Íslandi eru fjölmargar veðurstöðvar um land allt sem mæla úrkomu, margar eru sjálfvirkar. Þá er vatni safnað saman í úrkomumæli yfir sólarhring og mælt í millimetrum.
Aukaverkefni: Gátlistagerð, stílabókarvinna
Nemendur gera sinn eigin gátlista í stílabók. Hann getur verið um hvað eina tengt þeirra áhugasviði s.s. fótboltaferðalög, afmælisveislur, bekkjarpartý, gistipartý, geimferðir, ferðalög erlendis o.s.frv. Fyrir framan hvert orð á listanum setja börnin hring, reit eða annað sem hægt er að haka við um leið og búið er að finna til eða leysa verkefni á gátlistanum þeirra. Hér gefst gott tækifæri fyrir framsögu, þ.e. að fara hringinn í nemendahópnum og biðja bönin um að lesa upp og kynna gátlistann sinn, og hvers vegna þau völdu þetta viðfangsefni.
Ítarefni
- Kennarinn.is: Risaeðlusúpa
- Kennarinn.is: Vindorðasúpa
- Kennarinn.is: Snjóorðasúpa
- Umhverfisstofnun: Hringrás vatns
- Landvernd: Vatn
- Vísindavefurinn: Getið þið sagt mér hver aðferðafræðin við úrkomumælingar er?
Hæfniviðmið
Náttúrugreinar: Kennsluhættir, að nemandi fái
- tækifæri til að byggja upp orðaforða sinn í greininni.
Náttúrugreinar: Gildi og hlutverk vísinda og tækni, að nemandi geti
- notað einföld hugtök úr vísindunum í textaskrifum.
Íslenska: Lestur og bókmenntir, að nemandi geti
- tengt þekkingu sína og reynslu við lesefni í því skyi að ná merkingu þess.
Comments are Closed