Kennarinn.is

Einn fyrir alla…

Jólastund

Jólin eru yndislegur tími til að vinna með börnum hvort heldur sem er í kennslustofunni eða heima í faðmi fjölskyldunnar. Þessi síða verður tileinkuð öllu því sem tengist jólum á einn eða annan hátt.

Jóladagatal

Það er hefð fyrir því að telja niður til jóla og margvísleg dagatöl hafa litið dagsins ljós á liðnum árum og áratugum, hvort heldur sem er fyrir börn eða fullorðna. Jóladagatal Kennarans er unnið í samvinnu við vefinn Hlusta.is og með því að smella á dagana er hægt að hlusta frítt á 24 sögur til jóla ásamt því að vinna verkefni. Smelltu á myndina til að nálgast efnið.

Á Pinterestsíðu Kennarans má finna Jóladagatalamöppu með geysimörgum hugmyndum um hvernig hægt er að telja niður til jóla, hvort heldur sem er í formi aðventukransa eða jóladagadala. Þarna finna ungir sem aldnir eitthvað við hæfi hvort sem það tengist útsaumi, smíðum, pappírsföndri, teikningu, endurvinnslu, mat eða drykk. Þá má finna stöku ráðleggingar frá jólasveininum sjálfum, gátlista og sitthvað fleira. 

Fleiri jóladagatöl

Lært og leikið á aðventunni

Flakkarinn hefur mikinn áhuga á hátíðum, viðburðum og merkisdögum. Hér hefur hann tekið saman fróðleiksmola um aðventuna, smelltu á myndirnar til að sækja verkefnin.

Á Íslandi tíðkast sá siður að útbúa aðventukrans og kveikja á fjórum kertum, einu fyrir hvern sunnudag aðventunnar. Fyrsta kertið kallast Spádómskerti og minnir á spádóma Gamla testamentisins sem sögðu fyrir um komu frelsarans.

Orðið aðventa kemur úr latínu og merkir “tilkoma”. Hefð er að kveikja á aðventukertum meðan beðið er jólahátíðarinnar en einnig að setja aðventuljós út í glugga. Annað aðventukertið kallast Betlehemskerti eftir þorpinu sem Jesú fæddist í.

Aðventan er einnig kölluð jólafasta. Það kemur frá kaþólskri trú en siður var að hvíla allt kjötát síðustu vikurnar fyrir jól. Þriðja kertið kallast Hirðakerti sem vísar til þess að fátækum fjárhirðum var fyrstum af öllum sögð tíðindin af fæðingu Jesú.

Fjórða kerti aðventukransins kallast Englakerti til að minna á englana sem fluttu mönnum fréttirnar af fæðingu Jesú. Þetta er síðasta kertið og fjórði sunnudagur í aðventu getur jafnframt borið upp á sjálfan aðfangadag.

Jólalestur í desember

Í desemberlestrarhefti Kennarans má finna skemmtileg lestrartengd verkefni. Meðal annars er unnið með lestrartölfræði, jólabókadóm og sögukort. Líkt og með öll lestrarhefti Kennarans geta börnin skráð lesnar blaðsíður og mínútur en að auki má finna jólalestrarsamning sem börn gera við sjálf sig í formi stimpilkorts. Nú er um að gera að halda jólalestrinum að ungviðinu með fjölbreyttum hætti í þessum önnum kafna mánuði. Smelltu á myndina til að sækja efnið. 

Eitt og annað jóla!

Jólarásin hefur verið í gangi frá árinu 1996 og skemmtileg viðbót í jólahaldinu. Hægt er að hlusta á jólatónlist af netinu og hlusta á fjölbreytt efni meðan dundað er við jólaföndrið í skólastofunni. 

13 dögum fyrir jól fara jólasveinarnir að týnast hver á fætur öðrum úr fjöllum birtast í byggð. En veistu í hvaða röð þeir koma? Hér er skemmtilegt App sem hjálpar þér að fylgjast með því. Ekki skemmir að jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum koma líka við sögu.

Það er fátt huggulegra í jólamánuðinum en lifandi arineldur í skólastofunni og auðveldlega hægt að skapa þannig stemningu með skjávarpa eða snjalltöflu. Á Youtube má finna mörg myndskeið og hér er eitt fallegt með snarki og öllu. Gott ef leggur ekki líka yl frá skjánum.